Hér á eftir fer stjórnarskrá Bandaríkjanna ásamt viðaukum I-XV eins og hún birtist í Hauksbók hinni yngri, borgaralegum fræðum fyrir Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum. Hauksbók var gefin út árið 1905 af Ólafi S. Thorgeirssyni í Winnepeg.
Þýðingin er endurskoðuð og stafsetningu hefur verið breytt á stöku stað. Viðaukar XVI til XXVII eru þýddir síðar.
Stjórnarskrá Bandaríkjanna
Vér Bandaríkjamenn setjum og samþykkjum þessi grundvallarlög fyrir Bandaríki Ameríku í þeim tilgangi að koma á fullkomnara sambandsríki, stuðla að réttlæti, tryggja landsfriðinn, sjá fyrir sameiginlegum landvörnum, efla almenna velferð og tryggja sjálfum okkur og niðjum okkar blessun frelsisins. I. grein
1. hluti. Allt löggjafarvald, sem hér er veitt, skal vera hjá sambandsþingi Bandaríkjanna; skulu deildir þess vera öldungadeild og fulltrúadeild.
2. hluti. Fulltrúadeildin skal skipuð mönnum, sem kosnir eru annaðhvort ár af íbúum ríkjanna og skulu kjósendur í hverju ríki fullnægja þeim skilyrðum sem sett eru fyrir kosningarétti til fjölmennustu deildar í þingi þess ríkis.
Enginn má fulltrúadeildarþingmaður vera nema hann hafi náð tuttugu og fimm ára aldri, hafi verið ríkisborgari Bandaríkjanna í sjö ár og eigi heimilisfang í því ríki, þar sem hann er kosinn, þegar kosning fer fram.
Fulltrúatölu og beinum sköttum skal jafna niður milli þeirra ríkja, [sem eru í bandalagi þessu, eftir íbúatölu hvers þeirra, sem ákveðin skal með því að bæta við fulla tölu frjálsra manna - að þeim meðtöldum sem gegna herþjónustu um ákveðinn árafjölda, en frátöldum indíánum er ekki greiða skatt - þremur fimmtu hlutum allra annarra manna.] Rétt íbúatala skal fundin innan þriggja ára eftir að hið fyrsta sambandsþing Bandaríkjanna kemur saman, og síðan á tíu ára fresti, á þann hátt er ákveðið skal með lögum. Fulltrúar skulu ekki vera fleiri en einn fyrir hver þrjátíu þúsund, en hvert ríki skal hafa að minnsta kosti einn fulltrúadeildarþingmann; og þangað til íbúatalan er fundin skal ríkinu New Hampshire heimilt að kjósa þrjá; Massachusettes átta; Rhode Island og Providence Plantations einn; Connecticut fimm; New York sex; New Jersey fjóra; Pennsylvanía átta, Delaware einn; Maryland sex; Virginia tíu; Norður-Karólína fimm; Suður-Karólína fimm og Georgia þrjá.
Þegar sæti fulltrúadeildarþingmanns einhvers ríkis verður autt skal framkvæmdarvald þess skipa fyrir um kjör nýs fulltrúa.
Fulltrúadeildin skal kjósa sér forseta og aðra embættismenn; hún skal ein hafa á hendi kæruvald til embættismissis.
3. hluti. Öldungadeild Bandaríkjanna skal skipuð tveimur þingmönnum frá ríki hverju, [kjörnum af löggjafarþingi þess] til sex ára; skal hver þingmaður hafa eitt atkvæði.
Jafnskjótt og þeir koma saman eftir fyrstu kosningu skal þeim skipt í þrjá flokka, eins jafna og unnt er. Þingmenn þeir er fyrsta flokk skipa skulu víkja úr sæti að tveim árum liðnum, þeir er annan flokk skipa að fjórum árum liðnum og þeir er þriðja flokk skipa að sex árum liðnum, svo að kjósa megi einn þriðjung þeirra á tveggja ára bili; [og ef sæti losnar fyrir afsögn eða á annan hátt á þeim tíma, er löggjafarþing viðkomandi ríkis er ekki að störfum, má framkvæmdarvald þess tilnefna mann í þingsætið til bráðabirgða, þangað til þing kemur saman næst, sem þá skal kjósa mann í sætið.]
Enginn má öldungardeildarþingmaður vera nema hann hafi náð þrítugsaldri og hafi verið ríkisborgari Bandaríkjanna í níu ár, og eigi heimilisfang í því ríki þar sem hann er kosinn þegar kosning fer fram.
Varaforseti Bandaríkjanna skal vera forseti öldungadeildarinnar, en skal ekki hafa atkvæðisrétt, nema því aðeins, að atkvæði falli jafnt.
Öldungadeildin kýs sér aðra embættismenn og einnig forseta til bráðabirgða, sem gegnir embætti í fjarveru varaforseta, eða þegar hann gegnir embætti forseta Bandaríkjanna.
Öldungadeildin hefur ein vald til að dæma í kærumálum til embættismissis. Þegar hún heldur fundi í þeim tilgangi, skal vinna eið eða drengskaparheit. Þegar kæra á hendur forseta Bandaríkjanna er til meðferðar, skal forseti hæstaréttar vera í forsæti; skal enginn sekur fundinn nema tveir þriðju viðstaddra þingmanna veiti því samþykki.
Með dómi í máli til embættismissis verður manni aðeins vikið úr embætti og hann sviptur hæfi til að gegna heiðursembætti, trúnaðarstöðu eða launuðu starfi fyrir Bandaríkin; en sá, sem sekur er fundinn, skal þó ekki undanþeginn málshöfðun, dómi og hegningu að lögum.
4. hluti. Kjörtími, kjörstaður og kosningafyrirkomulag við kjör til öldungadeildar og fulltrúadeildar skal ákveðið í ríki hverju af löggjafarþingi þess; en Sambandsþingið hefur ávallt vald til að semja eða breyta slíkum reglum með lögum, nema hvar kosið er til öldungardeildar.
Sambandsþingið skal saman koma að minnsta kosti eitt sinn ár hvert og skal fundur sá vera [fyrsta mánudaginn í desembermánuði], nema því aðeins að annar dagur sé ákveðinn með lögum.
5. hluti. Hvor þingdeild hefur úrskurðarvald um kosningar, kosninganiðurstöður og kjörgengi þeirra, er þar eiga sæti; meirihluti atkvæða ræður í hvorri þeirra; þó getur minni hluti frestað fundum dag frá degi og eins má veita honum heimild til að knýja þá sem fjarverandi eru, til að sækja fundi, á þann hátt og með þeim viðurlögum, sem hvor þingdeild ákveður.
Hvor þingdeild má ákveða sín eigin þingsköp, hegna þingmönnum fyrir ósæmilegt framferði, og gera þá brottræka, ef tveir þriðju hlutar samþykkja.
Hvor þingdeild skal halda gerðabók yfir það, sem fram fer, og birta hana á prenti með hæfilegu bili, að undanskildum þeim hlutum hennar, sem að mati deildar krefjast leyndar; þá skulu atkvæði þingmanna í báðum deildum í hvaða máli sem er, færast til bókar, ef fimmtungur þeirra, er viðstaddir eru, óska þess.
Meðan Sambandsþing stendur yfir skal hvorug þingdeildin án leyfis hinnar fresta fundi í meira en þrjá daga, né flytja fundi á annan stað en þann, er þingdeildirnar báðar eiga að koma saman á.
6. hluti. Þingmenn öldungadeildar og fulltrúadeildar skulu fá greiðslu fyrir störf sín, er ákveðin skal með lögum, og greidd úr fjárhirslu Bandaríkjanna. Skulu þeir í öllum málum hafa þau forréttindi að vera ekki handteknir nema fyrir landráð, glæpi og friðrof, meðan þeir sitja á fundum þingdeilda sinna eða eru á leið af fundi eða á; né þurfa að svara fyrir fyrir nokkra ræðu eða umræðu, í hvorri málstofunni sem er, á nokkrum öðrum stað.
Engan þingmann öldungadeildar eða fulltrúadeildar skal á kjörtímabili sínu útnefna til nokkurs borgaralegs embættis á vegum Bandaríkjanna, hafi embættið myndað verið eða tekjur þess auknar á því tímabili; þá skal í hvorugri þingdeildinni nokkur maður sæti eiga, meðan hann gegnir embætti á vegum Bandaríkjanna.
7. hluti. Öll frumvörp til laga, er ákveða opinberar tekjur ríkissjóðs, skulu fyrst borin upp í fulltrúadeildinni; en öldungadeildin má fram koma með tillögur um eða samþykkja viðauka við slík lög eins og önnur lög.
Sérhvert frumvarp til laga, sem samþykki hefur öðlast í fulltrúadeildinni og öldungadeildinni, skal leggjast fyrir forseta Bandaríkjanna áður en það verður lög; sé hann því samþykkur ritar hann nafn sitt undir það; sé hann það ekki skal hann endursenda það með andmælum sínum þeirri þingdeildinni þar sem það hefur fyrst verið upp borið; skal hún þá færa andmæli hans orðrétt til gerðabókar og taka málið fyrir aftur. Ef tveimur þriðju hlutum þingdeildar kemur saman um að samþykkja lögin eftir ítrekaða umfjöllun, skal hún senda þau ásamt andmælunum hinni þingdeildinni og skulu þau einnig þar aftur verða tekin til ítrekaðrar umfjöllunar; ef tveir þriðju hlutar þeirrar deildar samþykkja þau einnig skal frumvarpið verða að lögum. En í öllum slíkum málum ráðast úrslit í báðum þingdeildum af greiddum atkvæðum með og á móti og skulu nöfn þeirra er atkvæði greiða færð til bókar í hvorri þingdeild. Ef forseti endursendir ekki frumvarp innan tíu daga (að frátöldum sunnudögum) eftir að það hefur verið lagt fyrir hann verður það að lögum á sama hátt og ef hann hefði ritað nafn sitt undir það, nema sambandsþingið komí í veg fyrir endursending þess með þingfrestun; þá verður það ekki að lögum.
Sérhver fyrirskipun, þingsályktun eða atkvæðagreiðsla, er sameiginlegt samþykki öldungardeildarinnar og fulltrúadeildarinnar þarf til (að undanskilinni þingfrestun), skal lögð fyrir forseta Bandaríkjanna; og áður en slíkt geti öðlast gildi skal það fá samþykki hans eða ef hann neitar því samþykkis skal það verða samþykkt að nýju af tveim þriðju hlutum öldungadeildarinnar og fulltrúadeildarinnar samkvæmt reglum þeim og takmörkunum sem gilda um frumvörp.
8. hluti. Sambandsþingið hefur vald til að leggja á og innheimta skatta, tolla, álögur og gjöld, til að greiða skuldir, sjá fyrir sameiginlegri landvörn og velferð Bandaríkjanna; en allir tollar, álögur og gjöld skulu vera hin sömu hvarvetna í Bandaríkjunum:
-að fá að láni fé gegn ábyrgð Bandaríkjanna;
-að koma reglum yfir verslun við erlendar þjóðir, millli stakra ríkja og við þjóðflokka indíána;
-að koma á samræmdum lögum fyrir veitingu þegnréttinda og sameiginlegum gjaldþrotalögum um öll Bandaríkin;
-að slá peninga, ákveða gildi þeirra og erlendra peninga, og ákveða samræmingu þyngdar og máls;
-að skipa fyrir um hegningu fyrir fölsun verðbréfa og gjaldmiðils Bandaríkjanna;
-að koma á fót póstafgreiðslustöðum og skipuleggja póstsamgöngur;
-að efla framfarir vísinda og nytsamra lista með því að veita rithöfundum og hugvitsmönnum einkaréttindi fyrir ritverk sín og uppfinningar til ákveðins tíma;
-að stofna dómstóla sem eru lægra settir en hæstiréttur;
-að skilgreina og hegna fyrir sjórán og glæpi sem framdir eru á höfum úti og fyrir brot gegn þjóðarétti;
-að segja öðrum stríð á hendur, veita leyfisbréf til vígamennsku og semja reglur um hertöku á sjó og landi;
-að kalla saman og halda her, en engin fjárveiting í því augnamiði skal gilda lengur en til tveggja ára;
-að koma upp og halda sjóher við lýði;
-að setja reglur um stjórn og skipulag hersins bæði til lands og sjávar;
-að sjá til þess að hægt verði að kalla saman landvarnarlið til að halda uppi lögum ríkisins, brjóta á bak aftur uppreisnir og verjast árásum;
-að sjá um að skipuleggja, vopnbúa og þjálfa landvarnarliðið, og stýra þeim hluta þess sem kann að vera í þjónustu Bandaríkjanna; en eftirláta hverju ríki að tilnefna yfirmenn og sjá um æfingar landvarnarliðsins samkvæmt heragareglum þeim er sambandsþingið setur;
-að hafa alla löggjöf á hendi í alls konar málum út af landrými því (er ekki má stærri vera en tíu fermílur) þar sem verða kann aðsetur stjórnar Bandaríkjanna, fyrir afsal einstakra ríkja og viðtöku sambandsþingsins, og að hafa sams konar vald yfir öllum stöðum, sem keyptir kunna að verða með samþykki löggjafarþings þess ríkis, þar sem þeir eru, þar sem reisa megi virki, birgðageymslur, hergagnabúr, skipasmíðastöðvar og önnur nauðsynjahús; og
-að setja öll lög sem nauðsynleg eru og hæfileg til framkvæmdar öllu því valdi sem veitt hefur verið hér að framan og öllu öðru valdi sem stjórnarskrá þessi veitir stjórn Bandaríkjanna, einstökum stjórnardeildum hennar eða embættismönnum.
9. hluti. Innflutning eða aðflutning fólks, sem einhver hinna núverandi ríkja álíta rétt að heimila, skal sambandsþingið ekki banna fyrir árið eitt þúsund áttahundruð og átta; en skatt eða gjald má leggja á slíkan aðflutning, þó ekki hærri en tíu dali á hvern mann.
Réttindi handtekins manns til að verða leiddur tafarlaust fyrir dómara skulu ekki látin niður falla nema því aðeins að almannaöryggi krefjist þess á tímum uppreisnar eða innrásar.
Ekki má setja lög um refsingu án dóms né heldur lög með afturvirkum refsiáhrifum.
[Engan nefskatt eða annan beinan skatt skal á leggja nema í hlutfalli við manntal það eða áætlun um fólksfjölda sem hér er áður skipað fyrir um að gera skuli.]
Engan skatt eða toll skal leggja á nokkra vöru sem flutt er út úr nokkru ríki.
Engin sérréttindi skulu veitt verða, með reglum um verslun og skattgreiðslu, einstökum höfnum eins ríkis framar en höfnum annarra ríkja; ekki skulu heldur skip, sem eru á ferð frá einu ríki eða til þess, skyldug til að greiða þar gjöld eða tolla í öðru ríki.
Ekki skal fé úr fjárhirslu ríkisins taka nema samkvæmt fjárveitingum sem ákveðnar eru með lögum; skal yfirlit og reikningur yfir opinberar tekjur og gjöld birt með hæfilegu millibili.
Enga aðalstign skal nokkrum veitt af stjórn Bandaríkjanna; enginn sem gegnir launuðu embætti eða trúnaðarstarfi fyrir þau skal án samþykkis sambandsþingsins taka við gjöfum, hlunnindum, embætti eða nafnbótum, hverrar tegundar sem er, frá nokkrum konungi, fursta eða erlendu ríki.
10. hluti. Ekkert ríki má nokkurn milliríkjasamning gera, né ganga inn í nokkurt samband eða bandalag, veita leyfisbréf til vígamennsku, slá mynt, gefa út skuldabréf, gera nokkuð annað en gull eða silfurmynt að lögeyri til skuldagreiðslu, samþykkja lög um refsingu án dóms, afturvirk lög eða lög sem skerða skuldbindingargildi saminga eða veita nokkra aðalstign.
Ekkert ríki má án samþykkis sambandsþingsins leggja nokkrar álögur eða tolla á innfluttar eða útfluttar vörur, nema að svo miklu leyti sem nauðsyn þykir krefja svo tollgæslulögum þess verði framfylgt; og hreinar tekjur af tollum og álögum, sem nokkurt ríki leggur á innflutt eða útfluttar vörur, skal til afnota vera fyrir fjárhirslu Bandaríkjanna; skal sambandsþingið geta endurskoðað og haft eftirlit með allri slíkri löggjöf.
Ekkert ríki má án samþykkis sambandsþingsins leggja toll á rúmmál skipa, halda herlið eða herskip á friðartímum, gera saminga eða bandalag við nokkurt annað ríki eða við erlent stjórnarvald, eða taka þátt í hernaði, nema ráðist sé á það eða það sé í svo bráðri hættu að enga bið þoli.
II. grein
1. hluti. Framkvæmdarvaldið skal vera falið forseta Bandaríkja Ameríku. Hann skal gegna embættinu til fjögurra ára og ásamt varaforseta, sem kosinn er til jafnlangs tíma, skal hann kosinn á þann hátt sem hér segir.
Hvert ríki skal skipa kjörmenn með þeim hætti, er löggjafarþing þess ákveður, sem séu jafnmargir og þeir þingmenn öldungadeildar og fulltrúadeildar eru, sem sæti eiga á Sambandsþingi frá því ríki; en enginn þingmaður öldungadeildar né fulltrúadeildar, né menn, sem embætti hafa í trúnaðarstöðum eða launuðum störfum undir stjórn Bandaríkjanna mega vera kjörmenn.
[Kjörmenn skulu í ríki hverju halda fund og greiða skriflega atkvæði til kosningar tveggja manna, og skal annar þeirra að minnsta kosti ekki vera frá sama ríki og þeir sjálfir. Skulu þeir gera skrá yfir alla þá er atkvæði hlutu og yfir tölu atkvæða, sem hver hlýtur og skulu þeir undir skrár þessar nöfn sín rita og staðfesta, og senda þær innsiglaðar til aðseturs stjórnar Bandaríkjanna, með utanáskrift til forseta öldungadeildarinnar. Forseti öldungadeildarinnar skal í nærveru öldungadeildarinnar og fulltrúadeildarinnar opna allar skrárnar og skulu þá atkvæðin verða talin. Sá, sem flest atkvæði hlýtur, skal forseti verða, ef sú tala er meiri hluti allra kjörmanna. Ef fleiri en einn hafa hlotið slíkan meiri hluta, og atkvæðatala þeirra er jöfn, skal fulltrúadeildin þegar í stað kjósa skriflega einn þeirra forseta. En ef enginn hefur hlotið meiri hluta skal fulltrúadeildin á sama hátt kjósa forseta úr röðum þeirra fimm sem efstir eru á skránni. Þegar forseti er kosinn skulu atkvæði greidd eftir ríkjum, og fulltrúadeildarþingmenn hvers ríkis hafa eitt atkvæði; lágmarksfjöldi til þessa skal vera einn eða fleiri frá tveim þriðju ríkjanna og meiri hluti allra ríkjanna skal vera nauðsynlegur til þess að kosning fáist. Eftir að forseti hefur verið kosinn skal ávallt sá, sem flest atkvæði kjörmanna hefur hlotið, verða varaforseti. En ef tveir eða fleiri eru eftir, sem hafa jafna atkvæðatölu, skal öldungadeildin kjósa skriflega varaforseta úr röðum þeirra.]
Sambandsþingið getur ákveðið tímann til að kjósa kjörmenn þessa og daginn, er þeir skulu greiða atkvæði; skal dagurinn vera hinn sami um öll Bandaríkin.
Enginn, sem ekki er innfæddur borgari, ellegar borgari Bandaríkjanna þegar þessi stjórnarskrá er samþykkt, skal vera kjörgengur til forsetaembættis; ekki skal heldur neinn vera kjörgengur til þess embættis sem ekki er fullra þrjátíu og fimm ára og hafi verið fjórtán ár búsettur í Bandaríkjunum.
[Sé forseti settur frá embætti, andist, segi af sér eða verði ófær til að hafa völd og skyldur embættisins á hendi skal varaforsetinn gegna þeim, og getur sambandsþingið skipað fyrir með lögum, hvernig fara skuli við frávikning, andlát, afsögn eða ófærni bæði forseta og varaforseta, og geri þannig kunnugt hvaða embættismaður þá eigi að gegna forsetastörfum og skal sá embættismaður gegna þeim störfum meðan meðan forsetinn er vanhæfur eða þangað til forseti er kosinn.]
Forsetinn skal á tilteknum tímum fá þóknun fyrir störf sín, sem hvorki skal aukið verða né minnkað á því kjörtímabili sem hann hefur verið kosinn fyrir og á því tímabili skulu honum ekki veitt nokkur hlunnindi af hálfu Bandaríkjanna eða nokkurs ríkis.
Áður en hann tekur við embættisstörfum skal hann sverja eið þann eða gera þá staðfestingu, sem hér segir:
Ég sver þess dýran eið (eða lýsi hátíðlega yfir), að ég skal samviskusamlega gegna forsetaembætti Bandaríkjanna og skal af fremsta megni varðveita, vernda og verja stjórnarskrá Bandaríkjanna."
2. hluti. Forsetinn skal hafa á hendi æðstu herstjórn, bæði í landher og sjóliði Bandaríkjanna og yfir landvarnarliði einstakra ríkja, þegar það er boðið út í þjónustu Bandaríkjanna; hann getur óskað eftir skriflegu áliti æðsta yfirmanns í hverri stjórnardeild framkvæmdarvaldsins í hverju því máli sem undir embætti hvers þeirra heyrir og hann skal vald hafa til að veita refsingarfrest og náðun fyrir brot gegn Bandaríkjunum, nema í málum til embættismissis.
Hann skal vald hafa til að gera milliríkjasaminga með ráði og samþykki öldungadeildarinnar, að því tilskildu að tveir þriðju hlutar viðstaddra öldungadeildarþingmanna séu því fylgjandi; hann skal tilnefna og með ráði og samþykki öldungadeildarinnar skipa sendiherra, aðra opinbera erindreka og ræðismenn, dómara í hæstarétt og alla aðra embættismenn Bandaríkjanna, þegar hér er ekki á annan hátt sagt fyrir um skipun þeirra í embætti, og skal það ákveðið með lögum; en sambandsþingið getur með lögum veitt forseta einum, dómstólum eða yfirmönnum stjórnardeilda vald til að skipa í stöður þeim lægri embættismönnum, er því kann rétt að sýnast.
Forseti skal hafa vald til að skipa í öll embætti sem losna á meðan öldungadeildin hefur þinghlé, með því að veita erindisbréf, er gildi þangað til næsta þingi lýkur.
3. hluti. Hann skal með hæfilegu millibili veita sambandsþinginu upplýsingar um stöðu sambandsins og ráðleggja því að taka þær ráðstafanir til meðferðar er hann álítur nauðsynlegar og gagnlegar; þegar sérstakar ástæður eru til, getur hann kallað báðar þingdeildir saman eða aðra hvora þeirra, og komi þær sér ekki saman um hvenær hlé verður á þingstörfum getur hann frestað þingi til þess tíma er að áliti hans er hagkvæmur; hann skal taka á móti sendiherrum og öðrum opinberum erindrekum; hann skal sjá um að lögunum sé fylgt af trúmennsku og skal fá öllum embættismönnum Bandaríkjanna erindisbréf í hendur.
4. hluti. Forseta, varaforseta og öllum borgaralegum embættismönnum Bandaríkjanna skal vikið úr embætti þegar þeir eru kærðir til embættismissis eða dæmdir fyrir landráð, mútugjafir eða mútuþágu eða aðra meiriháttar glæpi og afbrot.
III. grein
1. hluti. Dómsvald Bandaríkjanna skal falið einum hæstarétti og þeim lægri dómstólum er Sambandsþingið kann að skipa fyrir um hverju sinni og stofna. Dómararnir við hæstarétt og við hina lægri dómstóla skulu halda embætti sínu meðan þeir gerast ekki brotlegir, og skulu þeir á ákveðnum tímum fá þóknun fyrir starf sitt sem ekki skal lækkuð vera meðan þeir gegna embættinu.
2. hluti. Dómsvaldið skal ná til allra mála, að lögum og sanngirni, er upp geta komið eftir stjórnarskrá þessari, lögum Bandaríkjanna, gerðum milliríkjasamningum eða þeim er gerðir verða með heimildum laga; til allra mála sem snerta sendiherra, aðra opinbera erindreka og ræðismenn; til allra mála sem falla undir siglingalög og sjórétt; deilumála þeirra er Bandaríkin eiga hlut að; til deilumála milli tveggja eða fleiri ríkja; [milli ríkis og borgara annars ríkis;] milli borgara mismunandi ríkja; milli borgara í sama ríki, er tilkall gera til landsvæða, er mismunandi ríki hafa veitt; [og milli ríkis eða borgara þess, og erlendra ríkja, borgara eða þegna.]
Í öllum málum er snerta sendiherra eða aðra opinbera erindreka og ræðismenn og í þeim málum, þar sem ríki er málsaðili, skal hæstiréttur vera fyrsta dómstig. Í öllum öðrum málum, sem áður eru nefnd, skal hæstiréttur vera áfrýjunardómstig, bæði að því er lög og staðreyndir máls snertir, með þeim undantekningum og samkvæmt þeim reglum er sambandsþingið setur.
Réttað skal í öllum sakamálum, nema málum um embættismissi, fyrir kviðdómi; mál skal rekið í því ríki, þar sem meint brot hefur verið framið; en þegar brot hefur ekki verið framið í nokkru ríki skal málið rekið á þeim stað eða stöðum er sambandsþingið hefur með lögum ákveðið.
3. hluti. Landráð gegn Bandaríkjunum skulu einungis í því fólgin að fara með hernaði á hendur þeim eða fylla flokk óvina þeirra og veita þeim hjálp og fulltingi. Engan skal dæma fyrir landráð nema fyrir vitnisburð tveggja manna um sömu athöfnina eða samkvæmt játningu í opnu þinghaldi.
Sambandsþingið skal hafa vald til að ákveða hegningu fyrir landráð; en enginn refsidómur fyrir landráð skal hafa áhrif á erfðir, né heldur skal eignamissir gilda lengur en hinum dæmda endist aldur.
IV. Grein
1. hluti. Fullkomið traust og tiltrú skal í hverju ríki borið til opinberra laga, skjala og dómsathafna allra annarra ríkja. Má sambandsþingið með almennri löggjöf skipa fyrir um, á hvern hátt slík lög, skjöl og dómsathafnir skuli staðfestar og áhrif þess.
2. hluti. Borgarar hvers ríkis eiga heimting á þeim réttindum og undanþágum sem borgarar annarra ríkja njóta.
Maður, sem kærður er fyrir landráð, brot gegn hegningarlögum eða annað refsivert athæfi í einhverju ríki og flýr undan réttvísinni og finnst í öðru ríki, skal framseldur verða, þegar framkvæmdarvald þess ríkis, er hann flúði úr, krefst þess, til flutnings til þess ríkis, er lögsögu hefur í málinu.
[Enginn maður, sem hafður er í haldi til þess að sitja af sér dóm eða inna af hendi nauðungarvinnu í einhverju ríki samkvæmt lögum þess og flýr í annað ríki, skal leystur undan slíkri afplánun eða nauðungarvinnu, með neinum lögum eða ákvæðum sem þar gilda, heldur skal hann framseldur verða, að kröfu þess er heimting á til þess að afplánun þessi eða nauðungarvinna verði leyst af hendi.]
3. hluti. Sambandsþingið má veita nýjum ríkjum inngöngu í ríkjasamband þetta; en ekkert nýtt ríki má mynda eða stofnsetja innan lögsögu nokkurs annars ríkis; né heldur skal nokkuð annað ríki myndað við sameining tveggja eða fleiri ríkja eða ríkishluta, án samþykkis löggjafarþinga ríkja þeirra er hlut eiga að máli og sambandsþingsins.
Sambandsþingið skal hafa vald til að ráðstafa og setja nauðsynleg lög og reglugerðir um landsvæði og aðrar eigur sem Bandaríkjunum heyra til; og ekkert í stjórnarskrá þessari skal skilið á þann veg að það skaði neinar kröfur Bandaríkjanna eða nokkurs einstaks ríkis.
4. hluti. Bandaríkin skulu tryggja hverju ríki í sambandi þessu lýðveldislega stjórnskipun og skulu vernda hvert einstakt þeirra gegn árásum; ennfremur gegn ofbeldi heima fyrir þegar löggjafarþingið fer þess á leit eða framkvæmdarvaldið (þegar ekki er unnt að kalla löggjafarþing saman).
V. grein
Sambandsþingið skal, hvenær sem tveir þriðju hlutar beggja deilda álíta það nauðsynlegt, leggja til viðauka við stjórnarskrá þessa, eða, ef um það er sótt af löggjafarþingum tveggja þriðju hluta ríkjanna, skal það kalla til stjórnlagaþings til að gera tillögur um viðauka, og skulu þeir í báðum tilvikum vera gildir að öllu leyti sem hluti þessarar stjórnarskrár, þegar löggjafarþing þriggja fjórðu hluta ríkjanna hafa samþykkt þá eða þeir hafa verið samþykktir á stjórnlagaþingum í þremur fjórðu hlutum þeirra, eftir því hvora aðferðina til samþykktar sambandsþingið hefur lagt til, með því skilyrði að enginn viðauki, er gerður sé fyrir árið eitt þúsund áttahundruð og átta, hafi nein áhrif á fyrstu og fjórðu málsgrein níunda hluta fyrstu greinar, og að ekkert ríki án þess að samþykkja það skuli svipt jöfnum atkvæðisrétti sínum í öldungadeildinni.VI. grein
Allar skuldir og skuldbindingar, sem til hafa orðið áður en stjórnarskrá þessi er sett, skulu vera jafngildar gagnvart Bandaríkjunum samkvæmt þessari stjórnarskrá og þær voru áður meðan ríkjabandalagið var við lýði.Stjórnarskrá þessi og þau lög Bandaríkjanna, sem sett eru í samræmi við hana, og allir milliríkjasamingar, sem gerðir eru í nafni Bandaríkjanna, skulu vera landsins æðstu lög; dómarar allra ríkja skulu af þeim bundnir án tillits til hvort nokkuð í stjórnarskrá eða lögum einhverra ríkja kemur í bága við þau.
Þingmenn öldungadeildar og fulltrúadeildar, sem nefndir hafa verið, og þingmenn löggjafarþinga einstakra ríkja, allir embættismenn framkvæmdarvalds og dómsvalds, bæði Bandaríkjanna og einstakra ríkja, skulu með eiði eða heiti skuldbundnir til að halda þessa stjórnarskrá; en engar trúarlegir svardagar skulu nokkurn tíma heimtaðir sem skilyrði fyrir nokkru embætti eða opinberri trúnaðarstöðu undir stjórn Bandaríkjanna.
VII. Grein
Fullgildingu stjórnlagaþinga í níu ríkjum nægir til að stjórnaskrá þessi taki gildi gagnvart ríkjunum, sem þannig fullgilda hana. Samþykkt á stjórnlagaþingi með samhljóða atkvæðum allra ríkjanna sautjánda dag septemebermánaðar á því Herrans ári eitt þúsund sjöhundruð áttatíu og sjö, og á tólfta ári frá því Bandaríki Ameríku öðluðust sjálfstæði. Þessu til staðfestu ritum við nöfn okkar hér undir. [undirskriftir]
Viðaukar
I. Sambandsþingið skal engin lög setja um stofnun trúfélags né til að koma í veg fyrir frjálsa iðkun trúarbragða; né heldur til skerðingar málfrelsi eða prentfrelsi; né réttindum fólks til friðsamlegra mannfunda eða að senda stjórninni bænaskrá um leiðrétting kvörtunarefna.
II.
Með því að landvarnarlið með góðu skipulagi er nauðsynlegt fyrir öryggi frjálsra ríkja skal réttur þjóðarinnar til að eiga og bera vopn óskertur látinn.
III.
Á friðartímum skal enginn hermaður vera settur til vistar á nokkru heimili án samþykkis eigandans, og ekki heldur á styrjaldartímum nema á þann hátt sem fyrirskipað verður með lögum.
IV.
Réttur þjóðarinnar til að njóta friðhelgi fyrir persónu sína, heimili, skjöl og muni gegn ástæðulausri leit og haldlagningu skal óskertur látinn; og dómsúrskurð um heimild til leitar má ekki fella nema fyrir sterkar líkur, studdar eiði eða yfirlýsingu, og skal þar staðnum, þar sem leitin skal fram fara, nákvæmlega lýst og mönnum þeim og hlutum er leggja skal hald á.
V.
Engan mann skal láta svara til saka fyrir brot sem varða lífláti eða aðra alvarlega glæpi nema samkvæmt erindi eða kærubréfi frá kærukviðdómi, að undanskildum þeim málum sem upp koma í land- eða sjóhernum, eða í landvarnarliðinu þegar það er að störfum á tímum hernaðar og almennrar hættu. Eigi skal heldur lífi og limum neins manns tvisvar í hættu stofnað fyrir sama brot, né heldur skal hann í sakamáli neyddur til að bera vitni gegn sjálfum sér; né sviptur vera lífi, frjálsræði eða eignum án réttrar meðferðar að lögum; ekki skulu eignir einkaaðila teknar til opinberra afnota nema gegn hæfilegum bótum.
VI.
Í refsimálum skal sakborningur njóta þess réttar að fá skjóta og opinbera málsmeðferð fyrir óhlutdrægum kviðdómi þess ríkis og umdæmis þar sem glæpurinn var framinn og skal þá umdæmið fyrst vera ákveðið með lögum; skal hann upplýstur um eðli og ástæður kærunnar; fram fyrir hann skal leiða vitni; skylda má vitni honum í hag til að mæta til réttarhalda og málflutningsmaður skal honum fenginn til aðstoðar við vörn hans.
VII.
Í einkamálum, þar sem deilt er um meiri hagsmuni en nemur tuttugu dala ígildi, skal rétturinn til að farið verði með mál fyrir kviðdómi látinn gilda og ekkert málsatriði, sem kviðdómur hefur tekið afstöðu til, verður endurskoðað fyrir nokkrum dómstól Bandaríkjanna á annan hátt en samkvæmt reglum einkaréttar.
VIII.
Ekki skal heimta óhæfilega háa tryggingu fyrir frelsi sakbornings, né leggja á óhæfilega þungar sektir, né heldur skal beitt ómannúðlegum eða óvenjulegum refsingum.
IX.
Upptalning sérstakra réttinda í stjórnarskránni skal ekki skilin svo að hún útiloki eða dragi úr öðrum réttindum þjóðarinnar.
X.
Völd þau, sem ekki eru falin Bandaríkjunum með stjórnarskránni né með henni forboðin ríkjunum eru hverju einstöku ríki áskilin eða þjóðinni allri.
XI.
Dómsvaldi Bandaríkjanna skal ekki skipað svo að það nái til nokkurs máls að lögum eða sanngirni sem höfðað er eða sótt er gegn einu ríki í Bandaríkjunum af borgurum annars ríkis eða af borgurum eða þegnum einhvers erlends ríkis.
XII.
Kjörmenn skulu í ríki hverju koma saman og greiða skriflega atkvæði til kosningar forseta og varaforseta, og skal annar þeirra að minnsta kosti ekki vera frá sama ríki og þeir sjálfir. Nefna skulu þeir á seðlum sínum þann, er þeir greiða atkvæði til forseta, og á öðrum seðlum þann, er þeir greiða atkvæði til varaforseta; skulu þeir gera sérstakar skrár yfir alla þá er atkvæði hlutu til forseta og yfir alla þá er atkvæði hlutu til varaforseta og yfir tölu atkvæða sem hver hlýtur og skulu þeir rita nöfn sín undir skrár þessar og staðfesta þær og senda innsiglaðar til aðseturs stjórnar Bandaríkjanna, með utanáskrift til forseta öldungadeildarinnar. Forseti öldungadeildarinnar skal í nærveru öldungadeildarinnar og fulltrúadeildarinnar opna allar skrárnar og skulu þá atkvæðin talin. Sá sem flest atkvæði hlýtur til forseta skal forseti verða ef sú tala nemur meiri hluta allra atkvæða kjörmanna. Ef enginn hefur hlotið slíkan meiri hluta skal fulltrúadeildin þegar í stað kjósa forseta skriflega úr röðum þeirra þriggja hið mesta er flest atkvæði hlotið hafa á skránni yfir þá er til forseta voru kosnir. Þegar forseti er kosinn skulu atkvæði greidd eftir ríkjum og fulltrúar hvers ríkis hafa eitt atkvæði; lágmarksfjöldi til þessa skal vera einn eða fleiri þingmenn frá tveim þriðju ríkjanna og meiri hluti allra ríkjanna skal vera nauðsynlegur til þess að kosning fáist. [Og kjósi fulltrúadeildin ekki forseta, þegar hún fær réttinn til þess, fyrir fjórða dag marsmánaðar næstkomanda, skal varaforseti gegna forsetastörfum eins og þegar forseti fellur frá eða verður af öðrum ástæðum ófær um að gegna embætti samkvæmt stjórnarskránni.] Sá sem flest atkvæði hefur hlotið til varaforseta skal varaforseti vera ef fjöldi atkvæðanna nemur meiri hluta allra kjörmanna; og hafi enginn meiri hluta hlotið skal öldungadeildin kjósa annan af þeim tveimur er flest atkvæði hafa á skránni fyrir varaforseta; lágmarksfjöldi til þess skal vera tveir þriðju öldungadeildarþingmanna og meiri hluti þingmanna skal vera nauðsynlegur til kosningar. Enginn er kjörgengur til varaforseta Bandaríkjanna nema hann sé kjörgengur til forsetaembættisins samkvæmt stjórnarskránni.
XIII.
1. Hvorki þrældómur né nauðungarvinna, nema sem hegning fyrir glæp, sem maður hefur verið réttilega sakfelldur fyrir skal eiga sér stað innan Bandaríkjanna eða á nokkrum stað sem þau hafi lögsögu yfir.
2. Sambandsþingið hefur vald til að framfylgja þessu ákvæði með viðeigandi löggjöf.
XIV.
1. Allir þeir, sem fæddir eru í Bandaríkjunum eða öðlast hafa þegnréttindi þar, eru ríkisborgarar Bandaríkjanna og þess ríkis, þar sem þeir hafa heimilisfang sitt. Ekkert ríki skal setja eða framfylgja neinum lögum er skerði réttindi og friðhelgi ríkisborgara Bandaríkjanna; ekki skal heldur neitt ríki svipta nokkurn mann lífi, frelsi né eignum án réttrar málsmeðferðar að lögum, né heldur neita nokkrum manni innan lögsögu sinnar um almenna lagavernd.
2. Fulltrúatölu skal deilt á milli ríkjanna eftir íbúatölu þeirra og skal þá fjöldi allra íbúa hvers ríkis talinn, að undanskildum indíánum er ekki greiða skatt. Ef kosningaréttur við kosningar, þar sem kjósa á kjörmenn til að velja forseta og varaforseta Bandaríkjanna, fulltrúa á sambandsþingið, embættismenn framkvæmdar- eða dómsvalds í ríki eða þingmenn á ríkisþing er tekinn af nokkrum karlmanni, sem á heimilisfang í einhverju ríki og er orðinn tuttugu og eins árs gamall, eða kosningarétturinn er á nokkurn hátt skertur, nema fyrir hlutdeild í uppreisn eða öðrum glæpum, skal fulltrúatalan skert eftir því hlutfalli, sem tala slíkra karla stendur í við fulla tölu karla sem eru orðnir tuttugu og eins árs gamlir í því ríki.
3. Enginn skal eiga sæti í öldungadeild eða fulltrúadeild sambandsþingsins eða verða kjörmaður til að kjósa forseta og varaforseta eða nokkru embætti gegna, borgaralegu eða hjá hernum undir stjórn Bandaríkjanna eða undir stjórn nokkurs annars ríkis, sem hefur tekið þátt í upphlaupi eða uppreisn gegn þeim eða veitt óvinum þeirra liðsinni eða líkn eftir að hafa áður unnið eið að stjórnarskrá Bandaríkjanna sem þingmaður sambandsþingsins, embættismaður Bandaríkjanna, þingmaður einhvers ríkisþings eða embættismaður framkvæmdar- eða dómsvalds í nokkru ríki. Sambandsþingið getur með tveimur þriðju hlutum atkvæða í hvorri þingdeild tekið aftur slíkan réttindamissi.
4. Gildi ríkisskuldar Bandaríkjanna, sem lagaheimild er fyrir, skal ekki dregið í efa, þar á meðal skulda sem til hafa orðið til að greiða eftirlaun eða verðlaun fyrir frækilega þjónustu við ríkið við að brjóta á bak aftur upphlaup eða uppreisn. En hvorki skulu Bandaríkin né nokkurt ríki stofna eða greiða nokkra skuld eða skuldbindingu sem myndast hefur til hjálpar upphlaupi eða uppreisn gegn Bandaríkjunum, né heldur nokkra kröfu fyrir missi nokkurs þræls eða frelsis hans; en allar slíkar skuldir, skuldbindingar og kröfur skulu taldar ólögmætar og ógildar.
5. Sambandsþingið hefur vald til að framfylgja þessu ákvæði með viðeigandi löggjöf.
XV.
1. Réttur ríkisborgara Bandaríkjanna til að kjósa verður hvorki afnuminn né skertur vegna kynþáttar, hörundslitar eða þrældóms á fyrri tímum af Bandaríkjunum eða nokkru ríki þess.
2. Sambandsþingið hefur vald til að framfylgja þessu ákvæði með viðeigandi löggjöf.
XVI.
Sambandsþinginu skal heimilt að leggja á og innheimta skatta á tekjur, hvaðan sem þær eru fengnar, án tillits til skiptingar þingsæta milli ríkja og án tillits til manntals eða áætlunar um fólksfjölda.
XVII.
Öldungadeild Bandaríkjaþings skal skipuð tveimur þingmönnum frá hverju ríki sem kjörnir eru í almennum kosningum í ríkinu til sex ára í senn. Hver öldungadeildarþingmaður hefur eitt atkvæði. Kjörmenn í hverju ríki skulu fullnægja þeim skilyrðum sem gerð eru til kjörmanna til fjölmennari deildar löggjafarþings ríkisins. -- EÐA: Kjósendur í hverju ríki skulu fullnægja þeim skilyrðum sem gerð eru til kjósenda fjölmennari deildar löggjafarþings ríkisins.
Þegar sæti einhvers ríkis í öldungadeildinni losnar skal handhafi framkvæmdarvalds þess ríkis gefa út fyrirmæli um kosningu í sætið, að því tilskildu að löggjafarþingi hvers ríkis sé heimilt að fá framkvæmdarvaldi þess vald til að skipa mann tímabundið í sætið þar til kosningar fara fram samkvæmt ákvörðun löggjafans.
Þennan viðauka skal ekki skilja þannig að hann hafi áhrif á kjör eða kjörtímabil nokkurs öldungadeildarþingmanns sem kjörinn er áður en viðaukinn öðlast gildi sem hluti af stjórnarskrá Bandaríkjanna.
[XVIII.
1. Að liðnu einu ári frá staðfestingu þessarar greinar er óheimil framleiðsla, sala og flutningur á áfengum drykkjum innan Bandaríkjanna sem og innflutningur áfengis til og útflutningur þess frá Bandaríkjunum og öllum svæðum innan lögsögu þeirra sé það ætlað til drykkjar.
2. Sambandsþingið og ríkin skulu hafa sameiginlegan rétt til að framfylgja viðauka þessum með viðeigandi löggjöf.
3. Grein þessi skal ekki öðlast gildi nema hún hafi verið staðfest sem viðauki við stjórnarskrá Bandaríkjanna af löggjafarþingi sérhvers ríkis, eins og kveðið er á um í stjórnarskránni, innan sjö ára frá þeim degi er máli þessu er vísað frá Sambandsþinginu til ríkjanna.]
XIX.
Réttur ríkisborgara Bandaríkjanna til að kjósa verður hvorki afnuminn né skertur af Bandaríkjunum eða nokkru ríki vegna kynferðis.
Sambandsþingið hefur vald til að framfylgja þessu ákvæði með viðeigandi löggjöf.
XX.
1. Kjörtímabili forseta og varaforseta lýkur á hádegi tuttugasta dag janúarmánaðar, og kjörtímabili þingmanna öldungadeildar og fulltrúadeildar lýkur á hádegi 3. dag janúarmánaðar á því ári sem kjörtímabili þeirra hefði lokið ef þessi grein hefði ekki fengið staðfestingu og skal kjörtímabil eftirmanna þeirra byrja þá.
2. Sambandsþingið skal koma saman að minnsta kosti einu sinni ár hvert og skulu fundir þess hefjast á hádegi 3. dag janúarmánaðar, nema annar dagur sé ákveðinn með lögum.
3. Ef kjörinn forseti fellur frá áður en kjörtímabil hans hefst skal kjörinn varaforseti taka við embætti forseta. Ef forseti er ekki kjörinn áður en kjörtímabil nýs forseta hefst eða kjörinn forseti fullnægir ekki skilyrðum til embættistöku skal kjörinn varaforseti gegna embætti hans þar til kjörinn hefur verið forseti sem fullnægir skilyrðunum. Sambandsþingið getur ákveðið með lögum hvernig brugðist verði við ef hvorki kjörinn forseti né kjörinn varaforseti er hæfur til að gegna forsetaembætti og ákveðið þannig hver gegni embætti forseta eða hvernig maður verði valinn til að gegna embættinu, en það skal sá gera þar til kjörinn hefur verið hæfur forseti eða varaforseti.
4. Sambandsþingið má ákveða með lögum hvernig brugðist verði við ef einhver sá fellur frá sem fulltrúadeildin getur kosið forseta þegar réttur til að kjósa hann kemur í hennar hlut, og ef einhver sá fellur frá sem öldungadeildin getur kosið varaforseta þegar réttur til að kjósa hann kemur í hennar hlut.
5. 1. og 2. liður öðlast gildi 15. dag októbermánaðar eftir að viðauki þessi hefur verið staðfestur.
6. Viðauki þessi öðlast ekki gildi nema hann hafi verið staðfestur sem viðauki við stjórnarskrána af þremur fjórðu löggjafarþinga sambandsríkjanna innan sjö ára frá þeim degi sem honum er vísað til þeirra.
XXI.
1. Átjándi viðauki stjórnarskrárinnar er hér með felldur úr gildi.
2. Flutningur áfengra drykkja eða innflutningur þeirra til einhverra ríkja Bandaríkjanna, sjálfstjórnarsvæðis eða yfirráðasvæðis þeirra, til afhendingar og notkunar er stríðir gegn lögum þar að lútandi, er hér með bannaður.
3. Viðauki þessi öðlast ekki gildi nema hann hafi verið staðfestur sem viðauki við stjórnarskrána af þingfundum sambandsríkjanna, eins kveðið er á um stjórnarskránni, innan sjö ára frá þeim degi er sambandsþingið leggur hann fyrir ríkin.
XXII.
1. Engan má kjósa til forseta oftar en tvisvar og enginn sem gegnt hefur forsetaembættinu eða verið handhafi forsetavalds lengur en tvö ár á kjörtímabili sem annar maður hefur verið kjörinn til skal kjörinn til forsetaembættis oftar en einu sinni. Þessi grein á ekki við um þann sem gegnir forsetembættinu þegar þessi grein er lögð fram í sambandsþinginu, og hún kemur ekki í veg fyrir að sá sem gegnir embætti forseta eða er handhafi forsetavalds á kjörtímabilinu þegar viðauki þessi tekur gildi, haldi embætti forseta eða verði handhafi forsetavalds út kjörtímabilið.
2. Viðauki þessi öðlast ekki gildi nema hann hafi verið staðfestur sem viðauki við stjórnarskrána af þrem fjórðu löggjafarþinga sambandsríkjanna innan sjö ára frá þeim degi sem sambandsþingið vísar honum til ríkjanna.
XXIII.
1. Landsvæði það, sem er aðsetur ríkisstjórnar Bandaríkjanna, skal tilnefna eftir því sem Sambandsþingið segir til um:
Kjörmenn til að kjósa forseta og varaforseta er séu jafn margir og þeir fulltrúar sem svæðið ætti rétt á í öldungadeildina og sambandsþingið ef það væri ríki, en þó aldrei fleiri en mannfæsta ríkið; kjörmennirnir skulu koma til viðbótar þeim kjörmönnum sem tilnefndir hafa verið af ríkjunum. Kjörmennirnir skulu, hvað varðar kjör til forseta og varforseta, hafa sömu stöðu og ef þeir hefðu verið tilnefndir af ríki; kjörmennirnir skulu koma saman á landsvæði þessu og inna af hendi þau skyldustörf sem kveðið er á um í tólfta viðauka við stjórnarskrána.
2. Sambandsþingið hefur vald til að framfylgja þessu ákvæði með viðeigandi löggjöf.
XXIV.
1. Réttur borgara Bandaríkjanna til að kjósa í forkosningum eða öðrum kosningum til forseta eða varaforseta, kjörmanna til forseta eða varaforseta, eða þingmanna öldungadeildar eða fulltrúadeildar, skal hvorki skertur né afnuminn af Bandaríkjunum eða einstökum ríkjum þeirra vegna vanskila á kosningaskatti eða öðrum sköttum.
2. Sambandsþingið hefur vald til að framfylgja þessu ákvæði með viðeigandi löggjöf.
XXV.
1. Ef forseti verður sviptur embætti, hann andast eða segir af sér, skal varaforseti taka við embætti forseta.
2. Ef embætti varaforseta losnar skal forsetinn tilnefna varaforseta sem tekur við embætti að fenginni staðfestingu meiri hluta þingmanna í báðum deildum sambandsþingsins.
3. Ef forsetinn tilkynnir bráðabirgðaforseta öldungadeildar og forseta fulltrúadeildar skriflega að hann sé ófær um að fara með völd sín og skyldur, þá skulu völd hans og skyldur færast á hendur varaforseta sem handhafa forsetavalds þangað til hann tilkynnir þeim skriflega um hið gagnstæða.
4. Ef varaforsetinn og meiri hluti annaðhvort ráðherra eða annarra þeirra sem sambandsþingið hefur ákveðið með lögum senda bráðabirgðaforseta öldungadeildar og forseta fulltrúadeildar skriflega yfirlýsingu þess efnis að forsetinn sé ófær um að fara með það vald og þær skyldur sem honum hafa verið falin, skal varaforsetinn umsvifalaust taka við völdum og skyldum embættisins sem starfandi forseti.
Síðan, þegar forsetinn sendir bráðabirgðaforseta öldungadeildar og forseta fulltrúadeildar skriflega yfirlýsingu þess efnis að engir annmarkar séu á hæfni hans skal hann aftur taka við völdum og skyldum embættis síns, nema því aðeins að varaforsetinn og meiri hluti annaðhvort ráðherra eða annarra þeirra sem sambandsþingið hefur ákveðið með lögum sendi bráðabirgðaforseta öldungadeildar og forseta fulltrúadeildar innan fjögurra daga skriflega yfirlýsingu sína þess efnis að forsetinn sé ófær um að fara með völd og skyldur embættis síns. Að svo búnu skal þingið taka ákvörðun um málið og skal það kallað saman innan tveggja sólarhringa af þessu tilefni ef þinghlé er. Ef þingið ákvarðar innan þriggja vikna frá móttöku síðari yfirlýsingarinnar, eða innan þriggja vikna eftir að þing er kallað saman, sé þinghlé, með tveimur þriðju hlutum atkvæða í báðum deildum að forsetinn sé ófær um að fara með völd og skyldur embættis síns skal varaforsetinn áfram gegna því embætti sem starfandi forseti; að öðrum kosti skal forsetinn taka aftur við valdi og skyldum embættis síns.
XXVI.
1. Réttur ríkisborgara Bandaríkjanna, séu þeir 18 ára eða eldri, til að kjósa verður hvorki afnuminn né skertur af Bandaríkjunum eða nokkru ríki þeirra, sökum aldurs.
2. Sambandsþingið hefur vald til að framfylgja þessu ákvæði með viðeigandi löggjöf.
XXVII.
Engin lög, sem kveða á um breytingar á þóknun fyrir störf þingmanna öldungadeildar og fulltrúadeildar skulu ganga í gildi fyrr en kosið hefur verið til fulltrúadeildar þingsins að nýju.
Fyrstu 10 viðaukar stjórnarskrárinnar (réttindaskráin) voru staðfestir frá og með 15. desember 1791.
11. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 7. febrúar 1795.
12. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 15. júní 1804.
13. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 6. desember 1865.
14. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 9. júlí 1868.
15. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 3. febrúar 1870
16. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 3. febrúar 1913.
17. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 8. apríl 1913.
18. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 16. janúar 1919.
19. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 18. ágúst 1920.
20. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 23. janúar 1933.
21. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 5. desember 1933.
22. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 27. febrúar 1951.
23. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 29. mars 1961.
24. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 23. janúar 1964.
25. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 10. febrúar 1967.
26. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 1. júlí 1971.
27. viðauki stjórnarskrárinnar var staðfestur þann 7. maí 1992.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.