Loksins komist á lýðræði – Stórmerk ræða Mikaels M. Karlssonar á málþingi um stjórnlagaþing

Loksins komist á lýðræði – Stórmerk ræða Mikaels M. Karlssonar á málþingi um stjórnlagaþing 

(Erindi flutt á Málþingi um Stjórnlagaþing að Skálholti 3 okt 2010. Mikael M. Karlsson er fæddur árið 1943 í New York og bjó í Bandaríkjunum til ársins 1973. Hann lauk meistaraprófi í heimspeki frá Brandeis-háskóla í Massachusetts árið 1970 og doktorsprófi frá sama skóla árið 1973.)

áður birt á http://www.svipan.is/?p=13345

Loksins komist á lýðræði – Mikael M. Karlsson

Það sem ég mun reyna að koma á framfæri á stuttum tíma er ekkert nýtt eða frumlegt, en ég held að það sé tímabært. Þess vegna er mér sönn ánægja að taka þátt í þessari ráðstefnu í dag.

Sagan segir að Ghandi hafi verið spurður um hvað honum fyndist um vestræna siðmenningu og að hann hafi svarað að slíkt gæti verið ágætis hugmynd. Hið sama mætti segja um lýðræðið – lýðræðið þar sem lýðurinn ræður í einhverjum verulegum skilningi – stjórn fólksins, af fólkinu og fyrir fólkið, svo ég vitni í Abraham Lincoln.

Margir álíta að við búum þegar við lýðræði. Við kjósum okkar fulltrúa í opnum kosningum. Þeir setja sig inn í málefni þjóðarinnar, ræða þessi mál á þinginu og taka síðan yfirvegaðar ákvarðanir samkvæmt eigin málefnalegri sannfæringu og samvisku. Væri það svo væri e.t.v. hægt að tala um lýðræði, en því miður er hvert einasta atriði í þessari fantasíu rangt. Í fyrsta lagi kjósum við ekki eigin fulltrúa í opnum kosningum. Flokkarnir teikna up lista sem við kjósum eftir. Síðan er þinginu skipt í stjórnarflokka og stjórnarandstöðu, sem í raun virkar þannig að stjórnarandstaðan hefur næstum ekkert að segja. Maður hefur enga raunverulega fulltrúa er sitja á þingi nema hann hafi kosið lista einhvers stjórnarflokks, og hvaða flokkar eru í stjórn er háð pólitískum hrossakaupum sem eru ekki nema lauslega tengd kosninganiðurstöðum. Kosningarnar sjálfar byggjast á flokksstýrðum málskrúðsleikritum sem þjóna tilraunum atvinnupólitíkusa til að halda völdum eða komast til valda fremur en á viðleitni til að velta hagsmunum þjóðarinnar málefnalega fyrir sér. Reyndar er málefnaleg umræða að mestu leyti útilokuð, því hvað svo sem menn segja verður túlkað sem flokkspólitísk mælskubrögð. Á þinginu eru menn ekki að hugsa málefnalega um vilja kjósenda eða hag þjóðarinnar heldur um það hvernig þeir geti sjálfir komist áfram í sinni atvinnugrein, nefnilega pólitík, og eru stjórnmálaflokkarnir tæki stjórnmálamanna til þess. Flokkarnir eru fyrst og fremst hagsmunasamtök atvinnupólitíkusa og fyrirgreiðslumaskínur – og þar með leikvellir anddyrishnyppa (lobbíista), sem hafa mun meiri áhrif á framvindu mála en kjósendur.

Slíkt vil ég ekki kalla lýðræði. Það sem ég tel vera mikilvægast eru hugmyndir mínar um markmið stjórnskipunarbreytinga.

Væri einhver tiltekinn maður lýðræðislegur fulltrúi minn – hvort sem ég hefði kosið hann eður ei –væri hann ábyrgur gagnvart mér með þeim hætti að gera sitt besta til að gæta hagsmuna minna og okkar allra og að fræða mig kerfisbundið á hvaða forsendum og með hvaða rökum hann hefur greitt atkvæði á þinginu, a.m.k. í vegamiklum málum, og þannig gæti hann sannfært mig um að hann hafi tekið yfirvegaða ákvörðun samkvæmt eigin samvisku (þótt ég væri eftir sem áður ekki endilega sammála honum).

En við vitum öll að sú er ekki raunin. Raunin er sú að þingmenn greiða atkvæði eins og flokkurinn (þ.e.a.s. flokksstjórn) ákveður, með örfáum undantekningum. Og flokkurinn hugsar ævinlega um næstu kosningar, ekki um hag þjóðarinnar. Landsmenn hafa lengi látið plata sig og trúað því að eitthvað annað en pólitískt leikrit væri í gangi – og þeir hafa jafnvel tekið virkan þátt í þessari vitleysu, ímyndað sér að þeir væru að styðja mikilvægar hugsjónir og gildi, skemmt sér yfir kosningavökum og grætt á fyrirgreiðslukerfinu; ég held að eins og málum er háttað nú hafi flestir séð í gegnum þetta, misst alla trú á flokkspólitik og skilið að þjóðin hefur verið höfð að fífli. Allavega vona ég það, því ef svo er þá er a.m.k. fræðilegur möguleiki fyrir hendi að hún rísi upp og losni við þetta böl sem flokkspólitíkin er. Þá verður e.t.v. möguleiki á lýðræði. En hvernig þá?

Að mínum dómi er tvennt sem þarf til að koma raunverulegu lýðræði í kring – í fyrsta lagi grundvallarbreytingar á stjórnskipan ríkisins og í öðru lagi gjörbreytta pólitíska menningu. Ég held að menningin geti í raun ekki breyst sem skyldi nema stjórnskipanin breytist. Breytingar á stjórnskipan myndu vera til þess að:

1. gera stjórnarskrána að stjórnarskrá fólksins

2. binda enda á atvinnupólitík

3. tryggja ótruflaðar kosningar

4. binda enda á fyrirgreiðslupólitík og anddyrishnyppingu (lobbíisma)

5. tryggja sjálfstæði, hæfi og getu dómstóla, eftirlitsaðila og annarra stofnana sem nauðsynlegar eru til að viðhalda lýðræði.

Stjórnarskráin (stjórnskipan) er grundvöllur stjórnmála og þyrfti hún að vera samþykkt af yfirgnæfandi meirihluta fólks til þess að vera lýðræðisleg. Sama gildir um allar stjórnarskrárbreytingar og um alla samninga og sáttmála er varða fullveldi landsins og stöðu þess sem sjálfstæðs lýðveldis. Einnig er nauðsynlegt að tryggja nægilega ítarlega og málefnalega þjóðarumræðu um öll slík mál. Koma þarf í veg fyrir að slík umræða stjórnist af, eða verði fyrir óviðeigandi áhrifum, sitjandi stjórnmálamanna, anddyrishnyppa, auglýsingaherferða, skoðanakannana eða utanaðkomandi aðila. Hér má nefna til dæmis að Evrópusambandið ver 2,4 milljörðum evra á ári í að reka áróður fyrir Evrópu; og það er meira að segja áróðurstofnun innan veggja Háskóla Íslands sem lifir á þessum evrópsku peningum og hvetur til „umræðu“ um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Með því að nefna þetta dæmi er ég ekki að tala á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu heldur að leggja áherslu á það að ákvarðanataka um aðild (eða um viðræður um aðild) liggur hjá þjóðinni sem þarf að fá tækifæri til að ganga í gegnum ítarlega, langa og málefnalega umræðu um málið og taka svo ákvörðun á eigin forsendum með þjóðaratkvæðagreiðslu sem er byggð á auknum meirihluta atkvæða (t.d. 2/3 kjósenda með atkvæðisrétti). Og fyrir þann tíma þyrfti þjóðin að endurskoða núverandi aðild Íslands að EES, að NATO og að GATT (eða WTO), sem hefur aldrei verið samþykkt með þeim hætti sem á við í lýðræðissamfélagi. Aftur legg ég áherslu á það að ég er ekki að boða neina stefnu í þeim málum. Ég er bara að segja að þjóðin þarf sjálf að setja leikreglur lýðræðisins með lýðræðislegum hætti. Raunverulegt lýðræði næst aldrei svo lengi sem pólitík er atvinnugrein, því atvinnupólitíkusar stefna fyrst og fremst að því að komast áfram í sínum starfsferli og eru þess vegna eigin fulltrúar og fulltrúar einhvers flokks frekar en fulltrúa kjósenda. Við þekkum dæmi af því að einhver manneskja fer í borgarráð, verður svo borgarstjóri, fer síðan á þing, og þá í ríkisstjórn, og margir stjórnmálamenn vilja skapa fleiri atvinnumöguleika fyrir sig í gegnum aðild Íslands að Evrópusambandinu – komast þá e.t.v. á Evrópuþing og kannski jafnvel í Evrópuráð. Það segir sig sjálft að slíkt ferli er ekki til marks um að helga sig starfi sínu heldur snýst einvörðungu um framgang einstaklingsins. Tæki og vettvangur slíks ferlis er stjórnmálaflokkur.

Ég held að besta, einfaldasta og skynsamlegasta leiðin til að binda enda á atvinnupólitík sé að takmarka lengd þess tímabils sem einn og sami maðurinn getur verið í pólitískri stöðu og ég held að sex ár myndi vera eðlilegt hámark. Ef maður situr í borgarstjórn í fjögur ár og er borgarstjóri í tvö ár þá er hann búinn með sinn kvóta og fer ekki á þing, í ríkisstjórn, eða til Brussel heldur fer hann aftur í sína raunverulega atvinnu – sem læknir, kennari, bóndi, eða leigubílsstjóri og skapar pláss fyrir aðra í pólitík. Þetta væri út af fyrir sig æskileg valddreifing. En það sem mikilvægara er að þá gæti borgastjóri eða þingmaður raunverulega hugsað um hag kjósenda og þjóðarinnar frekar en um næsta skrefið á sínum starfsferli. Stjórnmálamaðurinn gæti þá búið í samfélagi með okkur hinum frekar en að vera e.k. marsbúi sem hugsar bara um sig og talar eingöngu við aðra marsbúa. Um Alþingi hef ég þá hugmynd að skipta landinu í 5000-kjósenda kjördæmi þar sem hver og einn íbúi kjördæmisins gæti boðið sig fram með undirskriftum 500 kjósenda og myndi bjóða sig fram sem einstaklingur, en ekki sem fulltrúi flokks, fyrirtækis, þrýstihóps eða hreyfingar af neinu tagi. Þingmenn væru kosnir til þriggja ára í senn með möguleika á að vera endurkosnir einu sinni og væri þriðjungur þingmanna kosinn á hverju ári.

Alþingiskosningar verða að vera „ótruflaðar“ ef þingmenn eiga að vera raunverulegir fulltrúar kjördæmiskjósenda. Allt ferlið – undirskriftasöfnun, kynning frambjóðenda, og kosningarnar sjálfar – þyrftu að vera undir stjórn e.k. kosningaráðs sem tryggði að allir frambjóðendur stæðu jafnfætis og að kjördæmisbúar fái frið frá utanaðkomandi aðilum til að geta gert upp eigin hug á eigin forsendum.

Sitjandi þingmenn væru skuldbundnir til að gera grein fyrir atkvæðagreiðslum sínum tvisvar á ári með skýrslu til kjósenda á stöðluðu formi sem þeir þyrftu að semja sjálfir. Kosningaráð myndi hafa umsjón með gerð og dreifingu skýrslnanna.

Fyrirgreiðslupólitík og anddyrishnyppingu þyrfti að banna með lögum sem lýðræðisbrot. Lýðræðisbrot þarf að skilgreina vel og vandlega í hegningarlögum, en með lýðræðisbroti er átt við alls kyns mútur og tilraunir til að hafa áhrif á ákvarðanatöku þingmanns með öðrum hætti en með málefnalegum málflutningi á opinberum vettvangi. Það þyrfti að vera vettvangur þar sem atvinnugreinar, verkalýður, neytendur og aðrir geta sent skilaboð til Alþingis, en svona vettvangur gæti verið til dæmis e.k. efnahagsráð þar sem allir slíkir aðilar tala saman og gera í sameiningu ráðgefandi tillögur til þingsins.

Stjórnarskráin þarf að tryggja sjálfstæði, hæfni og getu dómsstóla, eftirlitsaðila og annarra stofnana sem nauðsynlegar eru til að viðhalda lýðræði. Ekki er ljóst hvernig best væri að gera þetta, en ljóst er að pólitísk ráðning dómara og eftirlitsaðila er fjarstæða. Dómskerfið og eftirlitsstofnanir varða lýðræði á þann hátt að þessar stofnanir eiga að tryggja að lýðræðislega ákvörðuðum lögum og reglum – ekki síst stjórnlögum – sé framfylgt. Allir dómarar og eftirlitsmenn þurfa að vera sérmenntaðir. Ein leið til að skipa þá í embætti gæti verið að nota samkeppnispróf sem byggt er á sérstakri háskólamenntun, eins og er krafist t.d. af öllum dómörum á Ítalíu. Dómsvaldið þarf að vera algjörlega óháð löggjafar- og framkvæmdavaldi til þess að tryggja lýðræði, eins og sést vel í öðrum löndum þar sem dómskerfið er að miklu leyti undir pólitískum áhrifum og lýðræðið gufar upp. Að miklu leyti eiga sömu sjónarmið um eftirlitsaðila og eiga við um dómara.

Ég held að gott væri að stofna til nýs embættis sem mætti kalla “lýðræðisendurskoðandi”. Hann myndi gegna því hlutverki að rannsaka starfsemi Alþingis, ríkisstjórnar, ráðuneyta, dómsstóla, stjórnir sveitarfélaga, ríkisfjölmiðla og svo framvegis til að finna út hvort lýðræðið sé virt í þessari starfsemi eða hvort menn hafi fundið upp leiðir til að sniðganga lýðræði í stjórnmálum. Lýðræðisendurskoðandi gæti t.d. gefið út ítarlega, opinbera skýrslu á fimm ára fresti um þau mál og gert tillögur um löggjöf eða jafnvel stjórnarskrárbreytingar í ljósi rannsóknanna. Það ætti að skipta reglulega um lýðræðisendurskoðanda, t.d. á fimm ára fresti, og skipa hann á þann hátt sem tryggði að hann væri traustur og óháður eftirlitsmaður.

Að mínum dómi þyrfti stjórnarskráin að tryggja að sjálfstæður fjölmiðill sé rekinn á vegum ríkisins sem hefði það meginhlutverk að fræða þjóðina á traustan og óháðan hátt um öll þau málefni sem hún þyrfti að kunna skil á til þess að kjósa sér fulltrúa og greiða atkvæði á upplýstan hátt (þegar að því kemur). Slagorð þess miðils ætti að vera gegnsæi í stjórnmálum og þjóðmálum. Hann á líka að vera miklvægasti vettvangur gegnumgangandi málefnalegrar þjóðarumræðu um öll slík mál. Meðal starfsfólks þyrfti að vera reyndir og þjálfaðir rannsóknarfréttamenn, og forstjóri þess miðils þyrfti að vera skipaður á einhvern hátt sem tryggði að stofnunin væri líkleg til að gegna sínu áætlaða hlutverki. Til að mynda gæti hann verið kosinn af fréttamannastéttinni til þriggja ára eftir að hafa fengið hæfnisdóm og hann á að vera í þessu starfi í hámark eitt kjörtímabil.

Hér hef ég reifað örfá valin atriði um það sem þyrfti að skoða ef við ætlum að búa við lýðræði hér á landi. Þetta er bara mínar hugmyndir og það eru mörg mikilvæg mál sem ég hafi ekki haft tíma til að fjalla um, t.d. skipun ríkisstórnar og stjórn sveitarfélaga, en ég hef hugmyndir um þau mál líka. Ég hef lagt megináherslu á það að stjórnskipan landsins þyrfti að fá samþykki yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar til þess að teljast vera lýðræðisleg. Eins og sést af því sem ég hef sagt hér vil ég ekki hverfa frá þingbundinni stjórn eða frá fulltrúalýðræði. Þjóðaratkvæði mætti nota oftar en nú er gert, en svokallað beint lýðræði væri að mínum dómi ekki gott fyrirkomulag. Vandamálið er að menn hafa fundið leiðir til að sniðganga lýðræði og ég held að við ættum að stefna fyrst og fremst að því að lagfæra slíka spillingu. Grundvallaratriði þurfum við að festa í stjórnarskrá. Ef hægt er að koma raunverulegu lýðræði í kring, þá er sá möguleiki e.t.v. aðeins fyrir hendi á Íslandi.  Semsagt Ísland hefur tækifæri til að vera leiðandi í lýðræðismálum. En núverandi stjórnmálastétt og þeir sem stjórna henni og græða á henni myndu berjast með kjafti og klóm gegn raunverulegu lýðræði.

© 2010 Mikael M. Karlsson, Loksins komist á lýðræði

( 1 Ræða haldin í Skáholti á Framhaldsmálþingi um stjórnarskrá 3. október 2010. Þessi ræða er lítið annað en hugvekja til að koma umræðum af stað. Margt er óútskýrt og órökstutt.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Grétar Eiríksson
Grétar Eiríksson
Hér er ætlunin að koma fram óhlutdrægnum upplýsingum fyrir Almenning, til fræðslu vegna Stjórnlagaþings okkar, birtingar á öðrum stjórnarskrám, ritgerðum, skýslum, Lögum og öðru efni er auðvelda Almenningi að velja Frambjóðendur eða ákveða framboðs til Stjórnlagaþings,  með upplýstum hætti án þess að Frambjóðendur verði hér kynntir, sem sagt fyrst og fremst að reyna að safna og miðla sem mestum upplýsingum varðandi ferli Stjórnarskrágerðar okkar, svo Almennur landsmaður geti verið sem allra upplýstastur um tilgang, markmið, mikilvægi Stjórnarskrár okkar og vonandi að auka Lýræðisvitund Landsmanna

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband