Færsluflokkur: Bloggar

Stjórnarskrá Bandaríkjanna

US%20Flag

  Stjórnarskrá Bandaríkjanna

Hér á eftir fer stjórnarskrá Bandaríkjanna ásamt viðaukum I-XV eins og hún birtist í Hauksbók hinni yngri, borgaralegum fræðum fyrir Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum. Hauksbók var gefin út árið 1905 af Ólafi S. Thorgeirssyni í Winnepeg.

Þýðingin er endurskoðuð og stafsetningu hefur verið breytt á stöku stað. Viðaukar XVI til XXVII eru þýddir síðar.

Stjórnarskrá Bandaríkjanna

Vér Bandaríkjamenn setjum og samþykkjum þessi grundvallarlög fyrir Bandaríki Ameríku í þeim tilgangi að koma á fullkomnara sambandsríki, stuðla að réttlæti, tryggja landsfriðinn, sjá fyrir sameiginlegum landvörnum, efla almenna velferð og tryggja sjálfum okkur og niðjum okkar blessun frelsisins. 

I. grein 


1. hluti. Allt löggjafarvald, sem hér er veitt, skal vera hjá sambandsþingi Bandaríkjanna; skulu deildir þess vera öldungadeild og fulltrúadeild.

2. hluti. Fulltrúadeildin skal skipuð mönnum, sem kosnir eru annaðhvort ár af íbúum ríkjanna og skulu kjósendur í hverju ríki fullnægja þeim skilyrðum sem sett eru fyrir kosningarétti til fjölmennustu deildar í þingi þess ríkis.

Enginn má fulltrúadeildarþingmaður vera nema hann hafi náð tuttugu og fimm ára aldri, hafi verið ríkisborgari Bandaríkjanna í sjö ár og eigi heimilisfang í því ríki, þar sem hann er kosinn, þegar kosning fer fram.

Fulltrúatölu og beinum sköttum skal jafna niður milli þeirra ríkja, [sem eru í bandalagi þessu, eftir íbúatölu hvers þeirra, sem ákveðin skal með því að bæta við fulla tölu frjálsra manna - að þeim meðtöldum sem gegna herþjónustu um ákveðinn árafjölda, en frátöldum indíánum er ekki greiða skatt - þremur fimmtu hlutum allra annarra manna.] Rétt íbúatala skal fundin innan þriggja ára eftir að hið fyrsta sambandsþing Bandaríkjanna kemur saman, og síðan á tíu ára fresti, á þann hátt er ákveðið skal með lögum. Fulltrúar skulu ekki vera fleiri en einn fyrir hver þrjátíu þúsund, en hvert ríki skal hafa að minnsta kosti einn fulltrúadeildarþingmann; og þangað til íbúatalan er fundin skal ríkinu New Hampshire heimilt að kjósa þrjá; Massachusettes átta; Rhode Island og Providence Plantations einn; Connecticut fimm; New York sex; New Jersey fjóra; Pennsylvanía átta, Delaware einn; Maryland sex; Virginia tíu; Norður-Karólína fimm; Suður-Karólína fimm og Georgia þrjá.

Þegar sæti fulltrúadeildarþingmanns einhvers ríkis verður autt skal framkvæmdarvald þess skipa fyrir um kjör nýs fulltrúa.

Fulltrúadeildin skal kjósa sér forseta og aðra embættismenn; hún skal ein hafa á hendi kæruvald til embættismissis.

3. hluti. Öldungadeild Bandaríkjanna skal skipuð tveimur þingmönnum frá ríki hverju, [kjörnum af löggjafarþingi þess] til sex ára; skal hver þingmaður hafa eitt atkvæði.

Jafnskjótt og þeir koma saman eftir fyrstu kosningu skal þeim skipt í þrjá flokka, eins jafna og unnt er. Þingmenn þeir er fyrsta flokk skipa skulu víkja úr sæti að tveim árum liðnum, þeir er annan flokk skipa að fjórum árum liðnum og þeir er þriðja flokk skipa að sex árum liðnum, svo að kjósa megi einn þriðjung þeirra á tveggja ára bili; [og ef sæti losnar fyrir afsögn eða á annan hátt á þeim tíma, er löggjafarþing viðkomandi ríkis er ekki að störfum, má framkvæmdarvald þess tilnefna mann í þingsætið til bráðabirgða, þangað til þing kemur saman næst, sem þá skal kjósa mann í sætið.]

Enginn má öldungardeildarþingmaður vera nema hann hafi náð þrítugsaldri og hafi verið ríkisborgari Bandaríkjanna í níu ár, og eigi heimilisfang í því ríki þar sem hann er kosinn þegar kosning fer fram.

Varaforseti Bandaríkjanna skal vera forseti öldungadeildarinnar, en skal ekki hafa atkvæðisrétt, nema því aðeins, að atkvæði falli jafnt.

Öldungadeildin kýs sér aðra embættismenn og einnig forseta til bráðabirgða, sem gegnir embætti í fjarveru varaforseta, eða þegar hann gegnir embætti forseta Bandaríkjanna.

Öldungadeildin hefur ein vald til að dæma í kærumálum til embættismissis. Þegar hún heldur fundi í þeim tilgangi, skal vinna eið eða drengskaparheit. Þegar kæra á hendur forseta Bandaríkjanna er til meðferðar, skal forseti hæstaréttar vera í forsæti; skal enginn sekur fundinn nema tveir þriðju viðstaddra þingmanna veiti því samþykki.

Með dómi í máli til embættismissis verður manni aðeins vikið úr embætti og hann sviptur hæfi til að gegna heiðursembætti, trúnaðarstöðu eða launuðu starfi fyrir Bandaríkin; en sá, sem sekur er fundinn, skal þó ekki undanþeginn málshöfðun, dómi og hegningu að lögum.

4. hluti. Kjörtími, kjörstaður og kosningafyrirkomulag við kjör til öldungadeildar og fulltrúadeildar skal ákveðið í ríki hverju af löggjafarþingi þess; en Sambandsþingið hefur ávallt vald til að semja eða breyta slíkum reglum með lögum, nema hvar kosið er til öldungardeildar.

Sambandsþingið skal saman koma að minnsta kosti eitt sinn ár hvert og skal fundur sá vera [fyrsta mánudaginn í desembermánuði], nema því aðeins að annar dagur sé ákveðinn með lögum.

5. hluti. Hvor þingdeild hefur úrskurðarvald um kosningar, kosninganiðurstöður og kjörgengi þeirra, er þar eiga sæti; meirihluti atkvæða ræður í hvorri þeirra; þó getur minni hluti frestað fundum dag frá degi og eins má veita honum heimild til að knýja þá sem fjarverandi eru, til að sækja fundi, á þann hátt og með þeim viðurlögum, sem hvor þingdeild ákveður.

Hvor þingdeild má ákveða sín eigin þingsköp, hegna þingmönnum fyrir ósæmilegt framferði, og gera þá brottræka, ef tveir þriðju hlutar samþykkja.

Hvor þingdeild skal halda gerðabók yfir það, sem fram fer, og birta hana á prenti með hæfilegu bili, að undanskildum þeim hlutum hennar, sem að mati deildar krefjast leyndar; þá skulu atkvæði þingmanna í báðum deildum í hvaða máli sem er, færast til bókar, ef fimmtungur þeirra, er viðstaddir eru, óska þess.

Meðan Sambandsþing stendur yfir skal hvorug þingdeildin án leyfis hinnar fresta fundi í meira en þrjá daga, né flytja fundi á annan stað en þann, er þingdeildirnar báðar eiga að koma saman á.

6. hluti. Þingmenn öldungadeildar og fulltrúadeildar skulu fá greiðslu fyrir störf sín, er ákveðin skal með lögum, og greidd úr fjárhirslu Bandaríkjanna. Skulu þeir í öllum málum hafa þau forréttindi að vera ekki handteknir nema fyrir landráð, glæpi og friðrof, meðan þeir sitja á fundum þingdeilda sinna eða eru á leið af fundi eða á; né þurfa að svara fyrir fyrir nokkra ræðu eða umræðu, í hvorri málstofunni sem er, á nokkrum öðrum stað.

Engan þingmann öldungadeildar eða fulltrúadeildar skal á kjörtímabili sínu útnefna til nokkurs borgaralegs embættis á vegum Bandaríkjanna, hafi embættið myndað verið eða tekjur þess auknar á því tímabili; þá skal í hvorugri þingdeildinni nokkur maður sæti eiga, meðan hann gegnir embætti á vegum Bandaríkjanna.

7. hluti. Öll frumvörp til laga, er ákveða opinberar tekjur ríkissjóðs, skulu fyrst borin upp í fulltrúadeildinni; en öldungadeildin má fram koma með tillögur um eða samþykkja viðauka við slík lög eins og önnur lög.

Sérhvert frumvarp til laga, sem samþykki hefur öðlast í fulltrúadeildinni og öldungadeildinni, skal leggjast fyrir forseta Bandaríkjanna áður en það verður lög; sé hann því samþykkur ritar hann nafn sitt undir það; sé hann það ekki skal hann endursenda það með andmælum sínum þeirri þingdeildinni þar sem það hefur fyrst verið upp borið; skal hún þá færa andmæli hans orðrétt til gerðabókar og taka málið fyrir aftur. Ef tveimur þriðju hlutum þingdeildar kemur saman um að samþykkja lögin eftir ítrekaða umfjöllun, skal hún senda þau ásamt andmælunum hinni þingdeildinni og skulu þau einnig þar aftur verða tekin til ítrekaðrar umfjöllunar; ef tveir þriðju hlutar þeirrar deildar samþykkja þau einnig skal frumvarpið verða að lögum. En í öllum slíkum málum ráðast úrslit í báðum þingdeildum af greiddum atkvæðum með og á móti og skulu nöfn þeirra er atkvæði greiða færð til bókar í hvorri þingdeild. Ef forseti endursendir ekki frumvarp innan tíu daga (að frátöldum sunnudögum) eftir að það hefur verið lagt fyrir hann verður það að lögum á sama hátt og ef hann hefði ritað nafn sitt undir það, nema sambandsþingið komí í veg fyrir endursending þess með þingfrestun; þá verður það ekki að lögum.

Sérhver fyrirskipun, þingsályktun eða atkvæðagreiðsla, er sameiginlegt samþykki öldungardeildarinnar og fulltrúadeildarinnar þarf til (að undanskilinni þingfrestun), skal lögð fyrir forseta Bandaríkjanna; og áður en slíkt geti öðlast gildi skal það fá samþykki hans eða ef hann neitar því samþykkis skal það verða samþykkt að nýju af tveim þriðju hlutum öldungadeildarinnar og fulltrúadeildarinnar samkvæmt reglum þeim og takmörkunum sem gilda um frumvörp.

8. hluti. Sambandsþingið hefur vald til að leggja á og innheimta skatta, tolla, álögur og gjöld, til að greiða skuldir, sjá fyrir sameiginlegri landvörn og velferð Bandaríkjanna; en allir tollar, álögur og gjöld skulu vera hin sömu hvarvetna í Bandaríkjunum:

-að fá að láni fé gegn ábyrgð Bandaríkjanna;

-að koma reglum yfir verslun við erlendar þjóðir, millli stakra ríkja og við þjóðflokka indíána;

-að koma á samræmdum lögum fyrir veitingu þegnréttinda og sameiginlegum gjaldþrotalögum um öll Bandaríkin;

-að slá peninga, ákveða gildi þeirra og erlendra peninga, og ákveða samræmingu þyngdar og máls;

-að skipa fyrir um hegningu fyrir fölsun verðbréfa og gjaldmiðils Bandaríkjanna;

-að koma á fót póstafgreiðslustöðum og skipuleggja póstsamgöngur;

-að efla framfarir vísinda og nytsamra lista með því að veita rithöfundum og hugvitsmönnum einkaréttindi fyrir ritverk sín og uppfinningar til ákveðins tíma;

-að stofna dómstóla sem eru lægra settir en hæstiréttur;

-að skilgreina og hegna fyrir sjórán og glæpi sem framdir eru á höfum úti og fyrir brot gegn þjóðarétti;

-að segja öðrum stríð á hendur, veita leyfisbréf til vígamennsku og semja reglur um hertöku á sjó og landi;

-að kalla saman og halda her, en engin fjárveiting í því augnamiði skal gilda lengur en til tveggja ára;

-að koma upp og halda sjóher við lýði;

-að setja reglur um stjórn og skipulag hersins bæði til lands og sjávar;

-að sjá til þess að hægt verði að kalla saman landvarnarlið til að halda uppi lögum ríkisins, brjóta á bak aftur uppreisnir og verjast árásum;

-að sjá um að skipuleggja, vopnbúa og þjálfa landvarnarliðið, og stýra þeim hluta þess sem kann að vera í þjónustu Bandaríkjanna; en eftirláta hverju ríki að tilnefna yfirmenn og sjá um æfingar landvarnarliðsins samkvæmt heragareglum þeim er sambandsþingið setur;

-að hafa alla löggjöf á hendi í alls konar málum út af landrými því (er ekki má stærri vera en tíu fermílur) þar sem verða kann aðsetur stjórnar Bandaríkjanna, fyrir afsal einstakra ríkja og viðtöku sambandsþingsins, og að hafa sams konar vald yfir öllum stöðum, sem keyptir kunna að verða með samþykki löggjafarþings þess ríkis, þar sem þeir eru, þar sem reisa megi virki, birgðageymslur, hergagnabúr, skipasmíðastöðvar og önnur nauðsynjahús; og

-að setja öll lög sem nauðsynleg eru og hæfileg til framkvæmdar öllu því valdi sem veitt hefur verið hér að framan og öllu öðru valdi sem stjórnarskrá þessi veitir stjórn Bandaríkjanna, einstökum stjórnardeildum hennar eða embættismönnum.

9. hluti. Innflutning eða aðflutning fólks, sem einhver hinna núverandi ríkja álíta rétt að heimila, skal sambandsþingið ekki banna fyrir árið eitt þúsund áttahundruð og átta; en skatt eða gjald má leggja á slíkan aðflutning, þó ekki hærri en tíu dali á hvern mann.

Réttindi handtekins manns til að verða leiddur tafarlaust fyrir dómara skulu ekki látin niður falla nema því aðeins að almannaöryggi krefjist þess á tímum uppreisnar eða innrásar.

Ekki má setja lög um refsingu án dóms né heldur lög með afturvirkum refsiáhrifum. 

[Engan nefskatt eða annan beinan skatt skal á leggja nema í hlutfalli við manntal það eða áætlun um fólksfjölda sem hér er áður skipað fyrir um að gera skuli.]

Engan skatt eða toll skal leggja á nokkra vöru sem flutt er út úr nokkru ríki.

Engin sérréttindi skulu veitt verða, með reglum um verslun og skattgreiðslu, einstökum höfnum eins ríkis framar en höfnum annarra ríkja; ekki skulu heldur skip, sem eru á ferð frá einu ríki eða til þess, skyldug til að greiða þar gjöld eða tolla í öðru ríki.

Ekki skal fé úr fjárhirslu ríkisins taka nema samkvæmt fjárveitingum sem ákveðnar eru með lögum; skal yfirlit og reikningur yfir opinberar tekjur og gjöld birt með hæfilegu millibili.

Enga aðalstign skal nokkrum veitt af stjórn Bandaríkjanna; enginn sem gegnir launuðu embætti eða trúnaðarstarfi fyrir þau skal án samþykkis sambandsþingsins taka við gjöfum, hlunnindum, embætti eða nafnbótum, hverrar tegundar sem er, frá nokkrum konungi, fursta eða erlendu ríki.

10. hluti. Ekkert ríki má nokkurn milliríkjasamning gera, né ganga inn í nokkurt samband eða bandalag, veita leyfisbréf til vígamennsku, slá mynt, gefa út skuldabréf, gera nokkuð annað en gull eða silfurmynt að lögeyri til skuldagreiðslu, samþykkja lög um refsingu án dóms, afturvirk lög eða lög sem skerða skuldbindingargildi saminga eða veita nokkra aðalstign.

Ekkert ríki má án samþykkis sambandsþingsins leggja nokkrar álögur eða tolla á innfluttar eða útfluttar vörur, nema að svo miklu leyti sem nauðsyn þykir krefja svo tollgæslulögum þess verði framfylgt; og hreinar tekjur af tollum og álögum, sem nokkurt ríki leggur á innflutt eða útfluttar vörur, skal til afnota vera fyrir fjárhirslu Bandaríkjanna; skal sambandsþingið geta endurskoðað og haft eftirlit með allri slíkri löggjöf.

Ekkert ríki má án samþykkis sambandsþingsins leggja toll á rúmmál skipa, halda herlið eða herskip á friðartímum, gera saminga eða bandalag við nokkurt annað ríki eða við erlent stjórnarvald, eða taka þátt í hernaði, nema ráðist sé á það eða það sé í svo bráðri hættu að enga bið þoli.

II. grein


1. hluti. Framkvæmdarvaldið skal vera falið forseta Bandaríkja Ameríku. Hann skal gegna embættinu til fjögurra ára og ásamt varaforseta, sem kosinn er til jafnlangs tíma, skal hann kosinn á þann hátt sem hér segir.

Hvert ríki skal skipa kjörmenn með þeim hætti, er löggjafarþing þess ákveður, sem séu jafnmargir og þeir þingmenn öldungadeildar og fulltrúadeildar eru, sem sæti eiga á Sambandsþingi frá því ríki; en enginn þingmaður öldungadeildar né fulltrúadeildar, né menn, sem embætti hafa í trúnaðarstöðum eða launuðum störfum undir stjórn Bandaríkjanna mega vera kjörmenn.

[Kjörmenn skulu í ríki hverju halda fund og greiða skriflega atkvæði til kosningar tveggja manna, og skal annar þeirra að minnsta kosti ekki vera frá sama ríki og þeir sjálfir. Skulu þeir gera skrá yfir alla þá er atkvæði hlutu og yfir tölu atkvæða, sem hver hlýtur og skulu þeir undir skrár þessar nöfn sín rita og staðfesta, og senda þær innsiglaðar til aðseturs stjórnar Bandaríkjanna, með utanáskrift til forseta öldungadeildarinnar. Forseti öldungadeildarinnar skal í nærveru öldungadeildarinnar og fulltrúadeildarinnar opna allar skrárnar og skulu þá atkvæðin verða talin. Sá, sem flest atkvæði hlýtur, skal forseti verða, ef sú tala er meiri hluti allra kjörmanna. Ef fleiri en einn hafa hlotið slíkan meiri hluta, og atkvæðatala þeirra er jöfn, skal fulltrúadeildin þegar í stað kjósa skriflega einn þeirra forseta. En ef enginn hefur hlotið meiri hluta skal fulltrúadeildin á sama hátt kjósa forseta úr röðum þeirra fimm sem efstir eru á skránni. Þegar forseti er kosinn skulu atkvæði greidd eftir ríkjum, og fulltrúadeildarþingmenn hvers ríkis hafa eitt atkvæði; lágmarksfjöldi til þessa skal vera einn eða fleiri frá tveim þriðju ríkjanna og meiri hluti allra ríkjanna skal vera nauðsynlegur til þess að kosning fáist. Eftir að forseti hefur verið kosinn skal ávallt sá, sem flest atkvæði kjörmanna hefur hlotið, verða varaforseti. En ef tveir eða fleiri eru eftir, sem hafa jafna atkvæðatölu, skal öldungadeildin kjósa skriflega varaforseta úr röðum þeirra.]

Sambandsþingið getur ákveðið tímann til að kjósa kjörmenn þessa og daginn, er þeir skulu greiða atkvæði; skal dagurinn vera hinn sami um öll Bandaríkin.

Enginn, sem ekki er innfæddur borgari, ellegar borgari Bandaríkjanna þegar þessi stjórnarskrá er samþykkt, skal vera kjörgengur til forsetaembættis; ekki skal heldur neinn vera kjörgengur til þess embættis sem ekki er fullra þrjátíu og fimm ára og hafi verið fjórtán ár búsettur í Bandaríkjunum.

[Sé forseti settur frá embætti, andist, segi af sér eða verði ófær til að hafa völd og skyldur embættisins á hendi skal varaforsetinn gegna þeim, og getur sambandsþingið skipað fyrir með lögum, hvernig fara skuli við frávikning, andlát, afsögn eða ófærni bæði forseta og varaforseta, og geri þannig kunnugt hvaða embættismaður þá eigi að gegna forsetastörfum og skal sá embættismaður gegna þeim störfum meðan meðan forsetinn er vanhæfur eða þangað til forseti er kosinn.]

Forsetinn skal á tilteknum tímum fá þóknun fyrir störf sín, sem hvorki skal aukið verða né minnkað á því kjörtímabili sem hann hefur verið kosinn fyrir og á því tímabili skulu honum ekki veitt nokkur hlunnindi af hálfu Bandaríkjanna eða nokkurs ríkis.

Áður en hann tekur við embættisstörfum skal hann sverja eið þann eða gera þá staðfestingu, sem hér segir:

„Ég sver þess dýran eið (eða lýsi hátíðlega yfir), að ég skal samviskusamlega gegna forsetaembætti Bandaríkjanna og skal af fremsta megni varðveita, vernda og verja stjórnarskrá Bandaríkjanna."

2. hluti. Forsetinn skal hafa á hendi æðstu herstjórn, bæði í landher og sjóliði Bandaríkjanna og yfir landvarnarliði einstakra ríkja, þegar það er boðið út í þjónustu Bandaríkjanna; hann getur óskað eftir skriflegu áliti æðsta yfirmanns í hverri stjórnardeild framkvæmdarvaldsins í hverju því máli sem undir embætti hvers þeirra heyrir og hann skal vald hafa til að veita refsingarfrest og náðun fyrir brot gegn Bandaríkjunum, nema í málum til embættismissis.

Hann skal vald hafa til að gera milliríkjasaminga með ráði og samþykki öldungadeildarinnar, að því tilskildu að tveir þriðju hlutar viðstaddra öldungadeildarþingmanna séu því fylgjandi; hann skal tilnefna og með ráði og samþykki öldungadeildarinnar skipa sendiherra, aðra opinbera erindreka og ræðismenn, dómara í hæstarétt og alla aðra embættismenn Bandaríkjanna, þegar hér er ekki á annan hátt sagt fyrir um skipun þeirra í embætti, og skal það ákveðið með lögum; en sambandsþingið getur með lögum veitt forseta einum, dómstólum eða yfirmönnum stjórnardeilda vald til að skipa í stöður þeim lægri embættismönnum, er því kann rétt að sýnast.

Forseti skal hafa vald til að skipa í öll embætti sem losna á meðan öldungadeildin hefur þinghlé, með því að veita erindisbréf, er gildi þangað til næsta þingi lýkur.

3. hluti. Hann skal með hæfilegu millibili veita sambandsþinginu upplýsingar um stöðu sambandsins og ráðleggja því að taka þær ráðstafanir til meðferðar er hann álítur nauðsynlegar og gagnlegar; þegar sérstakar ástæður eru til, getur hann kallað báðar þingdeildir saman eða aðra hvora þeirra, og komi þær sér ekki saman um hvenær hlé verður á þingstörfum getur hann frestað þingi til þess tíma er að áliti hans er hagkvæmur; hann skal taka á móti sendiherrum og öðrum opinberum erindrekum; hann skal sjá um að lögunum sé fylgt af trúmennsku og skal fá öllum embættismönnum Bandaríkjanna erindisbréf í hendur.

4. hluti. Forseta, varaforseta og öllum borgaralegum embættismönnum Bandaríkjanna skal vikið úr embætti þegar þeir eru kærðir til embættismissis eða dæmdir fyrir landráð, mútugjafir eða mútuþágu eða aðra meiriháttar glæpi og afbrot.

III. grein


1. hluti. Dómsvald Bandaríkjanna skal falið einum hæstarétti og þeim lægri dómstólum er Sambandsþingið kann að skipa fyrir um hverju sinni og stofna. Dómararnir við hæstarétt og við hina lægri dómstóla skulu halda embætti sínu meðan þeir gerast ekki brotlegir, og skulu þeir á ákveðnum tímum fá þóknun fyrir starf sitt sem ekki skal lækkuð vera meðan þeir gegna embættinu.

2. hluti. Dómsvaldið skal ná til allra mála, að lögum og sanngirni, er upp geta komið eftir stjórnarskrá þessari, lögum Bandaríkjanna, gerðum milliríkjasamningum eða þeim er gerðir verða með heimildum laga; til allra mála sem snerta sendiherra, aðra opinbera erindreka og ræðismenn; til allra mála sem falla undir siglingalög og sjórétt; deilumála þeirra er Bandaríkin eiga hlut að; til deilumála milli tveggja eða fleiri ríkja; [milli ríkis og borgara annars ríkis;] milli borgara mismunandi ríkja; milli borgara í sama ríki, er tilkall gera til landsvæða, er mismunandi ríki hafa veitt; [og milli ríkis eða borgara þess, og erlendra ríkja, borgara eða þegna.]

Í öllum málum er snerta sendiherra eða aðra opinbera erindreka og ræðismenn og í þeim málum, þar sem ríki er málsaðili, skal hæstiréttur vera fyrsta dómstig. Í öllum öðrum málum, sem áður eru nefnd, skal hæstiréttur vera áfrýjunardómstig, bæði að því er lög og staðreyndir máls snertir, með þeim undantekningum og samkvæmt þeim reglum er sambandsþingið setur.

Réttað skal í öllum sakamálum, nema málum um embættismissi, fyrir kviðdómi; mál skal rekið í því ríki, þar sem meint brot hefur verið framið; en þegar brot hefur ekki verið framið í nokkru ríki skal málið rekið á þeim stað eða stöðum er sambandsþingið hefur með lögum ákveðið.

3. hluti. Landráð gegn Bandaríkjunum skulu einungis í því fólgin að fara með hernaði á hendur þeim eða fylla flokk óvina þeirra og veita þeim hjálp og fulltingi. Engan skal dæma fyrir landráð nema fyrir vitnisburð tveggja manna um sömu athöfnina eða samkvæmt játningu í opnu þinghaldi.

Sambandsþingið skal hafa vald til að ákveða hegningu fyrir landráð; en enginn refsidómur fyrir landráð skal hafa áhrif á erfðir, né heldur skal eignamissir gilda lengur en hinum dæmda endist aldur. 

IV. Grein


1. hluti. Fullkomið traust og tiltrú skal í hverju ríki borið til opinberra laga, skjala og dómsathafna allra annarra ríkja. Má sambandsþingið með almennri löggjöf skipa fyrir um, á hvern hátt slík lög, skjöl og dómsathafnir skuli staðfestar og áhrif þess.

2. hluti. Borgarar hvers ríkis eiga heimting á þeim réttindum og undanþágum sem borgarar annarra ríkja njóta.

Maður, sem kærður er fyrir landráð, brot gegn hegningarlögum eða annað refsivert athæfi í einhverju ríki og flýr undan réttvísinni og finnst í öðru ríki, skal framseldur verða, þegar framkvæmdarvald þess ríkis, er hann flúði úr, krefst þess, til flutnings til þess ríkis, er lögsögu hefur í málinu.

[Enginn maður, sem hafður er í haldi til þess að sitja af sér dóm eða inna af hendi nauðungarvinnu í einhverju ríki samkvæmt lögum þess og flýr í annað ríki, skal leystur undan slíkri afplánun eða nauðungarvinnu, með neinum lögum eða ákvæðum sem þar gilda, heldur skal hann framseldur verða, að kröfu þess er heimting á til þess að afplánun þessi eða nauðungarvinna verði leyst af hendi.]

3. hluti. Sambandsþingið má veita nýjum ríkjum inngöngu í ríkjasamband þetta; en ekkert nýtt ríki má mynda eða stofnsetja innan lögsögu nokkurs annars ríkis; né heldur skal nokkuð annað ríki myndað við sameining tveggja eða fleiri ríkja eða ríkishluta, án samþykkis löggjafarþinga ríkja þeirra er hlut eiga að máli og sambandsþingsins.

Sambandsþingið skal hafa vald til að ráðstafa og setja nauðsynleg lög og reglugerðir um landsvæði og aðrar eigur sem Bandaríkjunum heyra til; og ekkert í stjórnarskrá þessari skal skilið á þann veg að það skaði neinar kröfur Bandaríkjanna eða nokkurs einstaks ríkis.

4. hluti. Bandaríkin skulu tryggja hverju ríki í sambandi þessu lýðveldislega stjórnskipun og skulu vernda hvert einstakt þeirra gegn árásum; ennfremur gegn ofbeldi heima fyrir þegar löggjafarþingið fer þess á leit eða framkvæmdarvaldið (þegar ekki er unnt að kalla löggjafarþing saman).

V. grein

Sambandsþingið skal, hvenær sem tveir þriðju hlutar beggja deilda álíta það nauðsynlegt, leggja til viðauka við stjórnarskrá þessa, eða, ef um það er sótt af löggjafarþingum tveggja þriðju hluta ríkjanna, skal það kalla til stjórnlagaþings til að gera tillögur um viðauka, og skulu þeir í báðum tilvikum vera gildir að öllu leyti sem hluti þessarar stjórnarskrár, þegar löggjafarþing þriggja fjórðu hluta ríkjanna hafa samþykkt þá eða þeir hafa verið samþykktir á stjórnlagaþingum í þremur fjórðu hlutum þeirra, eftir því hvora aðferðina til samþykktar sambandsþingið hefur lagt til, með því skilyrði að enginn viðauki, er gerður sé fyrir árið eitt þúsund áttahundruð og átta, hafi nein áhrif á fyrstu og fjórðu málsgrein níunda hluta fyrstu greinar, og að ekkert ríki án þess að samþykkja það skuli svipt jöfnum atkvæðisrétti sínum í öldungadeildinni.

VI. grein

Allar skuldir og skuldbindingar, sem til hafa orðið áður en stjórnarskrá þessi er sett, skulu vera jafngildar gagnvart Bandaríkjunum samkvæmt þessari stjórnarskrá og þær voru áður meðan ríkjabandalagið var við lýði.

Stjórnarskrá þessi og þau lög Bandaríkjanna, sem sett eru í samræmi við hana, og allir milliríkjasamingar, sem gerðir eru í nafni Bandaríkjanna, skulu vera landsins æðstu lög; dómarar allra ríkja skulu af þeim bundnir án tillits til hvort nokkuð í stjórnarskrá eða lögum einhverra ríkja kemur í bága við þau.

Þingmenn öldungadeildar og fulltrúadeildar, sem nefndir hafa verið, og þingmenn löggjafarþinga einstakra ríkja, allir embættismenn framkvæmdarvalds og dómsvalds, bæði Bandaríkjanna og einstakra ríkja, skulu með eiði eða heiti skuldbundnir til að halda þessa stjórnarskrá; en engar trúarlegir svardagar skulu nokkurn tíma heimtaðir sem skilyrði fyrir nokkru embætti eða opinberri trúnaðarstöðu undir stjórn Bandaríkjanna.

VII. Grein

Fullgildingu stjórnlagaþinga í níu ríkjum nægir til að stjórnaskrá þessi taki gildi gagnvart ríkjunum, sem þannig fullgilda hana. 

Samþykkt á stjórnlagaþingi með samhljóða atkvæðum allra ríkjanna sautjánda dag septemebermánaðar á því Herrans ári eitt þúsund sjöhundruð áttatíu og sjö, og á tólfta ári frá því Bandaríki Ameríku öðluðust sjálfstæði. Þessu til staðfestu ritum við nöfn okkar hér undir. [undirskriftir]

Viðaukar

I. 

Sambandsþingið skal engin lög setja um stofnun trúfélags né til að koma í veg fyrir frjálsa iðkun trúarbragða; né heldur til skerðingar málfrelsi eða prentfrelsi; né réttindum fólks til friðsamlegra mannfunda eða að senda stjórninni bænaskrá um leiðrétting kvörtunarefna.

II.

Með því að landvarnarlið með góðu skipulagi er nauðsynlegt fyrir öryggi frjálsra ríkja skal réttur þjóðarinnar til að eiga og bera vopn óskertur látinn.

III.

Á friðartímum skal enginn hermaður vera settur til vistar á nokkru heimili án samþykkis eigandans, og ekki heldur á styrjaldartímum nema á þann hátt sem fyrirskipað verður með lögum.

IV.

Réttur þjóðarinnar til að njóta friðhelgi fyrir persónu sína, heimili, skjöl og muni gegn ástæðulausri leit og haldlagningu skal óskertur látinn; og dómsúrskurð um heimild til leitar má ekki fella nema fyrir sterkar líkur, studdar eiði eða yfirlýsingu, og skal þar staðnum, þar sem leitin skal fram fara, nákvæmlega lýst og mönnum þeim og hlutum er leggja skal hald á.

V.

Engan mann skal láta svara til saka fyrir brot sem varða lífláti eða aðra alvarlega glæpi nema samkvæmt erindi eða kærubréfi frá kærukviðdómi, að undanskildum þeim málum sem upp koma í land- eða sjóhernum, eða í landvarnarliðinu þegar það er að störfum á tímum hernaðar og almennrar hættu. Eigi skal heldur lífi og limum neins manns tvisvar í hættu stofnað fyrir sama brot, né heldur skal hann í sakamáli neyddur til að bera vitni gegn sjálfum sér; né sviptur vera lífi, frjálsræði eða eignum án réttrar meðferðar að lögum; ekki skulu eignir einkaaðila teknar til opinberra afnota nema gegn hæfilegum bótum.

VI.

Í refsimálum skal sakborningur njóta þess réttar að fá skjóta og opinbera málsmeðferð fyrir óhlutdrægum kviðdómi þess ríkis og umdæmis þar sem glæpurinn var framinn og skal þá umdæmið fyrst vera ákveðið með lögum; skal hann upplýstur um eðli og ástæður kærunnar; fram fyrir hann skal leiða vitni; skylda má vitni honum í hag til að mæta til réttarhalda og málflutningsmaður skal honum fenginn til aðstoðar við vörn hans.

VII.

Í einkamálum, þar sem deilt er um meiri hagsmuni en nemur tuttugu dala ígildi, skal rétturinn til að farið verði með mál fyrir kviðdómi látinn gilda og ekkert málsatriði, sem kviðdómur hefur tekið afstöðu til, verður endurskoðað fyrir nokkrum dómstól Bandaríkjanna á annan hátt en samkvæmt reglum einkaréttar.

VIII. 

Ekki skal heimta óhæfilega háa tryggingu fyrir frelsi sakbornings, né leggja á óhæfilega þungar sektir, né heldur skal beitt ómannúðlegum eða óvenjulegum refsingum.

IX.

Upptalning sérstakra réttinda í stjórnarskránni skal ekki skilin svo að hún útiloki eða dragi úr öðrum réttindum þjóðarinnar.

X.

Völd þau, sem ekki eru falin Bandaríkjunum með stjórnarskránni né með henni forboðin ríkjunum eru hverju einstöku ríki áskilin eða þjóðinni allri.

XI.

Dómsvaldi Bandaríkjanna skal ekki skipað svo að það nái til nokkurs máls að lögum eða sanngirni sem höfðað er eða sótt er gegn einu ríki í Bandaríkjunum af borgurum annars ríkis eða af borgurum eða þegnum einhvers erlends ríkis. 

XII.

Kjörmenn skulu í ríki hverju koma saman og greiða skriflega atkvæði til kosningar forseta og varaforseta, og skal annar þeirra að minnsta kosti ekki vera frá sama ríki og þeir sjálfir. Nefna skulu þeir á seðlum sínum þann, er þeir greiða atkvæði til forseta, og á öðrum seðlum þann, er þeir greiða atkvæði til varaforseta; skulu þeir gera sérstakar skrár yfir alla þá er atkvæði hlutu til forseta og yfir alla þá er atkvæði hlutu til varaforseta og yfir tölu atkvæða sem hver hlýtur og skulu þeir rita nöfn sín undir skrár þessar og staðfesta þær og senda innsiglaðar til aðseturs stjórnar Bandaríkjanna, með utanáskrift til forseta öldungadeildarinnar. Forseti öldungadeildarinnar skal í nærveru öldungadeildarinnar og fulltrúadeildarinnar opna allar skrárnar og skulu þá atkvæðin talin. Sá sem flest atkvæði hlýtur til forseta skal forseti verða ef sú tala nemur meiri hluta allra atkvæða kjörmanna. Ef enginn hefur hlotið slíkan meiri hluta skal fulltrúadeildin þegar í stað kjósa forseta skriflega úr röðum þeirra þriggja hið mesta er flest atkvæði hlotið hafa á skránni yfir þá er til forseta voru kosnir. Þegar forseti er kosinn skulu atkvæði greidd eftir ríkjum og fulltrúar hvers ríkis hafa eitt atkvæði; lágmarksfjöldi til þessa skal vera einn eða fleiri þingmenn frá tveim þriðju ríkjanna og meiri hluti allra ríkjanna skal vera nauðsynlegur til þess að kosning fáist. [Og kjósi fulltrúadeildin ekki forseta, þegar hún fær réttinn til þess, fyrir fjórða dag marsmánaðar næstkomanda, skal varaforseti gegna forsetastörfum eins og þegar forseti fellur frá eða verður af öðrum ástæðum ófær um að gegna embætti samkvæmt stjórnarskránni.] Sá sem flest atkvæði hefur hlotið til varaforseta skal varaforseti vera ef fjöldi atkvæðanna nemur meiri hluta allra kjörmanna; og hafi enginn meiri hluta hlotið skal öldungadeildin kjósa annan af þeim tveimur er flest atkvæði hafa á skránni fyrir varaforseta; lágmarksfjöldi til þess skal vera tveir þriðju öldungadeildarþingmanna og meiri hluti þingmanna skal vera nauðsynlegur til kosningar. Enginn er kjörgengur til varaforseta Bandaríkjanna nema hann sé kjörgengur til forsetaembættisins samkvæmt stjórnarskránni.

XIII.

1. Hvorki þrældómur né nauðungarvinna, nema sem hegning fyrir glæp, sem maður hefur verið réttilega sakfelldur fyrir skal eiga sér stað innan Bandaríkjanna eða á nokkrum stað sem þau hafi lögsögu yfir.

2. Sambandsþingið hefur vald til að framfylgja þessu ákvæði með viðeigandi löggjöf.

XIV.

1. Allir þeir, sem fæddir eru í Bandaríkjunum eða öðlast hafa þegnréttindi þar, eru ríkisborgarar Bandaríkjanna og þess ríkis, þar sem þeir hafa heimilisfang sitt. Ekkert ríki skal setja eða framfylgja neinum lögum er skerði réttindi og friðhelgi ríkisborgara Bandaríkjanna; ekki skal heldur neitt ríki svipta nokkurn mann lífi, frelsi né eignum án réttrar málsmeðferðar að lögum, né heldur neita nokkrum manni innan lögsögu sinnar um almenna lagavernd.

2. Fulltrúatölu skal deilt á milli ríkjanna eftir íbúatölu þeirra og skal þá fjöldi allra íbúa hvers ríkis talinn, að undanskildum indíánum er ekki greiða skatt. Ef kosningaréttur við kosningar, þar sem kjósa á kjörmenn til að velja forseta og varaforseta Bandaríkjanna, fulltrúa á sambandsþingið, embættismenn framkvæmdar- eða dómsvalds í ríki eða þingmenn á ríkisþing er tekinn af nokkrum karlmanni, sem á heimilisfang í einhverju ríki og er orðinn tuttugu og eins árs gamall, eða kosningarétturinn er á nokkurn hátt skertur, nema fyrir hlutdeild í uppreisn eða öðrum glæpum, skal fulltrúatalan skert eftir því hlutfalli, sem tala slíkra karla stendur í við fulla tölu karla sem eru orðnir tuttugu og eins árs gamlir í því ríki.

3. Enginn skal eiga sæti í öldungadeild eða fulltrúadeild sambandsþingsins eða verða kjörmaður til að kjósa forseta og varaforseta eða nokkru embætti gegna, borgaralegu eða hjá hernum undir stjórn Bandaríkjanna eða undir stjórn nokkurs annars ríkis, sem hefur tekið þátt í upphlaupi eða uppreisn gegn þeim eða veitt óvinum þeirra liðsinni eða líkn eftir að hafa áður unnið eið að stjórnarskrá Bandaríkjanna sem þingmaður sambandsþingsins, embættismaður Bandaríkjanna, þingmaður einhvers ríkisþings eða embættismaður framkvæmdar- eða dómsvalds í nokkru ríki. Sambandsþingið getur með tveimur þriðju hlutum atkvæða í hvorri þingdeild tekið aftur slíkan réttindamissi.

4. Gildi ríkisskuldar Bandaríkjanna, sem lagaheimild er fyrir, skal ekki dregið í efa, þar á meðal skulda sem til hafa orðið til að greiða eftirlaun eða verðlaun fyrir frækilega þjónustu við ríkið við að brjóta á bak aftur upphlaup eða uppreisn. En hvorki skulu Bandaríkin né nokkurt ríki stofna eða greiða nokkra skuld eða skuldbindingu sem myndast hefur til hjálpar upphlaupi eða uppreisn gegn Bandaríkjunum, né heldur nokkra kröfu fyrir missi nokkurs þræls eða frelsis hans; en allar slíkar skuldir, skuldbindingar og kröfur skulu taldar ólögmætar og ógildar.

5. Sambandsþingið hefur vald til að framfylgja þessu ákvæði með viðeigandi löggjöf.

XV.

1. Réttur ríkisborgara Bandaríkjanna til að kjósa verður hvorki afnuminn né skertur vegna kynþáttar, hörundslitar eða þrældóms á fyrri tímum af Bandaríkjunum eða nokkru ríki þess.

2. Sambandsþingið hefur vald til að framfylgja þessu ákvæði með viðeigandi löggjöf.

XVI.

Sambandsþinginu skal heimilt að leggja á og innheimta skatta á tekjur, hvaðan sem þær eru fengnar, án tillits til skiptingar þingsæta milli ríkja og án tillits til manntals eða áætlunar um fólksfjölda.

XVII.

Öldungadeild Bandaríkjaþings skal skipuð tveimur þingmönnum frá hverju ríki sem kjörnir eru í almennum kosningum í ríkinu til sex ára í senn. Hver öldungadeildarþingmaður hefur eitt atkvæði. Kjörmenn í hverju ríki skulu fullnægja þeim skilyrðum sem gerð eru til kjörmanna til fjölmennari deildar löggjafarþings ríkisins. -- EÐA: Kjósendur í hverju ríki skulu fullnægja þeim skilyrðum sem gerð eru til kjósenda fjölmennari deildar löggjafarþings ríkisins.

Þegar sæti einhvers ríkis í öldungadeildinni losnar skal handhafi framkvæmdarvalds þess ríkis gefa út fyrirmæli um kosningu í sætið, að því tilskildu að löggjafarþingi hvers ríkis sé heimilt að fá framkvæmdarvaldi þess vald til að skipa mann tímabundið í sætið þar til kosningar fara fram samkvæmt ákvörðun löggjafans.

Þennan viðauka skal ekki skilja þannig að hann hafi áhrif á kjör eða kjörtímabil nokkurs öldungadeildarþingmanns sem kjörinn er áður en viðaukinn öðlast gildi sem hluti af stjórnarskrá Bandaríkjanna.

[XVIII.

1. Að liðnu einu ári frá staðfestingu þessarar greinar er óheimil framleiðsla, sala og flutningur á áfengum drykkjum innan Bandaríkjanna sem og innflutningur áfengis til og útflutningur þess frá Bandaríkjunum og öllum svæðum innan lögsögu þeirra sé það ætlað til drykkjar.

2. Sambandsþingið og ríkin skulu hafa sameiginlegan rétt til að framfylgja viðauka þessum með viðeigandi löggjöf.

3. Grein þessi skal ekki öðlast gildi nema hún hafi verið staðfest sem viðauki við stjórnarskrá Bandaríkjanna af löggjafarþingi sérhvers ríkis, eins og kveðið er á um í stjórnarskránni, innan sjö ára frá þeim degi er máli þessu er vísað frá Sambandsþinginu til ríkjanna.
]

XIX.

Réttur ríkisborgara Bandaríkjanna til að kjósa verður hvorki afnuminn né skertur af Bandaríkjunum eða nokkru ríki vegna kynferðis.

Sambandsþingið hefur vald til að framfylgja þessu ákvæði með viðeigandi löggjöf.

XX.

1. Kjörtímabili forseta og varaforseta lýkur á hádegi tuttugasta dag janúarmánaðar, og kjörtímabili þingmanna öldungadeildar og fulltrúadeildar lýkur á hádegi 3. dag janúarmánaðar á því ári sem kjörtímabili þeirra hefði lokið ef þessi grein hefði ekki fengið staðfestingu og skal kjörtímabil eftirmanna þeirra byrja þá.

2. Sambandsþingið skal koma saman að minnsta kosti einu sinni ár hvert og skulu fundir þess hefjast á hádegi 3. dag janúarmánaðar, nema annar dagur sé ákveðinn með lögum.

3. Ef kjörinn forseti fellur frá áður en kjörtímabil hans hefst skal kjörinn varaforseti taka við embætti forseta. Ef forseti er ekki kjörinn áður en kjörtímabil nýs forseta hefst eða kjörinn forseti fullnægir ekki skilyrðum til embættistöku skal kjörinn varaforseti gegna embætti hans þar til kjörinn hefur verið forseti sem fullnægir skilyrðunum. Sambandsþingið getur ákveðið með lögum hvernig brugðist verði við ef hvorki kjörinn forseti né kjörinn varaforseti er hæfur til að gegna forsetaembætti og ákveðið þannig hver gegni embætti forseta eða hvernig maður verði valinn til að gegna embættinu, en það skal sá gera þar til kjörinn hefur verið hæfur forseti eða varaforseti.

4. Sambandsþingið má ákveða með lögum hvernig brugðist verði við ef einhver sá fellur frá sem fulltrúadeildin getur kosið forseta þegar réttur til að kjósa hann kemur í hennar hlut, og ef einhver sá fellur frá sem öldungadeildin getur kosið varaforseta þegar réttur til að kjósa hann kemur í hennar hlut.

5. 1. og 2. liður öðlast gildi 15. dag októbermánaðar eftir að viðauki þessi hefur verið staðfestur.

6. Viðauki þessi öðlast ekki gildi nema hann hafi verið staðfestur sem viðauki við stjórnarskrána af þremur fjórðu löggjafarþinga sambandsríkjanna innan sjö ára frá þeim degi sem honum er vísað til þeirra.

XXI.

1. Átjándi viðauki stjórnarskrárinnar er hér með felldur úr gildi.

2. Flutningur áfengra drykkja eða innflutningur þeirra til einhverra ríkja Bandaríkjanna, sjálfstjórnarsvæðis eða yfirráðasvæðis þeirra, til afhendingar og notkunar er stríðir gegn lögum þar að lútandi, er hér með bannaður.

3. Viðauki þessi öðlast ekki gildi nema hann hafi verið staðfestur sem viðauki við stjórnarskrána af þingfundum sambandsríkjanna, eins kveðið er á um stjórnarskránni, innan sjö ára frá þeim degi er sambandsþingið leggur hann fyrir ríkin.

XXII.

1. Engan má kjósa til forseta oftar en tvisvar og enginn sem gegnt hefur forsetaembættinu eða verið handhafi forsetavalds lengur en tvö ár á kjörtímabili sem annar maður hefur verið kjörinn til skal kjörinn til forsetaembættis oftar en einu sinni. Þessi grein á ekki við um þann sem gegnir forsetembættinu þegar þessi grein er lögð fram í sambandsþinginu, og hún kemur ekki í veg fyrir að sá sem gegnir embætti forseta eða er handhafi forsetavalds á kjörtímabilinu þegar viðauki þessi tekur gildi, haldi embætti forseta eða verði handhafi forsetavalds út kjörtímabilið.

2. Viðauki þessi öðlast ekki gildi nema hann hafi verið staðfestur sem viðauki við stjórnarskrána af þrem fjórðu löggjafarþinga sambandsríkjanna innan sjö ára frá þeim degi sem sambandsþingið vísar honum til ríkjanna.

XXIII.

1. Landsvæði það, sem er aðsetur ríkisstjórnar Bandaríkjanna, skal tilnefna eftir því sem Sambandsþingið segir til um:

Kjörmenn til að kjósa forseta og varaforseta er séu jafn margir og þeir fulltrúar sem svæðið ætti rétt á í öldungadeildina og sambandsþingið ef það væri ríki, en þó aldrei fleiri en mannfæsta ríkið; kjörmennirnir skulu koma til viðbótar þeim kjörmönnum sem tilnefndir hafa verið af ríkjunum. Kjörmennirnir skulu, hvað varðar kjör til forseta og varforseta, hafa sömu stöðu og ef þeir hefðu verið tilnefndir af ríki; kjörmennirnir skulu koma saman á landsvæði þessu og inna af hendi þau skyldustörf sem kveðið er á um í tólfta viðauka við stjórnarskrána.

2. Sambandsþingið hefur vald til að framfylgja þessu ákvæði með viðeigandi löggjöf.

XXIV.

1. Réttur borgara Bandaríkjanna til að kjósa í forkosningum eða öðrum kosningum til forseta eða varaforseta, kjörmanna til forseta eða varaforseta, eða þingmanna öldungadeildar eða fulltrúadeildar, skal hvorki skertur né afnuminn af Bandaríkjunum eða einstökum ríkjum þeirra vegna vanskila á kosningaskatti eða öðrum sköttum.

2. Sambandsþingið hefur vald til að framfylgja þessu ákvæði með viðeigandi löggjöf.

XXV.

1. Ef forseti verður sviptur embætti, hann andast eða segir af sér, skal varaforseti taka við embætti forseta.

2. Ef embætti varaforseta losnar skal forsetinn tilnefna varaforseta sem tekur við embætti að fenginni staðfestingu meiri hluta þingmanna í báðum deildum sambandsþingsins.

3. Ef forsetinn tilkynnir bráðabirgðaforseta öldungadeildar og forseta fulltrúadeildar skriflega að hann sé ófær um að fara með völd sín og skyldur, þá skulu völd hans og skyldur færast á hendur varaforseta sem handhafa forsetavalds þangað til hann tilkynnir þeim skriflega um hið gagnstæða.

4. Ef varaforsetinn og meiri hluti annaðhvort ráðherra eða annarra þeirra sem sambandsþingið hefur ákveðið með lögum senda bráðabirgðaforseta öldungadeildar og forseta fulltrúadeildar skriflega yfirlýsingu þess efnis að forsetinn sé ófær um að fara með það vald og þær skyldur sem honum hafa verið falin, skal varaforsetinn umsvifalaust taka við völdum og skyldum embættisins sem starfandi forseti. 

Síðan, þegar forsetinn sendir bráðabirgðaforseta öldungadeildar og forseta fulltrúadeildar skriflega yfirlýsingu þess efnis að engir annmarkar séu á hæfni hans skal hann aftur taka við völdum og skyldum embættis síns, nema því aðeins að varaforsetinn og meiri hluti annaðhvort ráðherra eða annarra þeirra sem sambandsþingið hefur ákveðið með lögum sendi bráðabirgðaforseta öldungadeildar og forseta fulltrúadeildar innan fjögurra daga skriflega yfirlýsingu sína þess efnis að forsetinn sé ófær um að fara með völd og skyldur embættis síns. Að svo búnu skal þingið taka ákvörðun um málið og skal það kallað saman innan tveggja sólarhringa af þessu tilefni ef þinghlé er. Ef þingið ákvarðar innan þriggja vikna frá móttöku síðari yfirlýsingarinnar, eða innan þriggja vikna eftir að þing er kallað saman, sé þinghlé, með tveimur þriðju hlutum atkvæða í báðum deildum að forsetinn sé ófær um að fara með völd og skyldur embættis síns skal varaforsetinn áfram gegna því embætti sem starfandi forseti; að öðrum kosti skal forsetinn taka aftur við valdi og skyldum embættis síns.

XXVI. 

1. Réttur ríkisborgara Bandaríkjanna, séu þeir 18 ára eða eldri, til að kjósa verður hvorki afnuminn né skertur af Bandaríkjunum eða nokkru ríki þeirra, sökum aldurs.

2. Sambandsþingið hefur vald til að framfylgja þessu ákvæði með viðeigandi löggjöf.

XXVII.

Engin lög, sem kveða á um breytingar á þóknun fyrir störf þingmanna öldungadeildar og fulltrúadeildar skulu ganga í gildi fyrr en kosið hefur verið til fulltrúadeildar þingsins að nýju.

Fyrstu 10 viðaukar stjórnarskrárinnar (réttindaskráin) voru staðfestir frá og með 15. desember 1791.

11. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 7. febrúar 1795.

12. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 15. júní 1804.

13. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 6. desember 1865.

14. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 9. júlí 1868.

15. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 3. febrúar 1870

16. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 3. febrúar 1913.

17. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 8. apríl 1913.

18. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 16. janúar 1919.

19. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 18. ágúst 1920.

20. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 23. janúar 1933.

21. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 5. desember 1933.

22. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 27. febrúar 1951.

23. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 29. mars 1961.

24. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 23. janúar 1964.

25. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 10. febrúar 1967.

26. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 1. júlí 1971.

27. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 7. maí 1992.


Stjórnarskrá Þýskalands - Grundvallarlög fyrir Sambandslýðveldið Þýskaland

Stjórnarskrá Þýskalands

Grundvallarlög fyrir Sambandslýðveldið Þýskaland
Þann 23. maí 1949 staðfesti þingráðið í Bonn við Rínarfljót á opinberum fundi að Grundvallarlög þau fyrir Sambandslýðveldið Þýskaland, sem ákveðin voru af þingráðinu þann 8. maí 1949, hafi í vikunni frá 16. til 22. maí 1949 verið samþykkt af fulltrúaþingum meira en tveggja þriðju þeirra þýsku sambandslanda sem hlut eiga að máli. 

Á grundvelli þessarar staðfestingar hafa forsetar þingráðsins, í umboði þess, undirritað Grundvallarlögin og kunngjört þau. 
Hér með eru Grundvallarlögin birt í Lögbirtingarblaði Sambandslýðveldisins samkvæmt 3. málsgrein 145. gr. 

Inngangsorð

Í vitund um ábyrgð sína gagnvart Guði og mönnum, með það markmið í huga að þjóna heimsfriðnum sem einn jafnrétthárra aðila í sameinaðri Evrópu, hefur þýska þjóðin sett sér þessi Grundvallarlög í krafti valds síns til að setja sér stjórnlög. 

Þjóðverjar í sambandslöndunum Baden-Württemberg, Bæjaralandi, Berlín, Brandenborg, Bremen, Hamborg, Hessen, Mecklenburg-Vorpommern, Neðra-Saxlandi, Nordrhein-Westfalen, Rheinland-Pfalz, Saarlandi, Saxlandi, Saxlandi-Anhalt, Slésvík-Holtsetalandi og Thüringen hafa af frjálsu fullveldi fullgert einingu og frelsi Þýskalands. Þar með gilda þessi Grundvallarlög fyrir alla þýsku þjóðina. 
 

I. Grundvallarréttindi

1. gr.

(1) Gildi mannsins er ósnertanlegt. Ríkisvaldinu ber skylda til að virða hana og vernda. 

(2) Þýska þjóðin viðurkennir þessvegna að friðhelg og óframseljanleg mannréttindi séu grundvöllur alls mannlegs samfélags, friðar og réttlætis í heiminum. 

(3) Eftirfarandi grundvallarréttindi binda löggjafann, framkvæmdavaldið og dómsvaldið sem beinn gildandi réttur. 

2. gr.

(1) Hver maður skal hafa rétt til að njóta frelsis til persónuþroska svo fremi sem hann brýtur ekki réttindi annarra né brýtur gegn reglum stjórnskipunarinnar eða siðareglum. 

(2) Allir hafa rétt til lífs og líkamshelgi. Frelsi einstaklingsins er friðhelgt. Þessi réttindi má ekki skerða nema með heimild í lögum. 

3. gr.

(1) Allir menn eru jafnir að lögum. 

(2) Karlar og konur njóta jafnréttis. Ríkið skal stuðla að því að raunverulegt jafnrétti karla og kvenna nái fram að ganga og taka þátt í að afnema núverandi mismunun. 

(3) Hvorki skulu menn gjalda fyrir né þeir látnir njóta forréttinda sökum kynferðis, ætternis, kynþáttar, tungumáls, heimkynna og uppruna, trúar, né trúarlegra eða stjórnmálalegra skoðana sinna. Engum má mismuna vegna fötlunar sinnar. 

4. gr.

(1) Trúfrelsi, samviskufrelsi og frelsi til að játast trú og lífsskoðun eru friðhelg. 

(2) Tryggja skal að trú megi iðka hindrunarlaust. 

(3) Engan má þvinga til vopnaðrar herþjónustu gegn sannfæringu sinni. Um nánari útfærslu skal ákveða með sambandslögum. 

5. gr.

(1) Allir hafa rétt til þess að láta í ljós og útbreiða skoðun sína í ræðu, riti og á mynd og leita sér óhindrað upplýsinga í heimildum sem eru aðgengilegar almenningi. Fjölmiðlafrelsi og frelsi til fréttaflutnings í útvarpi og kvikmyndum skal tryggt. Ritskoðun skal ekki eiga sér stað. 

(2) Þessi réttindi takmarkast af ákvæðum almennra laga og ákvæðum til verndar æskunni og af rétti til persónulegrar æru. 

(3) Frelsi ríkir í listum og vísindum, rannsóknum og kennslu. Kennslufrelsi leysir ekki undan hollustu við stjórnarskrána. 

6. gr.

(1) Hjónaband og fjölskylda skulu njóta sérstakrar verndar ríkisvaldsins. 

(2) Umönnun og uppeldi barna teljast náttúrleg réttindi foreldra og fremsta skylda þeirra. Ríkið vakir yfir gerðum þeirra. 

(3) Börn verða ekki skilin frá fjölskyldu sinni gegn vilja forráðamanna nema með heimild í lögum, ef forráðamenn bregðast eða ef hætta er á vanhirðu barnanna af öðrum ástæðum. 

(4) Sérhver móðir skal eiga kröfu til verndar og umönnunar samfélagsins. 

(5) Óskilgetnum börnum skal með löggjöf veita sömu skilyrði til líkamlegs og andlegs þroska og þjóðfélagsstöðu og skilgetnum börnum. 

7. gr.

(1) Skólakerfið allt skal vera undir umsjón ríkisins. 

(2) Forráðamenn hafa rétt til að taka ákvarðanir um þátttöku barnsins í trúarbragðakennslu. 

(3) Trúarbragðakennsla skal vera almenn kennslugrein í opinberum skólum, að undanteknum skólum utan trúfélaga. Trúarbragðakennslan skal fara fram í samræmi við meginreglur trúfélaganna án þess að umsjónarréttur ríkisins skerðist. Engan kennara má skylda gegn vilja sínum til að kenna trúarbrögð. 

(4) Rétturinn til að stofna einkaskóla skal tryggður. Einkaskólar, sem koma í stað opinberra skóla, þurfa að fá leyfi frá ríkinu og skulu hlíta lögum einstakra sambandslanda. Leyfið skal veitt, ef einkaskólarnir standa ekki að baki opinberum skólum hvað varðar kennslumarkmið, kennsluaðstöðu og fagmenntun kennara og ef ekki er stuðlað að skiptingu nemenda eftir efnahag foreldra. Leyfis skal synjað, ef fjárhags- og réttarstaða kennara er ekki nægilega tryggð. 

(5) Einkaskóla á grunnskólastigi skal því aðeins leyfa, að stjórn menntamála telji hann þjóna sérstökum uppeldismarkmiðum eða ef stofna á, samkvæmt beiðni forráðamanna, almenningsskóla eða skóla sérstaks trúfélags eða helgaðan sérstakri lífsskoðun og opinber grunnskóli slíks eðlis er ekki fyrir hendi í sveitarfélaginu.

(6) Undirbúningsskólar eru áfram óheimilir.

8. gr.

(1) Allir Þjóðverjar skulu hafa rétt til þess að koma saman með friðsömum hætti og vopnlausir án tilkynningar eða leyfis.

(2) Þegar um samkomur undir berum himni er að ræða má takmarka þessi réttindi með lögum eða með heimild í lögum.

9. gr.

(1) Allir Þjóðverjar skulu hafa rétt til að stofna samtök og félög.

(2) Samtök, sem samkvæmt tilgangi sínum eða með starfsemi sinni brjóta gegn hegningarlögum eða er stefnt gegn reglum stjórnskipunarinnar eða gegn hugmyndinni um gagnkvæman skilning þjóða á milli, eru bönnuð.

(3) Rétturinn til að stofna samtök til að vernda og efla atvinnuskilyrði og efnahagsforsendur skal tryggður öllum mönnum og fyrir öll störf. Samráð, sem miða að því að þrengja þennan rétt eða að hindra framgang hans, eru ógild; aðgerðir sem miða að slíku eru ólöglegar. Aðgerðir samkvæmt gr. 12a, 2. og 3. mgr. 35. gr., 4. mgr. gr. 87a og 91. gr. mega ekki beinast gegn vinnudeilum sem háðar eru af samtökum í skilningi 1. málsl. til að vernda og efla atvinnuskilyrði og efnahagsforsendur.

10. gr.

(1) Bréfaleynd, svo og póst- og fjarskiptaleynd, skal vera friðhelg.

(2) Takmarkanir má aðeins setja með heimild í lögum. Þjóni takmarkanirnar því að vernda hið frjálsa lýðræðisskipulag eða tilveru eða öryggi sambandsríkisins eða sambandslands, þá má kveða á í lögum að þeim sem verða fyrir takmörkununum skuli ekki tilkynnt um þær og að í stað þess að unnt sé að leita til dómstóla fari fram rannsókn á vegum stofnana og nefnda sem tilnefndar eru af þjóðþinginu.

11. gr.

(1) Allir Þjóðverjar skulu njóta dvalar- og ferðafrelsis á öllu landsvæði sambandsríkisins.

(2) Þessi réttindi má aðeins takmarka með lögum eða með heimild í lögum og aðeins í því tilviki að fullnægjandi lífsskilyrði séu ekki fyrir hendi og af því leiði sérstakar byrðar fyrir samfélagið eða ef takmarkanirnar eru nauðsynlegar til að verjast hættu sem steðjar að tilveru eða frjálsu lýðræðisskipulagi sambandsríkisins eða sambandslands, til baráttu gegn farsóttum, náttúruhamförum eða mjög alvarlegum slysum, til að vernda ungmenni gegn vanrækslu eða til að hamla gegn glæpum.

12. gr.

(1) Allir Þjóðverjar skulu hafa rétt til að velja sér starf, vinnustað og starfsþjálfunarstað. Heimilt er að setja reglur um iðkun starfa með lögum eða með heimild í lögum.

(2) Engan má þvinga til að inna tiltekið starf af hendi, nema innan ramma viðtekinnar opinberrar þegnskylduvinnu sem gildir almennt og jafnt fyrir alla.

(3) Nauðungarvinna er aðeins heimil með frelsissviptingu sem ákveðin er af dómstólum.
Gr. 12 a(1) Karlmenn, sem orðnir eru fullra átján ára, má skylda til þjónustu í hernum, landamæragæslu sambandsríkisins eða heimavarnarliði.(2) Hvern þann, sem hafnar vopnaðri herþjónustu af samviskuástæðum, má skylda til að inna af hendi aðra þjónustu í staðinn. Slík þjónusta má ekki standa lengur en herþjónustan. Nánari útfærslu skal ákvarða með lögum, sem ekki mega skerða frelsi til samviskuákvarðana og verða að gera ráð fyrir þjónustuígildi, sem á engan hátt tengist stofnunum hersins eða landamæragæslu sambandsríkisins.

(3) Þegar varnarástand ríkir er, með lögum eða með heimild í lögum, hægt að kveða herskylda, sem ekki eru kallaðir til þjónustu samkvæmt 1. og 2. mgr., til borgaralegra þjónustustarfa í varnarskyni, þar á meðal til verndar almenningi; aðeins er leyfilegt að kalla menn til opinberra þjónustustarfa ef um lögreglustörf er að ræða eða ábyrgðarverkefni í opinberri stjórnsýslu sem einungis starfsmenn í þjónustu hins opinbera geta innt af hendi. Kalla má fólk til starfa samkvæmt 1. málsl. til þjónustustarfa hjá hernum og til opinberra stjórnsýslustarfa; aðeins má kalla fólk til þjónustustarfa í þágu almennings, ef það er til að sjá honum fyrir nauðþurftum eða til að tryggja öryggi hans.

(4) Þegar varnarástand ríkir og ekki er hægt með sjálfboðaliðum að sinna þörfinni fyrir borgaralegt vinnuafl í heilbrigðis- og sjúkraþjónustu við almenning eða í sjúkraskýlum hersins, má kalla konur sem orðnar eru fullra átján ára og ekki hafa náð fimmtíu og fimm ára aldri til slíkra þjónustustarfa með lögum eða með heimild í lögum. Þær mega undir engum kringumstæðum sinna vopnaðri herþjónustu.

(5) Áður en til varnarástands kemur má aðeins kalla fólk til þjónustu samkvæmt 3. mgr. að farið sé eftir ákvæðum 1. mgr., gr. 80 a. Ef um það er að ræða að sérstaka þekkingu eða kunnáttu þurfi til undirbúnings þjónustustarfa samkvæmt 3. mgr. er hægt með lögum eða með heimild í lögum að skylda menn til þátttöku á námskeiðum. 1. málsl. á ekki við í því tilviki.

(6) Þegar varnarástand ríkir og ekki er hægt með sjálfboðaliðum að sinna þörfinni fyrir vinnuafl á þeim sviðum sem nefnd eru í 2. málsl. 3. mgr., þá má með lögum eða með heimild í lögum skerða frelsi Þjóðverja til að leggja niður vinnu eða fara af vinnustað til að tryggja að þessari þörf verði fullnægt. Áður en til varnarástands kemur gilda samsvarandi ákvæði í 1. málsl. 5. mgr.

13. gr.

(1) Heimilið nýtur friðhelgi.

(2) Húsleit má aðeins framkvæma eftir ákvörðun dómara, og auk þess, ef töf gæti valdið hættu, samkvæmt úrskurði annarra stofnana eins og gert er ráð fyrir í lögum og aðeins á þann hátt sem lög segja fyrir um.

(3) Renni ákveðnar staðreyndir stoðum undir grun þess efnis að einhver hafi framið mjög alvarlegt afbrot, sem sérstaklega er skilgreint í lögum, þá er með dómsúrskurði heimilt að beita tæknilegum búnaði til að hlera íbúðir, þar sem sakborningur er talinn halda sig, í þeim tilgangi að rannsaka verknaðinn, að því tilskyldu að rannsókn málsins myndi með öðrum hætti verða óhóflega erfið eða vonlaus með öllu. Slíkum aðgerðum skal setja tímamörk. Úrskurðarnefnd þriggja dómara skal gefa fyrirmælin. Geti töf valdið hættu má einn dómari einnig gefa þau.

(4) Til að koma í veg fyrir hættu sem steðjar að opinberu öryggi, sérstaklega almenna hættu eða lífshættu, má einungis beita tækjabúnaði til þess að fylgjast með íbúðum á grundvelli dómsúrskurðar. Geti töf valdið hættu mega önnur yfirvöld, sem tilgreind eru í lögum, gefa fyrirskipun um aðgerðirnar; dómsúrskurðinn þarf þó að gefa út án tafar eftir á.

(5) Sé tæknilegur búnaður eingöngu ætlaður til að vernda þá sem dveljast í þeim íbúðum, þar sem honum er beitt, þá mega yfirvöld, sem tilgreind eru í lögum, fyrirskipa aðgerðina. Því aðeins er heimilt að nota þær upplýsingar, sem þannig fást, að það sé gert í því skyni að rannsaka refsimál eða til að verjast hættu, og því aðeins að dómstóll hafi áður gengið úr skugga um að aðgerðin sé réttmæt; geti töf valdið hættu ber að fá dómsúrskurð án tafar eftir á.

(6) Ríkisstjórn Sambandslýðveldisins tilkynnir sambandsþinginu árlega um notkun tæknilegs búnaðar samkvæmt 3. grein, svo og um það svið sem sambandsríkið ber ábyrgð á samkvæmt 4. grein og einnig, svo framarlega sem þörf er á dómstólaprófun, samkvæmt 5. grein. Sambandsþingið skipar nefnd sem fer með þinglegt eftirlit á grundvelli þesarar skýrslu. Sambandslöndin sjá um sambærilegt þinglegt eftirlit.

(7) Íhlutun og takmörkun má að öðru leyti aðeins fara fram til varnar gegn almennri hættu eða lífshættu einstaklinga, og auk þess með heimild í lögum til að koma í veg fyrir aðsteðjandi hættu fyrir almannaöryggi og allsherjarreglu, einkum og sér í lagi til að leysa úr húsnæðisvanda, til baráttu gegn farsóttum eða til verndar æskufólki sem ógn steðjar að.

14. gr.

(1) Eign og erfðaréttur skulu vera tryggð. Efni þeirra og takmarkanir verða ákveðin með lögum.

(2) Eignum fylgja skyldur. Notkun þeirra skal jafnframt þjóna almannaheill.

(3) Eignarnám skal aðeins leyfa í þágu almannaheillar. Því má aðeins beita með lögum eða með heimild í lögum, sem kveða á um eðli og umfang bóta. Bæturnar skal ákvarða með sanngjörnu mati á almannahagsmunum og þess sem hlut á að máli. Leita má til almennra dómstóla ef deilur rísa vegna upphæðar bótanna.

15. gr.

Landspildur, náttúruauðlindir og framleiðslutæki má í þágu ríkishagsmuna, með lögum sem kveða á um eðli og umfang bóta, gera að almannaeign eða færa yfir í önnur form ríkisrekstrar. Um bætur gildir að breyttu breytanda 3. og 4. málsl. 3. mgr. 14. gr.

16. gr.

(1) Engan má svipta þýsku ríkisfangi. Missir ríkisfangs getur aðeins átt sér stað með heimild í lögum og því aðeins gegn vilja þess sem í hlut á, að viðkomandi verði þar með ekki ríkisfangslaus.

(2) Engan Þjóðverja má framselja til útlanda.
Gr. 16 a(1) Þeir sem ofsóttir eru af stjórnmálaástæðum skulu eiga rétt á hæli sem flóttamenn.(2) Enginn sá, sem kemur til landsins frá aðildarríki Evrópubandalaganna eða frá einhverju öðru þriðja ríki, þar sem framkvæmd Sáttmála um réttarstöðu flóttamanna eða Samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis er tryggð, getur skírskotað til 1. mgr. Ríki þau utan Evrópubandalaganna, sem skilyrði 1. málsl. eiga við um, skulu tilgreind með lögum, sem þurfa samþykkis sambandsráðsins. Í þeim tilvikum sem tilgreind eru í 1. málslið, má binda endi á landvist fólks óháð formlegum andmælum sem lögð kunna að hafa verið fram.

(3) Með lögum, sem þurfa samþykkis sambandsráðsins, er unnt að tilgreina þau ríki, þar sem tryggt virðist, á grundvelli réttarástands, lagabeitingar og almennra stjórnmálaaðstæðna, að þar eigi sér hvorki stað stjórnmálaofsóknir, né heldur sæti fólk þar ómannúðlegri eða vanvirðandi refsingu eða meðferð. Gera skal ráð fyrir, að útlendingur frá slíku ríki sæti ekki ofsóknum, svo framarlega sem hann leggur ekki fram staðreyndir sem leiða rök að því að hann, gegnt því sem álitið er, sæti stjórnmálaofsóknum.

(4) Því aðeins skal með dómi hætta við að framfylgja aðgerðum sem binda endi á landvist fólks í þeim tilvikum sem tilgreind eru í 3. mgr. og í öðrum tilvikum, sem eru augljóslega órökstudd eða teljast vera augljóslega órökstudd, að alvarlegur vafi leiki á réttmæti aðgerðanna; umfang rannsóknarinnar má takmarka og ekki þarf að taka tillit til þess þótt töf verði á fyrirtaka. Um nánari útfærslu skal ákveða með lögum.

(5) 1. til 4. mgr. eru ekki í andstöðu við þjóðréttarlega samninga aðildarríkja Evrópubandalaganna sín á milli eða við einhver þriðju ríki, sem hafa að geyma reglur um umsóknir um hæli af stjórnmálaástæðum, þar á meðal um gagnkvæma viðurkenningu á úrskurðum um hæli, að teknu tilliti til þeirra skuldbindinga sem er að finna í Sáttmála um réttarstöðu flóttamanna og í Samningi um mannréttindi og mannfrelsi, enda skal framkvæmd þeirra tryggð í aðildarríkjum samninganna.

17. gr.

Allir skulu hafa rétt til þess að snúa sér, einir eða í félagi við aðra, með skriflegar beiðnir eða kvartanir til viðeigandi stjórnvalda eða til þjóðþingsins.
Gr. 17 a(1) Ákveða má í lögum um herþjónustu og herþjónustuígildi að fyrir þá sem sinna herþjónustu og herþjónustuígildi megi, meðan herþjónusta eða herþjónustuígildi stendur yfir, takmarka þau grundvallarréttindi að láta í ljós og útbreiða skoðun sína óhindrað í ræðu, riti og myndum (fyrri hluti 1. málsl. 1. mgr. 5. gr.), grundvallarréttindi fundarfrelsis (8. gr.) og réttinn til málaumleitunar (17. gr.), að því leyti sem lög tryggja það að beiðnir eða kvartanir sé unnt að leggja fram í félagi með öðrum.(2) Í lögum, sem lúta að vörnum, þar á meðal að vernd almennra borgara, má ákveða takmarkanir á grundvallarréttindum dvalar- og ferðafrelsis (11. gr.) og friðhelgi heimilisins (14. gr.).

18. gr.

(1) Hver sá sem misnotar frelsi til að láta skoðun sína í ljós, einkum fjölmiðlafrelsi (1. mgr. 5. gr.), kennslufrelsi (3. mgr. 5. gr.), fundarfrelsi (8. gr.), félagafrelsi (9. gr.), bréfa-, póst- og fjarskiptaleynd (10. gr.), eignir (14. gr.) eða rétt til hælis af stjórnmálaástæðum (16. gr. a) í því skyni að berjast gegn hinni frjálsu lýðræðisskipan, glatar þessum grundvallarréttindum. Stjórnlagadómstóll sambandsríkisins skal úrskurða um missi réttindanna og hversu víðtækur hann er.

19. gr.

(1) Svo fremi sem takmarka má einhver grundvallarréttindi samkvæmt Grundvallarlögum þessum með lögum eða með heimild í lögum, verða lögin að gilda almennt en ekki aðeins um einstök tilvik. Ennfremur verður í lögunum að tilgreina viðkomandi grundvallarréttindi ásamt viðeigandi grein stjórnarskrárinnar.

(2) Undir engum kringumstæðum má hrófla við megininntaki grundvallarréttinda.

(3) Grundvallarréttindin skulu einnig gilda um innlenda lögaðila, svo fremi sem þau geta eðli sínu samkvæmt átt við um þá.

(4) Brjóti stjórnvöld rétt á manni, skal hann geta leitað til dómstóla. Leita skal til almennra dómstóla nema annað dómsvald sé ákveðið. Ákvæði þessarar greinar hafa ekki áhrif á 2. málsl. 2. mgr. 10. gr.
 

II. Sambandsríkið og sambandslöndin

20. gr.

(1) Sambandslýðveldið Þýskaland er lýðræðislegt og félagslegt sambandsríki.

(2) Allt ríkisvald er frá þjóðinni fengið. Þjóðin beitir því í kosningum og atkvæðagreiðslum og í sérstökum stofnunum löggjafarvaldsins, framkvæmdarvaldsins og dómsvaldsins.

(3) Löggjafinn er bundinn af stjórnskipuninni, framkvæmdarvaldið og dómsvaldið af lögum og rétti.

(4) Séu önnur ráð ekki fyrir hendi hafa allir Þjóðverjar rétt til þess að veita andspyrnu hverjum þeim sem hyggst kollvarpa þessari skipan.
Gr. 20 aRíkið skal, með löggjöf og, eftir því sem lög og réttur mæla fyrir um, með beitingu framkvæmdarvaldsins og dómsvaldsins, vernda náttúrulegan grundvöll lífsins, einnig með ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum, innan þeirra marka sem sett eru í reglum stjórnskipunarinnar.21. gr.

(1) Stjórnmálaflokkarnir taka þátt í að móta stjórnmálalega afstöðu þjóðarinnar. Frjálst er að stofna þá. Innra skipulag þeirra verður að vera í samræmi við grundvallarreglur lýðræðisskipulagsins. Þeim ber að gera opinbera grein fyrir uppruna og ráðstöfun fjármuna sinna, og ennfremur fyrir eignum sínum.

(2) Flokkar, sem í markmiðum sínum eða háttsemi fylgismanna sinna stefna að því að skaða eða kollvarpa hinu frjálsa, lýðræðislega grundvallarskipulagi eða að stofna tilvist Sambandslýðveldisins Þýskalands í hættu, eru andstæðir stjórnarskránni. Stjórnlagadómstóll sambandsríkisins sker úr um hvað teljast skuli andstætt stjórnarskránni.

(3) Um nánari útfærslu skal ákveðið í sambandslögum.

22. gr.

Fáni sambandsríkisins er svartur, rauður og gylltur.

23. gr.

(1) Til að gera sameinaða Evrópu að veruleika skal Sambandslýðveldið Þýskaland taka þátt í þróun Evrópusambandsins, sem er skuldbundið af meginreglum lýðræðis, réttarríkis og sambandsríkis, félagslegum meginreglum og dreifræðisreglunni og tryggir verndun grundvallarréttinda sem í meginatriðum er sambærileg þessum Grundvallarlögum. Sambandsríkinu er í þessu skyni heimilt með lögum og að fengnu samþykki sambandsráðsins, að framselja fullveldisrétti. Um stofnun Evrópusambandsins, um breytingar á samningsgrundvelli þess og um sambærilegar reglur, sem breyta innihaldi þessara Grundvallarlaga eða auka við þau, eða gera slíkar breytingar eða viðauka mögulega, gildir 79. gr., 2. og 3. mgr.

(2) Sambandsþingið tekur þátt í málefnum Evrópusambandsins, svo og sambandslöndin með milligöngu sambandsráðsins. Ríkisstjórn Sambandslýðveldisins skal veita sambandsþinginu og sambandsráðinu fullnægjandi upplýsingar svo fljótt sem auðið er.

(3) Ríkisstjórn Sambandslýðveldisins skal gefa sambandsþinginu tækifæri til að taka afstöðu áður en til þátttöku hennar í lagasetningu Evrópusambandsins kemur. Ríkisstjórnin skal taka tillit til afstöðu sambandsþingsins í samningaviðræðunum. Um nánari útfærslu skal ákveðið með lögum.

(4) Sambandsráðið skal taka þátt í að móta afstöðu Sambandslýðveldisins, svo fremi sem það hefði tekið þátt í samsvarandi aðgerðum innanlands eða svo fremi sem sambandslöndin hefðu verið réttbær yfirvöld innanlands.

(5) Ríkistjórnin skal taka tillit til afstöðu sambandsráðsins, svo fremi sem málið snertir hagsmuni sambandslandanna á sviði einkaréttar sambandsríkisins til lagasetningar eða svo fremi sem sambandsríkið hefur að öðru leyti löggjafarrétt. Á því sviði þar sem sambandslöndin hafa löggjafarrétt skal, þegar afstaða Sambandslýðveldisins er mótuð, einkum taka mið af skilningi sambandsráðsins, ef málið snertir stofnanir eða stjórnsýslu sambandslandanna; jafnframt skal alríkisábyrgð Sambandslýðveldisins tryggð. Í málefnum, sem geta haft í för með sér hækkun útgjalda eða lækkun tekna sambandsríkisins, skal samþykki ríkisstjórnar Sambandslýðveldisins vera skilyrði.

(6) Þegar málið snertir einkarétt sambandslandanna til lagasetningar skal meðferð þeirra réttinda, sem Sambandslýðveldið Þýskaland hefur sem aðildarríki Evrópusambandsins, framseld frá sambandsríkinu til fulltrúa sambandslandanna sem sambandsráðið skipar. Meðferð réttindanna skal fara fram með þátttöku og í samráði við ríkisstjórn Sambandslýðveldisins; jafnframt skal alríkisábyrgð Sambandslýðveldisins tryggð.

(7) Um nánari útfærslu varðandi 4.-6. mgr. skal ákveðið með lögum, sem þurfa samþykkis sambandsráðsins.

24. gr.

(1) Sambandið getur með lögum framselt fullveldisréttindi til milliríkjastofnana.

(1 a) Svo fremi sem beiting ríkisvaldsins og framkvæmd verkefna ríkisins heyrir undir sambandslöndin geta þau, með samþykki ríkisstjórnarinnar, framselt fullveldisréttindi til stofnana, sem reknar eru sameiginlega af sambandslandi og nágrannalandi þess.

(2) Til tryggingar friði getur sambandsríkið gerst aðili að gagnkvæmu sameiginlegu öryggiskerfi; með því fellst það á takmarkanir á fullveldisrétti sínum, sem koma til leiðar og tryggja friðsamlega og varanlega skipan í Evrópu og á milli þjóða heimsins.

(3) Til að koma reglu á milliríkjadeilur skal sambandsríkið gerast aðili að samningum um alþjóðlegan gerðardóm sem er almennur, alhliða og skuldbindandi.

25. gr.

Almennar þjóðaréttarreglur eru hluti sambandsréttarins. Þær ganga fyrir lögum og leiða milliliðalaust af sér réttindi og skyldur fyrir íbúa sambandssvæðisins.

26. gr.

(1) Athafnir, sem eru til þess fallnar og gerðar í því skyni að raska friðsamlegri sambúð þjóðanna, einkum og sér í lagi til þess að undirbúa árásarstríð, eru andstæðar stjórnarskránni. Þær skulu sæta refsingu.

(2) Vopn sem ætluð eru til stríðsrekstrar, má hvorki framleiða, flytja á milli staða né setja á markað nema með leyfi sambandsstjórnarinnar. Um nánari útfærslu skal ákveðið með sambandslögum.

27. gr.

Öll þýsk kaupskip mynda einn kaupskipaflota.

28. gr.

(1) Stjórnskipan sambandslandanna verður að vera í samræmi við meginreglur lýðveldislegs, lýðræðislegs og félagslegs réttarríkis samkvæmt skilningi þessara Grundvallarlaga. Í sérhverju sambandslandi, héraði og sveitarfélagi skal þjóðin eiga fulltrúa, sem kjörnir hafa verið í almennum, beinum, frjálsum, jöfnum og leynilegum kosningum. Í sveitarfélögum má sveitarfélagsþing koma í stað kjörinna fulltrúa. Í kosningum í héruðum og sveitarfélögum skulu ríkisborgarar í aðildarríkjum Evrópusambandsins einnig hafa kosningarétt og vera kjörgengir samkvæmt lögum Evrópusambandsins.

(2) Sveitarfélögum verður að tryggja rétt til þess að setja reglur á eigin ábyrgð um öll staðbundin málefni innan ramma laganna. Samtök sveitarfélaga hafa einnig rétt til sjálfstjórnar samkvæmt lögum og innan ramma þeirra verkefna sem þeim eru falin að lögum. Trygging sjálfsstjórnar nær einnig til undirstöðu efnahagslegrar sjálfsábyrgðar.

(3) Sambandsríkið tryggir að stjórnskipan sambandslandanna samræmist grundvallarréttindum og ákvæðum 1. og 2. gr.

29. gr.

(1) Heimilt er að breyta því hvernig landsvæði Sambandslýðveldisins skiptist í sambandslönd til þess að tryggja að sambandslöndin geti, eftir stærð og afkastagetu, í raun sinnt þeim verkefnum sem þeim ber. Taka ber í því sambandi tillit til átthagatengsla, sögulegs og menningarlegs samhengis, efnahagslegrar hagkvæmni, auk þarfa svæðisskipulags sambandsríkisins og aðalskipulags sambandslandanna.

(2) Ráðstafanir til nýskiptingar sambandssvæðisins skulu gerðar með sambandslögum, sem leggja þarf undir þjóðarúrskurð til staðfestingar. Hlýtt skal á sjónarmið hlutaðeigandi sambandslanda.

(3) Ef mynda á nýtt sambandsland eða sambandsland með breyttum landamærum úr landsvæði eða hluta landsvæðis annarra sambandslanda, þá fer fram þjóðarúrskurður í þeim (hlutaðeigandi sambandslönd). Atkvæði skal greitt um þá spurningu, hvort hlutaðeigandi sambandslönd verði óbreytt í sömu mynd og hingað til eða hvort mynda eigi nýtt sambandsland eða sambandsland með breyttum landamærum. Þjóðarúrskurður um myndun nýs sambandslands eða breytingu sambandslandamæra nær fram að ganga þegar meirihluti íbúa á hverju landsvæði þess sambandslands sem mynda skal og á öllum svæðum eða svæðishlutum hlutaðeigandi sambandslanda, þar sem sambærileg breyting verður á því, hvaða sambandslandi eða sambandslöndum hlutaðeigandi landsvæði tilheyra, greiðir atkvæði sitt með breytingunni. Hann nær ekki fram að ganga ef meirihluti á landsvæði eins hinna hlutaðeigandi sambandslanda hafnar breytingunni; ekki skal þó hlíta þeirri höfnun ef meira en tveir þriðju hlutar íbúa á þeim svæðishluta hlutaðeigandi sambandslands, sem á framvegis að tilheyra öðru sambandslandi, greiða breytingunni samþykki sitt, nema því aðeins að meira en tveir þriðju hlutar íbúa á öllu svæði hlutaðeigandi sambandslands hafni breytingunni.

(4) Leggi tíundi hluti þeirra, sem kosningarétt hafa til sambandsþings og búa á samfelldu og afmörkuðu byggða- eða efnahagssvæði, sem tilheyrir fleiri en einu sambandslandi en er með að minnsta kosti eina milljón íbúa, fram þjóðarkröfu um að landsvæðið verði sameinað í eitt sambandsland, skal innan tveggja ára með sambandslögum annaðhvort ákveðið, hvort breyting verði á því hvaða sambandslandi eða sambandslöndum hlutaðeigandi landsvæði tilheyrir, samkvæmt 2. mgr., eða að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram í hlutaðeigandi sambandslöndum.

(5) Þjóðaratkvæðagreiðslan skal miða að því að leiða í ljós hvort breytingin á því hvaða sambandslandi hlutaðeigandi landsvæði tilheyrir, sem leggja á til í lögunum, hljóti samþykki. Í lögunum má leggja fram mismunandi tillögur, þó ekki fleiri en tvær, fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Greiði meirihlutinn atkvæði sitt með tillögu um breytingu á því hvaða sambandslandi hlutaðeigandi landsvæði tilheyrir, skal innan tveggja ára ákveða með sambandslögum, hvort breyting verði gerð samkvæmt 2. mgr. á því hvaða sambandslandi hlutaðeigandi landsvæði tilheyrir. Hljóti tillaga sem lögð hefur verið fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu samþykki samkvæmt ákvæðum 3. og 4. málsl. 3. mgr., skal innan tveggja ára frá því þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram setja lög um myndun þess sambandslands sem tillagan segir fyrir um, og þurfa lögin þá ekki lengur staðfestingar með þjóðarúrskurði.

(6) Meirihluti í þjóðarúrskurði og í þjóðaratkvæðagreiðslu skal vera meirihluti greiddra atkvæða, ef fjöldi þeirra nemur að minnsta kosti fjórðungi þeirra sem kosningarétt hafa til sambandsþingsins. Um nánari útfærslu á þjóðarúrskurði, þjóðarkröfu og þjóðaratkvæðagreiðslu skal ákveða með sambandslögum; í lögunum má einnig gera ráð fyrir, að þjóðarkröfu megi ekki leggja fram oftar en einu sinni á fimm ára tímabili.

(7) Aðrar breytingar á landsvæði sambandslandanna geta orðið með samningum milli þeirra sambandslanda sem í hlut eiga eða með sambandslögum sem sambandsráðið hefur samþykkt, að því tilskildu að það landsvæði sem á að tilheyra öðru sambandslandi en áður hafi ekki fleiri en 50.000 íbúa. Um nánari útfærslu skal ákveðið með sambandslögum, sem þurfa samþykkis sambandsráðins og meirihluta þingmanna sambandsþingsins. Í lögunum skal gera ráð fyrir að hlýtt sé á sjónarmið hlutaðeigandi sveitarfélaga og héraða.

(8) Sambandslöndin geta með samningi sín á milli skipt landsvæði sínu eða hluta af landsvæði sínu að nýju á annan hátt en ákvæði 2. til 7. gr. mæla fyrir um. Hlýða skal á álit hlutaðeigandi sveitarfélaga og héraða. Samningurinn þarf að staðfesta með þjóðarúrskurði í öllum hlutaðeigandi sambandslöndum. Varði samningurinn hluta af landsvæði sambandslandanna má takmarka þjóðarúrskurðinn við þá svæðishluta; seinni hluti 5. málsl. á ekki við. Í þjóðarúrskurði ræður meirihluti greiddra atkvæða úrslitum, ef hann nemur a.m.k. fjórðungi þeirra sem kosningarétt hafa til sambandsþingsins; um nánari útfærslu skal ákveða með sambandslögum. Samningurinn þarf samþykkis sambandsþingsins.

30. gr.

Sambandslöndin fara með ríkisvald og sinna ríkisverkefnum, nema annað sé leyft eða ákveðið í stjórnarskrá þessari.

31. gr.

Lög sambandsríkisins ganga fyrir lögum sambandslandanna.

32. gr.

(1) Það er í verkahring sambandsríkisins að halda uppi tengslum við erlend ríki.

(2) Áður en samningur er gerður, sem varðar sérstakar aðstæður sambandslands, skal leita álits þess í tíma.

(3) Sambandslöndin geta gert samninga við erlend ríki með samþykki sambandsstjórnarinnar, svo fremi sem löggjafarvaldið er á þeirra hendi.

33. gr.

(1) Sérhver Þjóðverji skal njóta sömu réttinda og hafa sömu skyldur sem ríkisborgari í öllum sambandslöndum.

(2) Sérhver Þjóðverji skal hafa jafnan aðgang að öllum opinberum embættum í samræmi við hæfileika sína, kunnáttu og árangur í fagi sínu.

(3) Borgaraleg og ríkisborgaraleg réttindi, aðgangur að opinberum embættum ásamt þeim réttindum sem hljótast í þjónustu hins opinbera skulu vera óháð trúarskoðunum. Engan má láta gjalda fyrir að hann aðhyllist eða aðhyllist ekki einhver trúarbrögð eða lífsskoðun.

(4) Framkvæmd ríkisvalds sem viðvarandi verkefnis skal að jafnaði falið opinberum starfsmönnum, sem lúta ákvæðum opinbers réttar um þjónustu og trúnað í starfi.

(5) Lög um opinbera starfsmenn skulu sett með tilliti til þeirra meginreglna sem viðteknar eru um embættisstörf.

34. gr.

Brjóti einhver, meðan hann er að sinna opinberu embætti sem honum hefur verið trúað fyrir, gegn embættisskyldum sínum gagnvart þriðja aðila skal meginreglan vera sú, að ábyrgðin falli á hendur ríkinu eða þeirri stofnun sem hann starfar hjá. Ef um ásetning er að ræða eða stórfellda vanrækslu er endurkröfuréttur áskilinn. Varðandi skaðabótakröfur og endurkröfurétt má ekki vera útilokað að hægt sé að leita til almennra dómstóla.
35. gr.(1) Öll stjórnvöld sambandsríkis og sambandslandanna skulu veita hvert öðru lagalega og stjórnsýslulega aðstoð.(2) Þegar sérstök þörf er á getur sambandsland krafist þess að liðsafli og stofnanir landamæragæslu Sambandslýðveldisins veiti lögreglu sinni stuðning til þess að viðhalda eða endurreisa öryggi almennings eða allsherjarreglu, ef lögreglan gæti án þessarar aðstoðar ekki sinnt verkefnum sínum eða gæti það ekki án verulegra erfiðleika. Þegar náttúruhamfarir eða mjög alvarleg slys eiga sér stað getur sambandsland krafist aðstoðar hjá lögreglu annarra sambandslanda, liðsafla og stofnunum annarra stjórnvalda svo og landamæragæslu Sambandslýðveldisins og hernum.

(3) Ógni náttúruhamfarir eða slys landsvæði fleiri en eins sambandslands, þá getur ríkisstjórn Sambandslýðveldisins, svo fremi sem það er nauðsynlegt til þess að hjálparstarfið beri árangur, fyrirskipað landsstjórnunum, að láta öðrum sambandslöndum lögreglulið í té, og einnig senda liðssveitir landamæragæslunnar og hersins til stuðnings lögreglunni. Krefjist sambandsráðið þess, skal undir öllum kringumstæðum bundinn endir á aðgerðir ríkistjórnarinnar samkvæmt 1. málslið, og auk þess tafarlaust eftir að hættunni hefur verið bægt frá.

36. gr.

(1) Hjá æðstu yfirvöldum Sambandslýðveldisins skal nota embættismenn frá öllum sambandslöndum í réttu hlutfalli. Starfsmenn annarra yfirvalda Sambandslýðveldis skulu að öðru jöfnu koma frá því sambandslandi, þar sem þeir starfa.

(2) Lög um herþjónustu þurfa einnig að taka mið af skiptingu sambandsríkisins í sambandslönd og af sérstökum nágrannatengslum þeirra á milli.

37. gr.

(1) Ef sambandsland uppfyllir ekki þær skyldur við Sambandslýðveldið sem því ber samkvæmt stjórnarskrá eða öðrum sambandslögum, getur ríkisstjórnin með samþykki sambandsráðsins gert nauðsynlegar ráðstafanir til að sjá til þess að sambandslandið framfylgi skyldum sínum með því að beita þvingunaraðgerðum sambandsstjórnarinnar.

(2) Til þess að framfylgja þvingunaraðgerðum sambandsstjórnarinnar skal ríkisstjórn Sambandslýðveldisins eða fulltrúi hennar hafa rétt til að gefa fyrirmæli til allra sambandslanda og yfirvalda þeirra.
 

III. Sambandsþingið

38. gr.(1) Þingmenn þýska sambandsþingsins skulu kjörnir í almennum, beinum, frjálsum, jöfnum og leynilegum kosningum. Þeir skulu vera fulltrúar allrar þjóðarinnar, óbundnir af umboðum og fyrirmælum og engu háðir nema samvisku sinni.(2) Kosningarétt skulu allir hafa, sem náð hafa átján ára aldri; kjörgengir skulu allir vera, sem orðnir eru lögráða.

(3) Um nánari útfærslu skal ákveðið með sambandslögum.

39. gr.

(1) Sambandsþingið skal kosið til fjögurra ára í senn. Kjörtímabili þess lýkur þegar nýtt þing sambandsþingsins kemur saman. Nýjar kosningar skulu fara fram ekki fyrr en fjörutíu og fimm mánuðum og ekki síðar en fjörutíu og sjö mánuðum eftir að kjörtímabil hófst. Sé sambandsþingið rofið skulu nýjar kosningar fara fram innan sextíu daga.

(2) Sambandsþingið skal koma saman ekki síðar en á þrítugasta degi eftir kosningar.

(3) Sambandsþingið skal ákveða hvenær fundum þess lýkur og hvenær þeir hefjast að nýju. Forseti sambandsþingsins getur kallað það saman fyrr. Honum ber skylda til þess, ef þriðji hluti þingmanna sambandsþingsins eða forseti eða kanslari Sambandslýðveldisins krefjast þess.

40. gr.

(1) Sambandsþingið kýs sér forseta, staðgengil hans og ritara. Það setur sér þingsköp.

(2) Forsetinn fer með agavald og lögregluvald í húsnæði sambandsþingsins. Í húsakynnum sambandsþingsins má hvorki húsleit né haldlagning fara fram án leyfis hans.

41. gr.

(1) Sambandsþingið hefur úrskurðarvald um framkvæmd kosninga. Það sker einnig úr um hvort þingmaður sambandsþingsins hafi glatað þingsæti sínu.

(2) Kæra má úrskurði sambandsþingsins til stjórnlagadómstóls Sambandslýðveldisins.

(3) Um nánari útfærslu skal ákveða með sambandslögum.

42. gr.

(1) Fundir sambandsþingsins eru opinberir. Lokaðan fund má halda, að tillögu tíunda hluta þingmanna sambandsþingsins eða ríkisstjórnar Sambandslýðveldisins, fallist tveir þriðju hlutar þingmanna sambandsþingsins á það. Um tillögu þess efnis skal taka ákvörðun á lokuðum fundi.

(2) Til ákvörðunar sambandsþingsins þarf meirihluta greiddra atkvæða, svo fremi sem þessi Grundvallarlög segi ekki fyrir um annað. Í þingsköpum má leyfa undantekningu, hvað snertir kosningar sem fara eiga fram í sambandsþinginu.

(3) Engan skal unnt að draga til ábyrgðar vegna sannra og réttra frétta um opinbera þingfundi sambandsþingsins og nefnda þess.

43. gr.

(1) Sambandsþingið og nefndir þess geta krafist þess að sérhver meðlimur ríkisstjórnar Sambandslýðveldisins mæti á fundum þeirra.

(2) Þingmenn sambandsráðsins og meðlimir ríkisstjórnar Sambandslýðveldisins ásamt fulltrúum þeirra skulu hafa aðgang að öllum fundum sambandsþingsins og nefnda þess. Ávallt skal hlýtt á sjónarmið þeirra.

44. gr.

(1) Sambandsþingið hefur rétt til þess, og fari fjórðungur þingmanna fram á það ber því skylda til þess, að setja á stofn rannsóknarnefnd, sem aflar sér opinberlega nauðsynlegra sönnunargagna. Heimilt er að halda lokaða fundi.

(2) Við öflun sönnunargagna skal ákvæðum laga um meðferð opinberra mála beitt eftir því sem við á. Ákvæði þetta skal engin áhrif hafa á bréfa-, póst- og fjarskiptaleynd.

(3) Dómstólum og stjórnvöldum ber skylda til að veita lagalega og stjórnsýslulega aðstoð.

(4) Ákvarðanir rannsóknarnefnda eru undanþegnar dómstólaprófun. Dómstólar skulu frjálsir til þess að meta og dæma þær staðreyndir sem liggja til grundvallar rannsókninni.

45. gr.

Sambandsþingið skal setja á stofn nefnd um málefni Evrópusambandsins. Sambandsþingið getur veitt henni heimild til að fara með réttindi sambandsþingsins gagnvart ríkisstjórn Sambandslýðveldisins samkvæmt tuttugustu og þriðju grein.
Gr. 45 a(1) Sambandsþingið skal setja á stofn nefnd um utanríkismál og nefnd um varnarmál.(2) Varnarmálanefnd skal jafnframt hafa réttindi rannsóknarnefndar. Fari fjórði hluti nefndarmanna fram á það ber henni skylda til að taka mál til rannsóknar.

(3) 1. mgr. 44. gr. gildir ekki á sviði varnarmála.
Gr. 45 bTilnefna skal varnarmálafulltrúa sambandsþingsins til að vernda grundvallarréttindi og til að aðstoða sambandsþingið við að halda uppi þinglegu eftirliti. Um nánari útfærslu skal ákveðið með sambandslögum. Gr. 45 c(1) Sambandsþingið skal setja á stofn erindisnefnd, sem fjalla skal um beiðnir og kvartanir sem beint er til sambandsþingsins samkvæmt 17. gr.(2) Um heimildir nefndarinnar til að afgreiða kvartanir skal ákveðið með sambandslögum.

46. gr.

(1) Þingmann má aldrei draga fyrir dómstóla né beita agareglum né draga hann að öðru leyti til ábyrgðar utan sambandsþingsins vegna atkvæðagreiðslu sinnar eða vegna ummæla sem hann hefur haft í frammi í sambandsþinginu eða í einhverri af nefndum þess. Þetta gildir ekki um ærumeiðandi aðdróttanir.

(2) Einungis má draga þingmann til ábyrgðar eða handtaka hann fyrir verknað sem refsing liggur við að fengnu leyfi sambandsþingsins, nema hann sé tekinn fastur um leið og brotið er framið eða á næsta degi.
(3) Ennfremur þarf leyfi sambandsþingsins fyrir öllum öðrum takmörkunum á persónufrelsi þingmanns eða til að höfða mál á hendur þingmanni samkvæmt 18. gr.(4) Krefjist sambandsþingið þess skal öllum sakamálum og öllum málaferlum samkvæmt 18. gr. gegn þingmanni hætt að svo stöddu, svo og endir bundinn á alla fangavist og alla aðra takmörkun á persónufrelsi hans.

47. gr.

Þingmenn hafa rétt til þess, að neita að bera vitni um einstaklinga sem hafa trúað þeim sem þingmönnum fyrir upplýsingum eða um einstaklinga sem þeir sem þingmenn hafa trúað fyrir upplýsingum, svo og um þessar upplýsingar sjálfar. Svo langt sem þessi réttur til að neita að bera vitni nær, skal óheimilt að leggja hald á skjöl.

48. gr.

Hver sá, sem býður sig fram til setu í sambandsþinginu, skal eiga rétt á því orlofi sem nauðsynlegt er til undirbúnings kosningu sinni.

(2) Engan má hindra í því að taka að sér eða gegna þingmannsstarfi. Óheimilt er að segja manni upp starfi eða leysa hann frá embætti vegna þess.

(3) Þingmenn eiga rétt á hæfilegri þóknun, sem tryggir sjálfstæði þeirra. Þeir hafa rétt til að nota sér að kostnaðarlausu öll ríkisrekin farartæki. Um nánari útfærslu skal ákveðið í sambandslögum.

49. gr.

[Numin úr gildi]
 

IV. Sambandsráðið

50. gr.

Með aðild sinni að sambandsráðinu, taka sambandslöndin þátt í löggjöf og stjórn Sambandslýðveldisins og málefnum Evrópusambandsins.

51. gr.

(1) Í sambandsráðinu sitja fulltrúar úr ríkisstjórnum landanna, sem þær skipa og setja af. Aðrir meðlimir ríkisstjórna landanna geta tekið sæti þeirra.

(2) Hvert sambandsland hefur að minnsta kosti þrjú atkvæði, sambandsland sem hefur meira en tvær milljónir íbúa hefur fjögur, sambandsland sem hefur meira en sex milljónir íbúa hefur fimm, sambandsland sem hefur meira en sjö milljónir íbúa hefur sex atkvæði.

(3) Hvert sambandsland getur sent jafn marga fulltrúa og atkvæðafjöldi þess segir til um. Atkvæði hvers sambandslands verða aðeins greidd á einn veg og aðeins af viðstöddum fulltrúum eða varamönnum þeirra.

52. gr.

(1) Sambandsráðið kýs sér forseta til eins árs í senn.

(2) Forsetinn kallar sambandsráðið saman. Honum ber að kalla það saman, ef fulltrúar að minnsta kosti tveggja sambandslanda eða ríkisstjórn Sambandslýðveldisins krefjast þess.

(3) Sambandsráðið tekur ákvarðanir sínar með að minnsta kosti meirihluta atkvæða. Það skal setja sér þingsköp. Fundir þess eru opinberir. Halda má lokaða fundi.

(3a) Í málefnum Evrópusambandsins má sambandsráðið setja á laggirnar Evrópunefnd, og skulu ákvarðanir hennar gilda sem ákvarðanir sambandsráðsins; 2. mgr. og 2. málsl. 3. mgr. 51. gr. gilda að breyttu breytanda.

(4) Í nefndum sambandsráðsins geta setið aðrir meðlimir ríkisstjórna landanna eða umboðsmenn þeirra.

53. gr.

Meðlimir í ríkisstjórn Sambandslýðveldisins hafa rétt til þess að sitja fundi sambandsráðsins og nefnda hennar, og sé þess krafist ber þeim skylda til þess. Ávallt skal hlýtt á sjónarmið þeirra. Ríkisstjórn Sambandslýðveldisins ber að upplýsa sambandsráðið jafnt og þétt um störf sín.
 

IV a Sameiginlega nefndin

Gr. 53 a(1) Í sameiginlegu nefndinni sitja að tveimur þriðju hlutum þingmenn sambandsþingsins, að einum þriðja hluta meðlimir sambandsráðsins. Sambandsþingið tilnefnir þingmenn sína í samræmi við atkvæðastyrk þingflokka; þeir mega ekki eiga sæti í ríkisstjórn Sambandslýðveldisins. Hvert sambandsland hefur einn meðlima sinna í sambandsráðinu sem fulltrúa sinn; þeir eru óbundnir af fyrirmælum. Sameiginlega nefndin er sett á stofn og starfar samkvæmt reglum, sem sambandsþingið setur og þurfa þær samþykkis sambandsráðsins.(2) Ríkisstjórn Sambandslýðveldisins skal upplýsa sameiginlegu nefndina um landvarnaráætlanir sínar. Ákvæði þessarar greinar hafa ekki áhrif á réttindi sambandsþingsins og nefnda hennar samkvæmt 1. mgr. 43. gr. 

V. Forseti Sambandslýðveldisins

54. gr.

(1) Forseti Sambandslýðveldisins skal kjörinn af sambandsfundi án umræðu. Kjörgengir eru allir Þjóðverjar, sem hafa kosningarétt til sambandsþingsins og náð hafa fertugsaldri.

(2) Embættistími forsetans er fimm ár. Endurkjör í lok kjörtímabils er aðeins heimilt einu sinni.

(3) Á sambandsfundi sitja þingmenn sambandsþingsins ásamt jafn mörgum fulltrúum, sem kosnir eru af þjóðþingum sambandslandanna eftir meginreglum um hlutfallskosningar.

(4) Sambandsfundur skal koma saman ekki síðar en þrjátíu dögum fyrir lok embættistíma forsetans, en verði þau fyrr skal hann koma saman ekki síðar en þrjátíu dögum eftir það. Forseti sambandsþingsins skal kalla hann saman.

(5) Að loknu kjörtímabilinu skal frestur sá, sem tilgreindur er í 1. málsl. 4. mgr., hefjast með fyrsta fundi sambandsfunds.

(6) Kjöri nær sá sem hlýtur atkvæði meirihluta þingmanna sambandsfundarins. Hafi enginn frambjóðenda náð þessum meirihluta að loknum tveimur atkvæðagreiðslum, nær sá kjöri sem hlýtur flest atkvæði í þriðju umferð.

(7) Um nánari útfærslu skal ákveða með sambandslögum.

55. gr.

(1) Forseti Sambandslýðveldisins má hvorki sitja í ríkisstjórninni né í neinni af löggjafarstofnunum sambandsríkisins eða sambandslands.

(2) Forseti Sambandslýðveldisins má ekki gegna neinu öðru launuðu embætti, atvinnu eða starfi og má hvorki sitja í stjórn né eftirlitsráði atvinnufyrirtækis.

56. gr.

Við embættistöku vinnur forsetinn, að viðstöddum öllum fulltrúum á sambandsþinginu og í sambandsráðinu, eftirfarandi eið:

"Ég sver þess eið, að ég helgi krafta mína velferð þýsku þjóðarinnar, auki hag hennar, bægi frá henni allri vá, varðveiti og verji Grundvallarlögin og lög Sambandslýðveldisins, ræki skyldur mínar af samviskusemi og komi réttlátlega fram við sérhvern mann. Svo hjálpi mér Guð."

Eiðinn má einnig sverja án trúarlegrar skírskotunar.

57. gr.

Forfallist forseti Sambandslýðveldisins eða láti hann af embætti fyrr en ráð var fyrir gert skal forseti sambandsráðsins fara með völd hans.

58. gr.

Til þess að fyrirmæli og ákvarðanir forseta Sambandslýðveldisins öðlist gildi þarf meðundirritun kanslara Sambandslýðveldisins eða viðeigandi sambandsráðherra. Þetta á ekki við þegar kanslari Sambandslýðveldisins er skipaður og þegar honum er veitt lausn frá störfum né þegar um rof sambandsþingsins samkvæmt 63. gr. er að ræða eða tilmæli samkvæmt 3. mgr. 69. gr.

59. gr.

(1) Forseti Sambandslýðveldisins kemur fram fyrir hönd Sambandslýðveldisins að þjóðarétti. Hann gerir samninga við erlend ríki í nafni Sambandslýðveldisins. Hann staðfestir sendifulltrúa og tekur á móti þeim.

(2) Samningar, sem hafa að geyma reglur um stjórnmálaleg tengsl Sambandslýðveldisins eða sem snerta sambandslöggjöfina, þarfnast samþykkis eða þátttöku viðeigandi löggjafarstofnana Sambandslýðveldisins í formi sambandslaga. Hvað varðar stjórnsýslusamninga gilda ákvæðin um stjórnsýslu sambandsríkisins að breyttu breytanda.
Gr. 59 a[Numin úr gildi]60. gr.

(1) Forseti Sambandslýðveldisins skipar dómara Sambandslýðveldisins, embættismenn Sambandslýðveldisins, herforingja og liðsforingja og veitir þeim lausn, svo fremi sem annað er ekki ákveðið með lögum.

(2) Hann hefur fyrir hönd Sambandslýðveldisins rétt til að veita náðun í einstöku tilviki.

(3) Honum er heimilt að framselja þessi völd til annarra yfirvalda.

(4) Ákvæði 2. - 4. mgr. 46. gr. skulu gilda um forseta Sambandslýðveldisins að breyttu breytanda.

61. gr.

(1) Sambandsþingið eða sambandsráðið geta kært forseta Sambandslýðveldisins fyrir stjórnlagadómstóli Sambandslýðveldisins vegna ásetningsbrots gegn Grundvallarlögum þessum eða gegn öðrum sambandslögum. Beiðni um að gefa út ákæru þarf að koma frá að minnsta kosti fjórða hluta þingmanna sambandsþingsins eða frá fjórða hluta atkvæða sambandsráðsins. Ákvörðun um að gefa út ákæru þarf meirihluta sem nemur tveimur þriðju hlutum þingmanna sambandsþingsins eða tveimur þriðju hluta atkvæða sambandsráðsins. Ákæran skal borin fram af fulltrúa þeirrar stofnunar sem kæruna gefur út.

(2) Komist stjórnlagadómstóll Sambandslýðveldisins að þeirri niðurstöðu að forsetinn hafi gerst sekur um ásetningsbrot gegn Grundvallarlögum þessum eða gegn öðrum sambandslögum, þá getur dómstóllinn lýst því yfir að hann hafi fyrirgert embætti sínu. Eftir að ákæra hefur verið gefin út getur hann úrskurðað til bráðabirgða að forseti skuli ekki gegna embætti sínu.
 

VI. Ríkisstjórn Sambandslýðveldisins

62. gr.

Í ríkisstjórn Sambandslýðveldisins skulu sitja kanslari Sambandslýðveldisins og ráðherrar Sambandslýðveldisins.

63. gr.

(1) Kanslari Sambandslýðveldisins skal kosinn án umræðna af sambandsþinginu eftir tillögu forseta Sambandslýðveldisins.

(2) Kjöri nær, sá sem hlýtur atkvæði meirihluta þingmanna sambandsþingsins. Forseti Sambandslýðveldisins skal skipa þann í embætti sem kjöri hefur náð.

(3) Nái sá sem forseti lagði til ekki kjöri, getur sambandsþingið innan fjórtán daga frá því kosning fór fram kosið kanslara með atkvæðum meira en helmings þingmanna.

(4) Fari kjör ekki fram áður en frestur þessi er liðinn, skulu án tafar fara fram kosningar þar sem sá nær kjöri sem flest atkvæði hlýtur. Hljóti sá sem kjöri nær atkvæði meirihluta þingmanna sambandsþingsins skal forseti Sambandslýðveldisins skipa hann í embætti innan sjö daga frá kosningu. Hljóti sá sem kjöri nær ekki þennan meirihluta skal forseti innan sjö daga annaðhvort skipa hann í embætti eða rjúfa sambandsþing.

64. gr.

(1) Forseti skal skipa ráðherra Sambandslýðveldisins í embætti eftir tillögu kanslara og veita þeim lausn.

(2) Kanslari og ráðherrar Sambandslýðveldisins skulu við embættistöku sverja eið þann sem er að finna í 56. gr.

65. gr.

Kanslari Sambandslýðveldisins skal ákveða almenna stjórnmálastefnu og bera ábyrgð á henni. Ráðherrar Sambandslýðveldisins hafa, innan þessara marka, sjálfstætt ákvörðunarvald í sínum málaflokki og á eigin ábyrgð. Verði skoðanaágreiningur milli ráðherra skal ríkisstjórnin skera úr. Kanslari skal stýra störfum hennar samkvæmt starfsreglum sem ríkisstjórnin setur sér og forseti samþykkir.
Gr. 65 aVarnarmálaráðherra Sambandslýðveldisins skal fara með yfirstjórn hersins.66. gr.

Kanslari og ráðherrar Sambandslýðveldisins mega ekki gegna neinu öðru launuðu embætti, atvinnu eða starfi og mega ekki sitja í stjórn atvinnufyrirtækis, og án samþykkis sambandsþingsins mega þeir ekki heldur sitja í eftirlitsráði atvinnufyrirtækis.

67. gr.

(1) Sambandsþingið getur því aðeins lýst vantrausti á kanslara Sambandslýðveldisins, að það kjósi eftirmann hans með atkvæðum meirihluta þingmanna og beini þeim tilmælum til forseta Sambandslýðveldisins að hann víki kanslaranum úr embætti. Forseta ber að verða við þessum tilmælum og skipa þann kjörna í embætti.

(2) 48 klukkustundir skulu líða frá því tilmælin eru borin fram þar til kjör fer fram.

68. gr.

(1) Hljóti tillaga kanslara, um að lýst sé yfir trúnaði við hann, ekki samþykki meirihluta þingmanna sambandsþingsins, getur forseti eftir tillögu kanslara rofið þing innan þriggja vikna. Rétturinn til að rjúfa þing skal falla niður jafnskjótt og sambandsþingið hefur kosið annan kanslara með atkvæðum meirihluta þingmanna.

(2) 48 klukkustundir skulu líða frá því að tillagan er borin fram og þar til kjör fer fram.

69. gr.

(1) Kanslari skal skipa einn ráðherra til að vera staðgengill sinn.

(2) Embættistíma kanslara eða ráðherra skal undir öllum kringumstæðum ljúka þegar nýtt sambandsþing kemur saman, embættistíma ráðherra skal auk þess jafnan ljúka þegar embættistíma kanslara lýkur.

(3) Fari forseti fram á það ber kanslara, fari kanslari eða forseti fram á það ber ráðherra, að halda áfram störfum uns eftirmaður hans hefur verið skipaður í embætti.
 

VII. Löggjöf Sambandslýðveldisins

70. gr.

(1) Sambandslöndin hafa rétt til að setja lög, svo fremi sem þessi Grundvallarlög veita sambandsríkinu ekki löggjafarvald.

(2) Afmörkun valdsviðs milli sambandsríkisins og sambandslandanna ákvarðast af ákvæðum þessara Grundvallarlaga um einkarétt og forgangsrétt sambandsríkisins til lagasetningar.

71. gr.

Á sviði einkaréttar sambandsríkisins til lagasetningar skulu sambandslöndin aðeins hafa lagasetningarvald þegar og að því marki sem þeim er berum orðum veitt heimild til þess í sambandslögum.

72. gr.

(1) Á sviði forgangsréttar sambandsríkisins til lagasetningar hafa sambandslöndin heimild til lagasetningar á meðan og að því marki sem sambandsríkið hefur ekki beitt lagasetningarheimild sinni.

(2) Sambandsríkið hefur á þessu sviði réttinn til lagasetningar þegar og að því marki sem þörf er fyrir sambandslög til að skapa jafngild lífsskilyrði á landssvæði sambandslýðveldisins eða til að tryggja réttarlega og efnahagslega einingu til hagsbóta fyrir ríkisheildina.

(3) Með sambandslögum má ákveða að í staðinn fyrir ákvæði í sambandslögum, sem ekki eru lengur nauðsynleg samkvæmt skilningi 2. mgr., megi setja lög sambandslands.

73. gr.

Sambandsríkið hefur einkarétt til lagasetningar um:

1. utanríkismál ásamt varnarmálum, þar á meðal vernd almennra borgara;

2. ríkisborgararétt í sambandsríkinu;

3. dvalar- og ferðafrelsi, vegabréf, innflytjendur, útflytjendur og framsal;

4. gjaldeyri, peninga og mynt, mál og vog og tímaákvarðanir;

5. samræmingu á sviði tolla og verslunar, verslunar- og skipaferðasamninga, frelsi í vöruviðskiptum og vöru- og greiðsluskipti við útlönd, þar á meðal tollgæslu og landamæragæslu;

6. flugsamgöngur;

6a. járnbrautasamgöngur, sem að öllu leyti eða að meirihluta eru í eigu sambandsríkisins (Járnbrautir sambandsríkisins), byggingu, viðhald og starfrækslu járnbrautaleiða á vegum Járnbrauta sambandsríkisins og álagningu gjalda fyrir notkun þessara járnbrautaleiða;

7. póst- og fjarskiptaþjónustu;

8. réttarstöðu opinberra starfsmanna í þjónustu sambandsríkisins og stofnana þess að opinberum rétti;

9. réttarvernd í atvinnurekstri;

10. samvinnu sambandsríkisins og sambandslandanna

a) í rannsóknarlögreglumálum,

b) til verndar hinu frjálsa lýðræðisskipulagi, tilveru og öryggi sambandsríkisins eða sambandslands (stjórnarskrárvernd) og

c) til verndar gegn aðgerðum á landsvæði sambandsríkisins, sem ógna utanríkishagsmunum Sambandslýðveldisins Þýskalands með beitingu ofbeldis eða undirbúningi undir beitingu ofbeldis, og einnig stofnun rannsóknarlögregluembættis sambandsríkisins og alþjóðlega baráttu gegn glæpum;

11. tölfræðilegar athuganir í þágu sambandsríkisins.

74. gr.

(1) Forgangsrétturinn til lagasetningar nær til eftirfarandi sviða:

1. borgaralegs réttar, refsiréttar og fullnustu refsidóma, skipan dómstóla og réttarfars, stöðu lögmanna, lögbókenda og lögfræðiráðgjafar;

2. skráningu persónuupplýsinga;

3. laga um félög og fundarhöld;

4. dvalar- og búseturéttar útlendinga;

4a. laga um vopn og sprengiefni;

5. [numinn úr gildi];

6. málefna flóttamanna og útlaga;

7. félagslegrar þjónustu;

8. [numinn úr gildi];

9. stríðsskaða og stríðsskaðabóta;

10. framfærslu til stríðsöryrkja og eftirlifandi ættingja þeirra sem fallið hafa í stríði, einnig til fyrrverandi stríðsfanga;

10a. hermannagrafir, grafir annarra stríðsfórnarlamba og fórnarlamba harðstjórnar;

11. lagareglna um viðskipti (námuvinnslu, iðnað, orkumál, handiðnir, atvinnurekstur, verslun, bankastarfsemi, verðbréfaviðskipti og vátryggingastarfa á sviði einkaréttar);

11a. framleiðslu og notkun kjarnorku í friðsamlegum tilgangi, byggingu og starfsrækslu búnaðar sem þjónar slíkum tilgangi, vernd gegn hættu sem stafar af því þegar kjarnorka er leyst úr læðingi eða af jónageislun, og losun geislavirkra efna;

12. vinnulöggjöf, þar á meðal skipan atvinnurekstrar, vinnuvernd, atvinnumiðlun og almannatryggingar, þar með talið atvinnuleysistryggingar;

13. reglna um námsstyrki og eflingar vísindalegra rannsókna;

14. laga um eignarnám, svo fremi sem það fellur undir gildissvið 73. og 74. gr.;

15. yfirfærslu jarðnæðis, náttúruauðlinda og framleiðslutækja til opinberra aðila eða í önnur form ríkisrekstrar;

16. varna gegn misnotkun á markaðsráðandi stöðu;

17. eflingar landbúnaðar- og skógræktarframleiðslu, tryggingar fæðuframboðs, innflutning og útflutning á landbúnaðar- og skógræktarframleiðslu, úthafsveiðar og strandveiðar og strandgæslu;

18. fasteignaviðskipta, lagareglna um lendur (að undanskildum lagareglum um lóðagjöld) og leigumál í landbúnaði, íbúðamál og málefni sem varða landnám og heimajarðir;

19. aðgerða gegn sjúkdómum í mönnum og dýrum sem eru smitandi og valda almennri hættu, lækningaleyfa og leyfa til annarra starfa á sviði heilbrigðismála og til starfrækslu heilbrigðisþjónustu, verslunar með lyf, græðilyf, deyfilyf og eiturefni;

19a. rekstrarlegt öryggi sjúkrahúsa og reglur um gjöld fyrir þjónustu sjúkrahúsa;

20. vernd í verslun með mat- og neysluvörur, lífsnauðsynjar, fóðurvörur, fræ og græðlinga úr landbúnaði og skógrækt, vernd gróðurs gegn sjúkdómum og skaðvöldum, og dýravernd;

21. úthafs- og strandsiglingar, siglingamerki, siglinga á ám og vötnum, veðurfræðiþjónustu, siglingaleiðir á sjó og skipgengra vatnaleiða sem þjóna almennri umferð;

22. umferð á vegum, bifvélar, byggingu og viðhald þjóðvega fyrir langferðir, álagningu og skiptingu gjalda fyrir notkun opinberra vega með farartækjum;

23. járnbrautir, sem ekki eru járnbrautir sambandsríkisins, að undanteknum fjallajárnbrautum;

24. sorpeyðingu, lofthreinsun og baráttu gegn hávaðamengun;

25. ríkisábyrgð;

26. tæknifrjóvgunar á mönnum, rannsókna og tæknibreytinga á erfðaupplýsingum ásamt reglum um líffæra- og vefjaflutninga.

(2) Lög samkvæmt 25. tölul. 1. gr. þarfnast samþykkis sambandsráðsins.
Gr. 74 a(1) Forgangsrétturinn til lagasetningar nær enn fremur til launa og lífeyris opinberra starfsmanna, sem lúta ákvæðum opinbers réttar um þjónustu og trúnað í starfi, svo fremi sem sambandsríkinu er ekki áskilinn einkaréttur til lagasetningar samkvæmt 8. tölul. 73 gr.(2) Sambandslög skv. 1. málsl. þurfa samþykki sambandsráðsins.

(3) Samþykki sambandsráðsins þurfa einnig sambandslög skv. 8. tölul. 73 gr., svo fremi sem í þeim er kveðið á um aðra mælikvarða á kerfi og útreikning launa og lífeyris, þar á meðal mats á embættum, eða aðrar lágmarks- eða hámarksupphæðir en ráð er fyrir gert í sambandslögum samkvæmt 1. málslið.

(4) 1. og 2. málsl. skulu gilda að breyttu breytanda um laun og lífeyri landsdómara. 3. málsl. skal gilda að breyttu breytanda um lög samkvæmt 1. málsl. 98. gr.

75. gr.

(1) Sambandsríkið hefur, samkvæmt skilyrðum 72. gr., rétt til þess að setja rammaákvæði fyrir löggjöf sambandslandanna um:

1. réttarstöðu þeirra sem starfa í þjónustu sambandslandanna, sveitarfélaga og annarra stofnana sem lúta opinberum rétti, svo fremi sem gr. 74a kveður ekki á um annað;

1a. meginreglur um starfsemi háskóla;

2. almenna réttarstöðu fjölmiðla og kvikmynda;

3. veiðar, náttúruvernd og meðferð lands;

4. skiptingu jarðnæðis, svæðaskipulag og vatnabúskap;

5. málefni sem varða skráningu lögheimilis og útgáfu og notkun persónuskilríkja;

6. verndun þýskra menningarverðmæta gegn flutningi úr landi.

3. mgr. 72. gr. gildir að breyttu breytanda.

(2) Rammareglur mega aðeins í undantekningartilvikum hafa að geyma ákvæði um einstök atriði eða beint gildandi rétt.

(3) Gefi sambandsríkið út regluramma ber sambandslöndunum skylda til að gefa út viðeigandi landslög innan hæfilegs frests sem ákveðinn er í lögunum.

76. gr.

(1) Frumvörp til laga verða lögð fram í sambandsþinginu af ríkisstjórn Sambandslýðveldisins, þingmönnum sambandsþingsins eða af sambandsráðinu.

(2) Frumvörpum ríkisstjórnarinnar skal í fyrstu vísað til sambandsráðsins. Sambandsráðið hefur rétt til að taka afstöðu til þeirra innan sex vikna. Krefjist það þess af mikilvægum ástæðum, einkum með tilliti til stærðar frumvarps, að fresturinn verði lengri, skal fresturinn vera níu vikur. Ríkisstjórnin getur í undantekningartilviki vísað frumvarpi, sem hún hefur vísað til sambandsráðsins og telur sérlega áríðandi, til sambandsþingsins eftir þrjár vikur, eða, hafi sambandsráðið komið með kröfu samkvæmt 3. málsl., eftir sex vikur, jafnvel þótt henni hafi ekki enn borist afstaða sambandsráðsins; henni ber að tilkynna sambandsþinginu afstöðu sambandsráðsins jafnskjótt og hún hefur borist. Ef um frumvörp til breytinga á þessum Grundvallarlögum er að ræða, eða frumvörp um afsal fullveldisréttinda samkvæmt 23. eða 24. gr, skal fresturinn til að taka afstöðu vera níu vikur; 4. málsl. á þá ekki við.

(3) Frumvörpum sambandsráðsins skal ríkisstjórnin vísa til sambandsþingsins innan sex vikna. Jafnframt skal hún gera grein fyrir skoðun sinni. Krefjist hún þess, af mikilvægum ástæðum, einkum með tilliti til stærðar frumvarps, að fresturinn verði lengri, skal fresturinn vera níu vikur. Hafi sambandsráðið í undantekningartilviki lýst frumvarp sérlega áríðandi skal fresturinn vera þrjár vikur eða, hafi ríkisstjórn Sambandslýðveldisins gert kröfu samkvæmt 3. málsl., sex vikur. Ef um er að ræða frumvörp til breytinga á þessum Grundvallarlögum, eða frumvörp um afsal fullveldisréttinda samkvæmt 23. eða 24. gr, skal fresturinn vera níu vikur; 4. málsl. á þá ekki við. Sambandsþinginu ber að taka frumvarp til umræðu og afgreiðslu innan hæfilegs frests.

77. gr.

(1) Sambandslög skulu samþykkt af sambandsþinginu. Eftir að þau hafa hlotið samþykki skal forseti sambandsþingsins án tafar vísa þeim til sambandsráðsins.

(2) Eftir að samþykkt lög hafa borist til sambandsráðsins getur það innan þriggja vikna krafist þess að kölluð sé saman nefnd, sem í sitja þingmenn sambandsþingsins og sambandsráðsins, til að fjalla sameiginlega um frumvörp. Um skipun og störf þessarar nefndar fer eftir starfsreglum sem sambandsþingið setur og sambandsráðið þarf að samþykkja. Þeir þingmenn sambandsráðsins sem sitja í þessari nefnd skulu óbundnir af fyrirmælum. Sé samþykki sambandsráðsins áskilið til þess að frumvarp verði að lögum, geta sambandsþingið og ríkisstjórn Sambandslýðveldisins einnig krafist þess að nefndin sé kölluð saman. Leggi nefndin til breytingar á lögunum eins og þau hafa verið samþykkt, skal sambandsþingið taka þau aftur til afgreiðslu.

(2a) Svo fremi sem lög þarfnist samþykkis sambandsráðsins, skal sambandsráðið, hafi ekki verið gerð krafa skv. 1. málsl. 2. mgr. eða hafi málsmeðferð lokið án þess að gerð hafi verið breytingartillaga við lagafrumvarpið, gera ályktun um samþykki frumvarpsins innan hæfilegs frests.

(3) Svo fremi sem samþykkis sambandsráðsins þarf ekki til að frumvarp verði að lögum, getur sambandsráðið, eftir að málsmeðferð samkvæmt 2. mgr. er lokið, innan þriggja vikna lagt fram andmæli gegn lögum sem sambandsþingið hefur afgreitt. Andmælafrestur skal hefjast, þegar um tilvik samkvæmt síðasta málsl. 2. mgr. er að ræða, um leið og lög sem sambandsþingið hefur endurafgreitt hafa borist til sambandsráðsins, en annars þegar formaður þeirrar nefndar, sem kveðið er á um í 2. mgr., hefur tilkynnt sambandsráðinu að málsmeðferð fyrir nefndinni sé lokið.

(4) Séu andmælin afgreidd með meirihluta atkvæða sambandsráðsins, er unnt að vísa þeim frá með ákvörðun meirihluta þingmanna sambandsþingsins. Hafi sambandsráðið afgreitt andmælin með að minnsta kosti tveimur þriðju atkvæða sinna, þarf tvo þriðju greiddra atkvæða til að sambandsþingið geti vísað þeim frá, og þarf sá meirihluti að nema að minnsta kosti helmingi þingmanna sambandsþingsins.

78. gr.

Frumvarp sem sambandsþingið hefur samþykkt fær lagagildi ef sambandsráðið veitir samþykki sitt, leggur ekki fram beiðni samkvæmt 2. mgr. 77. gr., leggur ekki fram andmæli innan þess frests sem tilskilinn er í 3. mgr. 77. gr. eða dregur andmælin til baka eða ef sambandsþingið fellir andmælin með tilskildum atkvæðafjölda.

79. gr.

(1) Grundvallarlögunum má aðeins breyta með lögum sem með berum orðum breyta texta Grundvallarlaganna eða auka við hann. Hvað varðar þjóðréttarsamninga, sem að efni til eru friðarsamningar, undirbúningur að friðarsamningum eða snúast um afnám hernámslaga eða þjóna vörnum Sambandslýðveldisins, þá nægir, til að gera ljóst að ákvæði Grundvallarlaganna stangist ekki á við samþykkt og gildistöku samninganna, að auka við texta Grundvallarlaganna skýringu þess efnis.

(2) Slík lög þurfa samþykkis tveggja þriðju þingmanna sambandsþingsins og tveggja þriðju atkvæða sambandsráðsins.

(3) Breyting á þessum Grundvallarlögum, sem snertir skiptingu sambandsríkisins í sambandslönd, meginregluna um þátttöku sambandslandanna í lagasetningu eða þau grundvallarréttindi sem skrásett eru í 1. og 20. gr. skal óleyfileg vera.

80. gr.

(1) Með lögum má heimila ríkisstjórn Sambandslýðveldisins, ráðherra Sambandslýðveldisins eða landsstjórnum að gefa út reglugerðir. Jafnframt skulu efni, markmið og umfang veittrar heimildar ákveðin í lögunum. Í reglugerðinni skal greina lagalega heimild fyrir henni. Sé í lögum gert ráð fyrir að framselja megi heimild á ný þarf að gefa út reglugerð til framsals heimildarinnar.

(2) Svo fremi sem annað er ekki ákveðið með lögum skulu reglugerðir ríkisstjórnar eða ráðherra Sambandslýðveldisins um meginreglur og gjaldtöku fyrir notkun á tækjum og búnaði póst- og fjarskiptaþjónustunnar, um meginreglur varðandi álagningu gjalda fyrir notkun á tækjum og búnaði Járnbrauta sambandsríkisins, um byggingu og starfsemi járnbrauta, þurfa samþykkis sambandsráðsins. Ennfremur skal sama gilda um reglugerðir á grundvelli sambandslaga sem þurfa samþykkis sambandsráðsins eða reglugerðir sem sambandslöndin framfylgja í umboði sambandsríkisins eða sem eigin málefnum sambandslandanna.

(3) Sambandsráðið getur vísað til ríkisstjórnar Sambandslýðveldisins drögum að útgáfu reglugerða, sem þurfa samþykkis þess.

(4) Svo fremi sem landstjórnum er, með sambandslögum eða með heimild í sambandslögum, heimilað að gefa út reglugerðir, skulu sambandslöndin einnig hafa vald til að setja reglur um málið með lögum.
Gr. 80 a(1) Séu í þessum Grundvallarlögum eða í sambandslögum ákvæði varðandi varnarmál, að meðtaldri vernd almennra borgara, um að lagafyrirmælum megi aðeins beita í samræmi við þessa grein, þá er beiting þeirra, nema varnarástand ríki, aðeins leyfileg ef sambandsþingið hefur lýst yfir hættuástandi eða það hafi sérstaklega samþykkt beitinguna. Til að lýsa yfir hættuástandi eða til að veita sérstakt samþykki fyrir beitingunni við þær aðstæður sem tilgreindar eru í 1. málsl. 5. mgr. í gr. 12a og í 2. málsl. 6. gr. þarf tvo þriðju greiddra atkvæða.
(2) Aðgerðum á grundvelli lagaákvæða skv. 1. gr. skal hætt ef sambandsþingið krefst þess.

(3) Frávik frá 1. gr. eru þau að beiting slíkra lagaákvæða skal einnig leyfileg með heimild í og í samræmi við ákvörðun sem gerð er af alþjóðlegri stofnun innan ramma bandalagssamnings, að fengnu samþykki ríkisstjórnar Sambandslýðveldisins. Aðgerðum samkvæmt þessari grein skal hætt ef sambandsþingið krefst þess með atkvæðum meirihluta þingmanna.

81. gr.

(1) Verði sambandsþingið ekki rofið við þær kringumstæður sem tilgreindar eru í 68. gr. getur forseti Sambandslýðveldisins, eftir beiðni ríkistjórnar Sambandslýðveldisins og að fengnu samþykki sambandsráðsins, lýst yfir löggjafarlegu neyðarástandi vegna frumvarps til laga, ef sambandsþingið hafnar frumvarpinu jafnvel þótt ríkisstjórnin hafi lýst það sérlega áríðandi. Það sama gildir ef lagafrumvarpi er hafnað, jafnvel þótt kanslari Sambandslýðveldisins hafi tengt það beiðni skv. 68. gr.

(2) Hafni sambandsþingið lagafrumvarpi að nýju eftir að löggjafarlegu neyðarástandi hefur verið lýst yfir eða samþykki hún frumvarpið í útgáfu sem ríkisstjórnin hefur lýst óásættanlega, þá skulu lögin öðlast gildi svo fremi sem sambandsráðið samþykkir þau. Sama gildir ef sambandsþingið afgreiðir frumvarpið ekki innan fjögurra vikna eftir að það hefur verið lagt fyrir að nýju.

(3) Á embættistíma kanslara Sambandslýðveldisins geta öll önnur lagafrumvörp sem sambandsþingið hafnar einnig orðið lög innan sex mánaða frests eftir að löggjafarlegu neyðarástandi skv. 1. og 2. mgr. hefur verið lýst yfir. Eftir að fresturinn er runninn út skal óleyfilegt að lýsa aftur yfir löggjafarlegu neyðarástandi á embættistíma sama kanslara Sambandslýðveldisins.

(4) Með lögum, sem sett eru samkvæmt 2. mgr., má hvorki breyta Grundvallarlögunum né nema þau úr gildi eða gera þau óvirk að öllu leyti eða að hluta til.

82. gr.

(1) Lög þau sem sett eru samkvæmt reglum þessara Grundvallarlaga skal forseti Sambandslýðveldisins, að fenginni meðundirritun, undirrita og birta þau í Lögbirtingarblaði Sambandslýðveldisins. Reglugerðir skulu þeir aðilar undirrita, sem gefa þær út, og birta þær í Lögbirtingarblaði Sambandslýðveldisins sé annað ekki ákveðið með lögum.

(2) Í öllum lögum og öllum reglugerðum skal tilgreina gildistökudag. Sé hann ekki tilgreindur skulu þau taka gildi á fjórtánda degi eftir útgáfudag Lögbirtingarblaðs Sambandslýðveldisins.
 

VIII. Framkvæmd sambandslaga og stjórnsýsla sambandsríkisins

83. gr.

Sambandslöndin skulu framkvæma lög Sambandslýðveldisins sem sín eigin málefni, svo fremi sem annað er ekki ákveðið eða leyft í þessum Grundvallarlögum.

84. gr.

(1) Framkvæmi sambandslöndin lög Sambandslýðveldisins sem sín eigin málefni, skulu þau sjá um að koma á fót stjórnsýslustofnunum og sjá um stjórnsýslu, svo fremi sem annað er ekki ákveðið í sambandslögum að fengnu samþykki sambandsráðsins.

(2) Ríkisstjórn Sambandslýðveldisins getur, að fengnu samþykki sambandsráðsins, gefið út almennar stjórnsýslureglur.

(3) Ríkisstjórn Sambandslýðveldisins skal hafa umsjón með því að sambandslöndin framkvæmi lög Sambandslýðveldisins samkvæmt gildandi lögum. Ríkisstjórn Sambandslýðveldisins getur í þessu skyni sent fulltrúa til æðstu stjórnvalda sambandslandanna og einnig, með samþykki þeirra til lægri stjórnvalda og sé henni neitað um þetta samþykki þá með samþykki sambandsráðsins.

(4) Sé hnökrum sem ríkisstjórn Sambandslýðveldisins hefur fundið á framkvæmd sambandslaga í sambandslöndunum ekki rutt úr vegi ákveður sambandsráðið að beiðni ríkisstjórnar Sambandslýðveldisins eða sambandslandsins, hvort sambandslandið hafi brotið gegn lögunum. Unnt er að skjóta ákvörðun sambandsráðsins til stjórnlagadómstóls Sambandslýðveldisins.

(5) Með sambandslögum, sem þurfa samþykkis sambandsráðsins, er unnt að veita ríkisstjórn Sambandslýðveldisins vald til að gefa einstök fyrirmæli í sérstökum tilvikum til framkvæmdar sambandslaga. Þeim skal beina til æðstu stjórnvalda sambandslandanna, nema ríkisstjórn Sambandslýðveldisins telji málið áríðandi.

85. gr.

(1) Framkvæmi sambandslöndin lög Sambandslýðveldisins í umboði sambandsríkisins, skulu sambandslöndin sjá um að setja á stofn stjórnsýslustofnanir, svo fremi sem annað er ekki ákveðið í sambandslögum, að fengnu samþykki sambandsráðsins.

(2) Sambandsstjórnin getur, að fengnu samþykki sambandsráðsins, gefið út almennar stjórnsýslureglur. Hún getur sett reglur um samræmda menntun embættismanna og annarra opinberra starfsmanna. Yfirmenn stjórnvalda á millistjórnstigum skulu skipaðir með hennar samþykki.

(3) Stjórnvöld sambandslandanna skulu hlíta fyrirmælum hlutaðeigandi æðstu stjórnvalda sambandsríkisins. Fyrirmælunum skal beint til æðstu stjórnvalda sambandslandanna, nema ríkisstjórn Sambandslýðveldisins telji þau áríðandi. Æðstu stjórnvöld sambandslandanna skulu tryggja að fyrirmælunum sé framfylgt.

(4) Eftirlit sambandsríkisins skal ná til þess hvort framkvæmdin fer að lögum og þjóni tilskildum tilgangi. Sambandstjórnin getur í þessu skyni krafist skýrslu og framlagningar skjala og sent fulltrúa sinn til allra stjórnvalda.

86. gr.

Framkvæmi sambandsríkið lögin með eigin stjórnsýslustofnun eða stofnun í beinum tengslum við sambandsríkið eða stofnunum sem lúta opinberum rétti, skal sambandsstjórnin gefa út almennar stjórnsýslureglur svo fremi sem sérstök fyrirmæli eru ekki í lögunum. Henni ber að setja á stofn nauðsynleg stjórnvöld, svo fremi sem annað er ekki ákveðið í lögunum.

87. gr.

(1) Utanríkisþjónusta, fjármálastjórn sambandsríkisins og, samkvæmt ákvæðum 89. gr., stjórn skipgengra vatnaleiða sambandsríkisins og siglingamála er í höndum stjórnsýslustofnanna sambandsríkisins og lægri stjórnsýslustofnana þess. Með sambandslögum skal unnt að setja á laggirnar landamærayfirvöld sambandsríkisins, höfuðstöðvar upplýsinga- og fjarskiptaþjónustu lögreglunnar, höfuðstöðvar rannsóknarlögreglunnar og höfuðstöðvar til gagnasöfnunar í þágu stjórnarskrárverndar og verndar gegn starfsemi sem fram fer á svæði sambandsríkisins og ógnar utanríkishagsmunum Sambandslýðveldisins Þýskalands með valdbeitingu eða undirbúningi að valdbeitingu.

(2) Almannatryggingastofnanir með víðtækara athafnasvið en eitt sambandsland skulu reknar sem stofnanir sambandsríkisins samkvæmt opinberum rétti. Almannatryggingastofnanir með víðtækara athafnasvið en eitt sambandsland, en þó ekki víðtækara en þrjú sambandslönd, skulu þrátt fyrir 1. málsl. reknar sem stofnanir sambandslands samkvæmt opinberum rétti, hafi hlutaðeigandi sambandslönd ákveðið hvert þeirra skal hafa yfirumsjón þeirra með höndum.

(3) Ennfremur skal unnt með sambandslögum að setja á stofn, fyrir málefni sem sambandsríkið hefur löggjafarvald um, sjálfstæð stjórnvöld sambandsríkisins á efstu stjórnstigum og nýjar stofnanir undir beinni stjórn sambandsríkisins og stofnanir sem lúta opinberum rétti. Fái sambandsríkið ný verkefni í hendur á lagasetningarsviði þess, skal unnt, sé þess brýn þörf, að setja á stofn stjórnvöld á millistjórnstigum og neðstu stjórnstigum að fengnu samþykki sambandsráðsins og meirihluta þingmanna sambandsþingsins.
Gr. 87 a(1) Sambandsríkið skal koma upp herliði í varnarskyni. Styrkleiki þess í tölum og megindrættirnir í skipulagi þess skulu ráðast af fjárlögum.(2) Herliðinu má því aðeins beita í öðrum tilgangi en til varnar að þessi Grundvallarlög heimila það berum orðum.

(3) Þegar varnarástand eða hættuástand ríkir skal herliðið hafa heimild til að vernda einkaeignir og taka að sér umferðarstjórn svo fremi sem það er nauðsynlegt til að uppfylla varnarsamning þess. Þegar varnarástand eða hættuástand ríkir má einnig fela herliðinu að vernda einkaeignir til stuðnings lögregluaðgerðum; herliðið skal þá starfa með viðeigandi stjórnvöldum.

(4) Til að koma í veg fyrir aðsteðjandi hættu sem ógnar tilvist eða frjálsu lýðræðisskipulagi sambandsríkisins eða sambandslands getur sambandstjórnin, þegar skilyrðum 2. mgr. 91. gr. er fullnægt og liðstyrkur lögreglunnar eða landamæragæslu sambandsríkisins er ekki nægilegur, beitt herliði til stuðnings lögreglunni og landamæragæslu sambandsríkisins til verndar eignum almennings og til baráttu gegn skipulögðum uppreisnarmönnum vopnuðum hervopnum. Beitingu herliðsins skal hætt ef sambandsþingið eða sambandsráðið krefjast þess.
Gr. 87 b(1) Stjórn sambandshersins skal vera í höndum stjórnsýslustofnana sambandsríkisins með eigin undirstofnunum. Hún skal sjá um starfsmannahald og að fullnægja jafnan birgðaþörf hersins. Stjórn sambandshersins má aðeins fela verkefni sem lúta að framfærslu slasaðra og byggingastarfsemi með sambandslögum sem þurfa samþykkis sambandsráðsins. Ennfremur þurfa lög samþykki sambandsráðsins, ef þau heimila stjórn sambandshersins að grípa inn í réttindi þriðja aðila; þetta skal ekki gilda um lög um starfsmannahald.(2) Að öðru leyti má, að fengnu samþykki sambandsráðsins, ákveða með sambandslögum sem sett eru í þágu varnarmála, að meðtöldu ígildi herþjónustu, og til verndar almenningi, að þau skuli að öllu leyti eða að hluta framkvæmd af stjórnsýslustofnunum sambandsríkisins með eigin undirstofnunum eða af sambandslöndunum í umboði sambandsríkisins. Framkvæmi sambandslöndin slík lög í umboði sambandsríkisins geta þau, að fengnu samþykki sambandsráðsins, kveðið á um að framselja megi það vald, sem ríkisstjórnin og viðeigandi æðsta stjórnvald sambandsríkisins hefur samkvæmt 85. gr., að hluta eða öllu leyti til sambandsstjórnvalda á efstu stjórnsýslustigum; jafnframt má ákveða að þessi stjórnvöld þurfi ekki samþykkis sambandsráðsins til að gefa út almennar stjórnsýslureglur samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 85. gr.Gr. 87 cÁkveða má í lögum, sem sett eru með heimild í 74. gr., tölul. 11.a., og hlotið hafa samþykki sambandsráðsins, að sambandslöndin skuli sjá um framkvæmd þeirra í umboði sambandsríkisins.Gr. 87 d(1) Flugumferðarstjórn skal vera í höndum stjórnsýslustofnana sambandsríkisins. Með sambandslögum skal skera úr um skipulagshætti samkvæmt opinberum rétti eða einkamálarétti.(2) Með sambandslögum, sem þurfa samþykkis sambandsráðsins, skal unnt að framselja flugumferðarstjórn í hendur sambandslandanna sem umboðsstjórnaraðila.Gr. 87 e(1) Stjórnsýsla járnbrautamála skal heyra undir beina stjórnsýslu sambandsríkisins. Með sambandslögum má framselja stjórnsýslu járnbrautarmála til sambandslandanna, og telst hún þá málefni þeirra.(2) Sambandsríkið tekur að sér þau verkefni á sviði stjórnsýslu járnbrautamála sem liggja utan verksviðs Járnbrauta sambandsríkisins, sé því falin þessi verkefni með sambandslögum.

(3) Járnbrautum sambandsríkisins skal stjórnað sem viðskiptafyrirtæki í einkaréttarlegu formi. Þær skulu vera í eigu sambandsríkisins, svo fremi sem starfsemi fyrirtækisins nær yfir byggingu, viðhald og rekstur járnbrautarleiða. Sala á hlutum sambandsríkisins í fyrirtækjum samkvæmt 2. málsl. fer fram með heimild í lögum; meirihluti eignaraðildar í þessum fyrirtækjum skal vera áfram í eigu sambandsríkisins. Um nánari útfærslu skal ákveðið með sambandslögum.

(4) Sambandsríkið skal tryggja að almannahagur, einkum samgönguþarfir, séu hafðar í huga við byggingu og viðhald járnbrautakerfis Járnbrauta sambandsríkisins og það framboð á samgöngum sem þetta járnbrautakerfi býður upp á, svo fremi sem það varði ekki farþegaflutninga á stuttum leiðum með lestum. Um nánari útfærslu skal ákveðið með sambandslögum.

(5) Lög sem sett eru á grundvelli 1. - 4. mgr. þurfa samþykkis sambandsráðsins. Samþykkis sambandsráðsins þurfa ennfremur lög, sem kveða á um að starfrækslu járnbrautafyrirtækja sambandsríkisins verði hætt, þau sameinuð eða þeim skipt upp, eða um sölu á járnbrautaleiðum Járnbrauta sambandsríkisins til þriðja aðila eða að notkun þeirra verði aflögð, eða ef þau hafa áhrif á farþegaflutninga á stuttum leiðum með lestum.
Gr. 87 fSambandsríkið tryggir póst- og fjarskiptaþjónustu sem alls staðar sé hæfileg og nægileg, eftir því sem kveðið er á um í lögum sem þurfa samþykkis sambandsráðsins.(2) Þjónusta sú, sem átt er við í 2. málsl. 1. mgr., skal veitt af þeim fyrirtækjum sem verða til úr Þýska sambandspóstinum og af öðrum einkaaðilum sem bjóða fram þjónustu sína.

(3) Þrátt fyrir 2. málsl. 2. mgr. sér sambandsríkið um framkvæmd einstakra verkefna sem tengjast þeim fyrirtækjum sem verða til úr Þýska sambandspóstinum, í lagalegu formi opinberrar stofnunar undir beinni stjórnsýslu sambandsríkisins og eftir því sem kveðið er á um í sambandslögum.

88. gr.

Sambandsríkið skal setja á stofn gjaldeyris- og seðlabanka sem Sambandsbanka. Innan ramma Evrópusambandsins skal unnt að framselja verkefnum og völdum hans í hendur Evrópska aðalbankans, sem er sjálfstæð stofnun og skuldbundin til að sinna því forgangsverkefni að tryggja stöðugt verðlag.

89. gr.

(1) Sambandsríkið er eigandi skipgengra vatnaleiða sem til þessa voru í eigu Ríkisins.

(2) Sambandsríkið skal með eigin stjórnsýslustofnunum sjá um stjórnsýslu skipgengra vatnaleiða, sem eru í eigu sambandsríkisins. Það skal sjá um framkvæmd þeirra ríkisverkefna á sviði innanlandssiglinga sem ekki er í verkahring eins sambandslands og einnig þeirra verkefna á sviði úthafssiglinga sem lögð eru á herðar þess með lögum. Stjórnsýslu þeirra skipgengu vatnaleiða sambandsríkisins sem liggja á landsvæði eins sambandslands, getur sambandsríkið falið því landi sem umboðsstjórnaraðila. Nái skipgeng vatnaleið inn á landsvæði fleiri en eins sambandslands, getur sambandsríkið falið sambandslandinu umboðsstjórn að beiðni hlutaðeigandi sambandslanda.

(3) Við stjórn, uppbyggingu og nýbyggingu skipgengra vatnaleiða skal tryggja þarfir landnýtingar og vatnabúskaps í samráði við sambandslöndin.

90. gr.

(1) Sambandsríkið er eigandi hraðbrauta og þjóðvega sem til þessa voru í eigu Ríkisins.

(2) Sambandslöndin, eða sjálfstæðar stofnanir sem samkvæmt landsrétti bera ábyrgð á því, skulu sjá um stjórnsýslu hraðbrauta og annarra þjóðvega sambandsríkisins á löngum leiðum í umboði sambandsríkisins.

(3) Að beiðni sambandslands getur sambandsríkið sett hraðbrautir og aðra þjóðvegi sambandsríkisins, svo fremi sem þeir liggja á landsvæði viðkomandi sambandslands, undir stjórnsýslu sambandsríkisins.
91. gr.(1) Sambandsland getur krafist lögregluliðs annarra sambandslanda svo og liðsafla og búnaðs annarra stjórnvalda og landamæragæslu sambandsríkisins til að verjast hættu sem steðjar að tilvist eða frjálsu lýðræðisskipulagi sambandsríkisins eða sambandslands.(2) Sé sambandsland það, þar sem hættan steðjar að, ekki sjálft undir það búið eða í aðstöðu til að verjast hættunni, getur sambandsríkið sett lögregluna í þessu sambandslandi og liðsafla lögreglu annarra sambandslanda undir sína stjórn og jafnframt kallað til liðssveitir landamæragæslu sambandsríkisins. Fyrirmæli þess efnis skulu numin úr gildi eftir að hættunni hefur verið rutt úr vegi og auk þess hvenær sem er krefjist sambandsráðið þess. 

VIII a. Sameiginleg verkefni

Gr. 91 a(1) Sambandsríkið skal á eftirtöldum sviðum eiga þátt í að framkvæma verkefni sambandslandanna, ef þau hafa þýðingu fyrir þjóðfélagsheildina og þátttaka sambandsríkisins er nauðsynleg til að bæta lífsskilyrði (sameiginleg verkefni):1. uppbyggingu og nýbyggingu háskóla að meðtöldum háskólasjúkrahúsum,

2. að bæta efnahagsskipulag einstakra landsvæða,

3. að bæta skipulag landbúnaðarmála og strandgæslu. 

(2) Um nánari útfærslu sameiginlegra verkefna skal ákveða með sambandslögum að fengnu samþykki sambandsráðsins. Í lögunum skulu vera almennar grundvallarreglur um framkvæmd þeirra.

(3) Í lögunum skulu sett ákvæði um málsmeðferð og stofnanir fyrir sameiginlega rammaáætlun. Til þess að tiltekið verkefni verði tekið inn í rammaáætlunina þarf samþykkis þess sambandslands, þar sem verkefnið á að framkvæmast.

(4) Í þeim tilvikum sem greind eru í 1. og 2. tölul. 1. gr. skal sambandsríkið bera helming kostnaðar í hverju sambandslandi. Í þeim tilvikum sem greind eru í 3. tölul. 1. gr. skal sambandsríkið bera að minnsta kosti helming kostnaðar; kostnaðarhlutinn skal ákveðinn í einu lagi fyrir öll sambandslöndin. Um nánari útfærslu skal ákveðið með sambandslögum. Útvegun fjármagns skal ákveðin í fjárlögum sambandsríkisins og sambandslandanna.

(5) Sé þess krafist skal ríkisstjórn Sambandslýðveldisins og sambandsráðinu gefnar upplýsingar um framkvæmd sameiginlegra verkefna.
Gr. 91 bSambandsríkið og sambandslöndin mega starfa saman á samkomulagsgrundvelli að skipulagningu menntamála og stuðningi til stofnana og verkefna í vísindalegum rannsóknum. Skipting kostnaðar skal ákveðin í samkomulaginu.

IX. Dómsvaldið

92. gr.

Dómsvaldið er falið dómurum; með framkvæmd þess fara stjórnlagadómstóll sambandsríkisins, þeir dómstólar sambandsríkisins sem ráð er fyrir gert í þessum Grundvallarlögum og dómstólar sambandslandanna.

93. gr.

(1) Stjórnlagadómstóll sambandsríkisins sker úr:

1. um túlkun þessara Grundvallarlaga rísi deilur um takmörk réttinda og skyldna æðstu stjórnstofnana sambandsríkisins eða annarra hlutaðeigandi aðila sem veitt hefur verið sjálfsstæð réttindi með þessum Grundvallarlögum eða í starfsreglum sambandsstofnana á æðsta stjórnstigi;

2. um ágreining eða vafa varðandi það hvort sambandslög eða lög sambandslands eru formlega og efnislega samrýmanleg þessum Grundvallarlögum eða hvort landslög eru samrýmanleg öðrum sambandslögum, eftir beiðni ríkisstjórnar sambandsríkisins, landsstjórnar eða þriðjungs atkvæða þingmanna sambandsþingsins;

2a. um skoðanaágreining varðandi það hvort lög fullnægi skilyrðum 2. mgr. 72. gr, eftir beiðni sambandsþingsins, landsstjórnar eða fulltrúaþings sambandslands;

3. um skoðanaágreining varðandi réttindi og skyldur sambandsríkisins og sambandslandanna, sérstaklega hvað snertir framkvæmd sambandslandanna á sambandslögum og framkvæmd á eftirliti sambandsríkisins;

4. í öðrum deilum um opinberan rétt milli sambandsríkisins og sambandslandanna, milli sambandslanda innbyrðis eða innan sambandslands, svo fremi sem ekki er unnt að leita annarra dómstólaleiða;

4a. um kærur vegna stjórnarskrárbrota, sem allir geta borið fram með fullyrðingu þess efnis að opinber stjórnvöld hafi brotið á sér grundvallarréttindi eða réttindi sem þeim ber samkvæmt 4. mgr. 20. gr., 33. gr., 38. gr., 101. gr., 103. gr. og 104. gr.;

4b. um kærur vegna stjórnarskrárbrota sem sveitarfélög eða samtök sveitarfélaga bera fram vegna brota á sjálfstjórnarrétti samkvæmt 28. gr. í lögum, en í lögum sambandslands þó aðeins svo fremi sem ekki er unnt að leggja kæru fyrir stjórnlagadómstól sambandslandsins;

5. í öðrum tilvikum sem gert er ráð fyrir í þessum Grundvallarlögum.

(2) Stjórnlagadómstóll sambandsríkisins skal enn fremur sinna öðrum verkum sem honum eru fengin með sambandslögum.

94. gr.

(1) Stjórnlagadómstól sambandsríkisins skipa dómarar sambandsríkisins og aðrir starfsmenn. Helmingur starfsmanna stjórnlagadómstólsins skal kjörinn af sambandsþinginu og hinn helmingurinn af sambandsráðinu. Þeir mega ekki sitja á sambandsþinginu, í sambandsráðinu, ríkisstjórn sambandsríkisins né samsvarandi stjórnstofnunum sambandslands.

(2) Í sambandslögum skal ákveða stofnsamþykktir hans og málsmeðferðarreglur og hvenær ákvarðanir hans hafa réttaráhrif. Í lögunum má setja þau skilyrði fyrir kærum um stjórnlagabrot að áður hafi aðrar dómstólaleiðir verið tæmdar og þau geta gert ráð fyrir sérstakri leyfismeðferð mála.

95. gr.

(1) Sambandsríkið setur á stofn sambandsdómstól, stjórnsýsludómstól sambandsríkisins, fjármáladómstól sambandsríkisins, vinnumáladómstól sambandsríkisins og félagsmáladómstól sambandsríkisins sem æðstu dómstóla á sviðum almennra mála, stjórnsýslu, fjármála, vinnumála og félagsmála.

(2) Sá ráðherra sambandsríkisins sem ábyrgð ber á viðkomandi málasviði, ákveður skipun dómara við þessa dómstóla ásamt umsagnarnefnd dómara sem skipuð er þeim ráðherrum sambandslandanna sem ábyrgð bera á viðkomandi málasviði og jafnmörgum meðlimum sem kosnir eru af sambandsþinginu.

(3) Til að tryggja samræmdar dómsniðurstöður skal mynda sameiginlega dómnefnd þeirra dómstóla sem taldir eru í 1. mgr. Um nánari útfærslu skal ákveðið með sambandslögum.

96. gr.

(1) Sambandsríkið getur sett upp sambandsdómstól fyrir málefni sem varða réttarvernd í atvinnurekstri.

(2) Sambandsríkið getur sett upp sakamáladómstóla hersins sem sambandsdómstóla. Þeir hafa dómsvald aðeins þegar varnarástand ríkir og einnig yfir liðsmönnum hersins sem gegna herþjónustu erlendis eða um borð í herskipum. Um nánari útfærslu skal ákveðið í sambandslögum. Þessir dómstólar heyra undir starfsvið dómsmálaráðherra sambandsríkisins. Þeir dómarar sem starfa við þá í fullu starfi skulu fullnægja þeim hæfiskröfum sem gerðar eru til skipunar í dómaraembætti.

(3) Æðsti dómstóll þeirra dómstóla sem tilgreindir eru í 1. og 2. mgr. er sambandsdómstóllinn.

(4) Sambandsríkið getur sett upp sambandsdómstóla fyrir opinbera embættismenn sem lúta opinberum rétti, til að fella úrskurði í agamálum og kvörtunarmálum.

(5) Með sambandslögum má, að fengnu samþykki sambandsráðsins, gera ráð fyrir að dómstólar sambandslandanna fari með dómsvald sambandsríkisins í sakamálum á þeim málasviðum sem tilgreind eru í 1. mgr. 26. gr. eða sem varða varnir ríkisins.

97. gr.

(1) Dómarar eru sjálfstæðir og aðeins háðir lögunum.

(2) Dómurum, sem hafa dómstörf að aðalstarfi og eru æviráðnir í dómarastöður, má ekki veita lausn frá störfum gegn vilja sínum áður en starfstími þeirra rennur út né heldur má víkja þeim endanlega eða tímabundið úr starfi né setja þá í annað starf eða í helgan stein nema með dómi og skulu til þess liggja ástæður sem tilgreindar eru í lögum og sé þá farið eftir formsreglum sem ákveðnar eru í lögum. Með lögunum má setja aldursmörk sem segja til um það hvenær veita má æviráðnum dómurum lausn úr embætti sökum aldurs. Sé skipulagi dómstóla breytt eða umdæmum þeirra má færa dómara í annan dómstól eða víkja þeim úr embætti, en þó að því tilskildu að þeir haldi óskertum launum.

98. gr.

(1) Réttarstaða dómara sambandsríkisins skal ákveðin með sérstökum sambandslögum.

(2) Brjóti dómari sambandsríkisins í embætti eða utan embættis gegn meginreglum Grundvallarlaganna eða gegn stjórnskipunarlögum sambandslands, þá getur stjórnlagadómstóll sambandsríkisins með tveim þriðju hlutum atkvæða mælt svo fyrir, krefjist sambandsþingið þess, að dómarinn verði færður í annað embætti eða í helgan stein. Sé um ásetningsbrot að ræða má ákveða að honum verði vikið úr embætti.

(3) Kveða skal á um réttarstöðu dómara í sambandslöndunum með sérstökum landslögum. Sambandsríkið getur sett rammaákvæði, svo fremi sem 4. mgr. 74. greinar a. kveður ekki á um annað.

(4) Sambandslöndin geta ákveðið, að dómsmálaráherra sambandslandsins skuli, ásamt dómaravalnefnd, ákveða tilnefningu dómara í embætti.

(5) Sambandslöndin geta sett reglur um landsdómara sem eru sambærilegar við 2. mgr. þessarar greinar. Það skal þó engin áhrif hafa á gildandi stjórnlagarétt sambandslandsins. Stjórnlagadómstóll sambandsríkisins dæmir um ákærur á hendur dómara.

99. gr.

Með lögum sambandslands má fela stjórnlagadómstóli sambandsríkisins að skera úr um stjórnlagaágreining innan sambandslands; fela má þeim æðstu dómstólum sem tilgreindir eru í 1. mgr. 95. gr. að kveða upp lokaúrskurð í málum sem varða beitingu landsréttar.

100 gr.

(1) Telji dómstóll lög brjóta gegn stjórnarskránni, skal fresta málsmeðferð og leita úrskurðar, sé um brot gegn stjórnlögum sambandslands að ræða, þess dómstóls sambandslandsins sem fjallar um stjórnlagaágreining, eða stjórnlagadómstóls sambandsríkisins sé um brot gegn Grundvallarlögunum að ræða. Þetta gildir einnig ef um það er að ræða að lög sambandslandsins brjóti gegn þessum Grundvallarlögum eða ef lög sambandslandsins og sambandsríkisins fá ekki samrýmst.

(2) Leiki vafi á því í dómsmáli, hvort ákvæði þjóðaréttar séu hluti sambandsréttar og hvort þau leiði beint af sér réttindi og skyldur fyrir einstaklinga (25. gr.), skal dómstóllinn leita eftir úrskurði stjórnlagadómstólsins.

(3) Ætli stjórnlagadómstóll sambandslands að víkja frá dómi stjórnlagadómstóls sambandsríkisins eða stjórnlagadómstóls annars sambandslands í túlkun Grundvallarlaganna, ber honum að leita eftir úrskurði stjórnlagadómstóls sambandsríkisins.

101. gr.

(1) Dómstólar um einstök mál skulu óheimilir. Engan má færa undan valdsviði þess dómara sem honum ber að lögum.

(2) Dómstóla um sérstök efnissvið má aðeins setja á laggirnar með lögum.

102. gr.

Dauðarefsing er afnumin.

103. gr.

(1) Fyrir dómi skal hver maður eiga rétt á því að hlýtt sé á mál hans með lögformlegum hætti.

(2) Ekki má refsa fyrir verknað nema hann hafi verið refsiverður að lögum áður en hann var framinn.

(3) Engum má refsa oftar en einu sinni fyrir sama verknað á grundvelli almennra hegningarlaga.

104. gr.

(1) Frelsi manna má aðeins takmarka á grundvelli formlegra laga og aðeins að teknu tilliti til þeirra formreglna sem þar er mælt fyrir um. Ekki má beita handtekna menn illri meðferð, hvorki andlega né líkamlega.

(2) Aðeins dómari sker úr um heimild til frelsissviptingar og hversu lengi hún skuli standa. Ef frelsissvipting er ekki byggð á ákvörðun dómara skal tafarlaust leita dómsúrskurðar. Lögreglan má ekki í krafti valds síns halda neinum í vörslu sinni lengur en til loka næsta dags eftir að handtakan fór fram. Um nánari útfærslu skal ákveða með lögum.

(3) Hvern sem handtekinn hefur verið tímabundið vegna gruns um refsiverðan verknað skal ekki síðar en daginn eftir handtöku færa fyrir dómara sem á að tilkynna honum ástæður handtökunnar, yfirheyra hann og gefa honum tækifæri til andmæla. Dómarinn skal tafarlaust annað hvort gefa út skriflega og rökstudda varðhaldsskipun eða skipa svo fyrir að hann skuli leystur úr haldi.

(4) Greina skal ættingja eða einhverjum sem nýtur trúnaðartrausts hins handtekna tafarlaust frá hverjum dómsúrskurði sem hefur að geyma fyrirmæli um frelsissviptingu eða framlengingu frelsissviptingar.
 

X. Fjármál ríkisins

Gr. 104 a(1) Sambandsríkin og sambandslöndin skulu hvert í sínu lagi bera þann útgjaldakostnað sem hlýst af framkvæmd þeirra verkefna sem þeim eru ætluð, svo fremi sem þessi Grundvallarlög kveða ekki á um annað.(2) Starfi sambandslöndin í umboði sambandsríkisins, skal sambandsríkið bera þau útgjöld sem þar af leiðir.

(3) Í sambandslögum, þar sem gert er ráð fyrir fjárframlögum og sambandslöndin eiga að sjá um framkvæmdina, má ákveða að sambandsríkið beri að öllu leyti eða að hluta til kostnaðinn af fjárframlögunum. Sé í lögunum ákveðið að sambandsríkið beri helming útgjaldakostnaðarins eða meira, verða lögin framkvæmd í umboði sambandsríkisins. Sé í lögunum ákveðið að sambandslöndin beri fjórðung útgjaldanna eða meira þarf samþykkis sambandsráðsins.

(4) Sambandsríkið getur tryggt sambandslöndunum fjárhagsaðstoð til sérstaklega mikilvægra fjárfestinga í sambandslöndum og sveitarfélögum (samtökum sveitarfélaga), séu þær nauðsynlegar til að koma í veg fyrir að efnahagsjafnvægi raskist eða til að jafna mismun á fjárhagsgetu á sambandssvæðinu eða til að stuðla að hagvexti. Um nánari útfærslu, sérstaklega hvað varðar þær tegundir fjárfestinga sem styrkja skal, skal ákveða annað hvort með sambandslögum sem þurfa samþykkis sambandsráðsins eða í stjórnsýslulegu samkomulagi á grundvelli fjárlaga sambandsríkisins.

(5) Sambandsríkið og sambandslöndin skulu bera kostnað af þeim stjórnsýsluútgjöldum sem hljótast af stofnunum þeirra og bera gagnkvæma ábyrgð á að stjórnsýsla verði eins og til er ætlast. Um nánari útfærslu skal ákveða í sambandslögum sem þurfa samþykkis sambandsráðsins.

105. gr.

(1) Sambandsríkið hefur eitt rétt til lagasetningar um tolla og ríkiseinokun.

(2) Sambandsríkið hefur forgangsrétt til lagsetningar um aðra skatta, þegar það á rétt á þessum skatttekjum að öllu leyti eða að hluta eða þegar skilyrði 2. mgr. 72. gr. eru fyrir hendi.

(2a) Sambandslöndin hafa vald til lagasetningar um staðbundna neyslu- og útgjaldaskatta, svo fremi sem þeir svari ekki til skatta sem ákveðnir eru með sambandslögum.

(3) Sambandslög um skatta sem ganga að öllu leyti eða að hluta til sambandslandanna eða sveitarfélaga (samtaka sveitarfélaga) þurfa samþykkis sambandsráðsins.

106. gr.

(1) Tekjur vegna ríkiseinokunar og tekjur af eftirtöldum sköttum ganga til sambandsríkisins:

1. tollar,

2. neysluskattar, svo fremi sem þeir ganga ekki til sambandslandanna samkvæmt 2. mgr., sameiginlega til sambandsríkisins og sambandslandanna samkvæmt 3. mgr. eða til sveitarfélaganna samkvæmt 6. mgr.,

3. skatta á landflutninga,

4. skatta á fjármagnsviðskipti, tryggingaskattar og víxilskattur,

5. eignagjöld sem lögð eru á einu sinni og jöfnunargjöld sem lögð eru á samkvæmt lögum um jöfnun byrða,

6. viðbótarálögur á tekjuskatt einstaklinga og á tekjuskatt lögaðila,

7. Skattlagning sem leiðir af reglum Evrópubandalaganna.

(2) Eftirtaldar skatttekjur ganga til sambandslandanna:

1. eignarskattur,

2. erfðaskattur,

3. bifreiðaskattur,

4. skattar á viðskipti, svo fremi sem þeir gangi ekki til sambandsríkisins samkvæmt 1. mgr. eða sameiginlega til sambandsríkisins og sambandslandanna samkvæmt 3. mgr.,

5. bjórskattur

6. álögur á spilavíti.

(3) Tekjur af tekjuskatti einstaklinga, tekjuskatti lögaðila og virðisaukaskatti ganga til sambandsríkisins og sambandslandanna sameiginlega (sameiginlegir skattar), svo fremi sem tekjur af tekjuskatti einstaklinga ganga ekki til sveitarfélaganna samkvæmt 5. mgr. Tekjum af tekjuskatti einstaklinga og tekjuskatti lögaðila deila sambandsríkið og sambandslöndin með sér til helminga. Hlutur sambandsríkisins og sambandslandanna í virðisaukaskatti skal ákveðinn með sambandslögum sem þurfa samþykkis sambandsráðsins. Sú ákvörðun skal byggja á eftirtöldum meginreglum:

1. Sambandsríkið og sambandslöndin eiga jafnar kröfur til greiðslu nauðsynlegra útgjalda innan marka tekjuinnstreymis. Jafnframt skal umfang útgjaldanna ákvarðast með tilliti til langtíma fjárhagsáætlunar.

2. Greiðsluþörf sambandsríkisins og sambandslandanna skal samræmd, þannig að eðlilegt jafnvægi náist, komið verði í veg fyrir ofsköttun og tryggt verði að sem mest samræmi sé í lífsskilyrðum á sambandssvæðinu.

(4) Hlutur sambandsríkisins og sambandslandanna í virðisaukaskatti skal ákveðinn að nýju ef hlutfall tekna og útgjalda sambandsríkisins og sambandslandanna breytist verulega. Ef viðbótarútgjöld eru lögð á sambandslöndin með sambandslögum eða þau svipt tekjum, þá má með sambandslögum, sem þurfa samþykkis sambandsráðsins, jafna viðbótarálögunar með fjárveitingum sambandríkisins ef þær var aðeins um skamma hríð. Í lögunum skal ákveða meginreglur um útreikning fjárveitinganna og um skiptingu þeirra milli sambandslandanna.

(5) Sambandslöndin skulu greiða sveitarfélögunum hluta tekna sinna af tekjuskatti einstaklinga á grundvelli þess tekjuskatts sem íbúar sveitarfélaganna greiða. Um nánari útfærslu skal ákveða með sambandslögum, sem þurfa samþykkis sambandsráðsins. Í lögunum má ákveða að sveitarfélögin ákvarði álagningarprósentuna fyrir sinn hluta skattsins.

(6) Tekjur af eignarhaldssköttum ganga til sveitarfélaga, tekjur af staðbundnum neyslu- og útgjaldasköttum ganga til sveitarfélaga eða til samtaka sveitarfélaga eftir því sem kveðið er á um í löggjöf sambandslanda. Sveitarfélögunum skal veita rétt til þess að ákvarða álagningaprósentu eignarhaldsskatta innan marka laganna. Séu engin sveitarfélög í sambandslandi skulu tekjur af eignarhaldssköttum og af staðbundnum neyslu- og útgjaldasköttum ganga til sambandslandsins. Sambandsríkið og sambandslöndin geta með millifærslu fengið hlutdeild í tekjum af fyrirtækjaskatti. Nánari útfærslu um millifærsluna skal ákveða með sambandslögum sem þurfa samþykkis sambandsráðsins. Eftir því sem kveðið er á um í löggjöf sambandslanda má leggja eignarhaldsskatta og hlut sveitarfélaganna í tekjuskattstekjum til grundvallar útreikingi millifærslunnar.

(7) Af hlut sambandslandanna í heildartekjum af sameiginlegum sköttum skal viss hundraðshluti, sem ákveðinn er í löggjöf sambandslandsins, renna í heild til sveitarfélöganna og samtaka sveitarfélaga. Að öðru leyti skal með löggjöf sambandslanda ákveða, hvort og að hve miklum hluta skatttekjur sambandslandanna renna til sveitarfélaganna (samtaka sveitarfélaga).

(8) Láti sambandsríkið í einstökum sambandslöndum eða sveitarfélögum (samtökum sveitarfélaga) koma á fót sérstökum stofnunum sem valda þessum sambandslöndum eða sveitarfélögum (samtökum sveitarfélaga) auknum útgjöldum eða minni tekjum (sérstökum byrðum) skal sambandsríkið tryggja nauðsynlegar bætur, ef og svo fremi sem ekki er hægt að ætlast til þess að sambandslöndin eða sveitarfélögin (samtök sveitarfélaga) beri þessar sérstöku byrðar. Við úthlutun bótanna skal taka tillit til skaðabótagreiðslna til þriðja aðila og fjárhagslegs ávinnings sem sambandslöndin eða sveitarfélögin (samtök sveitarfélaga) hljóta af þessum stofnunum.

(9) Hvað varðar þessa grein skulu tekjur og útgjöld sveitarfélaga (samtaka sveitarfélaga) einnig teljast tekjur og útgjöld sambandslandanna.
Gr. 106 a(1) Frá og með 1. janúar 1996 eiga sambandslöndin tilkall til hluta skatttekna sambandsríkisins vegna kostnaðar við almenningssamgöngur. Um nánari útfærslu skal ákveða með sambandslögum sem þurfa samþykkis sambandsráðsins. Ekki skal taka tillit til fjárframlagsins samkvæmt 1. málsl. við útreikning á fjárhagsgetu samkvæmt 2. mgr. 107. gr.107. gr.

(1) Tekjur af sköttum sambandslanda og hlutur sambandslandanna í tekjum af tekjuskatti einstaklinga og tekjuskatti lögaðila ganga til einstakra sambandslanda, svo fremi sem skattarnir eru innheimtir af fjármálastjórnvöldum á landsvæði þeirra (staðbundnar tekjur). Varðandi tekjuskatt lögaðila og launaskatt skal með sambandslögum, sem þurfa samþykkis sambandsráðsins, setja nánari ákvæði um bæði afmörkun og um eðli og umfang skiptingar á staðbundnum tekjum. Með lögunum má einnig setja ákvæði um afmörkun og skiptingu staðbundinna tekna af öðrum sköttum. Hlutur sambandslandanna í virðisaukaskattstekjum gengur til einstakra sambandslanda í hlutfalli við íbúatölu þeirra; með sambandslögum sem þurfa samþykkis sambandsráðsins má gera ráð fyrir viðbótarhlut, sem ekki er þó meiri en fjórðungur af hlut sambandslandsins, fyrir þau sambandslönd þar sem tekjur á íbúa af sköttum sambandslandsins og af tekjuskatti einstaklinga og af tekjuskatti lögaðila eru undir meðaltali allra sambandslandanna samanlagt.

(2) Með lögum skal tryggja, að mismunandi fjárhagsgeta sambandslandanna sé jöfnuð með sanngjörnum hætti; skal þá taka tillit til fjárhagsgetu og fjárþarfar sveitarfélaganna (samtaka sveitarfélaga). Ákveða skal í lögunum skilyrði um kröfur þeirra sambandslanda til jöfnunargreiðslna, sem rétt eiga á jöfnunargreiðslum, og um jöfnunarskuldbindingar þeirra sambandslanda, sem skuldbundin eru til að inna af hendi jöfnunargreiðslur, og einnig viðmiðanir fyrir upphæð jöfnunargreiðslanna. Með lögunum má einnig ákveða að sambandsríkið skuli tryggja félitlum sambandslöndum framlög úr eigin sjóði til greiðslu þess sem á vantar af almennri fjárþörf þeirra (aukaframlög).

108. gr.

(1) Fjármálastjórnvöld sambandsríkisins fara með yfirstjórn tolla, ríkiseinokunar, neysluskatta sambandsríkisins, þ.á m. virðisaukaskatts af innflutningi, og gjalda sem lögð eru á vegna reglna Evrópubandalaganna. Skipulag þessara stjórnvalda skal ákveða með sambandslögum. Yfirmenn stjórnvalda á millistjórnstigi skulu skipaðir í samvinnu við landsstjórnirnar.

(2) Fjármálastjórnvöld sambandslandanna fara með yfirstjórn annarra skatta. Skipulag þessara stjórnvalda og samræmda menntun embættismanna má ákveða með sambandslögum að fengnu samþykki sambandsráðsins. Yfirmenn stjórnvalda á millistjórnstigi skulu skipaðir í samráði við sambandsstjórnina.

(3) Fari fjármálstjórnvöld sambandslandanna með yfirstjórn skatta, sem renna að öllu leyti eða að hluta til sambandsríkisins, þá starfa þau í umboði sambandsríkisins. 3. og 4. mgr. 85. gr. gilda með þeirri breytingu, að í stað sambandsstjórnarinnar komi fjármálaráðherra sambandsríkisins.

(4) Með sambandslögum, sem þurfa samþykkis sambandsráðsins, má gera ráð fyrir samvinnu fjármálastjórnvalda sambandsríkisins og sambandslandanna við yfirstjórn skattamála og einnig að fjármálastjórnvöld sambandslandanna fari með yfirstjórn skatta sem falla undir 1. mgr. og að fjármálastjórnvöld sambandsríkisins fari með yfirstjórn annarra skatta, ef og svo fremi sem það bætir eða auðveldar framkvæmd skattalaga verulega. Fyrir skatta sem renna óskiptir til sveitarfélaganna (samtaka sveitarfélaga) mega sambandslöndin að öllu leyti eða að hluta framselja yfirstjórn þá, sem heyrir undir fjármálastjórnvöld sambandslandanna, til sveitarfélaganna (samtaka sveitarfélaga).

(5) Með sambandslögum skal ákveða starfshætti þá sem fjármálastjórnvöld sambandsríkisins skulu viðhafa. Með sambandslögum má að fengnu samþykki sambandsráðsins ákveða starfshætti þá sem fjármálastjórnvöld sambandslandanna og, ef um er að ræða þau tilvik sem gert er ráð fyrir í 2. málsl. 4. mgr., sveitarfélögin (samtök sveitarfélaga) skulu við hafa.

(6) Með sambandslögum skal setja samræmdar reglur um lögsögu varðandi fjárhagsmálefni.

(7) Sambandsstjórninni skal heimilt að gefa út almennar stjórnsýslureglur að fengnu samþykki sambandsráðsins og svo fremi sem stjórnsýslan hvílir á herðum fjármálstjórnvalda sambandslandanna eða á herðum sveitarfélaganna (samtaka sveitarfélaga).

109. gr.

(1) Sambandsríkið og sambandslöndin skulu vera sjálfstæð og óháð hvert öðru í stjórn fjármála.

(2) Í fjármálastjórn skulu sambandsríkið og sambandslöndin taka tillit til þess sem heildarjafnvægi í efnahagsmálum krefst.

(3) Með sambandslögum, sem þurfa samþykkis sambandsráðsins, má setja grundvallarreglur sem gilda sameiginlega fyrir sambandsríkið og sambandslöndin um fjárlög, um að við fjárlagagerð sé tekið mið af horfum í efnahagsmálum og um fjárhagsáætlun til margra ára.

(4) Til að koma í veg fyrir að heildarjafnvægi efnahagslífsins raskist má með sambandslögum, sem þurfa samþykkis sambandsráðsins, setja reglur um

1. hámarksupphæð, skilyrði og tímasetningu á lántökum opinberra stofnanna, hvort sem þær starfa á tilteknum svæðum eða að tilteknum málefnum og

2. skuldbindingu sambandsríkisins og sambandslandanna til að vera með vaxtalausa inneign hjá Sambandsbanka Þýska Sambandslýðveldisins (hallajöfnunarsjóður).

Aðeins sambandsstjórninni má veita heimild til að gefa út reglugerðir. Reglugerðir þurfa samþykkis sambandsráðsins. Þær skal nema úr gildi svo fremi sem sambandsþingið krefst þess; um nánari útfærslu skal ákveða með sambandslögum.

110. gr.

(1) Fjárhagsáætlun hefur að geyma greinargerð um allar tekjur og útgjöld sambandsríkisins; hvað snertir fyrirtæki sambandsríkisins og sérstaka sjóði þarf aðeins að gera grein fyrir fjárveitingum til þeirra eða greiðslum frá þeim. Tekjur og útgjöld á fjárhagsáætlun skulu vera í jafnvægi.

(2) Fjárhagsáætlun skal, aðgreint eftir árum, ákveðin með fjárlögum fyrir eitt eða fleiri fjárhagsár áður en fyrsta fjárhagsárið hefst. Gera má ráð fyrir að hluti fjárhagsáætlunarinnar gildi fyrir mismunandi tímabil, aðgreint eftir fjárhagsárum.

(3) Frumvarp til laga samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. og frumvörp til breytinga á fjárhagsáætlun og fjárlögum skulu samtímis lögð fram í sambandsþinginu og sambandsráðinu; sambandsráðið skal hafa rétt til þess að taka afstöðu til frumvarpanna innan sex vikna, en innan þriggja vikna ef um frumvarp til breytinga á lögum er að ræða.

(4) Í fjárlögum mega aðeins vera ákvæði um tekjur og gjöld sambandsríkisins á því tímabili sem fjárlögin eru samþykkt fyrir. Í fjárlögum má kveða á um að ákvæði þeirra falli ekki úr gildi fyrr en næstu fjárlög hafa verið birt, eða síðar með heimild samkvæmt 115. gr.

111. gr.

(1) Ef fjárhagsáætlun fyrir næsta ár hefur ekki verið ákveðin með lögum við lok fjárhagsárs skal sambandsstjórninni heimilt að inna af hendi öll útgjöld sem nauðsynleg eru þar til hún hefur tekið gildi,

a) til að halda uppi starfsemi lögmætra stofnana og framkvæma þær ráðstafanir sem ákveðnar hafa verið með lögum,

b) til að uppfylla þær skuldbindingar sem sambandsríkið hefur gengist undir lögum samkvæmt,

c) til að tryggja að mannvirkjagerð, fjármögnun verkefna og öðrum framlögum verði haldið áfram, eða aðstoð í þessu skyni svo fremi sem fjármagni hafi þegar verið veitt til þess á fjárhagsáætlun fyrra árs.

(2) Svo fremi sem tekjur af sköttum, álögum og öðrum tekjulindum eða rekstrarafgangi fyrirtækja sem grundvallaðar eru á sérstökum lögum nægi ekki til greiðslu útgjalda samkvæmt 1. mgr., má sambandsstjórnin afla þess fjármagns sem þörf krefur til að halda efnahagsstarfseminni gangandi, allt að fjórðungi þeirrar upphæðar sem var niðurstöðutala síðustu fjárhagsáætlunar.

112. gr.

Útgjöld sem fara fram úr fjárhagsáætlun eða eru utan fjárhagsáætlunar þurfa samþykkis fjármálaráðherra sambandsríkisins. Þau má aðeins heimila ef um ófyrirsjáanlegar og óhjákvæmilegar þarfir er að ræða. Um nánari útfærslu má ákveða með sambandslögum.

113. gr.

(1) Samþykkis ríkisstjórnar sambandsríkisins þarf fyrir lögum sem hækka þá útgjaldaliði á fjárhagsáætluninni sem ríkisstjórnin hefur lagt til eða sem fela í sér nýja útgjaldaliði eða hafa þá í för með sér í framtíðinni. Sama gildir um lög sem fela í sér tekjulækkun eða hafa hana í för með sér í framtíðinni. Ríkisstjórn sambandsríkisins getur krafist þess, að sambandsþingið fresti atkvæðagreiðslu um slík lög. Í því tilviki skal ríkisstjórn sambandsríkisins tilkynna sambandsþinginu afstöðu sína innan sex vikna.

(2) Ríkisstjórn sambandsríkisins getur, innan fjögurra vikna eftir að sambandsþingið hefur samþykkt lögin, krafist þess að sambandsþingið greiði aftur atkvæði um frumvarpið. (3) Hafi lögin tekið gildi samkvæmt 78. gr. getur ríkisstjórn sambandsríkisins aðeins neitað að gefa samþykki sitt innan sex vikna og þá aðeins hafi hún fyrst sett af stað málsmeðferð samkvæmt 3. og 4. málsl. 1. mgr. eða samkvæmt 2. mgr. Að útrunnum þessum fresti skal svo gilda sem samþykkið hafi verið veitt.

114. gr.

(1) Fjármálaráðherra sambandsríkisins skal, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, leggja fyrir sambandsþingið og sambandsráðið til samþykktar reikning yfir allar tekjur og gjöld og einnig yfir eignir og skuldir á yfirstandandi fjárhagsári.

(2) Endurskoðunarskrifstofa sambandsríkisins, en meðlimir hennar njóta sjálfstæðis sem dómarar, skal endurskoða reikninginn og fjármála- og efnahagsstjórn með tilliti til hagkvæmni og réttleika. Hún skal árlega gefa skýrslu beint til ríkisstjórnar sambandsríkisins og einnig til sambandsþingsins og til sambandsráðsins. Að öðru leyti eru heimildir endurskoðunarskrifstofu sambandsríkisins ákveðnar með sambandslögum.

115. gr.

(1) Fyrir lántökur og ábyrgðir, tryggingar og aðrar skuldbindingar sem geta haft í för með sér útgjöld á komandi fjárhagsárum þarf heimild í sambandslögum þar sem hámarksupphæð er ákveðin eða útreiknanleg. Tekjur, sem fengnar eru með lánum, mega ekki nema hærri fjárhæð en gert er ráð fyrir á fjárhagsáætlun að fari í fjárfestingarútgjöld; undantekningar skulu aðeins heimilar til að koma í veg fyrir að heildarjafnvægi efnahagsmála raskist. Um nánari útfærslu skal ákveða með sambandslögum.

(2) Hvað snertir séreignir sambandsríkisins má með sambandslögum veita undantekningar frá 1. mgr.
Xa. Varnarástand
Gr. 115 a(1) Ákvörðun um að gerð hafi verið vopnuð árás á landsvæði sambandsríkisins eða að slík árás sé yfirvofandi (varnarástand), tekur sambandsþingið að fengnu samþykki sambandsráðsins. Ákvörðun skal tekin að beiðni ríkisstjórnar sambandsríkisins og þarf til tvo þriðju hluta greiddra atkvæða frá að minnsta kosti meirihluta þingmanna sambandsþingsins.(2) Sé ástandið þess eðlis að óhjákvæmilegt sé að grípa þegar í stað til aðgerða og standi óyfirstíganlegar hindranir í vegi fyrir því að sambandsþingið komi saman í tíma eða ef ákvörðunarbær meirihluti er ekki fyrir hendi, þá skal sameiginlega nefndin taka þessa ákvörðun með tveim þriðju greiddra atkvæða frá að minnsta kosti meirihluta nefndarmanna.

(3) Ákvörðunina skal forseti Sambandslýðveldisins tilkynna í Lögbirtingarblaði Sambandslýðveldisins samkvæmt 82. gr. Sé það ekki mögulegt í tíma skal tilkynningin gerð á annan hátt; hana ber síðan að birta í Lögbirtingarblaði Sambandslýðveldisins jafnskjótt og aðstæður leyfa.

(4) Sé gerð vopnuð árás á landsvæði Sambandslýðveldisins og séu tilskildar stjórnstofnanir ófærar um að taka þegar í stað ákvörðun samkvæmt 1. málsl. 1. mgr., þá skal svo gilda sem ákvörðun þessi hafi verið gefinn út og að hún hafi verið tilkynnt á þeim tíma sem árásin hófst. Forseti sambandsríkisins skal tilkynna tímasetninguna jafnskjótt og aðstæður leyfa.

(5) Hafi ákvörðun um varnarástand verið gefinn út og sé gerð vopnuð árás á landsvæði Sambandslýðveldisins má forseti Sambandslýðveldisins gefa út þjóðréttarlegar yfirlýsingar um að varnarástand ríki að fengnu samþykki sambandsþingsins. Séu skilyrði 2. mgr. fyrir hendi skal sameiginlega nefndin koma í stað sambandsþingsins.
Gr. 115 bÞegar tilkynnt hefur verið um varnarástand hefur verið gefinn út færist yfirstjórn hersins á herðar kanslara Sambandslýðveldisins.Gr. 115 c(1) Þegar varnarástand ríkir hefur sambandsríkið forgangsrétt til lagasetningar, einnig á þeim málasviðum sem heyra undir lagasetningarvald sambandslandanna. Slík lög þurfa samþykkis sambandsráðsins.(2) Svo fremi sem aðstæður í varnarástandi krefjast þess, má í varnarástandi með sambandslögum

1. ákveða skaðabætur til bráðabirgða fyrir eignarnám sem víkur frá 2. málsl. 3. mgr. 14. gr.,

2. ákveða frest, þó ekki lengri en fjóra daga, fyrir frelsissviptingar sem víkur frá 3. málsl. 2. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. 104. gr. hafi enginn dómari getað tekið málið að sér innan þess frests sem gildir á eðlilegum tímum.

(3) Svo fremi sem það er nauðsynlegt til varnar gegn árás, sem annaðhvort er yfirstandandi eða yfirvofandi, má þegar varnarástand ríkir með sambandslögum að fengnu samþykki sambandsráðsins ákveða skipan stjórnsýslu og fjársýslu sambandsríkisins og sambandslandanna með frávikum frá köflum VIII, VIIIa og X, og skal þá jafnframt tryggja tilveru sambandslandanna, sveitarfélaganna og samtaka sveitarfélaga, og sérstaklega í fjárhagslegu tilliti.

(4) Sambandslög samkvæmt 1. mgr. og 1. tölul. 2. mgr. mega taka gildi áður en varnarástand hefst, svo unnt sé að undirbúa framkvæmd þeirra.
Gr. 115 d(1) Þegar varnarástand ríkir gilda um löggjöf sambandsríkisins ákvæði 2. og 3. mgr., með þeim frávikum sem því fylgir frá 2. mgr. 76. gr., 2. málsl. 1. mgr. og 2. til 4. mgr. 77. gr., 78. gr. og 1. mgr. 82. gr.(2) Lagafrumvörpum sambandsstjórnarinnar, sem hún hefur lýst áríðandi, skal vísað til sambandsráðsins um leið og þau eru lögð fram í sambandsþinginu. Sambandsþingið og sambandsráðið skulu tafarlaust ræða þessi frumvörp sameiginlega. Svo fremi sem lög þurfa samþykkis sambandsráðsins, þarf samþykki meirihluta atkvæða þess til að þau taki gildi. Um nánari útfærslu skal ákveða í vinnureglum, sem sambandsþingið samþykkir og þurfa samþykkis sambandsráðsins.

(3) Um tilkynningu laga gildir 2. málsl. 3. mgr. 115. greinar a með sambærilegum hætti.
Gr. 115 e(1) Komist sameiginlega nefndin, á meðan varnarástand varir, með meirihluta sem nemur tveim þriðju hlutum greiddra atkvæða, en ekki færri en meirihluta nefndarmanna, að þeirri niðurstöðu að óyfirstíganlegar hindranir standi í vegi fyrir því að sambandsþingið geti komið saman í tíma eða að það hafi ekki yfir atkvæðisbærum meirihluta að ráða, skal sameiginlega nefndin hafa stöðu sambandsþingsins og sambandsráðsins og fara með réttindi þeirra sem ein stofnun.(2) Með lögum sameiginlegu nefndarinnar má hvorki breyta Grundvallarlögunum né að öllu leyti eða að hluta nema þau úr gildi eða gera þau óvirk. Sameiginlega nefndin hefur ekki vald til að gefa út lög samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 23. gr., 1. mgr. 24. gr. eða 29. grein.Gr. 115 f(1) Á meðan varnarástand varir getur ríkisstjórn Sambandslýðveldisins, svo fremi sem aðstæður krefja,1. kallað út landamæragæslu Sambandslýðveldisins á öllu landsvæði Sambandslýðveldisins;

2. gefið fyrirmæli, ekki aðeins til stjórnvalda sambandsríkisins, heldur einnig til landsstjórnanna og, ef hún telur brýna þörf á, til stjórnsýslustofnana sambandslandanna og jafnframt framselt þetta vald til þeirra meðlima landsstjórnanna sem hún ákveður.

(2) Sambandsþinginu, sambandsráðinu og sameiginlegu nefndinni skal tafarlaust greina frá þeim ráðstöfunum sem gerðar eru samkvæmt 1. mgr.
Gr. 115 gEkki má skerða stjórnarskrárbundna stöðu né draga úr framkvæmd stjórnarskrárbundinna verkefna Stjórnlagadómstóls sambandsríkisins og dómara hans. Lögum um stjórnlagadómstól sambandsríkisins má með lögum sameiginlegu nefndarinnar aðeins breyta að því marki sem stjórnlagadómstóll sambandsríkisins álítur það einnig nauðsynlegt til að dómstóllinn geti sinnt störfum sínum. Þangað til slík lög hafa verið sett getur stjórnlagadómstóll sambandsríkisins gert nauðsynlegar ráðstafanir til þess að dómstóllinn geti sinnt störfum sínum. Stjórnlagadómstóll sambandsríkisins tekur ákvarðanir samkvæmt 2. og 3. málsl. með meirihluta viðstaddra dómara.Gr. 115 h(1) Renni kjörtímabil sambandsþingsins eða þjóðþinga sambandslandanna út á meðan varnarástand varir, skal því ljúka sex mánuðum eftir að varnarástandi lýkur. Renni embættistímabil forseta Sambandslýðveldisins út á meðan varnarástand varir, skal því ljúka níu mánuðum eftir að varnarástandi lýkur; sama gildir um það tímabil sem forseti sambandsráðsins fer með forsetavald, hafi forseti látið fyrr af embætti en tilskilið er. Renni embættistímabil dómara í stjórnlagadómstóli sambandsríkisins út á meðan varnarástand varir, skal því ljúka sex mánuðum eftir að varnarástandi lýkur.(2) Þurfi sameiginlega nefndin að kjósa nýjan kanslara sambandsríkisins, skal hún kjósa hann með meirihluta nefndarmanna; forseti Sambandslýðveldisins skal leggja tillögu sína fyrir sameiginlegu nefndina. Sameiginlega nefndin getur aðeins lýst vantrausti sínu á kanslara Sambandslýðveldisins með því að kjósa eftirmann hans með meirihluta sem nemur tveimur þriðju hlutum nefndarmanna. (3) Sambandsþingið verður ekki rofið meðan á varnarástandi stendur.Gr. 115 i(1) Séu valdbærar stjórnstofnanir sambandsríkisins óhæfar til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til varnar gegn hættu og krefjist ástandið óhjákvæmilega tafarlausra sjálfstæðra aðgerða á einstökum svæðum Sambandslýðveldisins, skulu landsstjórnirnar eða þau stjórnvöld, eða þeir fulltrúar sem þær ákveða, hafa völd til að gera ráðstafanir í skilningi 1. mgr. greinar 115 f fyrir það svið sem þeir bera ábyrgð á.(2) Ríkisstjórn Sambandslýðveldisins getur hvenær sem er afturkallað ráðstafanir sem gerðar eru samkvæmt 1. mgr., eða forsætisráðherrar sambandslandanna ef stjórnvöld sambandslands eða lægri sambandsstjórnvöld hafa fyrirskipað þær.Gr. 115 k(1) Á meðan í gildi eru lög samkvæmt gr. 115 c, 115 e og 115 g og reglugerðir, sem gefnar eru út með heimild í slíkum lögum, verða önnur lög, sem stangast á við þau, óvirk. Þetta á þó ekki við um eldri réttarákvæði sem sett hafa verið á grundvelli greina 115 c, 115 e og 115 g.(2) Lög sem sameiginlega nefndin hefur samþykkt og reglugerðir, sem gefnar eru út með heimild í slíkum lögum, skulu falla úr gildi ekki síðar en sex mánuðum eftir að varnarástandi lýkur.

(3) Lög sem hafa að geyma ákvæði sem eru í ósamræmi við greinar 91 a, 91 b, 104 a, 106 og 107 gilda ekki lengur en til loka annars fjárhagsárs eftir að varnarástandi lýkur. Eftir að varnarástandi lýkur má breyta þeim með sambandslögum að fengnu samþykki sambandsráðsins til að koma á þeirri reglu sem kaflar VIII a og X kveða á um.
Gr. 115 l(1) Sambandsþingið getur hvenær sem er, að fengnu samþykki sambandsráðsins, numið lög sameiginlegu nefndarinnar úr gildi. Sambandsráðið getur krafist þess að sambandsþingið taki ákvörðun í málinu. Aðrar ráðstafanir sameiginlegu nefndarinnar eða ríkisstjórnar Sambandslýðveldisins sem gerðar hafa verið til varnar gegn hættu skal nema úr gildi þegar sambandsþingið og sambandsráðið ákveða það.(2) Sambandsþingið getur, að fengnu samþykki sambandsráðsins, hvenær sem er lýst því yfir að varnarástandi sé lokið með samþykkt sem forseti Sambandslýðveldisins skal tilkynna. Sambandsráðið getur krafist þess að sambandsþingið taki ákvörðun í málinu. Tafarlaust skal lýsa því að varnarástandi sé lokið ef forsendur þess eru ekki lengur fyrir hendi.

(3) Um friðarsamninga skal ákveða með sambandslögum.
 

XI. Ákvæði til bráðabirgða og lokaákvæði

116. gr.

(1) Þjóðverji telst, samkvæmt skilningi þessara Grundvallarlaga nema annað hafi verið ákveðið í lögum, hver sá sem hefur þýskan ríkisborgararétt eða sem heimiluð var landvist á landsvæði Þýska ríkisins miðað við legu landamæra þann 31. desember 1937 sem flóttamaður eða útlagi af þýsku þjóðerni eða sem maki hans eða afkomandi.

(2) Einstaklingum, sem áður voru þýskir ríkisborgarar og voru sviptir ríkisborgararétti á tímabilinu frá 30. janúar 1933 til 8. maí 1945 af stjórnmálalegum, kynþátta- eða trúarlegum ástæðum svo og afkomendum þeirra, skal endurveita ríkisborgararétt leggi þeir fram umsókn um það. Þeir skulu ekki teljast hafa verið sviptir ríkisborgararétti hafi þeir byrjað búsetu í Þýskalandi eftir 8. maí 1945 og ekki látið í ljós andstöðu við það.

117. gr.

(1) Lög sem stangast á við 2. mgr. 3. gr. skulu gilda þar til þau hafa verið aðlöguð að þessu ákvæði Grundvallarlaganna, þó ekki lengur en til 31. mars 1953.

(2) Lög, sem takmarka réttinn til dvalar- og ferðafrelsis með hliðsjón af núverandi húsnæðisvanda, skulu gilda áfram uns þau verða numin úr gildi með sambandslögum.

118. gr.

Endurskipting þess landsvæðis, sem nær yfir sambandslöndin Baden, Württemberg-Baden og Württemberg-Hohenzollern, má fara fram með samkomulagi hlutaðeigandi sambandslanda, þrátt fyrir ákvæði 29. gr. Náist ekki samkomulag þar að lútandi skal endurskiptingin ákveðin með sambandslögum, og skal í lögunum gert ráð fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um málið.
Gr. 118 aEndurskipting þess landsvæðis, sem nær yfir sambandslöndin Berlín og Brandenborg, má þrátt fyrir ákvæði 29. gr. fara fram með samkomulagi beggja sambandslandanna og þátttöku allra þeirra sem þar eiga kosningarétt.119. gr.

Ríkisstjórn Sambandslýðveldisins má, þangað til ákvæði hafa verið sett í sambandslögum og að fengnu samþykki sambandsráðsins, gefa út reglugerðir sem hafa lagagildi um málefni flóttamanna og útlaga, sérstaklega varðandi dreifingu þeirra á sambandslöndin. Með þeim má veita ríkisstjórn Sambandslýðveldisins heimild til að gefa út einstök fyrirmæli í einstökum tilvikum. Fyrirmælunum skal beint til æðstu stjórnvalda sambandslandanna, nema töf geti valdið hættu.

120. gr.

(1) Sambandsríkið skal bera kostnaðinn af hersetunni og aðrar byrðar sem leiða af stríðinu jafnt innan lands sem utan eftir því sem nánar er ákveðið með sambandslögum. Svo fremi sem settar hafa verið reglur fyrir 1. október 1969 um þessar byrðar af völdum stríðsins skulu sambandsríkið og sambandslöndin bera kostnaðinn í því hlutfalli sem þessi sambandslög mæla fyrir. Svo fremi sem kostnaðurinn við byrðar af völdum stríðsins, sem reglur hafa hvorki verið settar um í sambandslögum né verða settar síðar, hafi fyrir 1. október 1965 verið greiddur af sambandslöndum, sveitarfélögum (samtökum sveitarfélaga) eða öðrum aðilum sem sjá um framkvæmd á verkefnum sambandslanda eða sveitarfélaga, skal sambandsríkið ekki heldur skuldbundið til að taka að sér slíkan kostnað eftir þennan tíma. Sambandsríkið leggur fram fé til almannatrygginga að meðtöldum atvinnuleysistryggingum og atvinnuleysisbótum. Skipting byrða af völdum stríðsins milli sambandsríkisins og sambandslandanna samkvæmt þessari grein hefur engin áhrif á ákvæði í lögum um skaðabótakröfur vegna afleiðinga stríðsins.

(2) Frá þeim tíma sem sambandsríkið tekur að sér útgjöldin skulu tekjurnar einnig ganga til þess.
Gr. 120 a(1) Í lögum, sem sett eru til að framkvæma greiðslur úr jöfnunarsjóði má að fengnu samþykki sambandsráðsins kveða á um að á því landsvæði, þar sem jöfnunargreiðslur eiga sér stað, skuli framkvæmd þeirra að hluta til vera á höndum sambandsríkisins og að hluta til á höndum sambandslandanna í umboði sambandsríkisins og að þau völd, sem skv. 85. gr eru áskilin ríkisstjórn sambandsríkisins og öðrum þar til bærum æðstu stjórnvöldum sambandsríkisins, skuli að öllu leyti eða að hluta framseld Jöfnunarstofnun sambandsríkisins. Jöfnunarstofnun sambandsríkisins þarf ekki samþykkis sambandsráðsins til að beita þessum völdum; fyrirmælum hennar skal beint til æðstu stjórnvalda sambandslandanna (Jöfnunarstofnanir sambandslandanna), nema í áríðandi tilvikum.(2) Ákvæði þessar greinar hafa ekki áhrif á 2. málsl. 3. mgr. 87. gr.

121. gr.

Samkvæmt skilningi þessara Grundvallarlaga skal meirihluti þingmanna sambandsþingsins og sambandsfunds Sambandslýðveldisins vera meirihluti þess fjölda þeirra sem kveðið er á um í lögum.

122. gr.

(1) Frá því að sambandsþingið kemur saman skulu lög eingöngu samþykkt af þeim löggjafarstjórnvöldum sem þessi Grundvallarlög viðurkenna.

(2) Löggjafarstofnanir og stofnanir, sem gegna ráðgjafarhlutverki við löggjöf, og missa lögbærni samkvæmt 1. mgr., skulu lagðar niður frá sama tíma.

123. gr.

(1) Lög frá þeim tíma áður en sambandsþingið kemur saman skulu gilda áfram, svo fremi sem þau stangast ekki á við þessi Grundvallarlög.

(2) Þeir þjóðréttarsamningar, sem Þýska ríkið gerði varðandi mál, sem samkvæmt þessum Grundvallarlögum falla undir lagasetningu sambandslandanna, skulu gilda áfram ef þeir eru og verða gildir samkvæmt meginreglum laga, með þeim takmörkunum sem leiðir af réttindum og andmælum þeirra sem hlut eiga að máli, þangað til þau stjórnvöld, sem samkvæmt grundvallarlögum þessum eru þar til bær, gera nýja þjóðréttarsamninga eða þar til þeim lýkur á annan hátt á grundvelli ákvæða sem í þeim eru.

124. gr.

Lög, er varða mál sem sambandsríkið hefur eitt rétt á lagasetningu um, verða sambandsréttur á því svæði sem þau gilda fyrir.

125. gr.

Lög, er varða mál sem sambandsríkið hefur forgangsrétt á lagasetningu um, verða sambandsréttur á því svæði sem þau gilda fyrir,

1. svo fremi sem þau gilda með sama hætti á fleiri en einu hernámssvæði,

2. svo fremi sem um lög er að ræða sem breyttu eldri ríkisrétti eftir 8. maí 1945.
Gr. 125 a(1) Lög, sem gefin voru út sem sambandslög, en sem ekki væri lengur hægt að gefa út sem sambandslög vegna breytinga sem gerðar hafa verið á 1. mgr. 74. gr. eða 1. mgr. 75. gr., gilda áfram sem sambandslög. Lög sambandslands geta komið í staðinn fyrir þau.(2) Lög, sem gefin voru út á grundvelli 2. mgr. 72. gr. eins og hún hljóðaði til 15. nóvember 1994, gilda áfram sem sambandslög. Með sambandslögum má ákveða að lög sambandslands geti komið í staðinn fyrir þau. Það sama gildir um sambandslög sem gefin voru út fyrir þennan tíma og sem ekki væri lengur hægt að gefa út samkvæmt 2. mgr. 75. gr.Gr. 125 b(1) Lög, sem gefin voru út sem sambandslög, en sem ekki væri lengur hægt að gefa út sem sambandslög vegna breytinga sem eftir á hafa verið gerðar á 1. mgr. 75. gr., gilda áfram sem sambandslög. Lög sambandslands geta komið í staðinn fyrir þau.(2) Með sambandslögum má ákveða að í staðinn fyrir sambandslög, sem ekki væri lengur hægt að gefa út sem sambandslög eftir að 2. mgr. 75. gr. hefur verið bætt inn, sé heimilt að setja lög sambandslands.

126. gr.

Stjórnlagadómstóll sambandsríkisins úrskurðar um ágreining varðandi áframhaldandi gildi laga sem sambandsréttar.

127. gr.

Ríkisstjórn Sambandslýðveldisins getur, að fengnu samþykki stjórna hlutaðeigandi sambandslanda, látið stjórnsýslurétt fyrir sameinaða efnahagssvæðið taka gildi innan eins árs frá birtingu þessara Grundvallarlaga í sambandslöndunum Baden, Stór-Berlín, Rheinland-Pfalz og Württemberg-Hohenzollern, svo fremi sem hann gildir áfram sem sambandsréttur samkvæmt 124. eða 125. gr.

128. gr.

Svo fremi sem í lögum, sem halda gildi sínu áfram, er gert ráð fyrir heimild til að gefa fyrirmæli samkvæmt skilningi 5. mgr. 84. gr., verður hún í gildi þar til lagaákvæði eru sett um annað.

129. gr.

(1) Svo fremi sem í lagafyrirmælum, sem gilda áfram sem sambandsréttur, er heimild til að gefa út reglugerðir eða almennar stjórnsýslureglur eða til að framkvæma stjórnsýsluaðgerðir, flyst heimildin til þeirra stjórnvalda sem héðan í frá hafa með málið að gera. Sé um vafa að ræða skal ríkisstjórn Sambandslýðveldisins skera úr í samráði við sambandsráðið; birta skal úrskurðinn. (2) Svo fremi sem slíka heimild er að finna í lagafyrirmælum, sem gilda áfram sem landsréttur, skal henni beitt af þeim stjórnvöldum sem samkvæmt landsrétti fara með málið.

(3) Svo fremi sem lagafyrirmæli samkvæmt skilningi 1. og 2. mgr. heimila að þeim sé breytt eða að við þau sé aukið eða að gefin séu út lagafyrirmæli í stað laga, falla þær heimildir úr gildi.

(4) Fyrirmæli þau sem tilgreind eru í 1. og 2. mgr. gilda að breyttu breytanda, svo fremi sem ekki er í lagafyrirmælum vísað til ákvæða sem ekki eru lengur í gildi eða til stofnana sem ekki eru lengur til.

130. gr.

(1) Stjórnsýslustofnanir og aðrar stofnanir í þjónustu opinberrar stjórnsýslu eða dómgæslu, sem ekki hvíla á landsrétti eða á samningum milli sambandslanda, svo og rekstrarsamband um járnbrautir í Suðvestur-Þýskalandi og stjórn póst- og fjarskiptamála fyrir franska hernámssvæðið, skulu heyra undir valdssvið ríkisstjórnar sambandríkisins. Séu þær fluttar til, starfsemi þeirra hætt eða þær lagðar niður skal ríkisstjórnin, að fengnu samþykki sambandsráðsins, stjórna því.

(2) Æðsti yfirmaður starfsmanna þessara stjórnvalda og stofnana er sá ráðherra sambandsstjórnarinnar sem málið heyrir undir.

(3) Þau stjórnvöld og stofnanir opinbers réttar, sem ekki heyra beint undir sambandslöndin og ekki eru byggðar á samningum milli sambandslanda, skulu vera undir umsjón þeirra æðstu stjórnvalda sambandsríkisins sem málið heyrir undir.

131. gr.

Með sambandslögum skal ákveða um réttarstöðu þeirra sem voru í opinberri þjónustu þann 8. maí 1945, að meðtöldum flóttamönnum og útlögum, og horfið hafa frá störfum af öðrum ástæðum en stafa af reglum um opinber störf eða ákvæðum samninga og sem ekki hafa enn verið settir í nein störf eða ekki í störf sem eru sambærileg við fyrri stöðu. Sama skal að breyttu breytanda gilda um þá sem þann 8. maí 1945 áttu lífeyrisrétt, að meðtöldum flóttamönnum og útlögum, og fá ekki lengur greiddan lífeyri eða ekki sambærilegan lífeyri við þann sem þeir fengu áður, af öðrum ástæðum en stafa af reglum um opinber störf eða ákvæðum samninga. Þangað til umrædd sambandslög taka gildi verða engar lögmætar kröfur gerðar, nema ákvæði landslaga mæli fyrir um annað.

132. gr.

(1) Embættismenn og dómara, sem njóta æviráðningar þegar þessi Grundvallarlög taka gildi, má innan sex mánaða eftir að sambandsþingið kemur fyrst saman setja á eftirlaun eða á biðlaun eða í lægra launað embætti, ef þá skortir hæfni eða fagkunnáttu sem þarf til embættis síns. Þetta ákvæði gildir, með samsvarandi hætti, einnig um starfsmenn sem ekki má segja upp starfi. Megi segja starfsmönnum upp starfi, er innan sama frests heimilt að ógilda uppsagnarfrest sem er lengri en kveðið er á um í samningum.

(2) Þetta ákvæði skal ekki eiga við um starfsmenn í opinberri þjónustu, sem reglur um "frelsun undan þjóðernissósíalisma og hernaðarstefnu" snerta ekki eða sem eru viðurkenndir sem fórnarlömb þjóðernissósíalisma, nema mikilvægar persónulegar ástæður séu fyrir hendi.

(3) Hlutaðeigandi skal unnt að leita til dómstóla samkvæmt 4. mgr. 19. gr.

(4) Um nánari útfærslu skal ákveðið með reglugerð sambandsstjórnarinnar, sem þarf samþykkis sambandsráðsins.

133. gr.

Ríkisstjórn Sambandslýðveldisins tekur á sig réttindi og skyldur sem varða stjórn sameinaða efnahagssvæðisins.

134. gr.

(1) Meginregla er að eignir Ríkisins verði eignir Sambandslýðveldisins.

(2) Svo fremi sem þær hafi upphaflega einkum verið ætlaðar til stjórnsýsluverkefna, sem samkvæmt Grundvallarlögum þessum eru ekki stjórnsýsluverkefni sambandsríkisins, skulu þær afhentar án endurgjalds þeim sem hér eftir fara með framkvæmd umræddra verkefna eða sambandslöndunum, svo fremi sem þær eru nú og verða til frambúðar notaðar til stjórnsýsluverkefna, sem sambandslöndunum er ætlað að sinna til frambúðar samkvæmt Grundvallarlögum þessum. Sambandsríkið getur einnig afhent sambandslöndunum aðrar eignir.

(3) Eignir, sem sambandslöndin og sveitarfélögin (samtök sveitarfélaga) afhentu ríkinu án endurgjalds skulu aftur verða eignir sambandslandanna og sveitarfélaganna (samtaka sveitarfélaga), svo fremi sambandsríkið þarfnast þeirra ekki til eigin stjórnsýsluverkefna.

(4) Um nánari útfærslu skal ákveða með sambandslögum sem þurfa samþykkis sambandsráðsins.

135. gr.

(1) Tilheyri landssvæði nú öðru sambandslandi en áður og breytingin hafi átt sér stað á tímabilinu frá 8. maí 1945 þar til Grundvallarlög þessi taka gildi, þá skulu eignir þess sambandslands, sem umrætt landsvæði tilheyrði, og á landssvæðinu eru, ganga til þess sambandslands sem landssvæðið tilheyrir nú.

(2) Eignir sambandslanda sem ekki eru lengur til og eignir annarra stjórnvalda og stofnana opinbers réttar sem ekki eru lengur til skulu ganga til þess sambandslands eða þeirra stjórnvalda eða stofnanna opinbers réttar sem héðan í frá sinna þessum verkefnum, svo fremi sem þær voru upphaflega einkum ætlaðar til stjórnsýsluverkefna eða séu nú og verði til frambúðar einkum notaðar í þágu stjórnsýsluverkefna.

(3) Landareignir sambandslanda sem ekki eru lengur til skulu ásamt fylgifé, svo fremi sem það fellur ekki undir eignir samkvæmt 1. mgr., ganga til þess sambandslands þar sem þær eru.

(4) Með sambandslögum má setja reglur sem víkja frá ákvæðum 1. til 3. mgr., ef yfirgnæfandi hagsmunir sambandsríkisins eða sérstakir hagsmunir landssvæðis krefjast þess.

(5) Að öðru leyti skal ákveða með sambandslögum, sem þurfa samþykkis sambandsráðsins, um eignatilfærsluna og uppgjör þar að lútandi, svo fremi sem ekki hafi verið gengið frá því með samkomulagi milli hlutaðeigandi sambandslanda eða stjórnvalda og stofnana opinbers réttar fyrir 1. janúar 1952.

(6) Hlutdeild hins fyrrverandi sambandslands Prússlands í fyrirtækjum háðum einkarétti skal ganga til sambandsríkisins. Um nánari útfærslu skal ákveða með sambandslögum sem einnig geta kveðið á um frávik frá þessu.

(7) Svo fremi umráðarétti yfir eignum, sem samkvæmt 1. til 3. mgr. myndu hafa gengið til sambandslands eða stjórnvalds eða stofnunar opinbers réttar, hafði við gildistöku þessara Grundvallarlaga þegar verið ráðstafað í hendur þeirra af þar til bærum yfirvöldum með landslögum, með heimild í landslögum eða á annan hátt, skal eignatilfærslan gilda eins og hún hafi farið fram áður en ráðstöfunin var gerð.
Gr. 135 a(1) Með lögum, sem sambandsríkið á að setja samkvæmt 4. mgr. 134. gr. og 5. mgr. 135. gr., má einnig ákveða að ekki skuli staðið við, eða að ekki skuli að fullu staðið við, eftirtaldar skuldbindingar:1. Skuldbindingar Ríkisins og skuldbindingar hins fyrrverandi sambandslands Prússlands ásamt skuldbindingum annarra stjórnvalda og stofnana opinbers réttar sem ekki eru lengur til.

2. Skuldbindingar sambandsríkisins eða annarra stjórnvalda og stofnana opinbers réttar, sem hafa að gera með tilfærslu eigna samkvæmt 89., 90., 134. og 135. gr., ásamt skuldbindingum þessara rétthafa sem byggjast á ráðstöfunum þeirra rétthafa sem tilgreindir eru í 1. mgr.

3. Skuldbindingar sambandslandanna og sveitarfélaga (samtaka sveitarfélaga), sem urðu til vegna ráðstafana sem þessir rétthafar hafa gert fyrir 1. ágúst 1945 til að framkvæma fyrirmæli hernámsveldanna eða til að afnema neyðarástand af völdum stríðsins innan marka þeirra stjórnsýsluverkefna sem heyrðu undir Ríkið eða sem þeim voru fengin af Ríkinu.

(2) 1. mgr. skal að breyttu breytanda eiga við um skuldbindingar Þýska alþýðulýðveldisins eða rétthafa þess ásamt skuldbindingum sambandsríkisins eða annarra stjórnvalda og stofnana opinbers réttar sem hafa með tilfærslu á eignum Þýska alþýðulýðveldisins yfir á sambandsríkið, sambandslöndin og sveitarfélögin að gera, og einnig skuldbindingar sem byggjast á ráðstöfunum Þýska alþýðulýðveldisins eða rétthafa þess.

136. gr.

(1) Sambandsráðið skal koma fyrst saman þann dag sem sambandsþingið kemur fyrst saman.

(2) Þangað til fyrsti forseti Sambandslýðveldisins hefur verið kjörinn skal forseti sambandsráðsins fara með völd hans. Hann hefur ekki rétt til að rjúfa sambandsþing.

137. gr.

(1) Með lögum má takmarka kjörgengi embættismanna, starfsmanna í opinberri þjónustu, hermanna sem hafa hermennsku að ævistarfi, tímabundinna sjálfboðaliða í hernum og dómara í sambandsríkinu, sambandslöndunum og sveitarfélögunum.

(2) Um fyrstu kosningar til sambandsþingsins, sambandsfunds Sambandslýðveldisins og forseta Sambandslýðveldisins gilda kosningalög þau sem þingráðið setur.

(3) Þangað til stjórnlagadómstóli Sambandslýðveldisins verður komið á fót skulu þau völd sem honum ber samkvæmt 2. mgr. 41. gr. vera á höndum hins þýska hæstaréttar fyrir sameinaða efnahagssvæðið, sem dæmir í samræmi við málsmeðferðarreglur sínar.

138. gr.

Til að gera breytingar á embætti lögbókanda, sem nú er í sambandslöndunum Baden, Bæjaralandi, Württemberg-Baden og Württemberg-Hohenzollern, þarf samþykkis ríkisstjórna þessara sambandslanda.

139. gr.

Ákvæði þessara Grundvallarlaga hafa ekki áhrif á lagafyrirmæli sem sett eru til "frelsunar þýsku þjóðarinnar undan þjóðernissósíalisma og hernaðarstefnu".

140. gr.

Ákvæði 136., 137., 138., 139., og 141. gr. þýsku stjórnarskrárinnar frá 11. ágúst 1919 skulu vera hluti þessara Grundvallarlaga.

141. gr.

1. málsl. 3. mgr. 7. gr. skal ekki eiga við í sambandslandi þar sem önnur landsréttarákvæði giltu þann 1. janúar 1949.

142. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 31. gr. skulu ákvæði í stjórnarskrám sambandslandanna einnig vera í gildi svo fremi sem þau tryggja grundvallarréttindi í samræmi við 1. til 18. gr. þessara Grundvallarlaga.
Gr. 142 a[numin úr gildi]143. gr.

(1) Réttur á því landsvæði sem tilgreint er í 3. gr. sameiningarsáttmálans má ekki víkja frá ákvæðum þessara Grundvallarlaga lengur en til 31. desember 1992, svo fremi og svo lengi sem fullkomin aðlögun að stjórnarskrárskipaninni verður ekki gerð vegna þeirra ólíku aðstæðna sem þar ríkja. Frávikin mega ekki stangast á við 2. mgr. 19. gr. og þau verða að samræmast þeim meginreglum sem tilgreind eru í 3. mgr. 79. gr.

(2) Frávik frá köflum II, VIII, VIIIa, IX, X og XI skulu leyfð ekki lengur en til 31. desember 1995.

(3) 41. gr. sameiningarsáttmálans og reglur sem settar eru til framkvæmdar hans skulu gilda án tillits til 1. og 2. mgr. að því marki sem þær gera ráð fyrir að ekki sé unnt að draga til baka íhlutun í eignir á því landsvæði sem nefnt er í 3. gr. umrædds sáttmála.
Gr. 143 a(1) Sambandsríkið skal hafa einkarétt til lagasetningar um öll málefni vegna breytinga á Sambandsjárnbrautunum, sem eru undir beinni stjórnsýslu sambandsríkisins, í viðskiptafyrirtæki. 5. mgr. í gr. 87e skal eiga við að breyttu breytanda. Embættismönnum Sambandsjárnbrautanna má með lögum skipa til þjónustu, og skuli þá réttarstaða þeirra vernduð og ábyrgð vera á höndum vinnuveitanda hjá Járnbrautum sambandsríkisins, sem starfa samkvæmt.(2) Sambandsríkið sér um framkvæmd laga samkvæmt 1. mgr.

(3) Sambandsríkið skal til 31. desember 1995 sinna verkefnum á sviði farþegaflutninga með járnbrautum á styttri leiðum sem hingað til voru í verkahring Sambandsjárnbrautanna. Þetta gildir einnig um sambærileg verkefni í stjórnsýslu járnbrautamála. Um nánari útfærslu skal ákveða með sambandslögum, sem þurfa samþykkis sambandsráðsins.
Gr. 143 b(1) Ríkisfyrirtækinu Þýska sambandspóstinum skal, eftir því sem kveðið er á um í sambandslögum, breyta í fyrirtæki sem lýtur reglum einkamálaréttar. Sambandsríkið hefur einkarétt til lagasetningar um öll málefni sem af þessu leiðir.(2) Sá einkaréttur sambandsríkisins, sem var við lýði fyrir breytinguna, má með sambandslögum veita tímabundið þeim fyrirtækjum sem verða til úr Þýska sambandspóstinum POSTDIENST [PÓSTÞJÓNUSTA] og Þýska sambandspóstinum TELEKOM [FJARSKIPTI]. Sambandsríkið má ekki láta af hendi meirihlutaeign sína í því fyrirtæki sem tekur við af Þýska sambandspóstinum POSTDIENST fyrr en í fyrsta lagi fimm árum eftir að lögin taka gildi. Þarf til þess sambandslög með samþykki sambandsráðsins.

(3) Þeir embættismenn sambandsríkisins sem starfa hjá Þýska sambandspóstinum skulu starfa áfram hjá einkafyrirtækjunum og skal réttarleg staða þeirra og ábyrgð atvinnurekanda tryggð. Fyrirtækin hafa réttarstöðu atvinnurekanda. Um nánari útfærslu skal ákveðið með sambandslögum.

144. gr.

(1) Þjóðþing tveggja þriðju þeirra þýsku sambandslanda, þar sem Grundvallarlög þessi eiga að gilda að svo stöddu, þurfa að samþykkja þau.

(2) Svo fremi sem beiting þessara Grundvallarlaga sé takmörkunum háð í einu þeirra sambandslanda eða hluta eins þeirra sambandslanda sem tilgreind eru í 23. gr., hefur það sambandsland eða viðkomandi hluti þess rétt til þess að senda fulltrúa sinn í sambandsþingið samkvæmt 38. gr. og að senda fulltrúa sinn í sambandsráðið samkvæmt 50. gr.

145. gr.

(1) Þingráðið staðfestir á opnum fundi, með þátttöku þingfulltrúa frá Stór-Berlín, að Grundvallarlög þessi hafi verið samþykkt, lýkur gerð þeirra og kunngjörir þau.

(2) Þessi Grundvallarlög taka gildi við lok þess dags sem þau eru kunngjörð.

(3) Birta skal þau í Lögbirtingarblaði Sambandslýðveldisins.

146. gr.
Þessi Grundvallarlög, sem gilda fyrir alla þýsku þjóðina eftir að eining og frelsi Þýskalands eru fullgerð, skulu falla úr gildi sama dag og stjórnarskrá, sem þýska þjóðin hefur samþykkt með frjálsri ákvörðun, tekur gildi. 
Úrdráttur úr Þýsku stjórnarskránni frá 11. ágúst 1919 (Stjórnarskrá Weimarlýðveldisins)
 

Trú og trúfélög


136. gr.

(1) Iðkun trúfrelsis má hvorki skilyrða né skerða borgaraleg og ríkisborgaraleg réttindi og skyldur.

(2) Borgaralegra og ríkisborgaralegra réttinda og aðgangs að opinberum embættum skulu menn njóta óháð trúarjátningu.

(3) Engum ber skylda til að láta trúarsannfæringu sína í ljós. Stjórnvöld skulu því aðeins hafa rétt til að spyrja um aðild að trúfélagi, að réttindi og skyldur séu undir henni komin eða að manntal sem fyrirskipað er með lögum krefjist þess.

(4) Engan má þvinga til kirkjulegrar athafnar eða hátíðarhalda eða til þátttöku í trúarathöfnum eða til að fara með eiðstaf á trúarlegu formi.

137. gr.

(1) Í landinu er engin ríkiskirkja.

(2) Frelsi manna til að sameinast í trúfélögum skal tryggt. Sameining trúfélaga innan landsvæðis Ríkisins skal engum takmörkunum háð.

(3) Hvert trúfélag skal sjálft skipa málum sínum og stjórna þeim innan takmarkana laga sem gilda fyrir alla. Það skipar í embætti sín án þátttöku ríkis eða sveitarfélags.

(4) Trúfélög njóta rétthæfis samkvæmt almennum reglum einkamálaréttar.

(5) Trúfélögin skulu áfram vera stofnanir samkvæmt opinberum rétti svo fremi sem þau hafa verið það til þessa. Öðrum trúfélögum skal, leggi þau fram beiðni þess efnis, tryggja sömu réttindi ef starfsskipulag þeirra og meðlimafjöldi tryggir varanleika þeirra. Sameinist nokkur slík trúfélög sem lúta reglum opinbers réttar í ein samtök, skulu þau samtök einnig vera stofnun opinbers réttar.

(6) Þau trúfélög, sem eru stofnanir opinbers réttar, hafa rétt til þess að leggja á skatta samkvæmt ákvæðum í landslögum á grundvelli borgaralegra skattskráa.

(7) Félög sem helga sig starfi í þágu lífsskoðunar skulu hafa sömu stöðu og trúfélög.

(8) Svo fremi sem þörf er á frekari reglum til framkvæmdar á þessum ákvæðum skulu þær settar í lögum sambandslands.

138. gr.

(1) Með löggjöf sambandslandanna skal leysa af hólmi ríkisframlög til trúfélaga sem byggjast á lögum, samningi eða sérstökum réttarheimildum. Meginreglur um þetta skal ríkið setja.

(2) Tryggja skal eignarrétt og önnur réttindi trúfélaga og trúarlegra samtaka hvað varðar stofnanir, sjóði og aðrar eignir sem ætlaðar eru til trúarathafna, kennslu og líknarmála.

139. gr.

Sunnudagar og hátíðisdagar sem njóta viðurkenningar ríkisins skulu njóta lagaverndar sem dagar til hvíldar frá vinnu og andlegrar uppbyggingar.

141. gr.

Svo fremi sem þörf er fyrir guðsþjónustur og sálusorgun í hernum, í sjúkrahúsum, fangelsum eða öðrum opinberum stofnunum er trúfélögum heimilt að framkvæma trúarathafnir, en þó án allrar þvingunar.
 

Þór Saari á Alþingi um Stjórnlagaþing, og fjárframlaga-áhrif á frambjóðendur.

 Mjög athyggliverð ræða hjá Þór Saari við Þingsetninngu í gær 2. sept, þarsem farið er yfir MJÖG stóra ágalla í Lögum til Stjórnlagaþings, og áhrif Nafnlausra Fjárframlaga eru gagnrýnd.

 Fjárframlög hagsmunaaðila,fyrirtækja, einstaklinga hafa nefnilega ALLTAF áhrif, og skiftir þar engu hvort um er að ræða Stjórnmálamann eða Frambjóðenda til Stjórnlagaþings ! Og því er mjög ámælisvert, að litlar og veikar reglur gilda um styrki til aðila er bjóða sig fram til Stjórnlagaþings (þar gilda sömu reglur og um framlög til Þingmanna), allt gagnsæi vantar og engin mun vita hver styrkir hvern daginn sem ÞÚ kýst þér Fulltrúa á Stjórnlagaþingið ! heldur Á að birta uppl um framlög löngu síðar !

 úr ræðu Þórs Saari um Stjórnlagaþing: 

 "Vissulega er vonarglæta fólgin í lögum um stjórnlagaþing og því ferli sem drög að nýrri stjórnarskrá þurfa að fara í gegnum. Það er mikil von bundin við stjórnlaganefndina, við þjóðfundinn og við stjórnlagaþingið sjálft þótt vissulega hafi blossað upp gagnrýnisraddir á þá þætti sem Hreyfingin benti á strax í upphafi að mættu fara betur. Sérstaklega er varhugaverð sú staða sem getur komið upp ef niðurstaða stjórnlagaþingsins er ekki borin undir álit þjóðarinnar áður en Alþingi fær niðurstöðuna til meðferðar. Ég hef nefnilega heyrt það á sumum þingmönnum að þeir geta varla beðið með að fá að krukka í niðurstöðu stjórnlagaþingsins, og við vitum hvað það þýðir. Því er það einboðið og algerlega nauðsynlegt að útkoma stjórnlagaþingsins fari í dóm þjóðarinnar fyrst. Fari í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu grein fyrir grein eða samhangandi greinar, svo Alþingi sé ljós vilji þjóðarinnar áður en þingmenn og þau hagsmunaöfl sem stjórna sumum þeirra ná að læsa í hana tönnunum.  Að öðrum kosti mun það samráð og sú samræða sem þarf að eiga sér stað milli þings og þjóðar ekki vera nema hjóm eitt."

 Þór Saari um Fjárhagstengsl frambjóðenda (og að sjálfsögðu líka um frambjóðendur til Stjórnlagaþings, sömu reglur gilda):

 "Alvarlegast hér er þó frumvarp fjórflokksins um fjármál stjórnmálaflokka sem er ný afgreitt úr Allsherjarnefnd. Í því frumvarpi er ennþá gert ráð fyrir nafnlausum framlögum til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka sem og fjárframlögum frá fyrirtækjum.

 Skýrsla rannsókanarnefndar Alþingis sem virðulegur forseti lofaði svo mjög, segir orðrétt um samspil peninga og stjórnmála, með leyfi forseta: "Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna." "Leita þarf leiða til að draga skýrari mörk milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunisins."

 Þrátt fyrir þessa ákveðnu niðurstöðu í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar og þrátt fyrir áköf andmæli fulltrúa Hreyfingarinnar í Allsherjarnefnd fékk þetta mikilvæga mál enga efnislega umfjöllun í nefndinni og því var hafnað að fá að fá gesti á fund nefndarinnar. Því var líka hafnað að bíða niðurstöðu þingmannanefndarinnar um málið. Fjórflokkurinn, gæslufélag sinna eigin pólitísku hagsmuna hefur einfaldlega hafnað því að skýrsla Rannsóknarnefndarinnar hafi eitthvað vægi þegar kemur að peningum til þeirra eigin flokka. Peningaþörf flokkana og þar með þingmanna flokkana, skiptir meira máli en gagnsæi og lýðræði. Menn gera hvað sem er til að geta verið áfram í pólitík og ef flokkurinn skuldar, eins og til dæmis Framsókanarflokkurinn vel á annað hundrað milljónir, þá er það það eitt sem skiptir máli.

 Ef þetta frumvarp verður afgreitt óbreytt sem lög þá mun áfram vera til staðar sama umhverfi og sama samspil peninga, viðskiptalífs, leyndar og stjórnmála og var fyrir Hrunið og sem var sú eitraða blanda spillingar  sem átti svo stóran þátt í því, og þá má Alþingi hafa skömm fyrir. Í kjölfarið munu svo þeir þingmenn sem hrökkluðust út af þingi vegna vafasamra fjármálatengsla, þau Illugi Gunnarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skríða aftur hér inn á þing eins og ekkert hafi í skorist og bræðralag fjórflokksins mun taka á móti þeim. Aðrir lagsbræður þeirra, þeir algerlega forhertu sem engu skeyta munu einnig sitja hér glaðhlakkalegir áfram. Það má þó háttvirtur fyrrverandi þingmaður Steinunn Valdís Óskarsdóttir eiga að hún hafði bæði siðvit til að hverfa af þingi og kjark til að loka á eftir sér. Hafi hún þökk fyrir það."


Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna

 Sérhver manneskja er borin frjáls og jöfn öðrum að virðingu og réttindum.

 Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna kveður á um mannréttindi sem allir eiga jafnt tilkall til án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna. Þetta eru þín mannréttindi! Kynntu þér þau. Leggðu þitt af mörkum til að efla virðingu fyrir mannréttindum - þínum eigin og annarra.

 

1. grein

Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum. Allir eru gæddir skynsemi og samvisku, og ber að breyta bróðurlega hverjum við annan.

 

2. grein

Allir eiga kröfu á réttindum þeim og því frelsi, sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna. Eigi má heldur gera greinarmun á mönnum fyrir sakir stjórnskipulags lands þeirra eða landsvæðis, þjóðréttarstöðu þess eða lögsögu yfir því, hvort sem landið er sjálfstætt ríki, umráðasvæði, sjálfstjórnarlaust eða á annan hátt háð takmörkunum á fullveldi sínu.

 

3. grein

Allir eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi.

 

4. grein

Engum skal haldið í þrældómi eða þrælkun. Hvers konar þrældómur og þrælaverslun skulu bönnuð.

 

5. grein

Enginn skal sæta pyndingum, grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

 

6. grein

Allir eiga rétt á viðurkenningu að lögum, hvar í heimi sem er.

 

7. grein

Allir skulu jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á jafnri vernd þeirra, án nokkurrar mismununar. Ber öllum jafn réttur til verndar gegn hvers konar mismunun, sem í bága brýtur við yfirlýsingu þessa, svo og gagnvart hvers konar áeggjan til slíkrar mismununar.

 

8. grein

Hver sá sem sætir meðferð sem brýtur í bága við grundvallarréttindi þau, sem tryggð eru í stjórnarskrá eða lögum, skal eiga rétt á raunhæfu úrræði fyrir lögbærum dómstólum landsins.

 

9. grein

Enginn skal að geðþótta handtekinn, sviptur frelsi eða gerður útlægur.

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna í heild sinni.


Lög um stjórnlagaþing. - Lög nr. 90 25. júní 2010.

Þingskjal 1397, 138. löggjafarþing 152. mál: stjórnlagaþing (heildarlög).
Lög nr. 90 25. júní 2010.


Lög um stjórnlagaþing.


I. KAFLIHlutverk og skipan.1. gr.Hlutverk.     Forseti Alþingis skal í samráði við stjórnlaganefnd boða til ráðgefandi stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33 17. júní 1944.

2. gr.Skipan og starfstími.     Stjórnlagaþing skal skipað minnst 25 og mest 31 þjóðkjörnum fulltrúa. Þeir skulu kosnir persónukosningu.
     Þingið skal koma saman eigi síðar en 15. febrúar 2011 og ljúka störfum 15. apríl 2011 en getur ákveðið sjálft að ljúka störfum fyrr.
     Stjórnlagaþingi er heimilt að óska eftir því við Alþingi að starfstími þingsins verði framlengdur með þingsályktun um allt að tvo mánuði.

3. gr.Viðfangsefni.     Stjórnlagaþing skal sérstaklega taka til umfjöllunar eftirfarandi þætti:

1.
Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar.
2.
Skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra.
3.
Hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins.
4.
Sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds.
5.
Ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan.
6.
Lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga.
7.
Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála.
8.
Umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda.
     Stjórnlagaþing getur ákveðið að taka til umfjöllunar fleiri þætti en getið er í 1. mgr.

II. KAFLIKosning til stjórnlagaþings.4. gr.Kjördagur.     Forseti Alþingis ákveður kjördag í samráði við stjórnlaganefnd og dómsmála- og mannréttindaráðherra. Kosning til stjórnlagaþings skal fara fram eigi síðar en 30. nóvember 2010. Skal kosningin vera leynileg.

5. gr.Kosningarréttur og kjörskrár.     Kosningarrétt til stjórnlagaþings eiga þeir sem uppfylla skilyrði 1. gr. laga um kosningar til Alþingis. Þegar boðað hefur verið til kosninga til stjórnlagaþings skal Þjóðskrá Íslands semja kjörskrá og setja á rafrænt form til að nota við atkvæðagreiðsluna.
     Á kjörskrá skal taka þá sem uppfylla skilyrði 1. mgr. 1. gr. laga um kosningar til Alþingis og skráðir voru með lögheimili í tilteknu sveitarfélagi samkvæmt íbúaskrá Þjóðskrár Íslands þremur vikum fyrir kjördag. Enn fremur skal taka á kjörskrá þá sem uppfylla skilyrði 2. mgr. 1. gr. þeirra laga og síðast áttu skráð lögheimili hér á landi í tilteknu sveitarfélagi.
     Sautján dögum fyrir kjördag skal Þjóðskrá Íslands birta hina rafrænu kjörskrá almenningi til sýnis á heimasíðum dómsmálaráðuneytisins og Þjóðskrár Íslands. Þjóðskrá Íslands skal þegar taka til meðferðar athugasemdir er henni berast við kjörskrá og gera viðeigandi leiðréttingar á henni ef við á. Slíka leiðréttingu má gera fram að kjördegi. Ákvörðun Þjóðskrár Íslands er endanleg.
     Þremur vikum fyrir kjördag skal dómsmálaráðuneytið birta auglýsingu í Ríkisútvarpi og dagblöðum þar sem vakin er athygli almennings á því hvar nálgast megi hina rafrænu kjörskrá og hvernig megi gera athugasemdir við hana.

6. gr.Kjörgengi.     Kjörgengir til stjórnlagaþings eru þeir sem eru kjörgengir við kosningar til Alþingis. Forseti Íslands, alþingismenn, varamenn þeirra, ráðherrar og nefndarmenn í stjórnlaganefnd og undirbúningsnefnd eru þó ekki kjörgengir.

7. gr.Auglýsing um kosninguna.     Landskjörstjórn skal auglýsa kosningu til stjórnlagaþings í Ríkisútvarpi, dagblöðum og Lögbirtingablaði eigi síðar en átta vikum fyrir kjördag.

8. gr.Framboð.     Framboðum til kosningar til stjórnlagaþings skal skila í hendur landskjörstjórnar ekki síðar en kl. 12 á hádegi fjörutíu dögum fyrir kjördag.
     Með framboði skal fylgja samþykki frambjóðanda og nöfn minnst 30 og mest 50 meðmælenda sem skulu fullnægja skilyrðum kosningarréttar til Alþingis. Þá skal vera meðfylgjandi skrifleg yfirlýsing frá hverjum meðmælanda sem staðfest hefur verið af tveimur vottum. Landskjörstjórn í samráði við dómsmálaráðuneytið útbýr sérstakt eyðublað í þessu skyni sem skal skilað á því formi sem landskjörstjórn fer fram á.
     Hverjum kosningarbærum manni er einungis heimilt að mæla með einum frambjóðanda.
     Landskjörstjórn skal innan þriggja daga frá því að framboðsfrestur rennur út tilkynna frambjóðanda hvort ágallar séu á framboðinu eða lista yfir meðmælendur. Skal frambjóðanda veittur tveggja daga frestur til að bæta úr ágöllum.
     Náist ekki tilskilinn lágmarksfjöldi frambjóðenda, sbr. 1. mgr. 2. gr., þegar framboðsfrestur rennur út skal landskjörstjórn framlengja frestinn um tvær vikur. Nái fjöldi frambjóðenda þá ekki tilskildu lágmarki koma lögin ekki til framkvæmda.
     Landskjörstjórn auglýsir á vefsíðu sinni og vefsíðu á vegum dómsmálaráðuneytisins 24 dögum fyrir kjördag nöfn frambjóðenda, starfsheiti þeirra og sveitarfélög þar sem þeir eru búsettir.
     Ákvæði laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og upplýsingaskyldu þeirra gilda um framlög eða styrki til frambjóðenda eftir því sem við á.
     Kostnaður hvers frambjóðanda vegna kosningabaráttu má að hámarki nema 2 millj. kr.

9. gr.Kynning á frambjóðendum og kosningu.     Dómsmálaráðuneytið skal útbúa kynningarefni um frambjóðendur. Skal kynningarefni dreift á öll heimili hér á landi. Einnig skal kynningarefni birt á vefsíðu á vegum ráðuneytisins.
     Dreifa skal til allra kjósenda í landinu afriti af kjörseðli, auðkenndum sem kynningarseðill, ásamt skýringum á því hvernig atkvæðagreiðslan fer fram. Kynningarseðillinn skal jafnframt birtur á vefsíðu á vegum ráðuneytisins ásamt skýringum. Kynningarseðilinn má kjósandi hafa með sér í kjörklefa.

10. gr.Gerð og prentun kjörseðla.     Dómsmálaráðuneytið sér um gerð og prentun kjörseðla og sendir þá ásamt öðrum kjörgögnum til þeirra sem annast framkvæmd atkvæðagreiðslunnar á kjörfundi og utan kjörfundar. Haga skal sendingunum í samræmi við lög um kosningar til Alþingis.
     Á kjörseðla skal prenta skýru letri nafn, stöðu og sveitarfélag frambjóðenda til stjórnlagaþings í stafrófsröð en fyrsta nafn á kjörseðli skal valið af handahófi. Skal ferningur vera fyrir framan nafn hvers frambjóðanda. Efst á kjörseðli skulu koma fram leiðbeiningar um hvernig atkvæðagreiðsla fer fram, sbr. reglur 11. gr. laga þessara.

11. gr.Atkvæðagreiðsla á kjörfundi.     Kjósandi getur greitt atkvæði á kjörfundi hvar sem er á landinu enda verði sýnilegt í rafrænu kjörskránni á öllum kjörstöðum að hann hafi neytt atkvæðisréttar síns. Um kjördeildir, kjörstaði og framkvæmd atkvæðagreiðslunnar fer að öðru leyti samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á. Sveitarstjórnir leggja til tölvubúnað í hverri kjördeild til að tryggja aðgang að rafrænu kjörskránni.
     Kjósandi sem greiðir atkvæði á kjörfundi setur tölustafinn 1 í ferning fyrir framan nafn þess frambjóðanda sem hann vill helst að nái kjöri, töluna 2 í ferninginn fyrir framan nafn þess frambjóðanda sem hann vill að komi næstur til álita, töluna 3 í ferninginn fyrir framan nafn þess frambjóðanda sem hann vill að komi næstur til álita o.s.frv.
     Setji kjósandi önnur merki við nöfn frambjóðenda en 2. mgr. kveður á um, t.d. strikar yfir eitt eða fleiri nöfn, er atkvæðið gilt, enda séu ekki aðrir annmarkar á því, en horft skal fram hjá slíkum merkingum við talningu atkvæða, sbr. 14. gr.
     Að atkvæðagreiðslu lokinni gengur undirkjörstjórn frá kjörgögnum í samræmi við 95. gr. laga um kosningar til Alþingis og sendir landskjörstjórn á öruggan hátt. Landskjörstjórn eða aðili sem hún tilnefnir gefur viðurkenningu fyrir móttöku þegar gögnin berast.

12. gr.Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar.     Kosningu utan kjörfundar skal hefja sautján dögum fyrir kjördag. Þar sem atkvæðagreiðsla fer fram skal kjörstjóri hafa aðgang að sérstakri skrá, utankjörfundarskrá, sem skal vera á rafrænu formi og sækir gögn í rafrænu kjörskrána. Í rafrænu kjörskránni verður sýnilegt að greitt hafi verið atkvæði utan kjörfundar, hvar það var gert og hvenær. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram hjá sömu kjörstjórum og við alþingiskosningar. Henni skal lokið í síðasta lagi kl. 12 daginn fyrir kjördag. Kjósanda, sem greitt hefur atkvæði utan kjörfundar, er óheimilt að greiða atkvæði á kjörfundi.
     Eftir að kjósandi hefur gert grein fyrir sér á viðhlítandi hátt fyrir kjörstjóra fær hann afhent kjörgögn sem eru kjörseðill skv. 10. gr., kjörseðilsumslag og sendiumslag. Því næst greiðir hann atkvæði í einrúmi eins og lýst er í 2. mgr. 11. gr., leggur kjörseðilinn í kjörseðilsumslagið og lokar því. Því næst skal kjörseðilsumslagið sett í sendiumslagið og því lokað. Kjörstjóri skal gæta þess að nafn og kennitala kjósandans sé skráð á sendiumslagið og að það sé áritað til landskjörstjórnar. Merking í utankjörfundarskrá kemur í stað fylgibréfs, vottunar og skrár skv. 63. og 66. gr. laga um kosningar til Alþingis en um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar fer að öðru leyti eftir þeim lögum nema annað leiði af lögum þessum. Hafi kjörstjóri ekki aðgang að utankjörfundarskrá fer um framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar eftir lögum um kosningar til Alþingis.

13. gr.Talning atkvæða.     Landskjörstjórn eða aðili sem hún tilnefnir gengur úr skugga um að kjósendur, sem greitt hafa atkvæði utan kjörfundar, standi á kjörskrá og að þeir eigi rétt á að greiða atkvæði og metur að öðru leyti hvort atkvæðið skuli tekið til greina, sbr. 91. gr. laga um kosningar til Alþingis. Þessa athugun má hefja á kjördegi. Atkvæði sem greidd hafa verið utan kjörfundar verða að hafa borist landskjörstjórn fyrir kl. 22 á kjördag.
     Talning atkvæða fer fram fyrir opnum dyrum hjá landskjörstjórn. Hún skal auglýsa með nægum fyrirvara hvenær hún komi saman til að opna atkvæðakassa og hefja talningu atkvæða. Landskjörstjórn getur kvatt yfirkjörstjórnir í kjördæmunum í Reykjavík sér til aðstoðar. Um meðferð atkvæða, gildi þeirra og framkvæmd talningar fer eftir lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á að teknu tilliti til 14. gr. Heimilt er að beita rafrænum aðferðum við talningu og útreikning á því hver hafi náð kjöri. Landskjörstjórn úrskurðar um gildi atkvæða sem eru haldin einhverjum annmörkum og skal afl atkvæða ráða úrslitum.

14. gr.Úrslit, útgáfa kjörbréfa og úrskurðir í ágreiningsmálum.     Úrslit kosninganna ráðast af eftirfarandi aðgerðum:
1.
Talnaröð rofin: Aðgætt skal hvort talnaröð kjósanda á frambjóðendum sé samfella tölustafanna 1, 2, 3 o.s.frv. Eftirfarandi gildir ef talnaröðin er rofin eða aðrir gallar reynast á henni:
a.
Horft skal fram hjá merkingu með krossi svo og merkingu með tölustöfum utan talnarununnar frá 1 til og með 25. Hafi þó einungis verið merkt við nafn eins frambjóðanda með krossi eða öðrum hætti í ferninginn fyrir framan nafn hans skal líta svo á að kjósandinn hafi raðað honum númer 1.
b.
Sé eyða í talnaröðun frambjóðenda skal líta svo á að röðin nái aðeins að eyðunni.
c.
Sé tölustafur tvítekinn er röðin aðeins gild fram að tvítekna tölustafnum.
d.
Ef engin talnaröðun verður lesin af kjörseðli vegna atvika sem greinir í a–c-lið, svo sem ef enginn frambjóðandi telst tölusettur að 1. vali, telst atkvæðið ekki lengur gilt.


Samþykkt á Alþingi 16. júní 2010.

 Löginn í held sinni á vef Alþingis

Ferli Lagasetningarinnar á Alþingi


Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands - 1944 nr. 33 17. júní

1944 nr. 33 17. júní

Tók gildi 17. júní 1944.

I.
1. gr. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.
2. gr. Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.

II.
3. gr. Forseti Íslands skal vera þjóðkjörinn.

Stjórnarskráin í heild einnig sem hlekkur á forsíðu


Velkomin/n á Stjornarskrain.blog

Daginn þessi síða er hugsuð til óhlutdrægrar upplýsingar fyrir Alla Landsmenn vegna þeirra breytinga er fyrirhugaðar eru á Stjórnarskrá Lýðveldisinns Íslands, tenglar, blogg, ritgerðir,skýslur, aðrar stjórnarskrár, Mannréttinda samþykktir, Lög og reglugerðir er varaða Stjórnarskrárgerð.

 Vonandi verður þetta eitthverjum að gagni í því mikla og mikilvæga verki sem gerð Nýrar krefst, einig vona ég að þetta verði eitthverjum hvatning til Framboðs til Stjórnlagaþings sem sannarlega ALLIR Landsmenn eiga erindi á, einnig vona ég að þessi síða aðstoði Alla borgara við val sitt á hverja skal kjósa á Stjórnlagaþing okkar á næsta ári, en hver kjósandi má kjósa allt að 25 Fulltrúa svo ærið er verkið bara að velja hverja skal kjósa fyrir sína hönd til setu á Stjórnlagaþinginu.

 Mun gera mitt besta til að hafa upplýsingar hér eins óhlutdrægnar og frekast er kostur, því nú er fyrir öllu að semeinast við gerð "bestu Stjórnarskrár í Heimi", og mikilvægt að Almenningur þekki sinn rétt, við aðkomu að vinnu við Nýja Stjórnarskrá, hver einasti Landsmaður er lætur sig nútíð og framtíð lands okkar varða á erindi í framboð til setu á Stjórnlagaþingi því er nú er fyrir höndum, og mikilvægt að þeir sem ekki verða kosninir séu virkir við að senda athuggasemdir og tillögur til starfandi Stórnlagaþing (ALLAR ábendingar og erindi verða skoðuð af Þinginu.

með Kveðju ábyrgðarmaður blogsins

Grétar Eiríksson


« Fyrri síða

Höfundur

Grétar Eiríksson
Grétar Eiríksson
Hér er ætlunin að koma fram óhlutdrægnum upplýsingum fyrir Almenning, til fræðslu vegna Stjórnlagaþings okkar, birtingar á öðrum stjórnarskrám, ritgerðum, skýslum, Lögum og öðru efni er auðvelda Almenningi að velja Frambjóðendur eða ákveða framboðs til Stjórnlagaþings,  með upplýstum hætti án þess að Frambjóðendur verði hér kynntir, sem sagt fyrst og fremst að reyna að safna og miðla sem mestum upplýsingum varðandi ferli Stjórnarskrágerðar okkar, svo Almennur landsmaður geti verið sem allra upplýstastur um tilgang, markmið, mikilvægi Stjórnarskrár okkar og vonandi að auka Lýræðisvitund Landsmanna

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband