Stjórnarskrá Svíþjóðar

 Flag_Sweden Stjórnarskrá Svíþjóðar


Samkvæmt 3. gr. 1. kafla stjórnskipunarlaga Svíþjóðar eru stjórnskipunarlögin, ríkiserfðalögin, prentfrelsislögin og grundvallarlögin um tjáningarfrelsi stjórnarskrá ríkisins. Verður hér vikið að forsögu núgildandi stjórnarskrár Svíþjóðar og efnisákvæðum hennar lýst í fáum orðum. 

1.0. Forsaga.

Svíþjóð hefur átt ritaða stjórnarskrá frá miðri 14. öld, en þá var sett þjóðarskrá, sem gilti fyrir allt landið. Í konunglega sáttmálanum, sem var hluti hennar, voru ákveðin grundvallarákvæði um stjórnarskrána. Eftir lok 16. aldar var aukið við hana einhliða yfirlýsingum sem konungar gáfu er þeir tóku við völdum. Grundvallarhugmyndin að baki þessum stjórnarskrárákvæðum var að setja reglur um valdhafa. Þessi hugmynd og stjórnarákvæðin sjálf sættu nokkrum sinnum andmælum af hálfu þeirra sem fóru með konungsvaldið. Á þessum tíma skiptist á algert einræði og þingræði.

Fyrstu stjórnskipunarlögin voru sett árið 1634, tveimur árum eftir dauða Gústafs Adolfs II, og giltu aðallega sem lög um ríkisstjóra sem þá var skipaður. Þau höfðu fyrst og fremst að geyma ákvæði um stjórnsýsluna. Stjórnskipunarlögin frá 1634, ásamt mikilvægum viðaukum, voru einnig í gildi frá 1660-1672 þegar ríkisstjóri stýrði ríkinu fyrir Karl XI. Á valdaárum Karls XI og Karls XII var einveldi. 

Við andlát Karls XII á árinu 1718 hrundi staða Svíþjóðar sem stórveldis og einveldis. Ný stjórnskipunarlög voru sett 1719 og önnur útgáfa lítið breytt var samþykkt ári síðar. Þar var kveðið á um þingræði og skiptingu valds á milli konungs, ráðherra og þingsins. Meirihluta þingsins var heimilt að tilnefna ráðherra og setja þá af. Konungurinn hafði með yfirlýsingu lofað að fylgja niðurstöðum þingsins og hann hafði aðeins tvö atkvæði í ríkisstjórninni auk úrslitaatkvæðis. Ef hann var í minnihluta skyldi hann fylgja niðurstöðu meirihlutans. 

Á þessu tímabili spruttu upp nýungar í stjórnarskrármálum. Prentfrelsislög voru samþykkt árið 1766, en þau fjölluðu um prentfrelsi og aðgang að opinberum skjölum. Lögð var áhersla á mismunandi vægi grundvallarlaga og annarra laga. Það var lögfest að samþykki tveggja þinga með kosningum á milli þyrfti til að breyting á stjórnarskrá tæki gildi. Þá var það samþykkt að ekki einungis stjórnskipunarlögin heldur einnig prentfrelsislögin og þingskapalögin mynduðu stjónrarskrá ríkisins. ÞIngskapalögin voru samþykkt 1723. Þau kváðu á um það hvernig störfum þingsins skyldi hagað. Fyrstu þingskapalögin voru sett 1617. Þau voru að því leyti frábrugðin þingskapalögunum frá 1723 að stjórn starfssemi þingsins var í höndum konungs. Fyrsti umboðsmaður þingsins var útnefndur árið 1766.

Þingræði lagðist af við valdarán Gústafs III árið 1772 og ný stjórnskipunarlög voru sett. Eftir annað valdarán konungs árið 1789 hófst tímabil einræðis. Eftir valdarán í kjölfar byltingarinnar 1809 var Gústaf Adolf IV þvingaður til að leggja niður völd og ný stjórnskipunarlög voru sett. 

Ný þingskapalög og prentfrelsislög voru samþykkt árið 1810 og ríkiserfðalögin 1809. Stjórnarskráin frá 1809 sætti miklum breytingum í tímans rás og er ný stjórnskipunarlög voru samþykkt árið 1974 hafði svo til öllum ákvæðum hennar verið breytt. 

Stjórnskipunarlög voru samþykkt á árunum 1973 og 1974. Þau tóku gildi 1. janúar 1975. Breytingar voru gerðar á þeim varðandi grundvallarréttindi og frelsi á árunum 1976 og 1979. Á árinu 1994 var henni breytt m.a. vegna lögleiðingar Mannréttindasamnings Evrópu og inngöngu Svíþjóðar í Evrópusambandið. Á árinu 1991 voru samþykkt grundvallarlög um tjáningarfrelsi og þau tóku gildi 1. janúar 1992. Þingskapalög eru frá 1974, en eru ekki hluti af stjórnarskránni eins og var áður. Ríkiserfðalögin eru frá 1809 og prentfrelsislögin frá árinu 1949. 

2.0. Stjórnskipunarlögin frá 1974

2.1. Grundvallarreglur stjórnarskrárinnar.

1. kafli stjórnskipunarlaganna kveður á um að stjórnskipan skuli vera lýðræðisleg og þingræðisleg. Lýðræði og þingræði eru grundvöllur stjórnkerfisins. Auk þess er sjálfstjórn sveitarfélaga mikilvægur þáttur þess. Áhersla er lögð á að meðferð opinbers valds sé bundin af lögum, sbr 1. gr. 1 kafla. Því eru lýðræði, þingræði og lögbundin meðferð opinbers valds grundvöllur uppbyggingar og starfsemi ríkisins.

2.2. Mannréttindi.

Ákvæði um borgaraleg réttindi í stjórnskipunarlögunum frá 1974 voru í eðli sínu til bráðabirgða. Endurskoðun á þeim leiddi til breytingar á lögunum á árinu 1976. Fleiri réttindi voru færði í stjórnskipunarlögin og vernd þeirra réttinda sem fyrir voru aukin að ýmsu leyti. Annars vegar var fjöldi ófrávíkjanlegra réttinda aukinn, þ.e. réttinda sem aðeins verður gerð undantekning frá eða afnumin með breytingum á stjórnarskránni. Hins vegar var aukin vernd þeirra réttinda sem sættu takmörkunum með ýmiskonar grundvallarvernd að því er varðar eðli og umfang takmarkananna. 

2. kafli stjórnskipunarlaganna fjallar um grundvallarréttindi og frelsi einstaklinga. Breytingar á þessum kafla laganna á árinu 1979 vörðuðu formlega vernd réttindanna, þ.e. sérstaka málsmeðferð þegar teknar eru ákvarðanir sem varða réttindin. Á árinu 1994 voru samþykktar frekari breytingar á þessum kafla laganna. Staða eignarréttar samkvæmt 18. gr. var styrktur og sett voru ákvæði um rétt til menntunar og til að reka atvinnustarfssemi. Þá var samþykkt ákvæði um stöðu sænsks réttar gagnvart Mannréttindasáttmála Evrópu en hann varð hluti af sænskum lögum 1. janúar 1995, sbr. 23 gr. Þessar breytingar tóku gildi 1. janúar 1995.

2.3. Önnur ákvæði.

Í 3. kafla laganna fjallar um þingið og almennar kosningar. Á árinu 1994 voru gerðar þær breytingar að almennar kosningar skulu nú haldnar á fjögurra ára fresti í stað þriggja áður. Í 4. kafla eru ákvæði um starfssemi þingsins. Nánari ákvæði um þingið er að finna í þingskapalögum og reglugerðum settum með heimild í þeim. Í 5.-7. kafla eru ákvæði um þjóðhöfðingjann, ríkisstjórnina og störf hennar. Valddreifing er í samræmi við þingræðisreglu og ákvörðunarrétt almennings. Þjóðhöfðinginn tekur engan þátt í ákvörðunum ríkisstjórnarinnar. Í 8. kafla eru ákvæði um setningu laga og reglugerða. Meginreglan er að einunigs þingið hefur löggjafarvald. Í 9. kafla eru ákvæði um fjárveitingarvaldið. Í 10. kafli eru ákvæði um samskipti við önnur ríki. Breyting var gerð á þeim kafla á árinu 1994 vegna inngöngu Svíþjóðar í Evrópusambandið, sbr. 5. gr. Í 11. kafla er fjallað um réttarskipan og stjórnsýslu. Í 12. kafla eru ákvæði um eftirlit þingsins með störfum stjórnvalda og í 13. kafla eru sérstök ákvæði, sem eiga við á ófriðartímum eða þegar ófriður er yfirvofandi. 

3.0. Ríkiserfðalögin. 

Ríkiserfðalögin kveða á um hver taki við konungdómi í Svíþjóð. Eins og áður var getið eru lögin frá 1809. Konungsvald gengur í erfðir. Þeim var breytt árið 1979 þannig að konur geta nú tekið við konungdómi. 

4.0. Prentfrelsislögin frá 1949.

Fyrstu prentfrelsislögin eru frá 1766. Tvær mikilvægar reglur voru þá lögfestar. Sú fyrri varðaði bann við ritskoðun og sú síðari almennt frjálsa prentun og dreifingu á opinberum skjölum sem varða dómsmál og stjórnsýslumál og aðgangur að þeim skjölum var í samræmi við það frjáls. Prentfrelsislögin frá 1812 voru í gildi til 1950. Núgildandi prentfrelsislög eru mjög ítarleg. Það má rekja til þess að í tíð eldri laga hafði það reynst mögulegt að fara í kringum ákvæði laganna að mörgu leyti þar sem þau voru ekki nægilega nákvæm. 

Ástæðan fyrir því að prentfrelsi nýtur að miklu leyti stjórnarskrárverndar í Svíþjóð byggist á þeirri skoðun að prentfrelsi sé eitt af hornsteinum frjáls samfélags. Tilgangi þess er lýst í prentfrelsislögunum sem vernd fyrir frjáls skoðanaskipti og upplýsingaöflun. Prentfrelsið er skýrgreint sem réttur til að tjá hugmyndir og skoðanir á prenti, til að gefa út skjöl og dreifa upplýsingum og fréttum um hvað sem er. Prentfrelsið er samt ekki algert. Því verður að beita í samræmi við ákvæði prentfrelsislaganna, sem er ætlað að vernda rétt einstaklinga og taka tillit til almennra öryggissjónarmiða.

5.0. Grundvallarlög um tjáningarfrelsi frá 1991.

Þann 1. janúar 1992 tóku gildi grundvallarlög um tjáningarfrelsi. Rétturinn til að tjá skoðanir sínar, hugsanir sínar o.fl. í öðrum miðlum en tímaritum og prentuðu efni hafa samkvæmt þeim fengið stjórnarskrárvernd. Lögin taka til útvarps, kvikmynda, myndbanda og tiltekinna annarra nýrra miðla.

6.0. Þingskapalög frá 1974.

Þingskapalög eru ekki lengur hluti af stjórnarskrá Svíþjóðar. Sérákvæði gilda þó um breytingar á lögunum. Þingskapalög geyma ákvæði um skipulag og verklagsreglur þingsins. Ákveðnar grundvallarreglur er að finna í stjórnskipunarlögunum en nánari útfærsla þeirra er gerð í þingskapalögum. 

Hér á eftir birtist þýðing á stjórnskipunarlögum Svíþjóðar. Vegna umfangs grundvallarlaganna um prentfrelsi og tjáningarfrelsi var sú ákvörðun tekin að lýsa efnisatriðum þeirra frekar en að birta nákvæma þýðingu þeirra. Ríkiserfðalögin eru undanskilin.*

--------------------------------
* Við þýðingu stjórnskipunarlaganna var stuðst við 115. útgáfu Sveriges rikes lag, sem útgefin er af Olle Höglund, Norstedts Juridik árið 1994 sem og endurprentun hennar í Svensk författningssamling (skjal nr. 1483) með breytingu þeim sem gerðar voru á stjórnskipunarlögum Svíþjóðar á árinu 1994. Auk þess var stuðst við bókina, The Constitution of Sweden, sem gefin var út á vegum sænska þingsins árið 1989, sem og ritið Yttrandefrihetsgrundlagen, sem dómsmálaráðuneytið gaf út árið 1993.

 

 

Stjórnskipunarlögin

1. kafli Grundvöllur stjórnskipunarinnar


1. gr. Allt opinbert vald í Svíþjóð er sótt til þjóðarinnar. 

Stjórn sænsku þjóðarinnar grundvallast á skoðanafrelsi og á almennum og jöfnum kosningarétti. Hún kemur fram í stjórnskipan, er byggir á þingræði og fulltrúakjöri og í sjálfstjórn sveitarfélaga.

Um beitingu opinbers valds fer samkvæmt lögum.

2. gr. Opinberu valdi skal beitt með virðingu fyrir jafnræði allra og fyrir frelsi og verðleikum einstaklingsins.

Persónuleg, efnahagsleg og menningarleg velferð einstaklingsins skal vera meginmarkmið opinberrar stjórnsýslu. Á almannavaldinu skal hvíla sérstök skylda til að tryggja réttinn til vinnu, húsnæðis og menntunar ásamt því að vinna að félagslegri forsjá, öryggi og góðum lífsskilyrðum.

Hið opinbera skal stuðla að því, að lýðræðishugsjónir verði leiðarljós á öllum sviðum samfélagsins. Hið opinbera skal tryggja konum og körlum jafnrétti og vernda einkalíf og fjölskyldulíf einstaklinga.

Efla ber möguleika þeirra manna, sem skipa hóp minnihluta um þjóðerni, tungumál eða trú, til að varðveita og þróa eigin menningu og samfélagslíf. 

3. gr. Stjórnskipunarlögin, ríkiserfðalögin, prentfrelsislögin og grundvallarlög um tjáningarfrelsi eru stjórnarskrá ríkisins.

4. gr. Þingið er í forsvari fyrir þjóðina. 

Þingið setur lög, ákveður skatta til ríkisins og ákveður hvernig tekjum ríkisins skuli varið. Þingið hefur eftirlit með stjórnun og stjórnsýslu ríkisins.

5. gr. Þjóðhöfðinginn er konungur eða drottning, sem samkvæmt lögum um erfðaröð ríkisarfa fer með krúnu Svíþjóðar.

Það sem í lögum þessum segir um konung skal gilda um drottningu, ef hún er þjóðhöfðingi.

6. gr. Ríkisstjórnin stýrir ríkinu. Hún ber ábyrgð gagnvart þinginu.

7. gr. Í ríkinu skulu vera sveitarfélög og landsþingssveitarfélög. Ákvörðunarvald sveitarfélaganna er í höndum kjörinna fulltrúa.

Sveitarfélögum er heimilt að leggja á skatt til að standa straum af útgjöldum sínum.

8. gr. Dómstólar annast dómgæslu og stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga annast opinbera stjórnsýslu.

9. gr. Dómstólar, stjórnvöld og aðrir, sem annast opinbera stjórnsýslu, skulu virða jafnræði allra fyrir lögum og gæta hlutleysis og málefnalegra sjónarmiða.

2. kafli. Grundvallarréttindi.

1. gr. Sérhverjum ríkisborgara skal gagnvart handhöfum opinbers valds tryggt:

1. tjáningarfrelsi: frelsi til að miðla upplýsingum og tjá hugsanir, skoðanir og tilfinningar í ræðu, riti, með myndum eða á annan hátt.

2. upplýsingafrelsi: frelsi til að afla sér og taka við upplýsingum svo og að kynna sér að öðru leyti það, sem aðrir hafa tjáð.

3. fundafrelsi: frelsi til að halda og sækja fundi, sem haldnir eru til fræðslu, til skoðanaskipta eða í öðru slíku skyni eða til að sýna listræn verk.

4. frelsi til andmæla: frelsi til að skipuleggja og taka þátt í mótmælaaðgerðum á opinberum stöðum.

5. félagafrelsi: frelsi til að stofna félög með öðrum í almennum eða sérstökum tilgangi.

6. trúfrelsi: frelsi til að iðka trú sína einn eða ásamt öðrum.

Ákvæði prentfrelsislaganna og grundvallarlaganna um tjáningarfrelsi gilda um prentfrelsi og samsvarandi frelsi til að tjá sig í hljóðvarpi, sjónvarpi og í tilteknum svipuðum miðlum, kvikmyndum, myndböndum og öðrum upptökum hreyfimynda og jafnframt hljóðupptökum.

Prentfrelsislögin kveða einnig á um rétt manna til að kynna sér efni opinbers skjals.

2. gr. Hver ríkisborgari skal njóta verndar gegn þvingunum af hálfu opinberra valdhafa til að láta í ljós skoðanir sínar á stjórnmálalegum, trúarlegum, menningarlegum eða öðrum slíkum efnum. Hann er jafnframt verndaður gegn þvingun til að taka þátt í fundum, sem skipulagðir eru til að móta skoðanir manna, til að taka þátt í mótmælaaðgerðum eða tjáningu skoðana með öðrum hætti eða til að tilheyra stjórnmálaflokki, trúfélagi eða öðru félagi, sem stofnað er vegna þeirra skoðanna, sem kveðið er á um í fyrsta málslið.

3. gr. Athugasemdir um ríkisborgara í opinberri skrá mega, án samþykkis hans, ekki eingöngu grundvallast á stjórnmálaskoðunum hans. 

Ríkisborgarar skulu að því marki sem kveðið er á um í lögum njóta verndar gegn skerðingu á persónufrelsi þeirra við sjálfvirka tölvuskráningu upplýsinga um þá. 

4. gr. Dauðarefsing er óheimil.

5. gr. Sérhver ríkisborgari er verndaður gegn líkamsrefsingum. Hann skal jafnframt njóta verndar gegn pyntingum og læknismeðferð sem ætlað er að þvinga fram tjáningu eða hindra hana.

6. gr. Sérhver ríkisborgari skal njóta verndar, gegn því, að opinberir valdhafar beiti hann líkamlegum þvingunum í öðrum tilvikum en þeim sem greinir í 4. og 5. gr. Hann nýtur einnig verndar gegn líkamsleit, húsrannsókn og álíka skerðingum svo og gegn rannsókn bréfa eða annarra trúnaðarsendinga og gegn leynilegri hlerun eða upptöku á símtölum eða öðrum samskiptum, sem fram fara í trúnaði.

7. gr. ¦heimilt er að vísa ríkisborgara úr landi eða hindra hann í að koma til landsins.

Ekki má svipta einstakling, sem er eða hefur verið búsettur í ríkinu, ríkisborgararétti nema hann verði um leið ríkisborgari í öðru ríki, annað hvort samkvæmt skýlausu samþykki sínu eða með því að ganga í opinbera þjónustu. Þetta er því þó ekki til fyrirstöðu að barni undir 18 ára aldri sé gert skylt að hafa sama ríkisborgararétt og annað eða hvort tveggja foreldranna. Ennfremur má kveða svo á í samræmi við samning við annað ríki, að sá, sem frá fæðingu hefur átt jafnframt ríkisfang og verið varanlega búsettur í hinu ríkinu, missi sænskt ríkisfang við 18 ára aldur eða síðar.

8. gr. Sérhver borgari nýtur verndar gegn frelsissviptingu af hálfu handhafa opinbers valds. Honum er einnig frjálst að ferðast um ríkið og yfirgefa það.

9. gr. Ef aðrir valdhafar en dómstólar hafa svipt ríkisborgara frelsi í tilefni brots eða gruns um brot á viðkomandi rétt á að leggja málið fyrir dómstól án ástæðulausrar tafar. Þetta gildir þó ekki þegar ríkið framfylgir refsiviðurlögin sem fela í sér frelsissviptingu, sem ákveðin hafa verið í öðru ríki.

Þegar ríkisborgari hefur af öðrum ástæðum en getið er um í 1. mgr. verið tekinn höndum skal hann einnig eiga rétt á að leggja málið fyrir dómstól án ástæðulausrar tafar. Málsmeðferð nefndar skal lögð að jöfnu við dómstólameðferð, ef skipan nefndarinnar er ákveðin í lögum og formaður nefnarinar er eða hefur verið fastráðinn dómari.

Almennur dómstóll skal eiga úrlausn máls sem 1. og 2. mgr. tekur til, ef hún hefur ekki verið falin yfirvaldi, sem fullnægir þeim ákvæðum.

10. gr. Refsing eða önnur viðurlög mega ekki liggja við verknaði sem ekki var refsiverður þegar hann var framinn. Þyngri viðurlög verða ekki heldur lögð við verknaði en þá giltu. Hið sama gildir um upptöku eigna og önnur sérstök réttaráhrif brota.

Skattar eða gjöld til ríkisins verða ekki lögð á í ríkari mæli en fyrirskipað var þegar þau atvik gerðust sem skatt- eða gjaldskyldan byggist á. Ef þinginu þykja sérstakar ástæður krefjast má þó ákveða skatt eða gjöld í lögum, þrátt fyrir það að lögin hafi ekki verið í gildi þegar nefnd atvik urðu, ef ríkisstjórnin eða þingnefnd höfðu þá verið búin að leggja fram frumvarp þar að lútandi fyrir þingið. Skrifleg tilkynning frá ríkisstjórninni til þingsins um að slíks frumvarps sé að vænta er lögð að jöfnu við frumvarp. Ennfremur getur þingið ákveðið undantekningar frá fyrsta málslið ef, það telur sérstakar ástæður krefjast þess vegna styrjaldar, stríðshættu eða efnahagskreppu.

11. gr. ¦heimilt er að skipa dómstól til að fjalla um verknað sem þegar hefur verið framinn, einstakt deilumál eða með öðrum hætti vegna ákveðins máls.

Málsmeðferð fyrir dómstólum skal vera opinber.

12. gr. Réttindi þau, sem kveðið er á um í 1. - 5. tölulið 1. gr. og í 6. og 8. gr. og í 2. mgr. 11. gr., má að því leyti sem 13.- 16. gr. heimila skerða með lögum eða af reglum, sem settar eru með heimild í lögum samkvæmt 7. tölulið fyrsta málsliðar 7. gr. eða 10. gr. 8. kafla. Einnig er heimilt að takmarka fundafrelsi og mótmælafrelsi í þeim tilvikum sem kveðið er á um í öðrum málslið 1. mgr. 14. gr.
  
Takmarkanir samkvæmt 1. mgr. eru því aðeins heimilar í tilgangi sem unnt er að una við í lýðræðisþjóðfélagi. Takmarkanir mega aldrei ganga lengra en nauðsynlegt er vegna þess markmiðs, sem þeir stefna að, eða svo langt að þær ógni skoðanafrelsinu sem einni undirstöðu lýðræðisins. Takmörkun má ekki byggjast eingöngu á stjórnmálalegum, trúarlegum, menningarlegum eða öðrum þess háttar skoðunum.

Frumvarp til laga sem kveðið er á um í 1. mgr. eða til laga um breytingu eða brottfall slíkra laga skal, ef því er ekki hafnað af þinginu, bíða í minnst 12 mánuði frá því að fyrsta nefndarálitið á frumvarpinu var kynnt í deildum þingsins, ef krafa kemur um það frá ekki færri þingmönnum en 10. Þetta er því þó ekki til fyrirstöðu að þingið geti samþykkt frumvarpið, ef minnst 5/6 af þingmönnum, sem atkvæði greiða, eru sammála um ákvörðunina. 

Þriðja málsgrein á ekki við um frumvörp til laga sem ætlað er að lengja gildistíma laga í allt að tvö ár. Hún á heldur ekki við um frumvörp til laga sem eingöngu varða

1. bann við að ljóstra upp því, sem einhver hefur komist að í opinberri þjónustu eða við að gegna embættisskyldu og leyndarinnar er krafist vegna hagsmuna sem um ræðir í 2. gr. 2. kafla prentfrelsislaganna,

2. húsrannsókn eða svipaðar skerðingar eða 

3. frelsissviptingu sem er afleiðing ákveðins verknaðar.

Stjórnarskrárnefndin staðreynir af hálfu þingsins hvort 3. mgr. verður beitt um einstök lagafrumvörp.

13. gr. Takmarka má tjáningarfrelsið og upplýsingafrelsið af tilliti til öryggis ríkisins, framfærslu þjóðarinnar, almennrar reglu og öryggis, virðingar einstaklingsins, friðhelgi einkalífsins eða til að koma í veg fyrir afbrot eða koma fram viðurlögum við afbrotum. Takmarka má jafnframt frelsi til að tjá sig í atvinnustarfssemi. Að öðru leyti verður tjáningarfrelsið eða upplýsingafrelsið aðeins skert ef sérstakar mikilvægar ástæður gefa tilefni til þess.

Við úrlausn þess, hvaða takmarkanir megi gera á grundvelli 1. mgr., skal sérstaklega taka tillit til mikilvægis sem víðtækasts tjáningarfrelsis og upplýsingafrelsis í málefnum sem varða stjórnmál, trúmál, verkalýðsmál, vísindi og menningarmál.

Birtingar á fyrirmælum, sem ekki snerta efnislega, það sem tjáð er, heldur hvernig staðið skuli að dreifingu þess eða viðtöku, teljast ekki takmarkanir á tjáningarfrelsi eða upplýsingafrelsi.

14. gr. Fundafrelsi og frelsi til mómælaaðgerða má aðeins takmarka af tilliti til öryggis ríkisins, vegna reglu og öryggis á fundi eða við mótmælasamkomu eða af tilliti til umferðar eða til að koma í veg fyrir farsóttir.

Félagafrelsið má takmarka eingöngu að því er varðar félög af hernaðarlegum eða svipuðum toga eða sem fela í sér ofsóknir á hendur þjóðfélagshópi af vissum kynþætti, með ákveðinn húðlit eða af ákveðnum þjóðernislegum uppruna.

15. gr. Lög eða önnur fyrirmæli mega ekki mismuna ríkisborgara vegna þess að hann tilheyri minnihlutahópi af ákveðnum kynþætti, húðlit eða þjóðernislegum uppruna.

16. gr. Lög eða önnur fyrirmæli mega ekki mismuna ríkisborgara vegna kynferðis síns, nema þeim sé ætlað að stuðla að jafnrétti karla og kvenna eða þau snerti herskyldu eða samsvarandi starfsskyldu.

17. gr. Félög verkamanna og vinnuveitenda eiga rétt á að grípa til aðgerða í vinnudeilum ef ekki leiðir annað af lögum eða samningum.

18. gr. Eignir ríkisborgara eru tryggðar á þann hátt að enginn verður þvingaður til að láta af hendi eign sína til hins opinbera eða til einstaklings með eignarnámi eða annari slíkri ráðstöfun eða til að þola það að hið opinbera skerði notkun lands eða bygginga, nema þess sé þörf í þágu brýnna almannahagsmuna.

Þeim, sem er þvingaður til að láta af hendi eign sína með eignarnámi eða annarri slíkri ráðstöfun, skulu tryggðar bætur fyrir tjónið. Slíkar bætur skulu einnig tryggðar þeim, sem verða fyrir því að hið opinbera skerðir notkun lands eða bygginga á þann hátt að yfirstandandi notkun lands innan þess hluta fasteignarinnar sem skerðing bitnar á, verður að mun torveldari eða tjón hlýst af, sem er verulegt miðað við verðmæti þessa hluta fasteignarinnar. Skaðabæturnar skal ákveða á grundvelli sem ákveðinn er í lögum.

Allir skulu hafa aðgang að náttúrunni í samræmi við almenningsrétt óháð framangreindum ákvæðum.

19. gr. Höfundar, listamenn og ljósmyndarar eiga rétt til verka sinna eftir því sem ákveðið er í lögum.

20. gr. Takmarkanir á rétti til að reka atvinnustarfssemi eða til að gegna starfi er einungis heimilt að gera til verndar brýnum almannahagsmunum og aldrei í þeim tilgangi eingöngu að hygla efnahagslega ákveðnum einstaklingum eða fyrirtækjum.

Rétti Sama til hreindýrareksturs skal skipað með lögum.

21. gr. Öll börn á skólaskyldualdri eiga rétt til grunnmenntunar í opinberum skóla að kostnaðarlausu. Hið opinbera skal einnig sjá til þess að æðri menntun sé til.

22. gr. §tlendingur hér í ríkinu nýtur jafnréttis við sænska ríkisborgara að því er varðar

1. vernd gegn þvingunum til að taka þátt í samkomu sem haldin er til skoðanamótunar, í mótmælum eða í tjáningu skoðana að öðru leyti eða til að ganga í trúfélag eða annað félag (annar málsliður 2. gr.),

2. persónuhelgi vegna sjálfvirkrar tölvuskráningar (2. mgr. 3. gr.)

3. vernd gegn dauðarefsingu, líkamsrefsingu og pyntingum svo og gegn læknismeðferð sem ætlað er að þvinga fram tjáningu eða hindra hana (4. og 5. gr.),

4. rétt til að leggja mál sitt fyrir dómstól í tilefni af frelsisskerðingu vegna afbrots eða gruns um að hafa framið brot (1. og 3. mgr. 9. gr.),

5. vernd gegn afturvirkri refsingu og öðrum afturvirkum réttaráhrifum brots svo og gegn afturvirkum skatti eða gjöldum til ríkisins (10. gr.)

6. vernd gegn skipan dómstóls í ákveðnum tilvikum (1. mgr. 11. gr.),

7. vernd gegn mismunun vegna kynþáttar, litarháttar eða þjóðernislegs uppruna eða (15. og 16. gr.),

8. rétt til að grípa til aðgerða í vinnudeilum (17. gr.)

9. vernd gegn eignarnámi eða annarri slíkri ráðstöfun sem og gegn skerðingum á notkun lands eða bygginga (18. gr.).

 

10. rétt til menntunar (21. gr.)

Ef annað er ekki ákveðið í lögum eru útlendingar einnig jafn réttháir sænskum ríkisborgurum að því er varðar

1. tjáningarfrelsi, upplýsingafrelsi, fundafrelsi, mótmælafrelsi, félagafrelsi og trúfrelsi (1. gr.),

2. vernd gegn þvingun til að láta uppi skoðanir sínar (1. málsliður 2. gr.),

3. vernd gegn skerðingum á friðhelgi líkama einnig í öðrum tilvikum en fjallað er um í 4. og 5. gr., gegn líkamsskoðun, húsrannsókn og þess háttar skerðingum svo og skerðingum á trúnaðarsamskiptum (6. gr.),

4. vernd gegn frelsisskerðingu (1. málsliður 8. gr.),

5. rétt til að leggja mál sitt fyrir dómstól þegar um frelsisskerðingu er að ræða af öðru tilefni en afbroti eða grun um afbrot (2. og 3. mgr. 9. gr.),

6. rétt til opinberrar málsmeðferðar fyrir dómstólum (2. mgr. 11. gr.),

7. vernd gegn skerðingu á grundvelli skoðunar þeirra (3. málsliður 2. mgr. 12. gr.),

8. rétt höfundar, listamanns og ljósmyndara til verka sinna (19. gr.),

9. rétt til að reka atvinnustarfssemi eða gegna starfi (20. gr.).

Að því er varðar sérstök fyrirmæli sem um ræðir í 2. mgr. eiga við 3. mgr., fyrsti málsliður 4. mgr. og 5. mgr. 12. gr. 

23. gr. ¦heimilt er að setja lög eða önnur fyrirmæli sem brjóta gegn skuldbindingum Svíþjóðar samkvæmt Mannréttindasamningi Evrópu um verndun mannréttinda og mannfrelsis.

3. kafli. Þingið.

1. gr. Kosið er til þings frjálsum, leynilegum og beinum kosningum. Kosið skal milli flokka en möguleiki skal vera fyrir kjósendur að gefa einstaklingi atkvæði sitt.

Þingið er í einni deild 349 þingmanna. Fyrir þingmenn skulu valdir varamenn.

2. gr. Kosningarétt til þingsins hafa sænskir ríkisborgarar sem búsettir eru eða hafa einhvern tímann verið búsettir í landinu. Um kosningarétt sænskra ríkisborgara sem ekki eru búsettir í ríkinu er ákveðið í lögum. Sá, sem ekki hefur náð 18 ára aldri í síðasta lagi á kosningadaginn, hefur ekki kosningarétt.

Kosningaréttur samkvæmt 1. mgr. er ákveðinn á grundvelli kjörskrár sem liggur frammi fyrir kosningar.

3. gr. Venjulegar kosningar til þingsins fara fram fjórða hvert ár.

4. gr. Ríkisstjórninni er heimilt að fyrirskipa aukakosningar á milli venjulegra kosninga. Aukakosningar skal halda innan þriggja mánaða frá ákvörðuninni.

Eftir þingkosningar er ríkistjórninni ekki heimilt að fyrirskipa aukakosningar fyrr en þrír mánuðir eru liðnir frá því að nýkjörið þing hefur komið saman. Ríkisstjórninni er jafnframt óheimilt að fyrirskipa aukakosningar á þeim tíma þegar ráðherrar gegna embætti sínu, eftir að hafa verið formlega leystir frá störfum, þar til að ný ríkisstjórn tekur við völdum.

Ákvæði um aukakosningar í ákveðnum tilvikum eru í 3. gr. 6. kafla.

5. gr. Nýkjörið þing kemur saman á fimmtánda degi eftir kosningadag þó ekki fyrr en á fjórða degi eftir að úrslit kosninganna voru kunngerð. 

Kosningar gilda frá þeim tíma er hið nýkjörna þing kemur saman og til þess tíma, þegar næsta þing sem kjörið er þar á eftir kemur saman. Þessi tími er kjörtímabil þingsins.

6. gr. Vegna þingkosninga er ríkinu er skipt upp í kjördæmi.

Þingsæti skiptast í 310 föst kjördæmisþingsæti og 39 jöfnunarþingsæti. 

Hin föstu kjördæmisþingsæti skiptast milli kjördæma í samræmi við útreikning á hlutfallinu á milli fjölda atkvæðabærra í hverju kjördæmi og fjölda atkvæðabærra í öllu ríkinu. Þessi skipting gildir í 4 ár í senn.

7. gr. Þingsætin skiptast milli flokka. Með flokki er átt við hver þau samtök eða hóp kjósenda sem koma fram í kosningum undir sérstöku merki.

Aðeins sá flokkur, sem fengið hefur minnst 4 prósent atkvæða í öllu ríkinu, á rétt á að taka þátt í úthlutun þingsæta. Flokkur, sem hefur fengið færri atkvæði, tekur þó þátt í úthlutun fastra kjördæmaþingsæta í kjördæmi þar sem flokkurinn hefur fengið minnst 12 prósent atkvæða.

8. gr. Föst kjördæmaþingsæti í hverju kjördæmi skiptast milli flokkanna í réttu hlutfalli við niðurstöðu þingkosninga í kjördæminu.

Jöfnunarþingsætin skiptast þannig á milli flokkanna, að skipting allra þingsæta á þinginu, að undanskildum föstum kjördæmaþingsætum, sem falla í skaut flokks sem fengið hefur minna en 4 prósent atkvæða, verður í hlutfalli við atkvæðafjölda þeirra flokka sem eiga hlut í skiptingunni í öllu ríkinu. Hafi flokkur við skiptingu fastra kjördæmaþingsæta fengið fleiri þingsæti en sem svarar til hlutfalls fulltrúa flokksins á þingi, kemur flokkurinn ekki til álita við skiptingu jöfnunarþingsætis eða fastra kjördæmaþingsæta sem hann hefur fengið. Þegar jöfnunarþingsætum hefur verið skipt milli flokkanna eru þau færð yfir á kjördæmi. 

Við skiptingu þingsæta milli flokkanna er notuð oddatöluaðferðin með fyrsta deilinn lagfærðan til 1,4.

9. gr. Fyrir hvert þingsæti, sem flokkur hefur fengið, fær hann einn þingmann ásamt einum varamanni.

10. gr. Aðeins sá, sem uppfyllir skilyrði kosningaréttar, getur gegnt þingmennsku eða varaþingmennsku.

11. gr. Kosningar til þingsins má kæra til kjörnefndar, sem skipuð er af þinginu. Þeir, sem kosnir hafa verið til þingsetu, inna störf sín af hendi án tillits til þess hvort kosningarnar hafi verið kærðar. Ef niðurstöðu kosninga er breytt tekur nýr þingmaður við sæti sínu um leið og breytingin hefur verið tilkynnt. Það sem nú hefur verið sagt um þingmenn gildir á sama hátt um varamenn.

Kjörnefndin er skipuð formanni, sem skal vera eða hafa verið fastráðinn dómari og má ekki vera þingmaður, og sex öðrum aðilum. Nefndir menn eru kosnir eftir hverjar venjulegar kosningar strax og kosningarnar eru lýstar gildar að lögum fyrir tímabilið fram að því að nýjar nefndarkosningar hafa farið fram. Formaðurinn er kosinn sérstaklega. Ekki er hægt að áfrýja ákvörðunum nefndarinnar.

12. gr. Frekar ákvæði um efni 2. - 11. gr. svo og um skipun varaþingmanna eru sett í þingskapalögum eða öðrum lögum.

4. kafli. Þingstörfin.

1. gr. Þingið kemur árlega saman til ríkisfundar. Ríkisfundur er haldinn í Stokkhólmi nema þingið eða forseti þess hafi ákveðið annað vegna öryggis þingsins eða frelsis.

2. gr. Fyrir hvert kjörtímabil velur þingið sér forseta ásamt fyrsta, öðrum og þriðja varaforseta.

3. gr. Ríkisstjórnin og hver þingmaður mega, í samræmi við nánari ákvæði þingskapalaga, leggja fram tillögu um allt sem þingið getur fjallað um svo fremi sem ekki annað ákveðið í stjórnskipunarlögum þessum.

Þingið kýs sér nefndir, þ.á.m. stjórnarskrárnefnd og fjárlaganefnd samkvæmt ákvæðum þingskapalaga. Fjallað skal í nefnd um tillögur, sem lagðar eru fram af hálfu stjórnarinnar eða þingmanns, nema annað sé tekið fram í stjórnskipunarlögum þessum.

4. gr. Þegar afgreiða á erindi í þingdeildinni á hver þingmaður og hver ráðherra rétt á að tjá sig í samræmi við það sem nánar er kveðið á um í þingskapalögum. Ákvæði um vanhæfi er að finna í þingskapalögum.

5. gr. Við atkvæðagreiðslu í þinginu gildir sú ákvörðun sem hefur hlotið fylgi meira en helmings þingmanna nema kveðið sé á um annað í stjórnskipunarlögum þessum, eða, að því er tekur til málsmeðferðar fyrir þinginu í aðalákvæðum þingskapalaga. Ákvæði um það hvaða úrræðum skuli beita er atkvæði falla jöfn eru í þingskapalögum.

6. gr. Þingmanni og varamanni er rétt að gegna skyldum sínum sem þingmenn þrátt fyrir embættisskyldu eða annarrar þess háttar skyldu, sem hvílir á þeim.

7. gr. Þingmanni eða varamanni er ekki heimilt að láta af störfum án leyfis þingsins.

Þegar tilefni er til skal kjörnefnd sjálfkrafa sannreyna hvort þingmaður eða varamaður séu hæfir til þingmennsku í samræmi við 10. gr. 3. kafla. Sá, sem er lýstur óhæfur, er þar með leystur frá störfum sínum

Þingmaður, eða varaþingmaður, verður því aðeins leystur frá störfum í öðrum tilvikum en þeim sem kveðið er á um í 2. mgr. að hann vegna refsiverðs brots hefur bersýnilega reynst vanhæfur til starfsins. Ákvörðun hér að lútandi skal tekin af dómstól.

8. gr. Enginn getur höfðað mál á hendur þeim sem gegnir starfi eða hefur gegnt starfi sem þingmaður eða svipt hann frelsi eða aftrað honum að ferðast um ríkið vegna þess sem hann hafi tjáð sig um eða aðhafst í starfi sínu, án þess að þingið hafi heimilað það með ákvörðun sem hefur hlotið fylgi a.m.k. 5/6 hluta þeirra sem greiða atkvæði. 

Ef þingmaður er grunaður um refsivert brot í öðrum tilvikum skulu ákvæði í lögum um handtöku, gæsluvarðhald eða fangelsun einungis leyfileg ef hann viðurkennir brotið eða hann verið staðinn að verki eða um er að ræða brot, sem varðar ekki lægri refsingu en 2 ára fangelsi.

9. gr. Þegar þingmaður gegnir störfum forseta þingsins eða situr í ríkisstjórn tekur varamaður við þingsæti hans. Þinginu er heimilt að kveða svo á í þingskapalögum, að varamaður skuli taka sæti þingmanns þegar hann er í leyfi.

Ákvæðin í 6. gr. og 1. mgr. 8. gr. um friðhelgi þingmanna eiga einnig við um þingforseta og störf hans.

Ákvæðin um þingmenn gilda einnig um varaþingmenn er þeir gegna þingmennsku.

10. gr. Ítarlegri ákvæði um þingstörfin er að finna í þingskapalögum.

5. kafli. Þjóðhöfðinginn.

1. gr. Forsætisráðherra upplýsir þjóðhöfðingjann um málefni ríkisins. Þegar það er gert kemur ríkisstjórnin saman til fundar undir forsæti þjóðhöfðingjans.

2. gr. Einungis sænskur ríkisborgari, sem náð hefur 18 ár aldri, getur gegnt starfi þjóðhöfðingja. Hann má hvorki vera ráðherra, forseti þingsins eða þingmaður.

Þjóðhöfðinginn skal ráðfæra sig við forsætisráðherra áður en hann ferðast erlendis.

3. gr. Ef konungurinn getur ekki gegnt störfum sínum vegna veikinda, utanlandsferðar eða af öðrum orsökum tekur við í samræmi við erfðalögin sá maður úr konungsfjölskyldunni, sem ekki er hindraður frá því, og gegnir skyldum þjóðhöfðingja sem ríkisstjóri tímabundið.

4. gr. Deyi konungsfjölskyldan út sjá þingið og ríkisstjóri um að gegna skyldum þjóðhöfðingja tímabundið. Þingið velur samtímis vararíkisstjóra.

Hið sama gildir ef konungurinn deyr og ríkisarfinn hefur enn ekki náð 18 ára aldri.

5. gr. Ef konungurinn hefur ekki getað gegnt starfi sínu í 6 mánuði samfleytt eða látið það hjá líða skal ríkisstjórnin tilkynna það þinginu. Þingið ákveður hvort konungurinn teljist hafa látið af störfum.

6. gr. Þinginu er heimilt að útnefna einhvern til þess að gegna starfi ríkisstjóra samkvæmt fyrirskipun stjórnarinnnar þegar engin er hæfur til þess samkvæmt 3. eða 4. gr. 

Þegar enginn annar er til þess hæfur, gegnir forseti þingsins, eða varaforseti í forföllum hans, að skipan ríkisstjórnarinnar störfum ríkisstjóra tímabundið.

7. gr. Ekki er hægt að höfða mál á hendur konungi fyrir gerðir hans. Ekki er hægt að höfða mál á hendur ríkisstjóra fyrir gerðir hans sem þjóðhöfðingi 

6. kafli Ríkisstjórnin.

1. gr. Ríkisstjórnin er skipuð forsætisráðherra og öðrum ráðherrum.

Forsætisráðherrann er valinn samkvæmt ákvæðum 2. - 4. gr. Forsætisráðherrann skipar aðra ráðherra.

2. gr. Þegar forsætisráðherra skal valinn kallar þingforseti forsvarsmenn hvers flokks til samráðs. Þingforsetinn hefur samráð við varaforsetann og leggur síðan tillögu fyrir þingið.

Þingið skal í síðasta laga á 4. degi þar á eftir, og án undirbúnings í nefnd, greiða atkvæði um tillöguna. Ef meira en helmingur þingmanna greiðir atkvæði gegn tillögunni er hún fallin, annars telst hún samþykkt.

3. gr. Ef þingið hafnar tillögu þingforseta, er farið fram á ný svo sem mælt er fyrir í 2. gr. Ef þingið hefur fjórum sinnum hafnað tillögu þingforseta skal fresta útnefningu forsætisráðherra og ekki taka upp á ný fyrr en að loknum þingkosningum. Ef ekki er komið að almennum kosningum innan þriggja mánuða skal halda aukakosningar innan þess frests.

4. gr. Þegar þingið hefur samþykkt tillögu um nýjan forsætisráðherra tilkynnir hann þinginu svo fljótt sem mögulegt er hvaða ráðherra hann tilnefnir. Því næst verða ríkisstjórnarskipti á sérstökum ríksráðsfundi að viðstöddum þjóðhöfðingja eða í forföllum hans þingforseta. Þingforseti skal alltaf boðaður til ríkisráðsfundarins.

Þingforsetinn leggur fyrirmæli fyrir forsætisráðherra í umboði þingsins.

5. gr. Ef þingið lýsir því yfir að forsætisráðherra eða annar ráðherra njóti ekki trausts þess skal þingforseti leysa ráðherrann frá störfum. Geti ríkisstjórnin fyrirskipað aukakosningar til þingsins skal þó ákvörðun um frávikningu ekki tilkynnt ef ríkisstjórnin fyrirskipar aukakosningar innan viku frá vantraustsyfirlýsingunni.

6. gr. Ráðherra skal veitt lausn frá störfum ef hann óskar þess, þingforseti veitir forsætisráðherra lausn og forsætisráðherra veitir öðrum ráðherrum lausn. Forsætisráðherra er heimilt einnig í öðrum tilvikum að veita ráðherrum lausn frá störfum.

7. gr. Ef forsætisráðherra er veitt lausn frá störfum eða deyr skal þingforseti veita öðrum ráðherrum lausn.

8. gr. Ef öllum ráðherrum ríkisstjórnarinnar hefur verið veitt lausn frá störfum gegna þeir embætti sínu þar til að ný ríkisstjórn tekur við. Hafi öðrum ráðherra en forsætisráðherra verið veitt lausn frá störfum að eigin ósk gegnir hann störfum sínum þar til að eftirmaður hans hefur tekið við ef forsætisráðherra óskar þess.

9. gr. Einungis sá, sem hefur verið sænskir ríkisborgari síðustu 10 árin, getur verið ráðherra.

Ráðherra má ekki gegna starfi í þágu hins opinbera eða einkaaðila. Hann má ekki heldur hafa með höndum verkefni eða sinna störfum sem rýrt getur traust til hans.

10. gr. Í forföllum þingforseta tekur varaforseti við verkefnum þeim sem þingforseti gegnir samkvæmt kafla þessum.

7. kafli Störf ríkisstjórnarinnar.

1. gr. Stjórnarráð annast undirbúning ríkisstjórnarmála. Undir það heyra ráðuneyti hvert á sínu starfssviði. Ríkisstjórnin skiptir verkefnum á milli ráðuneyta. Forsætisráðherra tilnefnir yfirmenn ráðuneyta úr hópi ráðherra.

2. gr. Við undirbúning ríkisstjórnarmála skal afla nauðsynlegra upplýsinga og umsagna frá viðkomandi yfirvöldum. Að því leyti sem þörf er á skal leyfa félögum og einstaklingum að tjá sig. 

3. gr. Ríkisstjórnin skal útkljá ríkisstjórnarmál á ríkisstjórnarfundum. Eftir því sem mælt er fyrir í lögum, getur þó ráðherra þess ráðuneytis, sem mál heyrir undir, tekið ákvörðun um, undir yfirumsjón forsætisráðherra, framkvæmd laga á sviði varnarmála eða sérstakra ákvarðana ríkisstjórnar.

4. gr. Forsætisráðherra kallar aðra ráðherra til ríkisstjórnarfundar og stýrir fundinum. Að minnsta kosti fimm ráðherrar skulu vera viðstaddir ríkisstjórnarfundinn.

5. gr. Ráðherra á ríkisstjórnarfundi gerir grein fyrir þeim málum, sem heyra undir ráðuneyti hans. Forsætisráðherra er þó heimilt að ákveða að eitt eða fleiri mál, sem heyra undir ákveðið ráðuneyti, skuli vera kynnt af öðrum ráðherra en sem stýrir viðkomandi ráðuneyti.

6. gr. Haldin skal fundargerð um ríkisstjórnarfundi. Sérálit skulu færð í fundargerðina.

7. gr. Lög, frumvörp sem leggja á fyrir þingið og önnur afgreiðsla á ákvörðunum ríkisstjórnarinnar skal vera undirrituð af forsætisráðherra og öðrum ráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar til að öðlast gildi. Ríkisstjórnin getur þó ákveðið í tilskipun að í einstökum tilvikum megi starfsmaður undirrita erindi.

8. gr. Forsætisráðherra getur tilnefnt einhvern af öðrum ráðherrum til að gegna störfum staðgengils í forföllum sínum. Hafi forsætisráðherra ekki valið varamann eða hann er einnig forfallaður tekur sá ráðherra við störfum sem forsætisráðherra, sem lengst hefur verið ráðherra. Ef tveir eða fleiri hafa verið ráðherrar jafnlengi tekur sá elsti við störfum hans. 

8. kafli. Lög og önnur fyrirmæli.

1. gr. Það leiðir af ákvæðum 2. kafla um grundvallarréttindi og frelsi að ekki má setja fyrirmæli um tiltekið efni eða að þau má aðeins setja í lögum, jafnframt því að í vissum tilvikum skal lagafrumvarp sæta sérstakri meðferð.

2. gr. Fyrirmæli um persónulega stöðu einstaklinga eða persónuleg og efnahagsleg tengsl þeirra á milli skulu sett með lögum.

Til slíkra fyrirmæla teljast

1. fyrirmæli um sænskan ríkisborgararétt;

2. fyrirmæli um rétt til ættarnafns, eða um hjónaband og stöðu foreldra, erfðaskrár og erfðir, sem og fjölskyldumál að öðru leyti;

3. fyrirmæli um rétt til lausafjár og fasteigna, um samninga og um fyrirtæki, félög, samtök og sjóði.

3. gr. Ákvæði um tengsl einstaklinga og hins opinbera er varða kvaðir, sem lagðar eru á einstaklinga, eða sem hafa á annan hátt áhrif á persónulega hagi eða fjárhag þeirra, skulu sett með lögum.

Slík ákvæði eru meðal annars fyrirmæli um refsiverða verknaði og réttaráhrif þeirra, um greiðslu skatta til ríkisins og um upptöku eigna og aðrar slíkar ráðstafanir.

4. gr. Ákvæði um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um mál, sem varða grundvallarlög, skulu sett með lögum.

Einnig skal setja fyrirmæli í lögum um kosningar til þings Evrópusambandsins.

5. gr. Meginreglur um breytingar á skiptingu ríkisins í sveitarfélög, um skipulag og starfshætti sveitarfélaga og um skattlagningarvald þeirra, skulu settar með lögum. Einnig skulu ákvæði um vald og skyldur sveitarfélaganna að öðru leyti sett með lögum.

6. gr. Fallin úr gildi.

7. gr. Þrátt fyrir ákvæði 3. og 5. gr. getur ríkisstjórnin með heimild í lögum sett reglur um önnur málefni en skatta, ef reglurnar varða eftirtalin málefni:

1. vernd lífs, persónulegs öryggis eða heilsu;

2. dvöl útlendings í ríkinu;

3. innflutning eða útflutning vara, peninga eða annarra eigna, framleiðslu, flutninga, fjarskipti, lánveitingar, atvinnustarfssemi, skömmtun, endurnotkun og endurvinnslu efnis, skipulag eða hönnun bygginga, mannvirkja og íbúðarumhverfis eða leyfisskyldu þegar um er að ræða aðgerðir við byggingar og mannvirki;

4. veiðar, fiskveiðar, dýravernd eða náttúru eða umhverfisvernd;

5. umferð eða almannareglu á opinberum stöðum;

6. kennslu og starfsmenntun;

7. bann við að ljóstra upp málefnum, sem einstaklingur hefur fengið vitneskju um í opinberu starfi, eða við að inna af hendi þjónustuskyldu;

8. friðhelgi einstaklinga vegna sjálfvirkrar tölvuskráningu upplýsinga.

 Vald það, sem 1. mgr. veitir, heimilar ekki setningu reglna um réttaráhrif refsiverðra brota nema um fésektir. Þingið getur með lögum, sem geyma heimild samkvæmt 1. málsgr., einnig kveðið á um aðrar lögfylgjur en sektir vegna brota á reglum, sem ríkisstjórnin hefur sett á grundvelli heimildarinnar.

8. gr. Þrátt fyrir ákvæði 2., 3. eða 5. gr. getur ríkisstjórnin með heimild í lögum sett reglur um veitingu frests til að fullnægja skyldum.

9. gr. Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. getur ríkisstjórnin með heimild í lögum sett reglur um tolla á innfluttar vörur.

Þingið getur heimilað ríkisstjórn eða sveitarfélagi að setja reglur um endurgjald sem samkvæmt 3. gr. skyldu annars settar af þinginu.

10. gr. Ríkisstjórnin getur með heimild í lögum ákveðið í reglugerð, að fyrirmæli um þau efni, er greinir í 1. málsgr. 7. gr. eða 9. gr., skuli koma til framkvæmda eða falla úr gildi.

11. gr. Þingið getur veitt ríkisstjórninni heimild samkvæmt þessurm kafla til að setja reglur um tiltekið efni. Þingið getur einnig falið stjórnvaldi, sem undir það heyrir, heimild til að setja slíkar reglur.

12. gr. Reglur, sem ríkisstjórnin setur með heimild í þessum stjórskipunarlögum, skulu bornar undir það til athugunar og samþykkis ef þingið ákveður.

13. gr. Umfram það, sem heimilað er í 7. - 10. gr. getur ríkisstjórn sett;

1. reglur um framkvæmd laga;

2. reglur, sem ekki skulu settar af þinginu samkvæmt stjórnarskrá.

Ríkisstjórninni er óheimilt að setja á grundvelli 1. töluliðar reglur, sem varða þingið eða stofnanir þess. Jafnframt er henni óheimilt að setja á grundvelli 1. málsgreinar 2. gr. reglur um skattlagningu sveitarfélaga.

Ríkisstjórninni er heimilt með reglugerð að framselja lægra settu stjórnvaldi vald til að setja reglur um tiltekin málefni. Þrátt fyrir ákvæði 2. töluliðar getur ríkisstjórnin einnig framselt lægra settum stjórnvöldum vald til að setja reglur sem getið er í 1. tölulið og ekki varða starfssemi þingsins eða stofnana þess.

14. gr. Vald ríkisstjórnar til að setja reglur á ákveðnu sviði hindrar ekki að þingið geti sett lög um sama efni.

Þingið getur með heimild í lögum veitt ríkisbankanum heimild til að samþykkja lög á starfssviði hans.

Samkvæmt heimild í lögum getur þingið sett lög sem varða samskipti innan þingsins eða stofnanna þess.

15. gr. Grundvallarlög skulu samþykkt með tveimur samhljóða ákvörðunum. Seinni ákvörðun skal ekki tekin fyrr en að loknum nýjum kosningum til þingsins og eftir að hið nýja þing hefur komið saman. Ennfremur skulu minnst 9 mánuðir líða frá þeim tíma sem frumvarpið bar fyrst borið upp í deildum þingsins og til kosningadags. Stjórnarskrárnefnd getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði með ákvörðun sem tekin er í síðasta lagi við undirbúning frumvarpsins í nefnd og verða 5/6 nefndarmanna að vera henni sammála.

Þingið skal ekki samþykkja frumvarp til grundvallarlaga, sem ekki er samræmanlegt öðru frumvarpi til grundvallarlaga, sem fyrir liggur, nema það jafnframt hafni fyrra frumvarpinu.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um frumvarp til grundvallarlaga skal fara fram ef að minnsta kosti 1/10 hluti þingmanna krefst og minnst 1/3 hluti þingmanna greiðir atkvæði með tillögunni. Krafa um það skal koma fram innan 15 daga frá þeim degi sem þingið samþykkti frumvarpið. Krafan skal ekki sæta umfjöllun í nefndum þingsins. 

Þjóðaratkvæðagreiðsla skal haldin samhliða þingkosningum þeim, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. Þeir, sem hafa kosningarétt geta sagt hvort þeir séu samþykkir fyrirliggjandi frumvarpi til breytingar á grundvallarlögum eða ekki. Frumvarpið telst fallið ef meirihluti þeirra, sem þátt taka í atkvæðagreiðslu greiðir atkvæði gegn frumvarpinu og ef fjöldi kjósenda fer fram úr helmingi þeirra, sem greiða gild atkvæði í kosningunum. Í öllum öðrum tilvikum skal þingið taka lögin til lokaafgreiðslu.

16. gr. Þingsköp skal setja á þann hátt, sem greinir í öðrum málslið 1. málsgr. og 2. málsgr. 15. gr. Þau er einnig heimilt að samþykkja með einfaldri ákvörðun að því tilskildu að þau séu samþykkt með atkvæði 3/4 viðstaddra, sem greiða atkvæði og atkvæðum meira en helmings þingmanna. Viðbótarákvæði við þingsköp skulu samþykkt með sama hætti og venjuleg lög.

17. gr. Lögum verður ekki breytt eða þau felld úr gildi nema með lögum. Þegar um er að ræða breytingu á eða afnám grundvallarlaga eða þingskapalaga eiga 15. og 16. gr. við.

18. gr. Stofnað skal Lagaráð til að láta uppi umsögn um lagafrumvörp. Í því skulu eiga sæti hæstaréttardómarar og dómarar við stjórnsýsludómstólinn. Álits Lagaráðsins skal aflað að ósk ríkisstjórnar eða þingnefndar samkvæmt því sem nánar greinir í þingskapalögum.

Afla skal álits Lagaráðsins áður en þingið setur lög um prentfrelsi eða samsvarandi frelsi til að tjá sig í hljóðvarpi, sjónvarpi og álíka tjáningarmiðlum, kvikmyndum, myndböndum og öðrum upptökum hreyfimynda og hljóðupptökum, á lögum um aðgang að efni opinberra skjala, lögum sem sett eru með heimild í 2. málsgr. 3. gr. 2. kafla, 1. málsgr. 12. gr., 17- 19. gr. eða 2. málsgr. 22. gr. eða lögum sem breyta eða fella úr gildi slík lög, lögum um skattlagningarvald sveitarfélaga, lögum sem um ráðir í 2. eða 3. gr. eða lögum sem um ræðir í 11. kafla ef lögin eru mikilvæg fyrir einstaklinga eða út frá almennu sjónarmiði. Þetta gildir þó ekki, ef álit Lagaráðsins myndi ekki hafa neina þýðingu, þegar hliðsjón er höfða af því álitamáli, sem um ræðir, eða myndi seinka meðferð lagafrumvarpsins það mikið að skaði yrði af. Ef ríkisstjórnin leggur til við þingið að setja lög um einhver þau málefni sem um ræðir í 1. málsgr. og álits Lagaráðsins hefur ekki verið leitað skal ríkisstjórnin samtímis skýra þinginu ástæður fyrir því. Það hindrar ekki beitingu laganna að ekki hefur verið aflað álits Lagaráðsins.

Könnun Lagaráðsins skal taka til:

1. stöðu frumvarpsins gagnvart grundvallarlögum og réttarskipaninni að öðru leyti.

2. stöðu frumvarpsákvæðanna innbyrðis

3. stöðu frumvarpsins með tilliti til réttaröryggissjónarmiða

4. hvort frumvarpið sé þannig orðað að lögin þjóni þeim tilgangi, sem að er stefnt

5. hvaða vandamál verði talin líkleg til að rísa við framkvæmd laganna.

Nánari reglur um skipan og störf Lagaráðsins skulu settar í lögum.

19. gr. Ríkisstjórn skal afgreiða lög tafarlaust. Þinginu er þó heimilt að birta lög, sem hafa að geyma ákvæði um þingið eða stofnanir þess og ekki þarf að setja sem grundvallarlög eða þingskapalög.

Lög skulu birt svo fljótt sem auðið er. Það sema gildir um reglugerðir ef ekki er kveðið á um annað í lögum.

9. kafli. Fjárveitingarvaldið.

1. gr. Ákvæði um rétt til að leggja á skatta og önnur gjöld eru í 8. kafla.

2. gr. Sjóði ríkisins má ekki nota á annan hátt en þingið hefur ákveðið.

Þingið ákveður í fjárlögum samkvæmt 3.-5. gr. hvernig sjóðir ríkisins skulu notaðir. Þinginu er þó heimilt að ákveða að sjóðir ríkisins skulu notaðir á annan hátt.

3. gr. Þingið skal samþykkja fjárlög fyrir næsta fjárlagaár eða, ef sérstakar ástæður eru fyrir því, fyrir annað fjárlagatímabil. Þingið ákveður þannig tekjur og fjárveitingar til tiltekinna verkefna. Þessar ákvarðanir skal taka í fjárlög.

Þingið getur ákveðið að sérstök framlög úr ríkissjóði skuli veitt fyrir annað tímabil en fjárlagatímabilið.

Þegar fjárlög eru samþykkt í samræmi við ákvæði þetta skal þingið taka tillit til fjárþarfa til varna ríkisins á stríðstímum, vegna stríðshættu eða af öðrum óvenjulegum ástæðum.

4. gr. Ef ekki tekst að samþykkja frumvarp til fjárlaga samkvæmt 3. gr. fyrir upphaf fjárlagaárs ákveður þingið, að því leyti sem þörf er á, fjárveitingar fyrir tímabilið þar til fjárlög fyrir tímabilið hafa verið samþykkt. Þingið getur falið fjárlaganefnd að taka slíka ákvörðun fyrir hönd þess.

5. gr. Þingið getur á fjáraukalögum endurskoðað áætlanir sínar á tekjum ríkisins, breytt fjárveitingum og lagt til nýjar fjárveitingar fyrir líðandi fjárlagaár.

6. gr. Ríkisstjórnin skal leggja frumvarp til fjárlaga fyrir þingið.

7. gr. Við samþykkt fjárlaga eða við annað tækifæri getur þingið sett leiðbeiningarreglur fyrir tiltekna starfssemi ríkisins um lengra tíma en fjárveiting hefur þegar verið veitt til.

8. gr. Ríkisstjórnin hefur til ráðstöfunar sjóði og eignir ríkisins. Þetta ákvæði nær samt sem áður ekki til eigna sem þinginu eru ætlaðar eða stofnunum þess eða eigna sem hafa verið settar undir sérstaka stjórn með lögum.

9. gr. Þingið skal setja reglur um ráðstöfun og meðferð eigna ríkisins að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er. Í þessu sambandi getur þingið fyrirskipað að tilteknar aðgerðir þurfi leyfi þingsins.

10. gr. Ríkisstjórninni er óheimilt að taka lán eða að binda ríkið fjárhagsskuldbindingum að öðru leyti án samþykkis þingsins.

11. gr. Fallin úr gildi.

12. gr. Ríkisbankinn er aðalbanki ríkisins og ber ábyrgð á stefnu í gjaldeyris- og lánamálum. Hann skal einnig stuðla að öruggu og áhrifaríku greiðslukerfi.

Ríkisbankinn er stjórnvald sem heyrir undir þingið.

Ríkisbankanum er stjórnað af 8 fulltrúum. Þingið velur sjö fulltrúa. Þeir velja fulltrúa til fimm ára sem jafnframt skal vera ríkisbankastjóra. Þeir fulltrúar sem þingið hefur valið velja sín á milli formann. Hann má ekki gegna öðru starfi eða gegna starfi í stjórn bankans. Ákvæði um val þingsins á fulltrúum, um stjórn ríkisbankans og starfssemi þess að öðru leyti skulu vera ákvæði um í þingskapalögum og öðrum lögum. 

Fulltrúi sem þingið lýsir vantrausti á er þar með leystur frá störfum. Fulltrúar sem þingið hefur valið mega leysa formanninnn frá störfum sem formannn og þann sem er fulltrúi og ríkisbankastjóri frá störfum sínum.

13. gr. Ríkisbankinnn hefur einn vald til að gefa út seðla og mynt. Ákvæði um peninga- og greiðslukerfið eru að öðru leyti sett með lögum.

10. kafli. Samskipti við önnur ríki.

1. gr. Ríkisstjórnin gerir samninga við önnur ríki og alþjóðlegar stofnanir.

2. gr. Ríkisstjórninni er óheimilt nema með samþykki þingsins að binda ríkið alþjóðasamningi ef hann felur í sér breytingar á lögum, brottfall laga eða setningu nýrra laga eða hann að öðru leyti varðar efni sem þingið hefur ákvörðunarvald um.

Ef mælt er fyrir sérstaka málsmeðferð um ákvörðun þingsins um málefni sem heyra undir 1. mgr. skal sami háttur hafður við staðfestingu samningsins.

Ríkisstjórninni er óheimilt í öðrum tilvikum en um getur í 1. mgr. að binda ríkið alþjóðlegum samningi án samþykkis þingsins ef samningurinn hefur mikla þýðingu. Ríkisstjórnin getur þó látið hjá líða að fá staðfestingu þingsins á samningnum ef hagsmunir ríkisins krefjast þess. Í því tilviki skal ríkisstjórnin hafa samráð við utanríkismálanefnd áður en samningurinn er gerður.

3. gr. Ríkisstjórnin getur heimilað yfirvaldi að gera alþjóðlegan samning um málefni sem ekki þarf atbeina þingsins eða utanríkismálanefndar.

4. gr. Ákvæði 1.-3. gr. eiga jafnframt við um alþjóðlegar skuldbindingar sem eru í öðru formi en samningi og um uppsögn alþjóðlegs samnings eða skuldbindingar.

5. gr. Þinginu er heimilt að framselja ákvörðunarrétt til Evrópubandalaganna svo fremi sem þau veita frelsis- og réttindavernd er svari til þess, sem kveðið er á um í stjórnskipunarlögum þessum og í Evrópusamningnum um mannréttindi og mannfrelsi. Þingið tekur ákvörðun um slíkt framsal og þarf til þess samþykki a.m.k. 3/4 hluta þeirra, sem atkvæði greiða. Slík ákvörðun verður einnig tekin með þeim hætti sem gildir um setningu grundvallarlaga.

Í öðrum tilvikum má framselja í takmörkuðum mæli ákvörðunarvald, sem byggist beinlínis á stjórnskipunarlögunum og varðar setningu fyrirmæla, notkun eigna ríkisins eða samþykkt eða uppsögn alþjóðasamnings eða skuldbindinga, til alþjóðlegrar stofnunar vegna friðsamlegrar samvinnu sem ríkið er eða verður aðili að, eða til milliríkjadómstóls. Ekki má með því framselja ákvörðunarvald, sem varðar setningu, breytingu eða brottfall grundvallarlaga, þingskapalaga eða laga um kosningar til þingsins eða takmarkanir á þeim réttindum, sem kveðið er á um í 2. kafla. Að því er varðar ákvarðanir um framsal gildir það sem kveðið er á um setningu grundvallarlaga. Ef ekki er hægt að bíða eftir slíkri skipan, tekur þingið ákvörðun og verður a.m.k. 5/6 hluti þeirra sem greiða atkvæði og a.m.k. 3/4 hluti þingmanna að vera henni samþykkur.

Ef svo er mælt fyrir í lögum, að alþjóðlegur samningur skuli gilda sem sænsk lög, getur þingið á þann hátt sem mælt er fyrir um í 2. mgr. ákveðið að breytingar, sem verða kunna á samningnum, skuli einnig hafa sama gildi. Slík ákvörðun má aðeins ná til afmarkaðra breytinga.

Löggjafarvald eða framkvæmdarvald, sem ekki byggir beinlínis á stjórnskipunarlögunum, getur þingið, í öðrum tilvikum en kveðið er á um í 1. mgr., framselt til annars ríkis, milliríkjastofnunar eða til erlendrar eða alþjóðlegrar stofnunar eða samtaka. Þingið getur einnig heimilað ríkisstjórninni eða öðru stjórnvaldi að taka ákvörðun um slíkt framsal í sérstökum tilvikum. Ef slík heimld felur í sér beitingu valds skulu fyrirmæli þingsins vera háð samþykki a.m.k. 3/4 hluta þeirra þingmanna sem atkvæði greiða. Ákvörðun þingsins um slíkt framsal er einnig unnt að taka með þeim hætti sem gildir um samþykkt grundvallarlaga.

6. gr. Ríkisstjórnin skal jafnan upplýsa utanríkismálanefnd um utanríkismálefni, sem geta haft þýðingu fyrir ríkið, og ráðfæra sig við nefndina um þau svo oft sem þörf krefur. Að því er varðar utanríkismálefni sem hafa mikla þýðingu skal ríkisstjórnin, áður en ákvörðun er tekin, hafa samráð við nefndina, ef mögulegt er. 

7. gr. Í utanríkismálanefnd eiga sæti forseti þingsins og 9 aðrir þingmenn, sem þingið velur. Nánari ákvæði um utanríkismálanefnd skulu sett í þingskapalögum.

Ríkisstjórnin kallar utanríkismálanefnd saman. Ríkisstjórninni er skylt að kalla nefndina saman ef a.m.k. fjórir af þingmönnum nefndarinnar krefjast þess að ákveðið málefni verði rætt. Þjóðhöfðingi eða í forföllum hans forsætisráðherra er í forsæti á fundum nefndarinnar.

Þingmaður, sem sæti á í utanríkismálanefnd, og sá, sem að öðru leyti er tengdur nefndinni, skal sýna varkárni við að veita öðrum upplýsingar um það sem hann hefur komist að í því starfi. Formaður getur kveðið á um skilyrðislausa þagnarskyldu.

8. gr. Ráðherra þess ráðuneytis, sem fjallar um utanríkismálefni, skal upplýstur um málefni, sem kemur upp hjá öðru ráðuneyti og mikilvægt er fyrir samskipti við annað ríki eða milliríkjastofnun.

9. gr. Ríkisstjórnin getur fyrirskipað herstyrk ríkisins eða hluta þess að grípa til vopna til að verjast vopnaðri árás á ríkið. Sænskur her verður aðeins sendur í stríð eða sendur til annars lands 

1. ef þingið hefur veitt samþykki sitt

2. ef það er heimilað í lögum sem kveða á um skilyrði fyrir aðgerðunum

3. ef skylda til að hefja aðgerðir leiðir af alþjóðlegum samningi eða skuldbindingu sem þingið hefur samþykkt.

Ekki er heimilt að lýsa því yfir að ríkið eigi í ófriði án heimildar þingsins nema þegar um er að ræða vopnaða árás á ríkið.

Ríkisstjórnin getur heimilað heryfirvöldum að beita valdi í samræmi við alþjóðlegan rétt og venju til að koma í veg fyrir að yfirráðarsvæði ríkisnis sé skert hvort heldur í friði eða í stríði erlendra ríkja.

11. kafli. Réttarskipan og stjórnsýsla.

1. gr. Hæstiréttur er æðstur almennra dómstóla og stjórnsýsludómstóllinn æðsti stjórnsýsludómstóllinn. Heimilt er að takmarka rétt til að skjóta máli til Hæstaréttar og Stjórnsýsludómstólsins. Í störfum Hæstaréttar og Stjórnsýsludómstólsisn mega aðeins taka þátt þeir menn, sem skipaðir hafa verið reglulegir dómarar í dómstólnum.

Aðrir dómstólar en Hæstiréttur og Stjórnsýsludómstóllinn skulu stofnaðir með lögum. Um bann við stofnun dómstóls í vissum tilvikum eru ákvæði í 2. mgr. 11. gr. 2. kafla.

Fastráðnir dómarar skulu starfa við dómstóla sem um ræðir í 2. gr. Þegar um er að ræða dómstól, sem hefur verið stofnaður til að fara með ákveðinn flokk mála, má í lögum gera undantekningu frá þessu ákvæði.

2. gr. Engir valdhafar, ekki heldur þingið, geta ákveðið hvernig dómstóll skuli dæma í ákveðnu máli eða hvernig dómur skuli beita réttarreglu í ákveðnu tilviki.

3. gr. Öðrum valdhöfum en dómstólum er óheimilt að skera úr réttarágreiningi milli einstaklinga nema samkvæmt lagaheimild. Um úrskurð dómstóla um frelsisskerðingu eru ákvæði í 9. gr. 2. kafla.

4. gr. Um dómgæslustörf dómstóla, um höfuðatriði dómsskipunar og um málsmeðferð skal kveðið í lögum.

5. gr. Einungis er hægt að víkja þeim úr starfi sem skipaður hefur verið almennur dómari

1. ef hann vegna brots eða með grófri eða endurtekinni vanrækslu í starfi hefur reynst augljóslega óhæfur til að gegna því

2. ef hann hefur náð eftirlaunaaldri eða er annars lögum samkvæmt skyldur til að láta af störfum með eftirlaunum.

Ef annar valdhafi en dómstóll hefur vikið dómara úr starfi er honum heimilt að krefjast úrskurðar dómstóls um ákvörðunina. Samsvarandi gildir um þá ákvörðun að útiloka dómara frá þvi að gegna starfi sínu eða að skylda hann til að sæta læknisrannsókn.

Ef þörf krefur af skipulagsástæðum má flytja þann sem skipaður hefur verið reglulegur dómari í aðra sambærilega dómarastöðu.

6. gr. Lagakanslarinn, ríkissaksóknari, stjórnsýslustofnanir ríkisions og lénsstjórnir heyra undir ríkisstjórnina. Önnur stjórnvöld ríkisins heyra undir ríkisstjórnina ef þau heyra ekki undir þingið samkvæmt stjórnskipunarlögum þessum.

Heimilt er að fela sveitarfélögum stjórnsýslustörf.

Heimilt er að fela fyrirtækjum, félögum, samtökum, stofnun eða einstaklingi stjórnsýslustörf. Ef starfið felur í sér beitingu valds skal það gert með lögum.

7. gr. Engir valdhafar, þ.m.t. þingið og sveitarstjórnir, geta fyrirskipað hvaða ákvörðun stjórnvald tekur í einstöku tilviki í málum sem varða beitingu valds gegn einstaklingi eða gegn sveitarfélagi eða í máli, sem varðar beitingu laga.

8. gr. Dómgæslu- og stjórnsýslustörf mega ekki vera í höndum þingsins umfram það sem leiðir af grundvallarlögum og þingskapalögum.

9. gr. Ríkisstjórn, eða valdhafi sem hún hefur tilnefnt, skal tilnefna í embætti við dómstól eða stjórnvald, sem heyrir undir ríkisstjórnina.

Eingöngu skal tekið tillit til hlutlægra þátta, svo sem hæfni og getu við tilnefningu í stöðu hjá ríkinu.

Einungis sænskur ríkisborgari getur gegnt dómarastörfum, embætti sem heyrir beint undir ríkisstjórnina, leyst af hendi störf eða viðfangsefni sem yufirmaður stjórnvalds, sem heyrir beint undir ríkistjórnina eða þingið eða sem nefndarmaður þesskonar yfirvalds eða stjórnar þess, starfi í stjórnarráðinu næst ráðherra eða starfi sem sænskur erindreki. Einnig í öðrum tilvikum getur aðeins sá, sem er sænskur ríkisborgari gegnt starfi eða sinnt verkefni, ef til þess er kosið af þinginu. Að öðru leyti verður aðeins gerð krafa um sænskan ríkisborgararétt til að gegna starfi eða verkefni hjá ríki eða sveitarfélögum með lögum eða skilyrðum, sem sett eru í lögum.

10. gr. Meginreglur um réttarstöðu ríkisstarfsmanna að öðru leyti en mælt er fyrir um í stjórnarskránni skulu settar í lögum.

11. gr. Stjórnsýsludómstóllinn veitir leyfi til endurupptöku máls og undanþágu frá frestskilyrðum, eða að því leyti sem kveðið er á um í lögum af lægra settum stjórnsýsludómstól, þegar um er að ræða mál, sem ríkisstjórnin, stjórnsýsludómstóll eða stjórnvald á fullnaðarúrskurð um. Í öðrum tilvikum veitir Hæstiréttur náðun eða að því leyti sem ekki er kveðið á um það í lögum annar dómstóll, sem ekki er stjórnsýsludómstóll. 

Heimilt er að setja nánari ákvæði um þetta efni í lögum.

12. gr. Ríkisstjórninni er heimilt að veita undanþágu frá reglugerðarákvæðum eða frá ákvæðum sem gefin hafa verið út með stoð í ríkisstjórnarákvörðun ef annað fylgir ekki af lögum eða ákvörðun í fjárhagsáætlun.

13. gr. Ríkisstjórnin getur með náðun gefið eftir eða mildað viðurlög við brotum eða aðrar lögfylgjur brota og gefið eftir eða mildað áþekka skerðingu, sem leitt hefur af ákvörðun yfirvalds og snertir persónu einstaklings eða eignir.

Þegar sérstakar ástæður mæla með því, getur ríkistjórnin fyrirskipað að frekari rannsókn eða saksókn refsiverðs brots skuli hætt.

14. gr. Ef dómstóll eða annar opinber valdhafi telur, að lagaákvæði brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar eða gegn æðri lögum eða að lögskipaðrar málsmeðferðar hafi ekki verið gætt í verulegum atriðum við setningu þeirra er ekki heimilt að beita ákvæðinu. Ef ákvæðið var sett af þinginu eða ríkisstjórninni verður ákvæðinu því aðeins vikið til hliðar að gallinnn sé augljós.

12. kafli Eftirlitsvaldið.

1. gr. Stjórnarskrárnefnd skal hafa eftirlit með störfum ráðherra og meðferð ríkisstjórnarmála. Í því skyni á nefndin rétt á að fá fundargerðir er geyma ákvarðanir í málum ríkisstjórnarinnar og málsgögn til að ná markmiði sínu. Aðrar nefndir og einstakir þingmenn eiga rétt á að leggja skriflegar spurningar fyrir stjórnarskrárnefnd um störf ráðherra eða meðferð ríkisstjórnarmála.

2. gr. Þegar ástæða þykir til, en þó a.m.k. einu sinni á ári er stjórnarskrárnefnd skyldug til að kynna fyrir þinginu hvað nefndin telur ástæðu til að vekja athygli á við eftirlitið. Þingið getur af því tilefni komið athugasemdum á framfæri við þingið.

3. gr. Sá, sem er eða hefur verið ráðherra er því aðeins ábyrgur vegna brots í embætti að hann hafi stórlega vanrækt starfsskyldur sínar. Stjórnarskrárnefnd ákveður hvort hann skuli saksóttur og sætir málið meðferð fyrir Hæstarétti.

4. gr. Þinginu er heimilt að lýsa því yfir, að ráðherra njóti ekki trausts þingsins. Til slíkrar yfirlýsingar, vantraustsyfirlýsingar, þarf samþykki meira en helmings þingmanna.

Tillaga um vantraustsyfirlýsingu skal því aðeins tekin til umræðu að ekki færri en tíundihluti þingmanna bera hana fram. Hún verður ekki tekin til meðferðar á tímabilinu frá almennum kosningum eða frá því að ákvörðun um aukakosningar hefur verið tilkynnt þar til þingið kemur saman. Tillaga sem varðar ráðherra, sem samkvæmt 8. gr. 6. kafla hefur látið af störfum, verður ekki tekin til meðferðar.

Tillaga að vantraustsyfirlýsingu sætir ekki nefndarmeðferð.

5. gr. Þingmanni er rétt samkvæmt því sem ákveðið er í þingsköpum að leggja fram fyrirspurn eða spurningu til ráðherra í málum sem varða störf hans.

6. gr. Þingið kýs einn umboðsmann eða fleiri, sem eiga í samræmi við fyrirmæli þingsins að hafa eftirlit með beitingu laga og reglna í opinberri þjónustu. Umboðsmanni er heimil málshöfðun í þeim tilvikum, sem í fyrirmælunum eru ákveðin.

Umboðsmanni er heimilt að vera viðstaddur umræður dómstóls eða stjórnvalds og skal hafa aðgang að fundargerðum og gögnum viðkomandi valdhafa. Dómstólar, stjórnvöld og starfsmenn ríkis eða sveitarstjórna skulu láta umboðsmann í té þær upplýsingar og skýrslur sem hann krefst. Sú skylda hvílir einnig á öðrum þeim, sem háðir eru eftirliti umboðsmanns. Reglulegur saksóknari skal vera umboðsmanni til aðstoðar, ef þess er óskað.

Nánari ákvæði um umboðsmann er að finna í þingskapalögum.

7. gr. Þingið kýs endurskoðendur meðal þingmanna til að hafa eftirlit með starfsemi ríkisins. Þinginu er heimilt að ákveða að endurskoðunin geti einnig náð til anarrar starfssemi. Þingið setur endurskoðendum fyrirmæli.

Endurskoðendur geta, í samræmi við það, sem ákveðið er í lögum, krafist skjala, upplýsinga og skýrslna í þarfir eftirlitsins.

Nánari ákvæði um endurskoðendur skulu vera í þingskapalögum.

8. gr. Umboðsmaður þingsins eða lagakanslarinn sækja mál fyrir Hæstarétti vegna brots hæstaréttardómara eða dómara við Stjórnsýsludómstólinn í starfi.

Hæstiréttur sker einnig úr því hvort dómari við Hæstarétt eða Stjórnsýsludómstólinn skuli leystur frá störfum sínum eða gangast undir læknisrannsókn. Umboðsmaður þingsins eða lagakanslarinn skulu höfða mál í þessu skyni.

13. kafli Ófriður og ófriðarhætta.

1. gr. Ef stríð er yfirvofandi eða ríkið lendir í ófriði skal ríkisstjórnin eða þingforseti boða til þingfundar. Sá, sem kallar þingið saman, getur ákveðið að það komi saman annars staðar en í Stokkhólmi. 

2. gr. Ef ríkið á í ófriði eða ófriður er yfirvofandi og aðstæður krefjast þess getur stríðsnefnd, sem skipuð er af þinginu, komið í stað þingsins. 

Ef ríkið á í ófriði tilkynna þingmenn, sem eiga setu í utanríkisnefnd, um það samkvæmt nánari ákvæðum þingskapalaga að stríðsnefnd hafi tekið við störfum þingsins. Áður en tilskipun um það er gefin út skal haft samráð við forsætisráðherra ef mögulegt er. Ef þingmenn nefndarinnar geta ekki komið saman vegna ófriðarins gefur ríkisstjórnin út tilskipunina. Ef ófriður er yfirvofandi gefa þingmenn utanríkisnefndar tilskipuninan út í samráði við forsætisráðherra. Krafa er gerð um að forsætisráðherra og sex nefndarmanna séu samþykkir tilskipuninni.

Stríðsnefnd og ríkisstjórn geta í sameiningu eða hvor um sig ákveðið að þingið skuli taka aftur upp störf sín.

Um skipan stríðsnefndar fer samkvæmt ákvæðum þingskapalaga.

3. gr. Þegar stríðsnefnd kemur í stað þings gegnir hún störfum þingsins. Henni er þó ekki heimilt að taka ákvarðanir samkvæmt fyrsta lið, 1. málsgr. 12. gr. eða 2. eða 4. málsgr.

Stríðsnefnd setur sjálf reglur um störf sín.

4. gr. Ef ríkið á í ófriði og ríkisstjórnin getur ekki gegnt hlutverki sínu getur þingið tekið ákvörðun um myndun ríkisstjórnar og um starfshætti hennar.

5. gr. Ef ríkið á í ófriði og hvorki þingið né stríðsnefnd geta sinnt störfum sínum skal ríkisstjórnin gegna þeim að svo miklu leyti sem hún telur nauðsynlegt til að vernda ríkið og binda endi á stríðið.

Ríkisstjórnin getur ekki á grundvelli 1. málsgr. samþykkt, breytt eða fellt úr gildi grundvallarlög, þingskapalög eða lög um kosningar til þingsins.

6. gr. Ef ríkið á í ófriði, ófriður er yfirvofandi eða um er að ræða slíkar óvenjulegar aðstæður tengdar ófriði eða ófriðarhættu, getur ríkisstjórnin með heimild í lögum sett reglur um ákveðið mál sem ella skyldi kveðið um í lögum samkvæmt grundvallarlögum. Ef þörf krefur í öðrum tilvikum og af tilliti til varna ríkisins getur ríkisstjórnin með heimild í lögum gefið út tilskipun um að lagaákvæðum um upptöku eigna eða aðrar slíkar ráðstafanir skuli beitt eða hætt skuli að beita þeim.

Í lögum, sem sett eru með heimild í 1. málsgr., skal nákvæmlega greint með hvaða skilyrðum heimildinni verði beitt. Heimildin felur ekki í sér rétt til að setja, breyta eða fella úr gildi grundvallarlög, þingskapalög eða lög um kosningar til þingsins.

7. gr. Ef ríkið á í ófriði eða ófriður er yfirvofandi skal ekki beita 3. málsgr. 12. gr. 2. kafla. 

8. gr. Ef ríkið á í ófriði eða ófriður er yfirvofandi getur ríkisstjórnin með heimild þingsins ákveðið að starfi, sem samkvæmt grundvallarlögunum er í höndum ríkisstjórnar, skuli gegnt af öðru yfirvaldi. Heimildin má ekki varða vald samkvæmt 5. eða 6. gr. ef ekki er aðeins um að ræða ákvörðun um að byrja skuli að beita lögum um visst efni.

9. gr. Ríkisstjórnin getur samið um vopnahlé án þess að fá samþykki þingsins og án þess að ráðfæra sig við utanríkisnefnd, ef dráttur á samningum fæli í sér hættu fyrir ríkið.

10. gr. Þinginu eða ríksstjórninni er óheimilt að taka ákvarðanir á hernumdu svæði. Á slíku svæði er jafnframt óheimilt að gegna starfi ráðherra eða þingmanns. 

Það hvílir á öllu opinberum stofnunum á hernumdum svæðum að koma fram á þann hátt sem best hentar vörnum ríkisins og andspyrnuhreyfingunni sem og vernd borgara og sænskum hagsmunum að öðru leyti. Á herndumdum svæðum er opinberum yfirvöldum óheimilt að taka ákvarðanir um að hefja aðgerðir, sem knýja ríkisborgara til að veita hernámsyfirvöldum aðstoð, sem þeim er óheimilt að krefjast samkvæmt þjóðarétti.

Þingkosningar eða kosningar til sveitarstjórna sem hafa ákvörðunarvald er óheimilt að halda á hernumdu svæði.

11. gr. Ef ríkið á í ófriði ber þjóðhöfðingja að fylgja ríkisstjórninni. Ef hann er á herteknu svæði eða á öðrum stað en ríkisstjórnin telst hann hindraður í að gegna störfum sínum sem þjóðhöfðingi.

12. gr. Ef ríkið á í ófriði, mega þingkosningar einungis fara fram samkvæmt ákvörðun þingsins. Ef ófriður er yfirvofandi, þegar almennar kosningar skulu haldnar, getur þingið ákveðið að fresta kosningum. Slíka ákvörðun skal endurskoða innan árs og því næst með 1 árs millibili í mesta lagi. Ákvörðun samkvæmt þessari málsgsrein er einungis gild ef a.m.k. 3/4 hlutar þingmanna eru henni samþykkir.

Ef ríkið er hertekið að hluta, þegar kosningar skulu haldnar, ákveður þingið, hvernig ákvæði 3. kafla skuli aðlöguð. Undantekningu má þó ekki gera frá fyrstu málsgrein 1. gr. 2. gr. 1. mgr. 6. gr. og 7.-11. gr. 3. kafla. Það sem segir í 1. mgr. 6. gr. 2. mgr. 7. gr. og 2. mgr. 8. gr. 3. kafla um ríkið skal í stað þess gilda um þann hluta ríkisins þar sem kosningar skulu haldnar. Að minnsta kosti 1/10 hluti allra þingsæta skulu vera jöfnunarþingsæti.

Almennar kosningar, sem samkvæmt 1. mgr. verða ekki haldnar á réttum tíma, skulu haldnar svo fljótt og mögulegt er eftir að ófriði er lokið eða ófriður er ekki lengur yfirvofandi. Það hvílir á ríkisstjórn og þingforseta í sameiningu eða hvoru fyrir sig að sjá til þess að gripið sé til þeirra aðgerða, sem þörf er á.

Hafi almennar kosningar samkvæmt þessum lið verið haldnar á öðrum tíma en þær annars skyldu fara fram, skal þingið ákveða að næstu almennu þingkosningar skuli fara fram í þeim mánuði á fjórða eða fimmta ári eftir fyrrnefndu kosningar þegar almennar kosningar skulu haldnar samvæmt þingskapalögum.

13. Ef ríkið er í ófriði eða ófriður er yfirvofandi eða fyrir hendi eða óvenjulegar aðstæður, sem af ófriði eða ófriðarhættu hefur leitt,fer um ákvörðunarvald sveitarstjórna samkvæmt því sem mælt er fyrir í lögum.


PRENTFRELSISLÖGIN

1.0. Inngangur

Í 1. kafla prentfrelsislaganna eru ákvæði um prentfrelsi. Í prentfrelsi felst réttur sænskra ríkisborgara til þess að gefa út rit, án þess að yfirvald hindri það fyrirfram, að þurfa aðeins að sæta því, að verða síðar saksóttir fyrir löglegum dómstóli fyrir efni þeirra, enda verði þeim því aðeins refsað, að efni brjóti gegn skýrum lagaákvæðum sem sett hafa verið til að varðveita allsherjarreglu, án þess að hindra aðgang almennings að upplýsingum.

2.0. Réttur til að prenta, gefa út og dreifa efni.

Í 4. - 6. kafla prentfrelsislaganna eru ákvæði um prentun, útgáfu og dreifingu efnis. Sænskum ríkisborgurum er samkvæmt 4. kafla heimilt sjálfum eða með aðstoð annarra að prenta efni með prentvél og öðrum hætti. Samkvæmt prentfrelsislögunum nýtur stjórnarskrárverndar réttur manns til að stofna og starfrækja prentstofur og til annarrar slíkrar starfssemi, sem er nauðsynleg fyrir útgáfu og dreifingu prentaðs efnis, svo sem rekstur útgáfufyrirtækis og bókaverslunar. 

Um útgáfu tímarita er fjallað í 5. kafla laganna. Eigendur tímarita skulu vera sænskir ríkisborgarar eða sænskar lögpersónur, en heimilt er að kveða á í lögum, að útlendingur, eða erlend lögpersóna, geti einnig verið útgefandi, sbr. 1. gr. §tgefandi skal vera að tímariti og eigandi tímarits skal velja hann. Ítarlegar reglur eru í kaflanum um útgefendur og útgáfuleyfi.

Samkvæmt 6. kafla er hverjum sænskum ríkisborgara, eða sænskri lögpersónu heimilt að selja prentað mál og dreifa því með öðrum hætti, sbr. 1. gr. Undantekingar eru gerðar um einstök tilvik, sem kveðið skal um í lögum, sbr. 2. gr. Samkvæmt 4. gr. er meginreglan sú, að óheimilt er að takmarka eða setja skilyrði fyrir dreifingu prentaðs efnis með pósti eða opinberum boðbera á grundvelli efnis þess.

3.0. Aðgangur að opinberum skjölum.

Samkvæmt 2. kafla prentfrelsislaganna eiga sænskir ríkisborgarar frjálsan aðgang að opinberum skjölum. Er tilgangur þess sá að stuðla að frjálsum skoðanaskiptum og upplýsa almenning. Af reglunni leiðir að aðila máls er frjálst að rannsaka ritað efni, sem liggur til grundvallar meðferð yfirvalds. Honum er einnig rétt að fá aðgang að skjölum í öðrum svipuðum málum sem gera honum kleift að mynda sér skoðun á framkvæmd yfirvaldsins. Fjölmiðlar hafa einnig aðgang að og mega kanna skjöl opinberra yfirvalda. Vitneskjan um að skjöl og skýrslur eru aðgengilegar öllum er talið auka varkárni yfirvalda og draga úr hættu á geðþóttaákvörðunum. Margar undantekningar eru frá þessari meginreglu, m.a. til að vernda þjóðaröryggi sem og persónuleg og fjárhagsleg mál einstaklinga. 

Umræddur réttur verður aðeins takmarkaður í lögum af nánar tilgreindum ástæðum, svo sem af tilliti til öryggis ríkisins, vegna hagsmuna af því að hindra afbrot eða koma fram viðurlögum við þeim, til verndar friðhelgi eða efnahags einstaklinga eða til að varðveita dýra- eða jurtategundir, sbr. 2. gr. Kaflinn hefur einnig að geyma skilgreiningu á því, hvað teljist opinber skjöl og ákvæði um afgreiðslu þeirra hjá viðkomandi stjórnvaldi. Ef yfirvald hafnar beiðni um afhendingu opinbers skjals eða fyrirvari er gerður um notkun þess, er umsækjanda heimilt að áfrýja ákvörðuninni. Áfrýja skal ákvörðun, sem ráðherra hefur tekið, til ríkisstjórnarinnar en ákvörðunum annarra yfirvalda til dómstóls.

4.0. Réttur til nafnleyndar.

Ákvæði um nafnleynd eru í 3. kafla prentfrelsislaganna. Höfundi prentaðs efnis verður ekki gert skylt að gefa upp nafn sitt, höfundarnafn eða setja undirskrift sína undir prentað efni. Samsvarandi á við um þann, sem veitt hefur upplýsingar og um útgefanda prentaðs efnis, sem ekki er tímarit, sbr. 1. gr. ¦heimilt er í máli út af broti á prentfrelsi að fjalla um hverjir þeir séu, sbr. 2. gr. Nafnleynd er einnig vernduð af ákvæðum um þagnarskyldu þeirra sem þátt hafa tekið í framleiðslu prentaðs efnis og þeirra sem starfa hjá útgáfufyrirtækjum eða fréttastofum og fengið hafa vitneskju um það hver sé höfundur eða hafi veitt upplýsingar, sbr. 3. gr. Þagnarskyldan fellur niður í ákveðnum tilvikum.

5.0. Brot á prentfrelsi.

Í 7. kafla prentfrelsislaganna er fjallað um brot á prentfrelsi. Prentfrelsi takmarkast af þeim ákvæðum prentfrelsislaganna, sem er ætlað að vernda rétt einstaklinga og hagsmuni almennings. Lögin banna yfirvöldum ritskoðun efnis, sem ætlað er til prentunar og útgáfu. Ákvæði 4.-5. gr. 7. kafla telja upp þá verknaði sem teljast brot á prentfrelsi. Verknaðurinn verður að vera framinn í prentuðu efni og vera refsiverður samkvæmt lögum. Hann verður því að vera refsiverður bæði samkvæmt prentfrelsislögum og öðrum lögum, sem í raun eru hegningarlögin.

5.0. Eftirlit, ákæra og sérstök þvingunarúrræði.

Ákvæði 9. kafla fjalla um eftirlit og ákæru og 10. kafli um sérstök þvingunarúrræði vegna brota á prentfrelsi.

Lagakanslarinn skal hafa eftirlit með því að ekki sé farið út fyrir mörk prentfrelsisins og hann getur einn ákært í málum sem varða brot gegn prentfrelsi. Aðeins lagakanslarinn og þar til bær dómstóll geta samþykkt þvingunaraðgerðir vegna gruns um slíkt brot nema annað sé heimilað í prentfrelsislögunum, sbr. 1. og 2. gr. 9. kafla. Samkvæmt 3. gr. rennur út réttur til að höfða refsimál vegna brots á prentfrelsi, ef mál hefur ekki verið höfðað innan sex mánaða frá útgáfudegi, þegar um er að ræða tímarit eða innan árs frá útgáfudegi þegar um er að ræða annað prentað efni.

Heimilt er að gera upptækt prentað efni sem brýtur gegn prentfrelsinu, sbr. 7. gr. 7. kafla. Ef ástæða er til að ætla, að prentað efni verði gert upptækt í tengslum við brot gegn prentfrelsi, er heimilt að leggja hald á útgáfuna á meðan beðið er eftir niðurstöðu, sbr. 1. gr. 10. kafla. Lagakanslari tekur ákvörðun um hald á efni en framselja má vald þetta til saksóknara, en eingöngu með heimild í lögum, sbr. 2. gr. 10. kafla. Mál skal höfðað innan tveggja vikna frá skipun um hald, sbr. 4. gr. 10. kafla. 

6.0. Skaðabætur

Í 11. kafla er fjallað um skaðabætur vegna prentfrelsisbrota. Skaðabótakrafa vegna brots á prentfrelsi verður því aðeins gerð að prentað efni, sem krafan vísar til, feli í sér brot á prentfrelsi. Meginreglan er sú að einungis sé heimilt að gera slíka kröfu á hendur einstaklingi, sem ber ábyrgð á slíku broti samkvæmt refsilögum í samræmi við skilyrði 8. kafla, sbr. 1. gr. 11. kafla. 

Í 8. kafla eru ákvæði um ábyrgð á prentfrelsisbrotum. Ákveðinn einstakligur skal bera ábyrgð á efni prentaðs máls, útgefandi þegar um er að ræða fréttablað eða tímarit, sbr. 1. gr. og höfundur þegar um er að ræða annað efni, sbr. 5. gr.
Í undantekningartilvikum getur eigandi, sá sem prentað hefur efnið eða dreifandi orðið ábyrgur, sbr. 3.-4. gr. og 6.-8. gr.

Skaðabótakröfu vegna brots á prentfrelsi verður borin fram, jafnvel þó refsiábyrgð sé fyrnd eða málshöfðun samkvæmt refsilögum útilokuð, sbr. 5. gr. 11. kafla.

7.0. Málsmeðferð

Ákvæði 12. kafla fjalla um málsmeðferð í málum sem varða prentfrelsi. Mál um brot á prentfrelsi eru m.a. mál sem varða einkaréttarlega og refsiréttarlega ábyrgð, sbr. 1. gr. 12. kafla.

Þeir sem eru saksóttir vegna brots á prentfrelsi, geta krafist þess að málið sé dæmt af kviðdómi, sbr. 2. gr. 12. kafla. Það felur í sér að kviðdómur leysir úr því á fyrsta dómstigi hvort brot hafi verið framið, nema báðir aðilar lýsi sig fúsa til að vísa málinu til dóms án kviðdóms. Mál út af prentfrelsi og tjáningarfrelsi eru einu málin, þar sem leikmenn fjalla um og ákveða, hvort verknaður sé refsiverður, án þess að reglulegur dómari sé í forsæti. Ítarlegur reglur um kviðdómendur er að finna í 12. kafla.

8.0. Efni, sem prentað er erlendis. 

Ákvæði 13. kafla eiga við um efni, sem prentað er erlendis. Prentfrelsislögunum verður að meginstefnu til beitt um efni sem prentað er erlendis, sbr. 1. gr. Rit, sem prentað er erlendis, telst útgefið í Svíþjóð, þegar það hefur verið afhent til dreifingar innan ríkisins. §tgefandi skal einnig vera að efni sem prentað er erlendis. 



GRUNDVALLARLÖG UM TJÁNINGARFRELSI

1.0. Inngangur.

Þann 1. janúar 1992 gengu í gildi ný grundvallarlög, grundvallarlög um tjáningarfrelsi. Ákvæði til fyllingar grundvallarlögunum eru í öðrum lögum og reglugerðum. Markmiðið með tjáningarfrelsislögunum er að veita tjáningarfrelsi og rétti til að miðla upplýsingum skýrari stjórnarskrárvernd að því er varðar nýja tjáningarmiðla. Hugsunun er sú m.a. að þessum miðlum verði beitt við fréttaflutning og til að hafa áhrif á skoðanamyndun með sömu skilyrðum og á við um prentað efni. 

2.0. Miðlar, sem njóta verndar laganna.

Tjáningarfrelsislögin ná til hljóðvarps, sjónvarps og í tiltekinna annarra nýtísku rafeindamiðla, kvikmynda og myndbanda sem og hljóðupptaka (á böndum og plötum), sbr. 1. gr. 1. kafla. Takmarkanir á þessu tjáningarfrelsi verða einungis gerðar með heimild í grundvallarlögunum. Annar tjáningarháttur svo sem leiksýningar og sýningar njóta ekki verndar tjáningarfrelsislaganna. 

2.1. Hljóðvarp og sjónvarp.

Lögin ná til hljóðvarpssendinga og sjónvarpssendinga sem sendar eru þráðlaust eða um þráð eða kapal. Sendingar um þráð má framsenda þráðlaust t.d. um loftnetsmiðstöð. Sendingar eftir þræði má einnig senda eftir víðfeðmara þráðneti (kapalneti) sem hefur sameiginlegt loftnet til móttöku hljóðvarpsmerkja. Jafnframt eru til kapalnet sem eingöngu eru notaðar til sendinga um þráð. 

Ákveðnum ákvæðum grundvallarlaganna verður ekki beitt um beinar útsendingar frá daglegum viðburðum, guðþjónustum eða opinberum athöfnum, sem ekki eru skipulagðar af þeim, sem stjórnar útsendingarstarfsseminni. 

Sérreglur gilda um ákveðnar sendingar til og frá útlöndum. Sendingar sem koma frá sendi í Svíþjóð falla yfirleitt undir lögin. Þetta gildir hvort sem útsendingin fer í gegnum gervihnött eða ekki. Ef útsendingin er aðallega ætluð til móttöku erlendis er heimilt að gera undantekningu frá grundvallarlögunum í venjulegum lögum. Þegar um er að ræða útsendingar frá útlöndum til Svíþjóðar verður tilteknum ákvæðum laganna einungis beitt ef útsendingu er dreift áfram viðstöðulaust og óbreyttri. Slíkar sendingar eru t.d. verndaðar gegn ritskoðun og gegn banni við frekari dreifingu þeirra. Ef endursendingin er ekki viðstöðulaus og óbreytt gilda sömu ákvæði og um aðrar sendingar innan Svíþjóðar.

2.2. Videotex.(?)

Tæknin við yfirfærslu texta tölvuskráðra upplýsinga og annarra grafískra upplýsinga um sérstakar leiðslur eða hið almenna símnet til tölvumiðstöðva eða sjónvarpstækja er kallað videotex (?). Stundum er hugtakið teledata(?) notað. Videotex fellur undir lögin ef móttakandi þess getur ekki haft áhrif á efni þess sem sent er út. Tjáningarfrelsislögunum verður jafnframt beitt um textavarp og símabréf sem send eru til almennings.

2.3. Kvikmyndir, myndbönd o.fl.

Lögin ná til kvikmynda, myndbanda og annarrar upptöku hreyfimynda , t.d. á geisladiskum með hreyfimyndum. Það sem gildir um slíkar myndaupptökur nær einnig til þess hljóðs, kann að fylgja myndunum.

2.4. Hljóðupptökur.

Tjáningar- og upplýsingafrelsi nýtur verndar að því er varðar hljóðupptökur á bandi, hefðbundnar hljómplötur og hljóðgeisladiska.

3.0. Ákvæði um vernd móttöku og sendinga o.fl.

3.1. Rétturinn til að hafa undir höndum tæknilegan búnað.

Án heimildar í lögunum er ekki hægt að banna neinum að hafa undir höndum hljóðvarps- og sjónvarpstæki, segulbönd eða þess háttar tæknibúnað á grundvelli efnis útvarpssendingar, kvikmyndar eða hljóðupptöku, sbr. 3. gr. 1. kafla. Þar sem ákvæðið tekur mið af efni sendingarinnar, er mögulegt t.d. af skipulags- eða öryggissjónarmiðum að banna eða takmarka notkun eða umráð slíks búnaðar t.d. á refsigæslustofnunum. Lögin útiloka heldur ekki, að einhverjum sé bannað, af menningarverndarsjónarmiðum að setja t.d. upp móttökudisk, í viðkvæmu byggingarumhverfi.

3.2. Rétturinn til útsendingar.

Tjáningarfrelsislögin fela í sér að allir eigi rétt að senda um þráð, þ.e.a.s. það ræður að meginstefnu til frelsi til uppsetningar, sbr. 1. gr. 3.kafla. Það er hins vegar hægt í lögum að setja ákveðna tegund skilyrða fyrir rétti til útsendingar. 
Heimilt er að kveða á um undantekningar frá grundvallarlögunum þegar um er að ræða útsendingar sem ekki er beint til alls almennings, t.d. um þráðnet á hóteli eða í minni íbúðarsvæðum, sbr. 6. gr. 1. kafla.

Til þess að senda þráðlaust er mönnum nauðsynlegt að hafa aðgang að útvarpsbylgju. Fjöldi þeirra er takmarkaður og þeim er deilt á milli landa. Því er ekki til neitt stjórnarskrárvarið frelsi að setja upp slíka starfssemi fyrir útsendingar. Heimilt er í lögum að setja ákvæði um leyfi og um skilyrði slíkra sendinga, sbr. 2. gr. 3. kafla.

3.3. Ritskoðun o.fl.

Samkvæmt tjáningarfrelsislögunum er ritskoðun bönnuð að því er varðar allar tegundir hljóðvarps, sjónvarps og áþekkra miðla, sbr. 3. gr. 1. kafla. Einnig er óheimilt að ritskoða hljóðupptökur.

Að því er varðar kvikmyndir og myndbönd er heimilt að setja ákvæði í lög um rannsókn og viðurkenningu á þeim til opinberrar sýningar.

Ritskoðun er óheimil að því er tekur til kvikmynda og myndbanda, sem ekki eru ætlaðar til opinberrar sýningar, en samt er dreift til almennings með sýningu, útleigu, sölu eða afhendingu á annan hátt. Hinsvegar er mögulegt samkvæmt grundvallarlögunum að banna og refsa fyrir frekari dreifingu kvikmynda og myndbanda sem hafa til dæmis að geyma ofbeldi eða klám, sbr. 11.-12. gr. 3. kafli.

Auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi er hægt að banna með ákvæðum almennra laga, sbr. 12. gr. 1. kafla. Sama gildir um fjárstuðning til slíkra sendinga.

3.4. Réttur til að bera mál undir dómstól

Spurningar um rétt til útvarpssendinga skal vera hægt að bera undir dómstól eða nefnd sem skipuð er samkvæmt ákvæðum laga og formaður hennar skal vera eða hafa verið reglulegur dómari, sbr. 5. gr. 3. kafla. Þessi réttur nær til allra sendinga hvort sem er þráðlausra eða um þráð.

Ef mál fjallar um misnotkun á tjáningarfrelsi skal málið sæta meðferð fyrir kviðdómi. Ákvæði um kviðdóm eru í 9. kafla.

4.0. Frelsi til að miðla upplýsingum og heimildarvernd.

Í frelsi til að miðla upplýsingum felst réttur til að afla upplýsinga um hvaða efni sem er og miðla þeim í þeim tilgangi að birta það í einhverjum þeim miðli, sem lögin taka til. Frelsi til að miðla upplýsingum er ekki fortakslaust. Til eru undantekningar, sem fela í sér að þeir, sem útvega eða gefa upplýsingar, geta verið dregnir til ábyrgðar fyrir brot. 

Heimildarleynd felur í sér réttinn til nafnleyndar. Höfundur útvarpssendingar eða annarrar sendingar, sem nýtur verndar grundvallarlaganna, er ekki skyldugur til að gefa upp nafn sitt. Sú skylda hvílir ekki heldur á þeim, sem komið hefur fram í slíkri útsendingu, sbr. 1. gr. 2. kafla. Ef þessir einstaklingar kjósa að koma fram, án þess að gefa upp nafn sitt eða láta koma fram með öðrum hætti hverjir þeir eru, er í máli út af broti á tjáningarfrelsi óheimilt að fjalla um hverjir þeir séu. Nafnleynd er einnig vernduð af ákvæðum um þagnarskyldu þeirra sem hafa séð um samningu eða dreifingu verndaðrar sendingar og þeirra sem á grundvelli þess að þeir vinna hjá fréttastofu hafa fengið vitneskju um hver höfundur sé eða hver hafi gefið upplýsingar í því skyni að þær yrðu birtar, eða þess sem hefur komið fram. Þagnarskyldan fellur niður í ákveðnum tilvikum, sbr. 3. gr. 2. kafla.

Grundvallarlögin banna einnig að yfirvöld kanni hver hafi veitt upplýsingar, sé höfundur eða hafi afhent efni til birtingar í útvarpsdagskrá, kvikmynd eða hljóðupptöku, sbr. 4. gr. 2. kafla. Slík rannsókn er þó leyfð í ákveðnum tilvikum, t.d. þegar einstaklingur er ákærður samkvæmt undantekningarákvæði. Ákvæði eru um refsingu þess sem brýtur gegn ákvæðum um nafnleynd, sbr. 5. gr. 2. kafla. 

5.0. Brot á tjáningarfrelsi.

5.1. Tjáningarfrelsisbrot.

Sá, sem misnotar tjáningarfrelsið með einhverjum þeim tjáningarhætti, sem verndar nýtur, þ.e.a.s. hljóðvarpi, sjónvarpi, kvikmynd, myndbandi eða hljóðupptöku, má dæma fyrir tjáningarfrelsisbrot. Til þess að misnotkun á tjáningarfrelsinu verði talið tjáningarfrelsisbrot er þess krafist að verknaðurinn sé refsiverður bæði samkvæmt grundvallarlögunum um tjáningarfrelsi og samkvæmt öðrum lögum (í raun hegningarlögunum). Sama gildir því um tjáningarfrelsislögin og prentfrelsislögin, þ.e.a.s. ábyrgð á tjáningarfrelsisbroti krefst tvöfalds brots. Ákvæði 1. gr. 5. kafla tilgreinir hvaða verknaðir geti talist tjáningarfrelsisbrot. 

Ákæra vegna tjáningarfrelsisbrots skal lögð fram innan sex mánaða frá útsendingu útvarpsdagskrár og samkvæmt meginreglunni í síðasta lagi einu ári eftir að kvikmynd eða hljóðupptaka var afhent til dreifingar. Um tiltekin brot gilda sérstakir frestir. 

5.2. Viðurlög o.fl.

Að því er varðar viðurlög vegna brota á tjáningarfrelsi vísa grundvallarlögin til fyrirmæla í lögum um brotið, sbr. 4. gr. 5. kafla. Tilvísunin felur í sér, að ákvæði hegningarlaganna um viðurlög við broti skuli beitt um brot á tjáningarfrelsi. Sá, sem dæmdur er fyrir tjáningarfrelsisbrot, getur því verið dæmdur til ýmissa refsinga, sem taldar eru í hegningarlögunum, svo sem sekta, skilorðsbundins dóms, fangelsis o.fl.

Ef einhver er dæmdur fyrir rógburð getur dómstóllinn ákveðið, ef brotið hefur verið framið í útvarpssendingu, að dómurinn skuli birtur að hluta eða í heild í útvarpssendingu á vegum sömu útsendingarstöðvar.

5.3. Ábyrgð

§t frá því er gengið í þessum grundvallarlögum, að til sé útgefandi að hljóðvarpsdagskrá, sjónvarpsdagskrá eða kvikmynd, sem einn beri ábyrgð á því sem er birt, sbr. 1. gr. 4. kafla. §tgefandi á rétt á að velja einn eða fleiri staðgengla, sbr. 5. gr. 4. kafla. Ef staðgengill hefur verið valinn og gegnir starfi í stað útgefanda er hann ábyrgur í stað útgefanda. Þegar um er að ræaða hljóðupptökur er hægt að útnefna útgefanda og í því tilviki er hann ábyrgur, sbr. 7. gr. 4. kafla. Ef útgefandi hefur ekki verið valin fyrir hljóðupptöku er það samkvæmt meginreglunni höfundur og/eða sá sem kemur fram í miðlinum, t.d. söngvari eða lesari, sem ber ábyrgð, sbr. 3. - 5. gr. 6. kafla.

Einsmannsábyrgðin felur í sér, að aðrir, sem hafa aðstoðað við samningu útsendingarinnar verða að meginstefnu til ekki gerðir ábyrgir. 

Höfundur er ekki alltaf laus við ábyrgð jafnvel þó að útgefandi sé að sendingunni. Ekki heldur sá, sem rekur starfssemina, sá, sem kemur fram í útsendingu, eða sá, sem dreifir kvikmynd. Ef í trássi við grundvallarlögin hefur ekki verið tilnefndur útgefandi hljóðvarps- eða sjónvarpsdagskrár eða kvikmyndar ber sá ábyrgð, sem sendir út dagskrána eða sem hefur látið framleiða hana ábyrgur. Í einstökum tilvikum getur einnig sá, sem dreifir kvikmynd eða hljóðupptöku orðið ábyrgur.

Ef útgefandi hefur verið tilnefndur en ekki verið tilkynnt um það eða gefið upp samkvæmt því sem nánar er kveðið á í lögum, getur sá, sem tilnefnt hefur útgefandann, orðið ábyrgur í staðinn, sbr. 2. gr. 6. kafla.

§tgefandi sem samkvæmt grundvallarlögunum ber ábyrgð á efni sendingar er einum heimilt að ákveða, hvað kemur fram í henni. Hann verður talinn hafa vitneskju um efnið og hafa samþykkt að sendingin verði gerð opinber, sbr. 7. gr. 6. kafla. 

6.0. Eftirlit, ákæra og sérstök þvingunarúrræði.

6.1. Eftirlit lagakanslarans o.fl.

Með sama hætti og gildir samkvæmt prentfrelsislögunum hefur lagakanslarinn efitrlit með því að takmörk tjáningarfrelsisins samkvæmt grundvallarlögunum séu virt. Hann getur einn ákært í málum út af tjáningarfrelsisbrotum. Jafnframt eru ákvæði í lögunum um rannsókn §tvarpsnefndarinnar á þráðlausum útvarpssendingum, sbr. 4. gr. 7. kafla. 

6.2. Skylda til varðveislu

Hægt er að kveða á í lögum um skyldu til að varðveita og hafa til reiðu upptökur af útsendum hljóðupptökum og eintök af kvikmyndum, myndböndum og hljóðupptökum, sbr. 6. og 9. gr. 3. kafla. 

6.3. Sérstök þvingunarúrræði.

Ef kvikmynd, myndband eða hljóðupptaka hefur að geyma efni, sem brýtur gegn tjáningarfrelsi, er heimilt að gera það upptækt. Öll eintök, sem ætluð eru til dreifingar skulu þá eyðilögð. Þá skal sjá til að tæki, sem ætluð er til að framleiða fleiri eintök, verði ekki notuð í þeim tilgangi, sbr. 6. gr. 5. kafla. Hægt er að bera undir dómstól ákvarðanir um upptöku. Lögin hafa jafnframt að geyma ákvæði um hald muna til að tryggja uppöku þeirra. Lagakanslarinn skal taka ákvörðun um hald muna. 

7.0. Skaðabætur.

Sá, sem samkvæmt ákvæðum 6. kafla ber refsiábyrgð á broti ber jafnframt skaðabótaábyrgð. Einnig er heimilt að krefjast skaðabóta úr höndum þess, sem rekur starfssemina, eða af þeim, sem hefur látið framleiða kvikmyndina eða hljóðupptökuna, sbr. 2. gr. 8. kafla.

Eingungis er hægt að dæma skaðabætur, ef dómstóllinn telur að brot á tjáningarfrelsi hafi verið framið, sbr. 1. gr. 8. kafla.

8.0. Málsmeðferð.

Með máli út af broti á tjáningarfrelsi er bæði átt við refsimál og skaðabótamál. Til slíks brots teljast einnig mál, sem höfðuð er til refsingar og heimtu skaðabóta á hendur þeim, sem hefur útvegað eða látið upplýsingar í té.

Með mál út af tjáningarfrelsi er farið á sama hátt og mál út af prentfrelsi, sbr. 1. gr. 9. kafla. Þetta felur í sér að kviðdómur á að skera úr því hvort brot hafi verið framið. 

9.0. Erlendar kvikmyndir, myndbönd og hljóðupptökur.

Tjáningarfrelsislögunum verður að meginstefnu til beitt um kvikmyndir, myndbönd og hljóðupptökur, sem framleiddar eru erlendis, en eru seldar eða á annan hátt afhentar til dreifingar í Svíþjóð. §tgefandi á einnig að vera fyrir hendi í þessum tilvikum. Gagnstætt því, sem gildir um upptökur, sem framleiddar eru í Svíþjóð, er það sá aðili, sem afhendir kvikmyndir til dreifingar, sem skal gæta þess að útgefandi sé að myndinni, sbr. 1. gr. 10. kafla.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Grétar Eiríksson
Grétar Eiríksson
Hér er ætlunin að koma fram óhlutdrægnum upplýsingum fyrir Almenning, til fræðslu vegna Stjórnlagaþings okkar, birtingar á öðrum stjórnarskrám, ritgerðum, skýslum, Lögum og öðru efni er auðvelda Almenningi að velja Frambjóðendur eða ákveða framboðs til Stjórnlagaþings,  með upplýstum hætti án þess að Frambjóðendur verði hér kynntir, sem sagt fyrst og fremst að reyna að safna og miðla sem mestum upplýsingum varðandi ferli Stjórnarskrágerðar okkar, svo Almennur landsmaður geti verið sem allra upplýstastur um tilgang, markmið, mikilvægi Stjórnarskrár okkar og vonandi að auka Lýræðisvitund Landsmanna

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband